Skata

Ég fór í hádeginu á mitt fyrsta skötuhlaðborð. Pabbi var búinn að reyna að draga mig í hlaðborð í nokkur ár og ég ákvað loksins að skella mér með honum þetta árið. Hef alltaf haft lúmskan grun um að skötuát snúist meira um að sýna karlmennsku, heldur en að bragðið sé svo gott. Það er að það væri voðalega macho að segjast borða vel kæsta skötu. Ég vildi því sannreyna þá kenningu.

Ég fór á Tvo Fiska, þar sem hlaðborð var. Ég fékk mér milli-kæsta skötu og hellti einhverri fitu yfir. Settist svo og smakkaði smá bita.

Í raun er þetta *ólýsanlega* vondur matur. Ég hef borðað ýmsan óþverra í gegnum árin á ferðalögum mínum um heiminn og hef gengið svo langt að borða maura og tarantúlur. En það kemst hreinlega ekkert nálægt skötunni í vondu bragði. Ég kúgaðist við það eitt að setja matinn uppí mig, því skatan hefur ekki bara bein áhrif á bragðlaukana, heldur er einsog bragðið sprautist um allan munninn og maður fyllist af einhverju skrýtnu og viðbjóðslegu lofti í munninum.

Ímyndið ykkur versta fisk, sem þið hafið smakkað. Ímyndið ykkur svo að einhver helli terpentínu yfir fiskinn og kveiki í honum. Sá hinn sami mígur svo ofaná fiskinn til að slökkva eldinn. Og til að toppa það, þá er hellt myglaðri mjólk yfir. Þá held ég að við getum farið að nálgast bragðið á skötunni.

Mér finnst frábært að einhverjir einstaklingar hafi hugrekkið til þess að borða þennan mat. En ég hef hins vegar komist að því að þetta er ekki fyrir mig.

Laugardagksvöld fyrir jól

michigan-lights.jpg
Hvað gerir ungur piparsveinn á laugardagskvöldi?

Jú, í mínu tilfelli þá hef ég eytt síðustu 5 klukkutímunum inní eldhúsi á Serrano, skerandi kjúkling og búandi til sósur. Það var hressandi

Einhvern veginn varð þetta síðasta laugardagksvöld fyrir jól ekki alveg einsog ég hafði gert mér vonir um. Það var svo sem blanda af nokkrum atburðum. Dagurinn í dag var sá stærsti í sögu Serrano. Við höfum aldrei selt jafnmikið og bættum fyrra met, sem sett var 22.desember í fyrra, um rúmlega 10%.

Um klukkan 6 fékk ég skilaboð um að stelpan í eldshúsinu hefði skorið sig illa og þá vissi ég að ég myndi ekki gera merkilega hluti í kvöld og dreif mig því uppá veitingastað og kláraði vaktina hennar. Ég veit ekki hvað það er, en ég hef alltaf lúmskt gaman af því að vera uppá stað þegar svona brjálað er að gera. Ég fyllist einhverri orku við það allt saman.


Annars hef ég fengið fullt af fólki í heimsókn í dag til að sækja dót, sem það hafði boðið í á uppboðinu. Held að ég hafi fengið um 15 manns í heimsókn, sem er nokkuð góður árangur.

Í dag birtist svo viðtal við mig í Mogganum. Þá eru búin að birtast við mig viðtöl bæði í DV og í Mogganum útaf þessu uppboði, auk viðtalsins sem ég fór í á NFS síðasta miðvikudag. Það er nokkuð magnað.


Ég þarf að fara að koma mér inní eitthvað jólastressskap til að ég klári hlutina. Núna þarf ég að senda hluta af gjöfunum mínum til útlanda, þar sem að báðar systur mínar dvelja erlendis og því get ég ekki haldið uppi gamla siðnum mínum að versla allt á Þorláksmessu. Nei, núna þarf ég að hugsa viku fram í tímann, sem ég er nánast ófær um að gera þegar kemur að jóla undirbúning.

Þarf að fara að koma mér í hátíðarskap. Samt veit ég að það gerist í raun aldrei nema fyrr en á Aðfangadag uppí kirkjugarði. Þá fyrst finnst mér jólin vera komin. Ég held að ég hafi ekki almennilega fundið fyrir sérstakri jólastemningu fyrir jól síðustu ár. Síðasta skipti, sem ég man eftir mér í jólaskapi löngu fyrir jól, var þegar ég bjó í Chicago og fór á Michigan Avenue í jólagjafaleiðangur.

