Líf síðustu daga

Það eru bara tvær vikur eftir af þessari önn, þannig að síðastu viku er búið að vera frekar mikið að gera. Ég er að vinna að BA ritgerðinni minni á fullu, og svo halda hagfræðikennararnir mínir mér við efnið með stanslausum verkefnum.

Allavegana, þá var síðasta helgi frekar viðburðalítil. Við Hildur fórum í partí á föstudeginum, sem var til styrktar Dance Marathon, sem er góðgerðarstarfsemi, sem Northwestern nemendur standa í einu sinni á ári. Þetta er reyndar þau góðgerðarsamtök, sem safna mestum pening af öllum samtökum tengdum háskólum í Bandaríkjunum. Allavegana, partíið var fínt, nóg af bjór, sem virtist aldrei ætla að klárast (og reyndar kláraðist ekki).

Ég var furðu daufur á laugardeginum, þannig að nánast gerðum við ekki neitt. Við fórum þó með vini mínum í bíó um kvöldið. Sáum In the Bedroom, sem mér fannst mjög góð. Nú vantar mér bara að sjá Gosford Park til að ég hafi séð allar myndirnar, sem eru tilnefndar til Óskarsverðlauna í ár.

Í vikunni gerðist nú ekki mikið. Jú, ég fór með Dan og Marie á körfuboltaleik, sáum Northwestern vinna Purdue. Þannig að draumurinn um “march madness” er ennþá lifandi í skólanum mínum. Þeir verða þó að vinna Illinois á morgun, þar sem ég verð á fremsta bekk, öskrandi einsog geðsjúklingur.

Engin hagfræði!! Ég sé að

Ég sé að síðustu sjö færslur fjölluðu allar á einn eða annan hátt um hagfræði. Kristján Ágúst snillingur kvartaði einmitt yfir því að á þessari síðu væri of mikið tal um hagfræði, þannig að ég ætla að hvíla mig aðeins á þeirri umræðu.

Allavegana, þá er ég lítið búinn að segja hvað við Hildur höfum verið að gera hérna undanfarna daga. Ætli ég fari ekki bara tvær vikur aftur í tímann. Þá um helgina fórum við á laugardagskvöldið í partí heim til Kate vinkonu okkar en hún átti afmæli. Ég var reyndar frekar rólegur, þar sem ég ætlaði að vakna snemma morguninn eftir og horfa á enska boltann (sem reyndar tókst ekki alveg). Ég var þó það rólegur að ég fór áður en að löggan kom. Þetta var nokkuð skrautlegt partí og tókst Hildi m.a. að fá fullt af fólki á dansgólfið. Ég lenti svo í samræðum við gaur frá Mexíkó, sem sagðist vera besti vinur trommuleikarans í Molotov.

Á sunnudeginum var svo náttúrulega Super Bowl og fór ég heim til Dan vinar míns. Þar var fullt af fólki, sem flest voru frá Boston svæðinu. Það var því geðveikt gaman að horfa á leikinn. Við náttúrulega borðuðum fullt af pizzu, snakki og drukkum nóg af bjór. Fagnaðarlætin í enda leiksins voru auðvitað gríðarleg og er Dan vinur minn ekki ennþá búinn að ná sér eftir leikinn.

Ok, um síðustu helgi var líka fjör. Við fórum í partí til Desi og Katherine, en þau bjuggu á dorminu, sem ég bjó í fyrsta árið mitt hér. Þetta var dálítið skrítið partí, þar sem ég var að hitta fullt af fólki, sem ég hafði ekki hitt eftir að ég flutti útaf dorminu. En allavegana var þetta mjög gaman, bjórtunna og læti. Endaði svo með því að löggan kom og bað fólk um að lækka tónlistina. Það vill reyndar svo skemmtilega að þessi tvö skipti, sem löggan hefur komið eru þau fyrstu, sem ég hef upplifað eftir að ég flutti hingað. Ég veit ekki hvort það sé eitthvað sérstakt átak í gangi þessa dagana…

Beautiful Mind, Super Bowl og Afghanistan

Gærkvöldið var fínt.

