Helgi í Stokkhólmi

Jæja jæja, ég eyddi helginni í Stokkhólmi með Emil vini mínum. Ég hef svo sem áður lýst aðdáun minni á Stokkhólmi. Það er eitthvað við þessa borg, sem hefur heillað mig uppúr skónum. Ég fíla Kaupmannahöfn, en það er eitthvað við Stokkhólm sem er svo miklu meira spennandi og skemmtilegt.

Helgin var blanda af skemmtun og skipulögðum fundum og slíku. Veðrið var frábært mestallan tímann og því frábær tími til að labba um borgina. Við vorum ekkert voðalega mikið að túristast um borgina, heldur eyddum við mestum tímanum á götunum í kringum Sergels Torg og Kunstradsgarden, löbbuðum um, borðuðum góðan mat og nutum veðursins.—

Djammið í Stokkhólmi var ljómandi skemmtilegt. Á föstudaginn fórum við saman útað borða á Hotellet, sem er verulega flottur veitinga- og skemmtistaður. Í raun alveg fáránlega flottur. Ólíver lítur út einsog Skipperinn í samanburði við Hotellet einsog ég sagði víst í einhverju fylleríis sms-i. Við borðuðum þar alveg fáránlega góða máltíð, ég drakk Bud Light og eftir matinn kíktum við niður á klúbbhluta staðarins. Af Hotellet héldum við áfram túr um trendí staði Stokkhólms (sem að vinalegur verslunarstjóri gaf okkur leiðbeiningar um) og héldum á East. Sá staður var ekki eins skemmtilegur og stelpurnar ekki jafn sætar á Hotellet.

Við ákváðum því að færa okkur yfir á SpyBar. Fyrir þrem árum var sá staður heitur og ég eyddi þar kvöldi í BlackJack, sem var nokkuð skemmtilegt. Eitthvað hefur SpyBar þó misst niður sjarmann. Fyrir það fyrsta lentum við í leiðinlegasta dyraverði allra tíma. Hann neitaði mér um inngöngu þar sem að ég “væri of fullur”. Ég hef aðeins einu sinni heyrt þessa afsökun og var það á næturklúbbi í New Orleans. Þá stóð ég fyllilega undir nafnbótinni, en það átti alls ekki við um föstudagskvöldið. Emil, sem var víst ekki “of fullur” tókst hins vegar af sinnum alkunna sjarma að fá dyravörðinn til að hleypa okkur inn, með þeim varnarorðum að ég ætti að taka því rólega inná staðnum.

Allavegana, SpyBar var hálf tómur og því lítið annað að gera en að spila BlackJack, sem við og gerðum. Emil tókst að tapa 200 sænskum á sirka 5 mínútum, en það tók mig um klukkutíma, þannig að ég skemmti mér vel. Tími þessa staðar er þó liðinn.

* * *

Á laugardagskvöldið fórum við svo útað borða á Braserie Godot, sem var fínn veitingastaður. Þaðan löbbuðum við niðrá Stureplan og vegna þess að Emil þurfti að pissa römbuðum við inná næsta næturklúbb. Sá reyndist vera StureCompagniert. Við vorum mættir þar nokkuð snemma, um 11 að mig minnir og flugum því inn (röðin var orðin óheyrilega löng þegar við fórum) án þess að rekast á dyraverði, sem eiga að sögn að vera verri en á SpyBar. Allavegana, þegar við vorum komnir inn var frekar lítið af fólki, svo við fengum okkur bara sæti og byrjuðum að styrkja eigendur klúbbsins með screwdriver og cuba libre kaupum.

Það er skemmst frá því að segja að kvenfólkið á StureCompagniet var æðislegt. Þvílíkt og annað eins! Þetta var blanda af skandinavískum ljóskum (sem ég er jú nokkuð veikur fyrir) og svarthærðum stelpum, sem virtust vera frá Mið-Austurlöndum! Semsagt, í mínum heimi nokkurn veginn hin fullkomna blanda af kvenfólki.

Restin af ferðinni er kannski ekki mikið efni í merkilega ferðasögu.

* * *

MySpace er fyndinn miðill. Ég fæ nokkuð oft bréf frá stelpum, sem ég þekki ekki og finnst ekkert nema virkilega gott um það að segja. Ég prófaði hins vegar um helgina að senda stelpu, sem ég þekki ekki neitt, bréf. Ekkert merkilegt, bara stutt bréf. Núna einhverjum dögum síðar hefur hún ekki svarað. Og fyrir vikið líður mér einsog einstaklega asnalega – finnst það allt í einu geðveikt skrýtið og kjánalegt að hafa sent einhverri ókunnugri stelpu bréf.

Þannig að það, sem mér finnst fullkomlega eðlilegt að aðrir geri, finnst mér vera alveg ferlega skrýtið að ég geri. Ég er skrýtinn.

* * *

Já, og mér líst vel á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég væri nú ekki mikill hægri krati ef ég væri ekki sáttur. Skrifa kannski meira um þetta þegar að málefnasamningurinn verður birtur.

4 thoughts on “Helgi í Stokkhólmi”

  1. Haha! Við vorum einmitt að rifja upp þetta kvöld í New Orleans um daginn. Gamla góða free bird kvöldið! 🙂
    b.kv., Sandra

  2. Þetta kvöld verður að teljast eitt besta djammkvöld allra tíma. Án nokkurs vafa. 🙂

  3. Pingback: eoe.is » Viernes

Comments are closed.