Kannski er þetta vegna þess að það hefur einhvern veginn æxlast þannig að ég hef alltaf verið á lausu yfir jólin þessu þrjú ár, sem ég hef núna búið á Íslandi. Einhvern veginn tengi ég jólasteminguna því að labba einhvers staðar úti með stelpu í leit að jólagjöfum.

Því get ég varla komist í jólaskap einsog jólagjafaleiðangrar mínir eru í dag. Því þeir felast í að hlaupa einn á milli búða, nánast búinn að ákveða allar gjafir fyrirfram. Innkaupin eru einsog skylda, í stað þess að vera skemmtun.

Þó hef ég komist að einu undanfarin ár, sem ég man ekki alveg hvenær breyttist hjá mér. Í dag finnst mér nefnilega miklu skemmtilegra að sjá viðbrögð annarra við mínum gjöfum, heldur en að opna mínar eigin gjafir. Þess vegna finnst mér það dálítið fúlt að ég skuli þurfa að senda gjafir til útlanda í stað þess að sjá viðbrögð frændsistkyna minna á aðfangadagskvöld.

Punktar á föstudagskvöldi

Þar sem ég þarf að vinna klukkan 8 á morgun, þá sit ég einn heima á föstudagskvöldi og geri ekki neitt.

Horfði á Bachelorinn og fokking sjitt hvað þetta var leiðinlegur þáttur. Þáttastjórnendur slógu í gegn með öðru product placement-i, síðast var það Nizza en núna drykkir frá Ölgerðinni – bæði Pepsi og Rosemount. Pródúserarnir þurfa aðeins að slaka á þessu og gera þetta aðeins minna áberandi. Því miður tókst þeim ekki að skrifa Pepsi inní söguþráðinn einsog þeir gerðu svo snilldarlega með Nizza síðast.


Síðasta föstudag var ég alltof drukkinn á Vegamótum. Þegar ég vaknaði daginn eftir mundi ég þrjá hluti: 1. Ég var á Vegamótum að tala við sæta stelpu. 2. Ég var í jakkafötum. 3. Ég var að tala um vinnuna mína! Ég fékk hroll þegar ég hugsaði um þetta, enda fátt plebbalegra en að vera á jakkafötum á skemmtistað, talandi um vinnuna sína. Eina leiðin til að toppa þetta hefði verið sú að ég hefði unnið í banka og hefði verið með nafnspjaldið mitt með mér. Stelpan sagði mér daginn eftir að henni hefði fundist þetta í lagi og að sennilega hafi það ekki verið ég, sem fann uppá umræðuefninu. Það var þó allavegana ágætt. En þetta geri ég aldrei aftur.


Ég elska *No Rain* með Blind Melon. Ég veit að það er fáránlega þunglyndislegt, en samt get ég hlustað á það nánast sama í hvernig ástandi ég er. Efast um að ég hafi hlustað á mörg lög jafnoft.

>I just want someone to say to me oh,oh, oh, oh
I’ll always be there when you wake


Mest spiluðu lögin í iTunes hjá mér í dag:

1. One of us must know (sooner or later) – Dylan
2. True Love Waits – Radiohead
3. Señorita – Justin Timberlake
4. I Want You – Dylan
5. Last Goodbye – Buckley
6. Empty Cans – Thee Streets
7. Reptilia – The Strokes
8. Cold Water – Damien Rice
9. Dry your eyes – The Streets
10. Hoppípolla – Sigur Rós.
11. The Golden Age – Beck
12. Sad eyed lady of the lowlands – Dylan
13. Stuck inside of Mobile with the Memphis blues – Dylan
14. Simple Twist of Fate – Dylan
15. Hurt – J.Cash

Af þessum lögum eru tvö lög, sem ég hlusta áður en ég fer á djammið og þegar ég held partý (Señorita, Reptilia). “One of us must know” og “I want you” eru sæmilega hress. Restin eru lög, sem ég hlusta á á kvöldin hérna heima. Allt frekar sorgleg lög. Veit ekki af hverju þetta æxlast svona.


Eggert Skúlason og Hildur Helga eru ekki skemmtilegir gestir til að tala um pólitík í sjónvarpi. Ég hreinlega get ekki orðað þetta á kurteisari hátt en svo.