Ég og Hildur fórum ásamt Dan og Elizabeth vinum okkar út að borða á stað sem heitir Kabul House. Einsog nafnið gefur til kynna var þetta afganskur matur, en ekki hef ég séð marga veitingastaði með mat frá því merka landi. Þrátt fyrir að þjónustan hafi verið seinleg var maturinn athyglisverður. Reyndar mjög líkur þeim mat, sem við höfum borðað á veitingastöðum frá Mið-Austurlöndum.

Eftir mat fórum við svo í bíó og sáum Beautiful Mind. Ég ætla að skrifa aðeins meira um hana seinna, því mig langar að besservissa svolítið um hagfræðihlutann í þeirri mynd. Já, vel á minnst, við sáum Black Hawk Down um síðustu helgi, en sú mynd fjallar um misheppnaða árás bandaríkjahers þegar þeir blönduðu sér í borgarastríðið í Sómalíu. Allavegana sú mynd er frábær. Mjög blóðug en frábær.

Í kvöld erum við svo að fara í afmælispartí hér nálægt. Á morgun er það svo Super Bowl. Það skemmtilega við þennan Super Bowl er að mínir tveir bestu vinir eru frá Boston og verða þeir því ansi heitir á morgun, því New England eru að spila. Allavegana verður nóg af Budweiser og snakki og pizzum og öllu slíku tilheyrandi. Gaman gaman!!!

Mogginn og snjór

Í gær þegar ég kom heim úr skólanum var enginn snjór úti.

Í morgun þegar ég fór út og sótti blaðið mitt var 20 cm. lag af snjó á götunni. Ég hugsaði með mér:

1. Í nótt hefur snjóað
2. Mikill lúxus er það að á Íslandi kemur Mogginn inn um lúguna.

Síðustu dagar

Fyrsta helgin hérna í Chicago var bara fín. Á föstudag gerðum við Hildur lítið annað en að horfa á vídeó. Á laugardag fórum við í verslanaleiðangur. Við kíktum fyrst í Woodfield mallið, þar sem ég kíkti í Apple búðina og skoðaði nýja iMacinn, sem er alger snilld. Rosalega flott tölva. Við vorum svo að rölta á milli búða og borðuðum McDonald’s, en við höfðum ekki farið á þann stað í næstum því mánuð, sem hlýtur að vera met.

Við fórum svo í IKEA, sem er stærsta verslun, sem ég hef farið í. Eftir að við komum heim borðuðum við og horfðum á Chicago Bulls-Lakers, sem var snilldar leikur. Ég hef ekki skemmt mér jafnvel yfir körfubolta lengi. Shaq í slagsmálum og Bulls unnu svo í framlengingu.

Um 10 fórum við svo og sóttum Ryan og svo löbbuðum við heim til Dan og Chuck, vina okkar. Þar vorum við að drekka amerískan bjór (ahhh, bud light 🙂 eitthvað fram eftir kvöldi. Um miðnætti fórum við svo í partí, þar sem voru sirka 100 manns, með stelpu ælandi í eldhúsinu (ahhh, bandarísk háskólapartí) Við gáfumst uppá því partíi eftir smá tíma og fórum í annað partí 100 metrum frá. Þar var aðeins minna af fólki, svo við vorum þar eitthvað. Við enduðum svo kvöldið með nokkrum vinum hérna heima hjá okkur.

Við komum með sterkan brjóstsykur og Appolo lakkrís að heiman og gáfum vinum okkar að borða. Það vakti ekki mikla hrifningu. Einn vinur minn ætlaði að æla af brjóstykurnum. Eina, sem þau gátu borðað var Haribo gúmmí. Nammm!

Land hinna frjálsu…

Við Hildur erum komin aftur hingað út til lands hinna frjálsu, heimili hinna hugrökku, einsog segir í laginu.

Við komum hingað til Chicago á sunnudaginn. Áttum reyndar að koma á laugardag, en fluginu okkar frá Íslandi var frestað, þar sem veðrið í Keflavík var geðveikt. Við þurftum því að eyða fimm klukkutímum í leiðinlegustu flugstöð veraldar (þar sem eini maturinn, sem boðið er uppá eru Júmbó samlokur og kleinur).

