Páskafrí

Fyrir utan frábæra páska í fyrra hef ég eytt síðustu páskum á Íslandi að stóru leyti í vitleysu. Blanda af djammi, sjónvarpsglápi og almennri leti. En ég ætlaði að breyta til þessa páska og gerði þess vegna actually to-do lista fyrir páskafríið.

Skipulagshæfileikar mínir eru vissulega nær ótakmarkaðir. Svona lítur listinn út:

1. Taka til í íbúðinni minni. Þetta gerði ég í gær. Ég ákvað að breyta aðeins til og henti út helling af húsgögnum án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Þess vegna lítur íbúðin mín hálf tómlega út akkúrat núna – einhvers konar minimalismi í gangi.

Ég tók líka til í geymslunni niðri og henti dóti, sem ég átti fyrir löngu að vera búinn að henda. Henti loksins gömlum Playmo leikföngum og öðru drasli. Einnig gamla bakpokanum mínum, sem hefur ferðast um alla Suður-Ameríku og hálfa Mið-Ameríku með mér. Það er alltaf pínku skrýtið að henda slíkum hlutum, sem eiga sér sögu.

2. Fara actually í líkamsrækt yfir páskana. Þetta verð ég að gera til þess að halda heilsunni. Málið er nefnilega að ég fæ nánast undantekningalaust hausverk ef ég fer ekki í ræktina á hverjum degi. Þetta hef ég staðið við fyrstu tvo dagana í fríinu. Í gær fór ég út að hlaupa og í morgun fór ég í Laugar. Ég hélt að ég yrði einn af fáum í ræktinni í morgun, en það var öðru nær. Það var fulltaf fólki í ræktinni og þar á meðal annaðhvort fallegasti vinkvennahópur á landinu eða þá hópur keppenda í einhverri fegurðarsamkeppni.

Ég hef undanfarnar vikur æft á morgnana, sem er að nánast öllu leyti frábært. Það skapar einhverja rútínu í mitt líf, sem er oft erfitt þar sem ég vinn sem framkvæmdastjóri í eigin fyrirtæki og þarf því í raun ekki að mæta neitt á ákveðnum tíma. Þess vegna er gott að hafa ræktina til að byrja daginn. Það er líka ágætt að vera búinn í ræktinni í upphafi dags, þar sem að þá þarf ég ekki að hugsa um hana það sem eftir lifir dagsins.

Eini gallinn er sá að það er ekkert voða mikið af sætum stelpum þarna í byrjun dags og sæta dökkhærða stelpan á beyglu/skyr/kaffi/prótín/whatever barnum niðri virðist ekki vera mætt svona snemma. Eða kannski er hún bara hætt.

3. Klára uppboðsmál. Þótt ótrúlegt megi virðast þá hef ég ekki enn klárað öll mál tengdu [uppboðinu í desember](https://www.eoe.is/uppbod/). Það er aðallega vegna þess að sumt fólk, sem keypti hluti á uppboðinu, hefur ekki enn sótt hlutina eða borgað fyrir þá, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar til að fá fólk til að gera eitthvað í málunum. En ég ætla allavegana að taka til þá hluti, sem ég get hugsanlega selt, taka saman upphæðir og koma peningunum til réttra málefna.

4. Skrifa bréf! Ég er búinn að vera fáránlega latur við að skrifa vinum mínum í útlöndum að undanförnu. Ég hef verið að fá slatta af bréfum að undanförnu, meira að segja frá fólki, sem ég hef ekki heyrt frá mjög lengi – en ég hef ekki skrifað tilbaka í marga mánuði.

Því ætla ég að breyta í fríinu og skrifa allavegana 10-15 email til vina í útlöndum.

Þannig lítur þetta út – ég hef enn 3,5 daga til að klára þetta – ætti ekki að vera neitt mál. Jú, svo þarf ég líka að horfa á fullt af sjónvarpi. Já, og spila xBox. Það er algjörlega nauðsynlegt. Já, og borða Mackintosh – og narta í íslenskt páskaegg, sem ég borða meira af skyldurækni heldur en vegna þess að mér finnist þau sérstaklega góð.

