Sæll! Hvað er að frétta af þér?

Enn einu sinni sannast sú kenning mín að ég bloggi mun minna um sjálfan mig þegar að lífið er spennandi og skemmtilegt en þegar ég er í einhverri allsherjar sjálsvorkun.

Og það hefur jú verið svo að þetta haust byrjar alveg jafn vel og sumarið endaði. Þessir mánuðir eftir að ég kom heim frá Ísrael hafa verið svo skemmtilegir að það er engu lagi líkt. Ég ætla að reyna að koma einhverjum punktum frá mér, sem hafa verið að hlaðast upp.

* * *

Fyrir það fyrsta, þá skrifaði ég fyrir einhverjum vikum um það að ég væri fluttur af Hagamelnum. Glöggir lesendur hafa sennilega tekið eftir því að ég talaði ekkert um það hvert ég væri að fara. Ég flutti semsagt inn til tveggja vina minna, sem að búa á Njálsgötunni. Sú íbúð hefur í nokkuð ár flakkað á milli manna í þessum vinahóp. Þar sem að ég sé fram á að vera kannski með hálfan fótinn á Íslandi þá tók ég vel í það boð að flytja þangað inn, því það er erfitt að hafa engan stað til að geta stokkið inná á Íslandi.

Þannig að fyrir um þrem vikum flutti ég rúmlega þrítugur með allt mitt drasl úr íbúðinni, sem ég hafði búið í síðustu 5 ár, inní lítið herbergi í piparsveinaíbúð í miðbænum.

Það furðulega við þetta er að ég er bara þvílíkt sáttur við þessi skipti. Það var eitthvað verulega frelsandi við að kveðja gömul íbúðina og allar þær minningar sem að henni fylgja og flytja inná nýjan stað. Losna við allt draslið sem ég hafði enga þörf fyrir og fókusa bara á að eiga nokkra hluti, sem mér þykir virkilega vænt um. Byrja uppá nýtt.

Ég er reyndar sirka helminginn af tímanum heima hjá kærustunni minni, sem býr líka í hálfgerðri kommúnu með tveimur öðrum stelpum. Þetta er skemmtileg tilbreyting frá því að búa einn stóran hluta síðustu ára – og ég gæti vart verið sáttari.

Einnig er ég búinn að leigja íbúð í Stokkhólmi næsta hálfa árið.

* * *

Hef ögn slakað á djamminu frá því sem er í sumar, sem ég held að sé bæði tengt sambandinu og því að vinir mínir eru kannski ekki alveg jafn duglegir í djamminu og þeir voru í sumar. Það verður að teljast eðlilegt. Hef þó farið í skemmtileg partí, til dæmis í kveðjupartí til vinar míns sem er að flytja til Kaliforníu, reunion partís með Verzló árganginum mínum, ótrúlegs partís heima hjá kærustunni minni og svo var í algjörlega sögulegu partí hjá einum vini mínum síðasta laugardagskvöld, sem ég mun seint gleyma.

Fór líka í leikhús á Fló á Skinni, sem var frábært og svo hef ég séð tvær myndir í bíó – Tropic Thunder, sem er fín og Pineapple Express, sem er góð.

Hef svo borðað slatta úti. Fyrir utan þessa staði sem ég hef sótt oft, þá fór ég á tvo nýja staði. Prófaði að fara á Silfur í fyrsta skipti, sem er frábær staður. Prófaði líka Geysi (borðaði vínarsnitsel þar) og var verulega hrifinn.

Já, lífið er gott þessa dagana.

Breytingar

Um helgina kláraði ég að flytja úr íbúðinni minni í Vesturbæ Reykjavíkur. Með því má segja að ákveðnu skeiði í mínu lífi sé lokið.

Ég flutti inná Hagamelinn árið 2002. Ég hafði upphaflega valið þessa íbúð með fyrrverandi kærustu minni og ætluðum við að flytja þar inn eftir að við kláruðum háskólann í Bandaríkjunum vorið 2002. Þau plön flugu útum gluggann þegar að við hættum saman stuttu fyrir útskrift. Ég byrjaði fljótlega með annari stelpu útí Bandaríkjunum en það samband átti svosem ekki mikla möguleika þar sem ég var á leiðinni heim úr námi.