Annars er ég algerlega búinn að tapa áhuganum á Íslandi í Dag eftir breytingarnar. Sem er alger synd, því ég horfði á þennan þátt (eða hlustaði á hann allavegana) á hverjum einasta degi fyrir breytingar.


Ég þoli ekki Staksteina Moggans.

Hlutir, sem ég hef lært yfir helgina

Hlutir, sem ég hef lært yfir helgina

1. Það á ekki að blanda saman rauðvíni, hvítvíni, vodka, líkjör og bjór
2. Það er ekki fræðilegur möguleiki á að halda uppi samræðum á Vegamótum. Hreinlega ekki sjens.
3. Hverfisbarinn er enn opinn.
4. Það að fara í fótbolta klukkan 11 daginn eftir djamm er ekki gaman.
5. Það að öskra yfir [fótbolta](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/11/26/manchester_city_0_liverpool_1/) þegar að John-Arne Riise skorar er ekki gott fyrir hausinn minn.
6. Að borða uppáhaldsmatinn minn, kalkún í thanksgiving boði hræðilega þunnur er ekki skemmtilegt.

Gullkindin

Á heimasíðu XFM geta menn núna kosið um Gullkindina, sem eru verðlaun útvarpsþáttarins Capone fyrir ýmsa hluti, sem hafa þótt óvenju lélegir á árinu. Þarna er m.a. hægt að velja uppákomu ársins (ég kaus Kristján Jóhannsson og rauðu brjóstin), versta sjónvarpsþáttinn (of margir möguleikar!), verstu plötuna og svo framvegis.

Þegar að X-ið dó þá bölvaði ég því mikið að Tvíhöfðamenn hefðu hætt með útvarpsþáttinn sinn. Fyrstu daga X-FM var Freysi af X-inu með sinn eigin morgunþátt og hann var ekki alveg að virka. Hann átti sína spretti þegar að Freysa þátturinn var að byrja á X-inu, en þetta virtist ekki vera að verka á X-FM.

Allavegana, eftir að ég kom heim úr fríinu hef ég uppgötvað að Capone, morgunþátturinn, sem Andri (Freysi) og Búi Bendtsen stjórna er allt í einu orðinn hreinasta snilld! Þeir þurftu greinilega smá tíma til að slípa þáttinn saman. En núna reddar þessi þáttur algjörlega keyrslunni minni í vinnuna á morgnana. Hann er í raun svo góður að ég held oft áfram að hlusta þegar ég kem inná skrifstofu. Án efa langbesta útvarpsefnið á morgnana, enda samkeppnin svosem ekki burðug.


Ég veit að ég er með sér síðu, þar sem ég skrifa um fótbolta. En hún fjallar um Liverpool og ég vil tjá mig um hitt uppáhaldsliðið mitt, Barcelona. Á laugardaginn fékk ég þrjá góða vini hingað heim og við horfðum á Barca taka Real Madrid í kennslustund. Ronaldinho hreinlega jarðaði dýrasta varnarmann Spánar og hina trúðana í þessu Madridar-liði. Zidane virkaði einsog sjötug amma við hliðiná Ronaldinho. Barca er í dag besta lið í heimi, svo einfalt er þetta.

Annars fórum við eftir leikinn á Hornið og svo á Vegamót. Ég held að ég verði að fara að horfast í augu (haha) við þá staðreynd að ég þarf að fara að nota gleraugu á djamminu. Ég fíla gleraugun ágætlega, en kann þó betur við mig án þeirra og fíla betur hvernig ég lít út án þeirra.

En ástandið er hreinlega orðið þannig að ég get ekki greint stelpur á skemmtistöðum borgarinnar, nema að þær séu innan við svona 3-4 metra radíus. Ég get allavegana sjaldan greint hvort þær séu myndarlegar eður ei, nema að ég sé kominn uppað þeim. Þetta er sambland af því að sjónin er að versna hjá mér og svo að ég sé svo miklu verr í myrkri en í birtu. Á daginn er þetta allt í fína, en þetta versnar á kvöldin.

Svo er ég líka svo gáfulegur með gleraugu.


Komst að því á laugardaginn að ég á vin, sem fílar líka The O.C., þannig að ég get hætt að vera með einhverja komplexa yfir því að elska þá þætti. Ekki að þeir komplexar hafi angrað mig mikið hingað til.


Já, og myndbandið við þessa frétt á BBC er snilld.