Já, og svo sá ég Science of Sleep í bíó í gær. Mér fannst hún vera algjör snilld. En ég held að stelpurnar tvær, sem löbbuðu útúr bíóinu eftir hálftíma hafi ekki verið okkur sammála.

En jæja, matarboð eftir korter.

Gleðilega páska! 🙂

Páskar

Jösssss, syngjandi páskastelpan frá Ölgerðinni er farin að birtast í sjónvarpinu. Ég er því officcially kominn í páskaskap.

* * *

Í dag endurheimti ég uppáhaldsúlpuna mína. Á laugardagskvöldið setti ég hana á gólfið inní horn á Vegamótum, þar sem ég var ekki alveg til í að dansa í þykkri úlpu. Þegar kom að því að endurheimta úlpuna, þá var hún *farin*. Ég leitaði á örvæntingarfullan hátt í nokkrar mínútur en gafst að lokum upp og hljóp heim í Vesturbæinn á peysunni.

Reykingalyktin af úlpunni núna er ólýsanleg. Ég er sannfærður um að ef úlpan hefði verið sett inní lítið herbergi með 15 keðjureykjandi simpönsum í tvær vikur, þá væri reykingalyktin ekki jafn sterk og lyktin er af úlpunni núna.

* * *

Annars var þetta ótrúlega skemmtilegur dagur í vinnunni í dag. Veit ekki hvort að veðrið hefur svona áhrif á mig.

* * *

Er þetta Baugsmál búið núna? Plíííííííís segið mér að svo sé!

Grand Canyon, Guacamole og George Foreman

Í útvarpinu hljómar nú auglýsing frá Fljótt & Gott hjá BSÍ, sem eru nágrannar okkar á Serrano Hringbrauti. Auglýsingin inniheldur meðal annars þessa línu:

“Ekkert guacamole kjaftæði”

Ég segi bara “I’m flattered!”

*(Uppfært: Samkvæmt Svansson er þetta lína úr Mýrinni)*

* * *

Í kvöld eldaði ég SILUNG! Mamma myndi tárast af gleði.

* * *

Í tengdum fréttum: Í síðustu viku keypti ég mér George Foreman grill. Dan vinur minn átti engin lýsingarorð til að lýsa snilli þess tækis. Hann átti aðeins tvö eldhústæki, ískáp fullan af Bud Light og frosnum kjúklingabringum og svo George Foreman grill til að hita frosnar kjúklingabringur.

* * *

Fyrir þrem árum var [ég í Grand Canyon í Arizona](http://flickr.com/photos/einarorn/227609762/in/set-72157594249029507/), sem er meðal allra merkustu staða, sem ég hef komið á á ævinni. Þrem árum áður var ég ásamt fyrrverandi kærustu í Toronto þar sem við fórum upp í CN turninn, sem er hæsta frístandandi bygging í heimi. Í þeirri byggingu er [glergólf](http://en.wikipedia.org/wiki/Image:VIEW_FROM_CN_TOWER..JPG), sem ég hef afrekað að standa á. Það er ein svakalegast lífsreynsla ævi minnar því að 2 sekúndur á því gólfi ullu einhverri svakalegustu lofthræðslu, sem ég hef upplifað á ævinni. CN turninn er 553 metrar hár, en glergólfið er í 342 metra hæð.

Núna er búið að byggja göngubrú útá Grand Canyon (sjá [grein](http://www.constructionequipmentguide.com/story.asp?story=7998&headline=Grand%20Canyon%20Skywalk%20To%20Pooy%20Highest%20Structure)). Sú glerbygging er í **1219 metra hæð**. Semsagt 4 sinnum hærra en CN turninn (sjá samanburð við margar háar byggingar [hér](http://newsimg.bbc.co.uk/media/images/42708000/gif/_42708593_grand_canyon_4_416.gif)).