Í lok júlí 2002 flutti ég svo heim til Íslands. Íbúðin á Hagamel var þá í tímabundinni útleigu þannig að í ágúst mánuði það ár bjó ég heima hjá mömmu og pabba. Það var ekki góður tími. Ég var í ástarsorg og kominn aftur heim til mömmu og pabba, sem var ekki beint góð tilfinning þegar að ég var orðinn 25 ára gamall. Auk þess var óvissan í kringum Serrano mikil. Upphaflega planið var að komast inní Smáralind (þar sem núna er Burger King) en Smáralindarmenn drógu lappirnar lengi vel og á endanum var okkur hafnað og þeir ákváðu að bíða eftir komu Burger King. Allan þennan ágúst mánuð var ég því mest heima hjá mömmu og pabba, bíðandi eftir svari frá Smáralind sem var svo að lokum neikvætt.

Í byrjun september 2002 flutti ég svo loks inní íbúðina við Hagamel og stuttu seinna sömdum við við Kringluna um fyrsta Serrano staðinn.

* * *

Ég bjóst svosem aldrei við að vera svona lengi á Hagamel og það er á vissan hátt gott að komast þaðan. Í þessari íbúð hef ég upplifað ansi mörg sambönd við stelpur og það má segja að með tímanum hafi mér hætt að þykja vænt um íbúðina. Ég fór að tengja hana alltof mörgum minningum, sem voru ekki endilega góðar.

Stuttu eftir að við opnuðum Serrano tók ég svo að mér markaðsstjórastarf hjá Danól, sem ég var í í nærri því þrjú ár. Þegar að var farið að líða á ár númer 2 í því starfi var ég þó orðinn verulega óánægður með það hvert mitt líf stefndi. Ég vissi að ég sá mig ekki áfram í því starfi og ég var orðinn óánægður á Íslandi. Mér fannst vinirnir vera að fjarlægjast mig með hverju árinu. Allt í kringum mig var fólk að eignast börn og áhugamál vina minna fjarlægðust mín með hverju árinu. Ég treysti því æ meira á sambönd við stelpur og því fór það meira og meira í taugarnar á mér þegar ég var á lausu.

Það má þó segja að nokkur tímamót hafi orðið haustið 2006 í ferð minni til Suð-Austur Asíu. Þar var ég nýkominn útúr sambandi við stelpu og hafði ansi langan tíma til að hugsa minn gang og hvert ég væri að stefna í þessu lífi. Ég komst að því að ég var ekki sáttur við sjálfan mig og ákvað að reyna að breyta hlutunum.

* * *

Það fyrsta var að átta mig á því að vinir mínir myndu ekki breytast. Þeir höfðu einfaldlega þroskast í aðra átt og það var til lítils að pirra mig á því, heldur þyrfti ég einfaldlega að gera eitthvað til að reyna að kynnast nýju fólki. Það má segja að það hafi tekist því að ég eignaðist mjög fljótlega frábæra vinkonu og svo kynntist ég fulltaf nýju og skemmtilegu fólki, sem að ég umgengst í dag. Allt þetta ár hef ég verið svo miklu hamingjusamari með mitt líf að það er í raun ótrúlegt.

Það sem ég ákvað líka í þessari Suð-Austur Asíuferð var að ákvörðun mín um að hætta hjá Danól hefði verið rétt og að ég yrði sennilega aldrei sáttur við mína vinnu nema að við myndum reyna fyrir okkur með Serrano í útlöndum. Við Emil höfðum rætt um þá möguleika allt frá fyrsta degi, en það má segja að eftir þessa ferð hafi farið af stað alvöru vinna í þá átt. Mér var allavegana alltaf ljóst að ég yrði aldrei fullkomlega ánægður með að reka Serrano “bara” á Íslandi.

Í mars á þessu ári hætti ég svo sem framkvæmdastjóri Serrano og Síam á Íslandi og Emil tók við þeirri stöðu af mér. Ég hef síðan einbeitt mér að því að koma á fót Serrano í útlöndum.

Fljótlega eftir að pælingar okkar um útrás byrjuðu þá ákváðum við að Svíþjóð væri hentugur kostur. Bæði er Stokkhólmur borg, sem ég get hugsað mér að búa í, og einnig fannst okkur markaðsaðstæður þar á veitingamarkaði henta ágætlega fyrir Serrano. Við Emil komum hingað í lok maí í fyrra og þar má segja að mér hafi endanlega tekist að sannfæra hann um að útrás væri vel möguleg og að Svíþjóð væri frábær kostur.