Djamm á Íslandi

Í gær fór ég á djamm í Reykjavík. Það hefði seint talist til tíðinda, nema að ég hef ekki djammað í Reykjavík í einhverja 80 daga. Vegna ferðalaga hef ég verið erlendis nær allar helgar síðan um miðjan ágúst.

Þannig að síðan ég djammaði síðast í Reykjavík, þá hef ég djammað í Mexíkóborg, San Salvador, Roatan – Hondúras, Livingston – Gvatemala, Cancun – Mexíkó, Köln, Liverpool og Amsterdam. Það er ágætis árangur að mínu mati.

En semsagt í gær, þá var starfsmannapartý hérna í Vesturbænum og eftir það fór ég niðrí bæ. Fór fyrst á Prikið og svo á Ólíver. Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst Ólíver hafa breyst slatta mikið. Einhvern veginn virðist standardinn hafa hrapað og auk þess var plötusnúðurinn í gær (Svala Björgvins og einhver gaur, að mig minnir) á sterkum lyfjum. Þegar ég var á dansgólfinu kom m.a. einhver hryllileg syrpa af íslenskum klysjulögum.

Einnig eru klósettmálin í algjöru rugli. Ég þarf að fá næði þegar ég pissa og því get ég ekki pissað í pissuskálar. En hins vegar þá virtust þeim, sem voru inni á klósettunum tveim, líða býsna vel. Ég þurfti því að bíða í um 10-15 mínútur eftir að komast að. Þegar að loksins annað klósettið opnaðist þá komu *tveir* gaurar út og voru alveg brjálaðir yfir því að fólk skyldi vera að banka á hurðina. Þeim fannst greinilega fullkomlega eðlilegt að vera þarna tveir inni í þennan tíma.

Ekki batnaði ástandið þegar að gaurinn, sem fór næstur inn var svo fullur að einhvern veginn tókst honum að rífa niður hurðina af klósettinu þegar hann hékk í henni. Þá ákvað ég að þetta væri komið gott og að ég gæti haldið í mér lengur. Þegar ég kom hins vegar upp aftur, þá var fólkið, sem ég var með, farið burt. Hafa sennilega haldið að ég hefði verið stunginn af, enda ekki eðlilegt að eyða 20 mínútum á karlaklósettinu.


En annars, þá á ég eftir þetta kvöld og reynslu undanfarinna helgia, erfitt með að skilja af hverju útlendingar sækja í íslenskt næturlíf. Fyrir það fyrsta, þá sá ég umtalsvert meira af sætum stelpum í Amsterdam, Liverpool og Mexíkóborg. Einnig er hvergi hægt að dansa á íslenskum skemmtistöðum. Ég batt vonir við Ólíver, en þar er núna alltof troðið af fólki á gólfinu. Það að vera á dansgólfinu á Ólíver í gær líktist því helst að vera í mosh pit á Limp Bizkit tónleikum.

En þrátt fyrir þetta skemmti ég mér ljómandi vel á djamminu. Síminn minn var orðinn batteríslaus þegar að ég týndi fólkinu, þannig að ég ákvað að fara bara niður á Pizza King, þar sem ég keypti mér pizzu og fór svo heim.


Notaði vekjaraklukku-og-excedrin-þynnkutrixið mitt og hef því verið alveg þynnkulaus í allan dag. Er búinn að taka til og núna er íbúðin mín ýkt fín. Horfði svo á Man U vinna Chelsea (sem er gott) og fór svo uppí Kringlu, þar sem ég vann í nokkrum hlutum.

Ljómandi góður dagur.

Síðustu dagar (uppfært)

Það er ótrúlega magnað að lesa og skoða myndir af því að það sé [verið að tæma New Orleans](http://edition.cnn.com/2005/WEATHER/08/28/hurricane.katrina/index.html) af mannfólki fyrir morgundaginn. Hræðilegt að þetta skuli þurfa að koma fyrir mest sjarmerandi borg Bandaríkjanna.

Ef að [fellibylurinn](http://www.ssd.noaa.gov/PS/TROP/DATA/RT/gmex-vis-loop.html) verður jafn slæmur og talið er mögulegt, þá gæti vatnið á Bourbon Street orðið allt **að 6 metra hátt** (sjá [hér](http://www.pbs.org/wgbh/nova/sciencenow/3204/02.html) – mæli með vídeóinu). Jafnvel er talið að ekki verði hægt að búa í stórum hluta borgarinnar í margar vikur. Stórir hlutar New Orleans verða eyðilagðir ef allt fer á versta veg.