Fólk sem hættir sér útá þessa göngubrú er [hetjur](http://flickr.com/photos/babybluebbw/428815062/).

Dúdúrúmmmm

Jæja, þá getum við þakkað Vinstri Grænum fyrir það að [við munum ekki geta keypt áfengi í matvörubúðum](http://www.visir.is/article/20070318/FRETTIR01/70318075). Alveg get ég ekki skilið af hverju þetta er svona mikið mál.

* * *

Á föstudagksvöld inná Boston (sem er skemmtistaður á Laugavegi fyrir þá sem fara ekki oft á djammið) hitti ég strák sem ég kannaðist við og heilsaði. Þennan strák þekki ég einungis vegna þess að hann er á rosalega mörgum myndum á [blogginu hennar Katrínar](http://www.katrin.is). Það þykir mér fyndið.

Annars er Boston fínn staður – kemst sennilega einna næst því að líkjast heimapartýi og hægt er að komast. Einsog partý með bar í stofunni og dálítið meira af ókunnugu fólki en vanalega. Annars afrekaði ég það að fara á djammið án þess að kíkja inná Vegamót (Apótek – Kúltúra – Boston – Kúltúra). Það er visst afrek.

Fór líka á upptöku af X-Factor (ekki spyrja mig af hverju). Ég sé að ég hef ekki misst af miklu þar sem ég er ekki áskrifandi að Stöð 2. Þetta er allavegana ekki fyrir mig. Best að segja ekki meira en það.

* * *

Í dag horfði ég á [leiðinlegasta fótboltaleik ársins](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2007/03/18/15.24.07/).

Blogg?

Þegar ég renni yfir síðustu færslur á þessari síðu þá er ekki laust við að ég skammist mín fyrir leiðindin sem ég hef verið að skrifa hérna inn að undanförnu. Af ýmsum ástæðum hafa fáar áhugaverðar færslur verið settar hingað inn. Jú, ég hef verið í útlöndum, hef verið að deita (sem dregur alltaf úr fjölda athyglsiverðra pistla) og svo var ég erlendis í einhverja daga.

En það koma einfaldlega svona tímabil á þessari síðu þar sem ég hef ekkert spennandi fram að færa. Ef ég væri Moggabloggari, þá myndi ég leysa málið með því að skrifa einnar setningu færslur um svona 10 mismunandi fréttir, eða þræta yfir klámi. En vandamálið er bara að ég hef mjög lág þolmörk þegar kemur að svona þrætum. Það er sennilega ástæðan fyrir því að stjórnmálastarf hefur aldrei heillað mig neitt alltof mikið þrátt fyrir brennandi áhuga á stjórnmálum.

Ég verð fljótt þreyttur á þessum eilífu þrætum. Þegar ég les bloggsíður og þá sérstaklega á Moggablogginu þá virðist mér fólk hafa ódrepandi áhuga á að ræða sama málefnið aftur og aftur og aftur. Til að mynda þá gaus uppí mér einhver réttmæt reiði í tengslum við þessa klámráðstefnu hysteríu, en svo missti ég allan áhuga á málefninu. Á meðan ég missti áhugann virðist fólk endalaust geta þrætt um þetta fram og tilbaka.

Einhvern veginn finnst mér líka mitt einkalíf heldur ekki vera efni í margar færslur hérna á þessari síðu. Þegar ég var kannski eitthvað niðri og skorti sjálfstraust og sjálfsálit, þá fannst mér þessi síða vera góður vettvangur til að tjá mig um hlutina og fá í gegnum hana einhvern skrýtinn stuðning sem að hjálpaði mér.

En í dag líður mér bara helvíti vel. Ég er fullur af sjálfstrausti og mér finnst vera eitthvað point í því sem ég er að gera. Í stað þess að vinna vinnuna mína fyrir hvern dag, þá finnst mér ég núna eftir að ég hætti í gömlu vinnunni, ég vera actually að vinna **í áttina** að einhverju sem getur gefið mér einhverja gleði eða lífsfyllingu. Ég veit ekki hvort það verður raunin, en þannig líður mér samt.