Síðan þá höfum við verið í samskiptum við ráðgjafafyrirtæki sem hefur hjálpað okkur við að finna mögulegar staðsetningar fyrir Serrano í Stokkhólmi. Sú vinna gengur ágætlega en hún tekur líka tíma. Í dag og í gær höfum við svo verið á fundum með hinum ýmsu aðilum varðandi mögulegar staðsetningar í borginni. Það er ekkert klárt með það ennþá, en þetta lofar góðu.

* * *

Þannig að á næstu vikum eða mánuðum mun ég flytja til Svíþjóðar til að reyna að fylgja þessu verkefni eftir. Það er dálítið furðulegt því að mörgu leyti hef ég sjaldan verið jafn ánægður með mitt líf heima á Íslandi. Ég er búinn að kynnast frábærri stelpu og fulltaf öðru skemmtilegu fólki. Fyrirtækið gengur vel og það er ótrúlegt að bera það saman í dag við það fyrirtæki sem ég byrjaði hjá í fullu starfi fyrir rétt tæpum tveimur árum.

En Serrano mun semsagt á næstu mánuðum opna sinn fyrsta stað í Stokkhólmi. Það er ótrúlegt að hugsa til þess en í dag er þetta sennilega ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær.

*Skrifað í Stokkhólmi, Svíþjóð klukkan 16.30*

Ömurlegheit

Núna hefur magaverkur bæst í fjölbreytta flóru veikinda hjá mér. Núna er ég að jafna mig á hné-aðgerð, með hausverk, viðbjóðslega hálsbólgu og kvef. Þessu viðbótar er kærastan mín í útlöndum þannig að það er enginn hérna til að vorkenna mér – og svo er ég að fara í vinnuferð til útlanda á mánudaginn.

Sjálfsvorkunin hefur náð nýjum og óvæntum hæðum.

* * *

Til viðbótar því að ég er að undirbúa vinnuferðina, þá er ég líka að flytja úr íbúðinni minni. Ég seldi hana fyrir einhverjum vikum og þarf að afhenda hana í næstu viku. Þar sem ég er að fara til Stokkhólms á mánudagsmorgun þá þarf ég að klára að flytja allt draslið mitt útúr íbúðinni á sunnudaginn. Þar sem hnéð er enn í rugli þá á ég voðalega erfitt með að flytja hluti niður fjórar hæðir þannig að ég þarf sennilega að væla einhverja greiða útúr vinum mínum.

Væl væl væææææl!

* * *

Í viðbót við allt þetta þá fer það viðbjóðslega í taugarnar á mér að sumarið á Íslandi sé búið í kringum miðjan ágúst mánuð.

Ok, núna þarf ég ekki að tuða meira næstu vikurnar.

Síðasta vika

Klukkan er hálf ellefu á föstudagskvöldi og ég sit á sófanum heima með vinstri löpp uppí loft, horfandi á Real World Hollywood.  Ég var í aðgerð á hné í gær sem tókst ágætlega.  Fyrstu helgina í júlí í sögulegri útilegu í Úthlíð lenti ég í smá gamni slagsmálum við vin minn, sem enduðu nokkuð illa.  Síðan þá hef ég verið að drepast í hnénu og var því ákveðið að ég færi í aðgerð.

Hún þýðir að ég þarf að taka því rólega næstu daga og fæ ekki að fara í líkamsrækt í heilan mánuð, sem er hreinlega fáránlegt.

* * *

Horfði á íslenska landsliðið komast í úrslit á Ólympíuleikunum og var með tárin í augunum þegar að leikurinn kláraðist, að springa úr þjóðernisstolti.  Mikið afskaplega var þetta gaman.

(uppfært: Aggi tók saman nokkrar erlendar blaðagreinar um íslenska liðið á Liverpool blogginu.  Ég mæli með þeim.)

* * *

Um síðustu helgi fór ég ásamt kærustunni minni til Boston í helgarferð.  Ryan, sem var herbergisfélagi minn í Northwestern, var að giftast Kate – sem ég þekkti líka frá Northwestern árunum.  Við fórum út á miðvikudeginum og eyddum fimmtudegi, föstudegi, sunnudegi og mánudegi í Boston.  Löbbuðum Freedom Trail, versluðum á Newbury, fórum með Dan vini mínum og Carrie kærustu hans á Fenway þar sem við sáum Red Sox rústa Texas Rangers, borðuðum fáránlega góðan mat, drukkum slatta af Bud Light og góðu víni og skemmtum okkur einfaldlega ótrúlega vel.  Klárlega skemmtilegasta borgarferð, sem ég hef farið í.