Það er búið að skylda alla íbúa borgarinnar til að fara burt, en einhverjir verða eftir – sennilega þeir fátækustu, sem eiga erfiðara með að koma sér í burtu. Það hefur verið talið að ef að svona stór fellibylur myndi lenda beint á borginni, þá gætu allt að 50.000 manns dáið og 1 milljón misst heimilin sín.

Það er hægt [að fylgjast með þessu í beinni útsendingu á netinu hér](http://mfile.akamai.com/12912/live/reflector:38202.asx)


Þessi helgi er búin að vera miklu, miklu rólegri en ég átti von á. Fyrir það fyrsta ætlaði ég að fara í Sirkus partýið á fimmtudaginn uppá Árbæjarsafni, en var of latur til þess og fór þess í stað bara í sund með vinum mínum. Á föstudaginn ætlaði frænka mín að halda partý í íbúðinni minni, en við ákváðum á síðustu stundu að hætta við það, þar sem við töldum að það yrði of margt fólk fyrir íbúðina mína. Þannig að ég horfði bara á Liverpool leikinn.

Svo í gær var starfsmannapartý uppá vinnustað og ég var nánast edrú. Drakk nokkur glös af einhverju áfengi, en fann ekkert á mér og nennti eiginlega ekki að drekka meira. Kíkti í bæinn, en aðeins til að fá mér að borða. Í dag var svo fjölskyldumatarboð hjá mömmu, þar sem að frænka mín er að flytja til Danmerkur. Á morgun er svo annað matarboð, þannig að ég slepp alveg við eldamennsku fram að Mexíkóferðinni.

Er ekki ennþá byrjaður að pakka, sem er ekkert sérstaklega gáfulegt. Finnst einsog ég sé að gleyma einhverju rosalegu, en veit bara ekki hvað það er.


Síðustu dagar eru búnir að vera hálf geðveikir í vinnunni. Fyrir einhverjum tveim til þrem vikum, þá nennti ég varla að fara í frí, þar sem allt gekk svo rólega í vinnunni. Fannst ég ekkert þurfa á fríi að halda. En núna er ég alveg að springa. Einhvern veginn virtist það vera samhent átak að allt myndi gerast á sama tímanum, bæði í aðalvinnunni og á Serrano. En vona að mér takist að leysa úr öllu áður en ég fer út.

Þarf að komast burt í góðan tíma. Er að springa úr tilhlökkun.

28

Eitt ár [liðið](https://www.eoe.is/gamalt/2004/08/19/23.37.02) og merkilega lítið hefur breyst eða gerst.

>Baby this town rips the bones from your back
It’s a death trap, it’s a suicide rap
We gotta get out while we’re young
’cause tramps like us, baby we were born to run

– [BS](http://www.lyricsfreak.com/b/bruce-springsteen/25020.html)

Punktar

Búinn að kaupa eftirfarandi:

1 farseðill til Baltimore. Brottför 31.ágúst klukkan 16.40. Heimkoma 4. október.

Kostnaður: **0 krónur + flugvallarskattur** = 7.550 krónur. Ég eeeeeelska Vildarpunktana mína. Elska þá!

Þá er bara að vona að Genni verði á staðnum. Ætla að bíða með að panta mér flug áfram til Mexíkó þar til ég kemst að því.


Ég er svo búinn að eyða síðustu klukkutímunum sitjandi á gólfinu með Sigur Rós í græjunum, farandi í gegnum kistuna mína. Kistan geymir öll gömlu bréfin mín, gamla minjagripi frá ferðalögum og slíkt. Takmarkið var að finna heimilisföng í Mexíkó hjá fólki, sem ég þekkti þar. Fann flest þau, sem ég ætlaði að finna.

Auðvitað þurfti ég svo að lesa mig í gegnum helminginn af bréfunum og hinu dótinu, sem var þarna líka. Minningarnar flæddu yfir mig. Mikið er þetta gaman.

You know that feeling you get

  • Ég þegar ég kom heim af djamminu
    á föstdudaginn

Orð fá því varla lýst hversu hræðilega þunnur ég var í gær.

Ég var vakinn klukkan 9, og svo aftur klukkan 9.15 og 9.30 vegna vesens uppá Serrano. Ein stelpan var veik og gekk illa að finna einhvern í hennar stað. Ég sé vanalega um slík mál, en þar sem ég hélt að ég væri *að deyja*, þá reyndi ég að koma mér útúr því.