Ég verð æ oftar minntur á það að ég er sennilega fyrst og fremst þekktur utan míns vinahóps fyrir að vera bloggari. Það finnst mér afskaplega furðulegt, en æ oftar rek ég mig á það hversu víðlesin þessi síða er. Nú er það svo að ég fylgist ekki með teljaranum á síðunni, þar sem það segir mér voðalega lítið hvort að heimsóknirnar á þessa síðu sé orðnar 6 eða 700 þúsund. En í mínu lífi rekst ég oftar á það að fólk gerir sér upp ákveðnar hugmyndir um mig út frá síðunni minni.

Ég lendi nánast í hvert einasta skipti sem ég fer útað djamma í því að einhver stelpa komi uppað mér og segist lesa bloggið mitt. Mér finnst það í raun æðislegt og ég verð dálítið upp með mér við að heyra það. En það fær mann líka til að velta því fyrir sér hvers konar ímynd fólk fær af mér við lesturinn. Þegar ég hitti fólk við slíkar astæður finnst mér líka oft óþægilegt hversu upplýsingunum er misskipt. Ég veit ekkert um viðkomandi, en hann/hún hefur aðgang að hundruðum mynda af mér, veit hvert ég hef ferðast og svo framvegis. Einnig er svo hætta á því að sögurnar sem ég segi verði lítið spennandi vegna þess að viðkomandi hafi lesið þær áður á blogginu mínu.

Allt þetta hefur gert það að verkum að þetta blogg hefur smám saman orðið litlausara, umræðan verður æ minna beitt og ég þori ekki að segja fulltaf hlutum. Ég þori oft ekki að setja stjórnmálaskoðanir mínar fram á eins beittan hátt og mig langar, einfaldlega vegna þess að ég gæti skaðað fyrirtækið mitt á einhvern hátt. Og ég vil oft ekki að tjá mig um mitt einkalíf af ýmsum ástæðum.

Ein ástæðan er sú að fólk fær oft ranga ímynd af mínu lífi við blogglesturinn. Einn vinur minn spurði mig fyrir stuttu af hverju ég hefði ekki átt í neinum sanböndum við stelpur að undanförnu? Ég tjáði honum að ég hefði verið að deita nokkrar stelpur, en auðvitað finndist mér fráleitt að blogga um það. Hann hafði dregið þá ályktun af því að lesa bloggið að ég væri alltaf á lausu.

Mér finnst oft sem þessi bloggsíða sé skaðleg fyrir sambandið við vini og kunningja. Þeir telja sig fá góðar upplýsingar um mig frá síðunni og ég skemmi oft margar sögurnar mínar með því að skrifa þær fyrst inn hérna og segja þeim þær svo í eigin persónu síðar. Það er hálf asnalegt. Ég lofaði mér einhvern tímann að segja aldrei við vini mína: “Hefurðu ekki lesið bloggið mitt?” þegar þeir forvitnuðust um eitthvað í mínu lífi.

En svona er þetta bara akkúrat núna. Real Madrid – Barca er að byrja eftir hálftíma og í Vesturbænum er brjálaður bylur og ég að hlusta á Sigur Rós, sem veldur því að ég verð eitthvað melódramatískur.

Og svo fannst mér ég þurfa að skrifa hingað inn einhverjar aðeins líflegri pælingar en tónlistarmyndbönd og vangaveltur um VG og ESB.

Annars er ég bara hress. 🙂

Salsa update

Jæja, ég kláraði salsa námskeiðið á föstudagskvöld. Er búinn að vera á því í sex vikur og þetta er búið að vera verulega skemmtilegt. Stelpan sem ég dansa með hafði aldrei prófað salsa, en ég hafði lært það mjööög óformlega í Venezuela. Samt var ég aldrei góður í salsa, þar sem í Venezuela dönsuðum við aðallega merengue. En þetta gekk bara nokkuð vel hjá okkur og í síðustu tveimur tímunum var þetta farið að smella verulega vel saman.