Á laugardaginn keyrðum við svo upp til Harvard, sem er lítill bær vestur af Boston.  Þar fór brúðkaupið fram undir berum himni uppí sveit.  Athöfnin var ótrúlega skemmtileg og brúðkaupsveislan var einnig frábær.  Ótrúlega persónuleg veisla, sem var laus við allt snobb og var uppfull af skemmtilegum atriðum, frábærum ræðum, góðri tónlist og fleiru.  Saman gerði þetta helgina algjörlega ógleymanlega.

* * *

Þegar ég kom heim gat ég svo flutt inná nýja Serrano skrifstofu í Kópavogi.  Núna er ég í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins kominn með mitt eigið skrifborð á okkar eigin skrifstofu.  Hingað til hafði ég unnið mína vinnu heima hjá mér, í lítilli kompu uppí Kringlu eða á kaffihúsum bæjarins.  Við vorum reyndar með aðra skrifstofu síðustu mánuði en þar var ég á einhverju asnalegu móttökuborði þar sem ég gerði lítið en að vísa fólki inná aðrar skrifstofur.

Jæja, ég ætla að snúa mér aftur að sjónvarpsglápi.

Út

Ég er í alveg ótrúlega góðu skapi í dag.  Er að bíða eftir vini mínum, sem ætlaði að hitta mig í hádegismat, og svo þarf ég að fara heim til að klára að pakka því ég er að fara út til Boston á eftir.

Herbergisfélagi minn úr háskóla, Ryan, er að fara að giftast góðri vinkonu minni, Kate.  Við þrjú bjuggum saman fyrsta árið okkar í háskóla og ég hef alltaf þóst eiga einhvern smá hlut í þeirra sambandi.  Þau búa núna í Boston (eftir að hafa búið síðustu ár í New York) og ætla að gifta sig á laugardaginn í smábæ rétt fyrir utan borgina.

Ég ætla því að njóta lífsins í Boston næstu daga og ætla m.a. að hitta Dan vin minn og fara með honum á Fenway á fimmtudag til að sjá Boston Red Sox spila – erum komin með ágætis miða á þann leik.  Í tengslum við brúðkaupið er svo þriggja daga dagskrá, allt frá kvöldmat á föstudaginn fram að morgunmat á sunnudag.

Ég get ekki beðið.

Þjóðhátíð og Clapton

Jæja, er ekki kominn tími á skrif á þessari síðu? Ég er allt í einu í þeirri stöðu að ég hef ekkert að gera næstu klukkutímana þangað til að Gay Pride gangan byrjar og þar sem ég nenni ekki út, þá er ekki úr vegi að endurlífga þessa síðu aðeins.

* * *

Ég fór semsagt á Þjóðhátíð í Eyjum um síðustu helgi. Hún var eiginlega alveg fáránlega skemmtileg. Ég fór með fjórum strákum með flugi frá Reykjavík á föstudagskvöldinu og við gistum í húsagarði rétt hjá Herjólfsdalnum. Ég var fljótur að þakka Guði fyrir það því síðast þegar ég var á Þjóðhátíð var ég í tjaldi í dalnum og ég fæ hausverk af því að minnast þess þegar ég vaknaði við fjölskylduskemmtunina á laugardags og sunnudagsmorgninum.

Á föstudagskvöldinu fórum við nokkuð fljótt í Dalinn og horfðum þar á Ragga Bjarna, Doktor Spokk, frumflutning á Þjóðhátíðarlaginu og eitthvað fleira fyrir brennu. Ég dansaði svo með vinum fyrir framan stóra sviðið með Í Svörtum Fötum og litla sviðið með einhverri annarri sveit. Um 5 leytið ákváðu svo allir að stinga mig af, þannig að ég sat eftir með einni vinkonu minni í Brekkunni og ákváðum við fljótlega að segja þetta gott.