Við flugum svo til Boston, þar sem við gistum á Hilton flugvallarhótelinu í boði Flugleiða.

Síðan að við komum erum við búin að vera að koma okkur fyrir hérna. Erum búin að fara í fyrstu tímana og kaupa alltof dýrar skólabækur. Mér líst bara nokkuð vel á önnina, sem er framundan.

Búið – Bless

Jæja, þá er ég búinn að taka til hérna inní vinnu. Ég held að ég hafi ekki náð að klára eitt einasta verkefni, því alltaf var eitthvað nýtt að koma upp. Því hef ég nóg að vinna í þegar ég kem út. Það verður því vonandi rólegt í skólanum fyrstu dagana.

Ég ætla að taka mér frí eftir hádegi og reyna að reddu hlutum áður en ég fer út, en við Hildur eigum flug til Boston á morgun, laugardag.

Þetta er búið að vera fínt “frí”. Ég er búinn að heimsækja fullt af fólki, djamma fullt, borða fullt og skemmta mér vel. Þó gerir maður aldrei allt, það sem maður ætlaði að gera. Hittir sumt fólk alltof sjaldan og aðra bara ekkert yfir höfuð. En svona er þetta.

Gleðilegt Ár

Takk fyrir það gamla og allt það.

Vonandi heldur maður áfram að nenna að skrifa á netið, því það er nokkuð spennandi ár framundan hjá mér. Vonandi útskrifast maður úr háskóla og fer svo á mikið ferðalag.

Heimsóknir

Á jóladag heimsóttu þrír síðuna mína. Það er nýtt met. Ég held að aldrei hafi jafn fáir komið á síðuna. Gott mál.

Annars var ég að djamma með vinum í gær. Drakk amerískan bjór í íbúð í stúdentagörðunum og endaði svo á Húsi Málarans, þar sem við drukkum tequila og kreistum sítrónu í augað. Hitti Tobba, sem bar einu sinni titilinn “næst besti ljósmyndari í Verzló”.

Konan í pulsuvagninum ætlaði að rukka Togga aukalega því hann bað um svo mikinn lauk á pylsuna. Það fannst mér ekki sanngjarnt.

Hitti svo Tomma Sölva, gamla hagfræðikennarann minn inná Húsi Málarans. Það var sniðugt. Enn sniðugara hefði verið ef ég hefði hitt Valdimar Hergeirs þar.

Það er gaman að djamma á Íslandi. Það er svo ótrúlega ólíkt öllu djammi í Bandaríkjunum þótt það sé vissulega mjög skemmtilegt líka.

Á föstudaginn fór ég í partí á Álftanesi. Leigubíll frá Álftanesinu inní Garðabæ kostaði þúsundkall. Það er dýrt

Komin heim

Við Hildur komum heim á föstudagsmorgun. Allir búnir að spyrja okkur hvernig það sé að vera komin heim. Mér finnst það bara fínt.

Síðasta prófið var allt í lagi. Við flugum svo til Boston, þar sem við biðum í fjóra tíma (á leiðinlegasta flugvelli í heimi) og síðan flugum við heim.

Helgin var bara fín. Ég var reyndar svo þreyttur á föstudeginum að ég nennti ekki að gera neitt eða hringja í neinn. Ég var náttúrulega ekkert búinn að sofa síðustu daga vegna próflesturs. Á laugardag fórum við Hildur svo í nýju Kringluna, sem var bara fín. Um kvöldið fór ég svo með vinunum á djammið. Eftir að hafa drukkið jólabjór heima hjá Borgþóri og Björk fórum við á ball með Sálinni. Já, á ball með Sálinni enda er ég (einsog allir vita) gríðarlega mikill Sálaraðdáandi. Þetta var víst jólaball hjá RU

Það er svo langt síðan ég skrifaði um eitthvað á Íslandi, þannig að ég veit ekki hversu mikið ég á að segja. Mér finnst það allt í lagi að vera að skrifa um vini mína í Bandaríkjunum, því það þekkja þá engir. En það er öðruvísi hér heima.