Í gærkvöld fórum við svo saman á salsa kvöld á Kaffi Kúltúra. Þar var Carlos, salsa kennarinn okkar, DJ og spilaði hann blöndu af salsa, merengue og einhverri annarri tónlist frá Suður-Ameríku. Þetta var verulega skemmtilegt, fyrir utan kannski þá staðreynd að aldurstakmarkið á staðnum er sennilega 15 ár og því var dansgólfið samblanda af fólki sem var að dansa salsa og fullum unglingum.

En það er allt öðruvísi að dansa salsa á skemmtistað en í danstíma. Maður gleymir því að hafa áhyggjur af sporunum og nýtur þess bara að dansa. Í gærkvöldi fékk ég smá nostalgíukast þar sem þarna var fullt af fólki frá Suður-Ameríku og tónlistin og dansinn minntu mig aðeins á Suður-Ameríku. Það vantaði bara að ég gæti gengið út í 30 stiga hita og fengið mér tacos al pastor eða Caracas hamborgar og þá hefði þetta verið næstum því alveg eins. 🙂

Verkir

Í vikunni byrjaði ég að lyfta aftur eftir að hafa einbeitt mér að hlaupum í ræktinni að undanförnu. Afleiðingar þess eru einhverjar fáránlegustu harðsperrur sem ég hef fengið.

Einnig hef ég farið tvisvar í fótbolta í vikunni og uppskorið tvær kúlur. Svona til að skjalfesta þetta, þá [bjó ég til þessa mynd](http://www.flickr.com/photos/einarorn/391373333/).

🙂

Ferð

Kristján Atli er [búinn að skrifa á Liverpool blogginu](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2007/02/14/21.23.32/) um ferðina sem ég er að fara í núna eftir tvær vikur. Ég er semsagt að fara með hinum Liverpool bloggurunum (mínus Aggi) til Liverpool þar sem ég mun sjá uppáhaldsliðið mitt keppa við hið andstyggilega lið Manchester United og svo þrem dögum seinna við hitt uppáhaldsliðið mitt, Barcelona.

Bara svo að það sé alveg á hreinu, þá mun ég halda með Liverpool í báðum leikjunum. Ég stefni svo á að fá mér einn, jafnvel tvo, þrjá eða fleiri bjóra á pöbbum og skemmtistöðum Liverpool borgar. Ég hef ekki farið til útlanda síðan ég kom heim frá Asíu, sem er náttúrulega alveg ferlegt. 🙂

Sófinn minn

Þessi helgi er búin að vera einstaklega skemmtileg. Ég er löngu hættur að halda þessu bloggi út sem einhvers konar dagbók, en ætla að breyta útaf vananum núna.

Málið er að þegar ég var á ferðalagi í Asíu þá skráði ég mig á síðunni [Couchsurfing](http://www.couchsurfing.com/) (prófíll [hér](http://www.couchsurfing.com/profile.html?id=1HBE9H0)). Sú síða gengur útá það að fólk alls staðar í heiminum býður fram sófa í íbúðum sínum til þess að ferðalangar geti sofið þar í nokkra daga. Ég var nokkuð spenntur fyrir hugmyndinni og ætlaði að nýta mér hana á ferðalagi mínu um Asíu, en af einhverjum ástæðum gugnaði ég alltaf á því að biðja um gistingu.

Prófíllinn minn var samt enn þarna inni og fyrir nokkrum vikum fékk ég bréf frá ástralskri stelpu sem spurði hvort hún mætti gista hjá mér eina helgi. Ég sá fram á að vera laus þessa helgi og því bauð ég henni gistinguna. Allavegana, þá var þessi helgi semsagt nýliðin helgi. Stelpan, sem er 24 ára Ástrali kom því á föstudaginn til mín. Við borðuðum saman á föstudagskvöld og hún var áhorfandi þegar ég var í salsa tíma það kvöld. Eftir tímann fórum við svo ásamt dansfélaga mínum á smá barhopp, milli Vegamóta, Barsins og Sólon.