Eftir frábæra sundferð á laugardeginum fórum við svo eitthvað út fyrir bæinn þar sem að Ölgerðin var með partí þar sem að meðal annars var keppt í nokkrum hressum íþróttagrein. Ég og vinir mínir mynduðum Team Serrano, þar sem ég var eini fulltrúi Serrano á svæðinu. Við unnum þá keppni með glæsibrag þrátt fyrir að menn hefðu verið orðnir allnokkuð ölvaðir. Það var eiginlega svo að um sex leytið (kl 18 það er) á laugardeginum vorum við flestir orðnir fáránlega fullir. Svo fullir að einn okkar drapst áður en hann komst í Dalinn. Mér tókst að komast í Dalinn og ég horfði á Nýdönsk spila en fann svo á mér að ég væri búinn að drekka aðeins of mörg Tópas skot og var því kominn inní tjald um eitt leytið, sem varð til þess að ég fékk allmörg skot á sunnudeginum.

Á sunnudeginum fórum við í stórskemmtilega sundlaugarferð þar sem að gestir skiptust á að vera með uppistand. Fórum svo í ógeðslega þynnkupizzu og vorum svo mætt í dalinn um 9 leytið. Horfðum á Á móti Sól og einhverjar sveitir og svo auðvitað Brekkusönginn. Sú stund var talsvert ánægjulegri en á síðustu Þjóðhátíð og ég gat á núna hreinlega ekki ímyndað mér stað og stund og félagsskap sem væri betri.

Við dönsuðum svo við tónlist Páls Óskars og þegar það byrjaði að rigna löbbuðum við á milli Hvítra Tjalda þar sem að einn vinur okkar drapst, lífguðum hann svo við, löbbuðum meira um, dönsuðum og skemmtum okkur fram á morgun. Á mánudeginum áttum við flug klukkan 10.10 og vorum því vöknuð rétt fyrir þann tíma. Heyrðum þá að öllum flugum væri frestað og eyddum því fyrstu klukkutímum dagsins liggjandi inní tjaldi, kallandi brandara á milli tjalda þangað til að við fengum upplýsingar um að byrjað væri að fljúga. Þurftum þó að bíða einhverja 3 tíma útá flugvelli þangað til að við fengum flug heim til Reykjavíkur.

Þetta var stórkostleg helgi!

En auðvitað er ferðasagan mun skemmtilegri þegar maður segir hana í eigin persónu með öllum þeim sögum og þeim einkahúmor sem passar ekki alveg inná þessa síðu. 🙂

Ég setti inn nokkrar myndir á Flickr myndasíðuna mína, en flestar eru þær læstar nema þeim sem eru skráðir vinir mínir þar, en þarna eru nokkrar góðar myndir. Myndirnar eru líka á Feisbúk hjá mér.

* * *

Í gær fór ég svo útað borða á Tapas barinn og svo á Eric Clapton tónleikana þar sem að mér var boðið. Þessir tónleikar voru ágætir. Hitinn í Egilshöll er auðvitað óbærilegur og hljómurinn ekki sá allra besti, en það eru svo sem ekki stærstu atriðin. Aðallega er ég enginn sérstakur Eric Clapton aðdáandi og því erfitt fyrir mig að skrifa um þá. Ég fíla einfaldlega ekki svona blús-rokk með endalausum gítar- og píanósólóum. En það var samt fínt að vera þarna í tvo tíma og Cocaine gerði þetta þess virði (þótt ég skilji ekki af hverju hann spilaði ekki Layla!). Mikið hefði þó verið skemmtilegra að fá Bruce Springsteen víst það er í tísku að flytja inn sextuga rokkara. Þá hefði ég sko mætt, stillt mér upp við sviðið og öskrað með öllum lögum.

* * *

Jæja, ég ætla að drífa mig niður í bæ í lunch og að horfa á gönguna. Í kvöld ætla ég svo að mæta í afmæli til stærsta aðdáanda Yossi Benayoun á Íslandi og á morgun er ég svo með matarboð fyrir Sigga majónes. Já, þetta stefnir í enn eina frábæra helgi þetta sumarið.  Lífið er yndislegt.

Spurning

Þegar að menn eru að gera kynningu fyrir fyrirtæki, sem á eftir eitt ár að vera virði 642.000.000.000 króna (642 milljarða), geta menn ekki lagt svona 30 þúsund kall í að láta búa til almennilega kynningu fyrir sig?

Á einni síðunni nota menn bæði kassa og hringi sem bullet point, letrið er ljótt, kynningin nær út fyrir svæðið sem henni er ætlað og svo eru í henni enskar málfarsvillur.

Þeir hefðu átt að nota Keynote.

(via)

* * *

Jæja, ég er víst að fara á Þjóðhátíð í dag. Á flug um hálf átta í kvöld til Eyja. Þar verður væntanlega fjör. Ég sé að mbl.is er farið að spá rigningu á sunnudag og mánudag í Eyjum. Vonandi verður það ekki alveg jafnslæmt og síðast þegar ég var í Eyjum.