Loks klukkan 11 kom ég mér uppúr rúminu, borðaði morgunmat og eyddi svo tímanum í eitthvað tilganslaust drasl áður en ég kom mér niður á Ölver til að [horfa á Liverpool](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/08/20/16.03.25/). Hamborgararnir á Ölveri eru ekki þeir bestu í heimi, en ég hélt þó að mér myndi líða betur við að borða hann. Hins vegar varð mér eiginlega bara óglatt og ég var nálægt því að fara heim í hálfleik. Það að ég sleppi því að horfa á Liverpool leik væri merkilegur hlutur. En ég harkaði þetta af mér.

Til að bæta gráu ofan á svart kom það svo upp að ég þurfti að vinna síðasta klukkutímann uppá Serrano. Starfsfólk staðarins lét mig vita að ég liti hræðilega út, svo sennilega hef ég ekki verið neitt sérstaklega hress í afgreiðslunni. Þegar ég var búinn að vinna fór ég heim og nánast beint að sofa. Var enn illt í maganum og með fáránlegan hausverk, þrátt fyrir að hafa borðað *6 Excedrin töflur* yfir daginn. Vaknaði við flugeldasýninguna og svo aftur klukkan 8 í morgun. Var þá *ennþá* með hausverk. Ég hef aldrei upplifað annað eins. Oh the humanity!


Ástæðan fyrir þessu öllu var að ég var í óvissuferð með vinnunni á föstudaginn. Við fórum á einhvern bóndabæ þar sem við kepptum í fulltaf þrautum og borðuðum svo í hlöðunni. Allt mjög gaman og ég skemmti mér ljómandi vel.

Fórum svo nokkur niður í miðbæ eftir þetta. Nánar tiltekið á Cafe Ólíver. Það er erfitt að gleyma fortíðinni í Reykjavík, smæð borgarinnar er oft nærri því óbærileg. Ég tel mig ekkert hafa verið með neitt rooosalega mörgum stelpum, en samt voru *tvær* stelpur, sem ég hef verið með, á sama tíma staddar á sama dansgólfinu. Fyrirgefið, en mér finnst það magnað.

Ég veit aldrei almennilega hvað mér finnst um það að hitta fyrrverandi á djamminu. Hvort er betra að þær líti æðislega út eða hræðilega. Ég hitti fyrir einhverju síðan stelpu, sem ég reyndi við en án árangurs fyrir talsverðum tíma. Þegar ég sá hana hafði hún breyst fáránlega mikið og ég gat ekki ímyndað mér hvað ég sá við hana einu sinni. Einhvern veginn þá leið mér betur við það. Veit ekki af hverju. Varla var það hreinræktuð illkvittni, en mér leið þó einsog við værum loksins *jöfn*.

Svo eru það fyrrverandi kærustur, sem eru enn fáránlega sætar. Veit ekki hvort er betra, að manns fyrrverandi líti vel eða illa út. Ef þær líta vel út þá getur maður sagt við sig: Vá, djöfull var ég góður að ná í þessa stelpu. En þá kemur líka svekkelsi yfir því að hlutirnir hafi ekki gengið upp. Ef þær líta illa út, þá getur maður verið feginn því að þetta hafi endað, en líka hissa á því hvað maður var að gera. Hef líka oft velt því fyrir mér hvernig þær líta á mig. Þegar ég kom heim, þá leit ég alveg ólýsanlega hræðilega út. Ég var við það að taka mynd af mér til að geta rifjað það upp hvenær á ævinni ég leit verst út. Ég held semsagt að það hafi verið klukkan 5.30 á laugardagsmorgun.

Og jájá, auðvitað snýst ekki allt um útlit.

But I digress.

Allavegana, ég skemmti mér nokkuð vel. Endaði svo einsog oft áður á Purple Onion. Labbaði svo heim. Þegar ég kom heim um klukkan 5 var skrítni kallinn í blokkinn inní ruslageymslu að skoða eitthvað. Hvað hann var að gera inní ruslageymslu klukkan 5 á laugardagsmorgni, veit ég ekki. Var að spá í að stoppa og spyrja hann, en hætti við.


Í dag vaknaði ég svo klukkan 8, enn með hausverk en er búinn að fá mér tvær Excedrin í viðbót og núna held ég að hausverkurinn sé loksins að fara. Það er gott, því ég er hroðalega leiðinlegur þegar ég er með hausverk.

10 dagar í frí… and counting.