Á laugardaginn hafði vinur vina hennar boðist til að fara með hana útúr bænum, þannig að ég var laus í það að horfa á fótbolta og fara í fjölskylduboð. Um kvöldið var ég svo með matarboð fyrir matarklúbbinn sem ég er í. Það telst alltaf til meiriháttar frétta þegar að gestir í þeim matarklúbbi eru 8 talsins, en aðeins einu sinni á starfstíma klúbbsins hef ég verið nógu lengi með stelpu til þess að bjóða henni með mér. Nú á laugardaginn fékk Brianna að koma með og því náði klúbburinn 8 meðlimum í annað skipti.

Ég eldaði arroz con pollo á perúska vísu, sem var uppáhaldsmaturinn minn í Venezuela (en þar bjó ég með perúskri fjölskyldu). Rétturinn heppnaðist ekki alveg nógu vel, sérstaklega vegna alvarlegs salt-skorts. En boðið var skemmtilegt. Eftir það ákvað ég að fara með stelpunni í partý, sem mér hafði verið boðið í, en þegar við vorum komin í partýið voru allir farnir í bæinn.

Þannig að við drifum okkur niður í bæ. Fyrst á Vegamót þar sem lítil stemning var, svo á Barinn, 11, Ólíver, Rex (jesús!) og enduðum svo aftur á Vegamótum, sem einfaldlega ber af skemmtistöðum í þessari borg. Þar dönsuðum við svo til klukkan 5 þegar að við röltum heim í góða veðrinu.

Í gær fór svo stelpan með góðri vinkonu minni á listasöfn í borginni og svo fórum við saman í Bláa Lónið. Enduðum svo með því að kíkja í bíó á Dreamgirls. Sú mynd er afleit. AFLEIT! Hefði einhver bara drullast til að segja mér að þetta væri dans- og söngvamynd, þá hefði ég getað eytt þessum 150 mínútum á skynsamari hátt.

En niðurstaðan af þessari fyrstu CouchSurfing reynslu minni er semsagt afskaplega góð. Mikið fer auðvitað eftir því hversu skemmtilegur ferðalangurinn er, og hversu mikinn tíma maður getur gefið sér í þetta. En þessi helgi var allavegana frábær og ég get vel hugsað mér að gera þetta aftur. Ef ég fer aftur á langt ferðalag einn, þá mun ég pottþétt nýta mér þennan möguleika þegar að kemur að gistingu. Þetta er frábær leið til að kynnast fólki á ókunnugum stöðum.

Í dag

Áðan var ég í Melabúðinni þegar ég sá fyrrverandi kærustu mína framan á Séð & Heyrt (nei, ekki Sirrí!) og ákvað að kaupa blaðið í fyrsta skipti í langan tíma. Þegar ég kom heim las ég blaðið. Sú athöfn tók fjórar og hálfa mínútu.

Ég hef reyndar sett fram þá kenningu að Séð & Heyrt stefni að því að hafa myndir af sem flestum í hverju blaði svo að fólkið á myndunum og ættingjar þeirra kaupi sér eintak. Þetta virkaði allavegana í þessu tilfelli.

Svo tók ég inn Ibufen og horfði á Children of Men, sem er að mínu mati ekki jafn æðisleg og margir hafa haldið fram.

Svo tók ég meira til og vann smá líka áður en ég ákvað að slökkva á email forritinu mínu þar sem ég vildi ekki fá meira vinnutengt inná mitt borð. Því næst tók ég til við að skoða nær allar myndasíður hjá flestum MySpace kontöktunum mínum. Það var fróðlegt.

Ég ætla ekki að vera veikur á morgun!

KOMA SVO, ónæmiskerfi – do your thing!