Ég er orðinn verulega spenntur.

Hæ,

Ég hef afskaplega lítið að segja. Það eina sem ég hef skrifað undanfarið utan vinnu eru einhver skilaboð á Facebook til vina minna og svo nokkuð löng grein um vinstri menn og Ísrael, sem mun birtast í næsta eintaki af Herðubreið.

Hvað þetta blogg varðar, þá get ég lítið gert nema að biðjast velvirðingar á því hversu slappt það er þessa dagana. Einsog svo oft áður, þá verða gæði (og umfang) þessa bloggs þeim mun minni því betur sem mér líður.

Í dag er ég ótrúlega hamingjusamur. Ég hef mikið að gera, veðrið er æðislegt og lífið er skemmtilegt. Og því fækkar bloggfærslunum.

* * *

Um síðustu helgi átti ég enn eina frábæra sumar-helgi. Þessar helgar í júlí mánuði voru allar með tölu fáránlega skemmtilegar. Ég man hreinlega ekki eftir að hafa upplifað skemmtilegri mánuð á Íslandi. Að minnsta kosti hefur það ekki gerst í mörg ár. Það er hreinlega fáránlegt að bera saman júlí mánuð í ár við júlí mánuð í fyrra og hitteðfyrra, sem voru báðir hálf ömurlegir.

Um næstu helgi er ég svo á leið á Þjóðhátíð með einstaklega skemmtilegu fólki og ég er orðinn verulega spenntur.

* * *

Allavegana, þessi færsla var aðallega til að losa mig við samviskubit yfir því hversu lélegur bloggari ég er þessa dagana. Njótið sumarsins á þessum fáu góðviðrisdögum á Íslandi – ég er farinn út að borða.

iPhone 2.0

Ég er búinn að uppfæra iPhone símann minn í kerfi 2.0. Þökk sé Tobba, sem hafði þolinmæði í að ganga í gegnum hvert skref með mér í uppfærslunni. Þetta var ekki svo flókið, en þó festist ég alltaf í sama hlutanum.

Þessi uppfærsla breytir ansi miklu. Fyrrir það fyrsta, þá uppfærast dagatöl og kontaktar nú sjálfkrafa á milli tækjanna minna. Ég vinn á Macbook Pro fartölvu í vinnunni, á iMac borðtölvu heima og svo á iPhone þegar ég er á ferðinni. Núna uppfærast þessir hlutir á milli tækjanna sjálfkrafa, sem er gríðarlega þægilegt. Um leið og ég skrái einhvern atburð á dagatalið í símanum mínum, þá uppfærist dagatalið í tölvunum mínum sjálfkrafa.

(svona lítur síminn út eftir uppfærsluna)

Í öðru lagi, þá býður 2.0 kerfið uppá að maður geti keypt sér forrit í símann. Ég er strax búinn að setja inn nokkur skemmtileg forrit. Fyrst var auðvitað OmniFocus, sem að gerir mér kleift að sync-a OmniFocus listana mína á milli tölva og símans. OmniFocus á iPhone er einnig ótrúlega sniðugt því það veit hvar ég er stadur. Þannig að þegar ég er á skrifstofunni minni, þá veit forritið (af því að ég er búinn að kenna því hvar ég er) hvaða hluti ég á að gera þar. Þetta er nánast ólýsanlega þægilegt.

Auk OmniFocus sett ég inn Texas Hold Em póker leik frá Apple, sem er snilld og svo minni forrit einsog Remote frá Apple, sem gerir manni kleift að stjórna iTunes í tölvunni úr símanum og svo forrit fyrir Twitter og Facebook.

* * *

Helgin var algjörlega frábær. Fór útað borða á æðislegum stað, fór í sund í sólinni, borðaði ís, grillaði með vinum mínum, fór í frábært partí og á djammið, borðaði þynnkumat með vinum og eitthvað fleira. Þessi júlí mánuður er búinn að vera svo fáránlega skemmtilegur að það er með hreinum ólíkindum. Ég er búinn að setja nokkrar myndir frá helginni inn á Facebook.

* * *

Af fimm vinsælustu fréttunum á mbl.is, þá fjallar ein um Jessicu Simpson, önnur um stolið hjólhýsi og sú þriðja um Mercedes Club. Ég veit ekki hvort mér finnst þetta fyndið eða sorglegt.

* * *

Ég verð að játa að ég er alvarlega að spá í að kaupa mér nýja myndavél. Mín EOS 20D er orðin fjögurra ára gömul og þótt að hún sé vissulega enn frábær vél, þá fæ ég samt smá græjulosta við að skoða nýjustu Nikon vélarnar, hvort sem það er D300 eða D700. Það sem fer aðallega í taugarnar á mér við mína vél er hversu illa hún höndlar það að taka myndir í lítilli birtu. Það virðist vera einn af helstu kostunum við Nikon vélarnar hversu vel þær glíma við litla birtu.

Ég hef alltaf notað Canon, en er svo sem ekki fastur í mikilli fjárfestingu í því merki. Á ekkert flass og eina linsan sem ég á aukalega er 50mm linsa. Svo er ég á leið til Bandaíkjanna í ágúst og það gæti verið kjörið tækifæri fyrir slík græjukaup.

Hefur einhver reynslu af þessum Nikon vélum og veit hvernig þær eru miðað við mína vél?

Fyllerí í sjónvarpi, helgin, GTA, Dark Knight og fleira

Fyrir langa löngu var ég að reyna að finna þetta myndbrot með Steve Carrell og Stephen Colbert þegar þessir tveir snillingar voru aðalgrínararnir í The Daily Show. Í þá daga horfði ég á þáttinn á nánast hverju einasta kvöldi þegar ég var í námi útí Bandaríkjunum. Þetta brot rifjaðist upp fyrir mér í samræðum sem ég átti við vin minn yfir hádegismatnum í dag (vorum að prófa Nítjándu í Turninum, sem var fínt).

Allavegana, í þessu myndbroti – Drink Responsibly – dettur Steve Carrell í það fyrir framan myndavélarnar. Þetta er um fimm mínútur, en þið verðið hreinlega að horfa á þetta. Já, og ef einhver horfði ekki á myndbandið sem ég linkaði á á laugardaginn, gerið það þá NÚNA!

* * *

Annars var helgin frábær. Ég fór í afmæli hjá stelpu sem ég þekkti ekki neitt á Domo á föstudaginn, en þar var fullt af ótrúlega skemmtilegu fólki sem ég þekki. Fór með vinum mínum útað borða á indverska daga á Ólíver á undan, sem var mjög fínt. Afmælið var ótrúlega skemmtilegt og einn vinur minn stóð meðal annars fyrir einu allra fyndnasta atviki sem ég hef séð á íslenskum skemmtistað og mun sennilega ylja mér um hjartarætur hvenær sem mér leiðist í framtíðinni. Fórum svo á Ölstofuna, þar sem að fjörið hélt áfam.

Á laugardaginn fór ég svo í UJ útilegu, sem var haldin nálægt Reykholti. Útilegan var reyndar færð inn sökum veðurs, en ég tjaldaði þrátt fyrir það rétt hjá húsinu. Þar var mjöög gaman.

* * *

Ég er búinn að vera hálf þreyttur í allan dag og svaf m.a.s. fyrir kvöldmat, sem gerist nánast aldrei. Mætti jú í ræktina í morgun í fyrsta skipti í viku, sem var yndislegt, en var samt hálf þreyttur allan daginn. Komst að því að Café Americano kostar 350 krónur á Kaffitár, en venjulegur kaffi kostar bara 280 krónur með frírri áfyllingu. Ég verð að játa að ég skil ekki þá verðlagningu. En þar sem það ágæta kaffihús er nánast einsog skrifstofa mín, þá held ég kvörtunum í lágmarki.

* * *

Áhorf mitt á Ísland í Dag er komið niður í sirka 15 sekúndur á dag. Það er akkúrat tíminn sem að Vala Matt þarf til að kynna það sem verður í þættinum.

* * *

Ég er búinn að spila Grand Theft Auto IV öðru hvoru undanfarna daga. Samkvæmt tölfræðinni þá er ég búinn með 15,2% af leiknum. Ég hef í raun ekki dottið inní tölvuleik síðan ég spilaði (og dýrkaði) BioShock í jólafríinu.

* * *

Og að lokum þá skrifar Kristján Atli upphitun fyrir The Dark Knight. Ég held að ég hafi sagt það í kommentum á þessari síðu að ég man hreinlega ekki eftir því hvenær ég var jafn spenntur fyrir bíómynd og þessari.