Skíðakennsla fyrir litla krakka

Ég hef síðustu 9 árin unnið að því að kenna börnunum mínum þremur að skíða.  Þegar að mér fannst vera sjens að elsti strákurinn okkar gæti byrjað á skíðum þá fór ég að velta fyrir mér hvernig væri best að kenna honum og ég man þá að ég fann engar sérstakar leiðbeiningar um það hvað væri best.  Þannig að ég ætla hérna að koma með punkta um það hvað ég hef lært síðustu 9 ár á því að kenna þremur krökkum að skíða, öllum mjög ungum.

Það að byrja að kenna börnum mjög snemma að skíða (ég byrjaði með minn yngsta þegar hann var 2,5 ára gamall – sjá mynd að ofan) er eflaust erfiðara en að gera það þegar börnin eru orðin stærri.  Þegar þau eru svona lítil hafa þau mjög lítið úthald og verða fljótt veik í löppunum.  En á móti þá verða þau auðvitað góð mun fyrr og ég held að þau verði óhræddari en ef þau byrja seinna.

Ég vissi það alltaf að ég myndi vilja byrja að kenna krökkunum mjög snemma og ég vissi það líka að ég vildi eyða eins litlum tíma og mögulegt er í barnabrekkum.  Þessar leiðbeiningar miða líka að því að kennarinn sé sæmilega fær á skíðum og í sæmilegu líkamlegu formi.

Ég hef séð um þessa þjálfun nánast eingöngu sjálfur.  Tvö eldri börnin fóru í einhverja skíðaskóla á sænskum skíðasvæðum, en þeir voru alltaf mjög stuttir (1,5-2 tímar á dag).  Sá yngsti lærði eingöngu á skíði með mér.

Svo er auðvitað mögulegt að þetta henti ekki öllum krökkum.

Fyrsta skref: Krakki skíðar á milli lappa.

Þetta er kannski erfiðasta skrefið.  Ég prófaði að fara nokkrum sinnum í barnabrekku eða mjög auðvelda fullorðinsbrekku.  Ég var smá á töfrateppi, en eftir 1-2 daga flutti ég mig yfir í stólalyftu.  Ég lyfti krökkunum uppí stól og fór með þá upp í léttar brekkur. Það eru kannski ekki mjög margar mjög léttar brekkur sem eru með stólalyftu á Íslandi. Neðri stóllinn í Hlíðarfjalli og Drottningin í Bláfjöllum eru þó ágæt fyrir þetta.

Ég setti krakkana svo á milli lappanna og skíðaði með þau í plóg niður.  Það sem mér fannst vera stærsti ávinningurinn af þessu var að krökkunum fannst strax gaman að skíða.  Það er ekkert í lífi 3 ára gamals krakka sem er hægt að bera það saman við að skíða niður brekku á mikilli ferð á milli lappa foreldris.  Allir mínir krakkar elskuðu þetta tímabil.

Næsta skref: Krakki skíðar í bandi / á milli lappa

Næsta skref var að setja krakkana í band / beisli og stýra þeim þannig.  Yngsti prófaði þetta skref þegar hann var ca 2,5 ára gamall.  Þá skíðar krakkinn á undan í bandi og ég stýrði með höndunum mínum.  Ef þau voru óörugg þá stoppaði ég þau og renndi mér uppað þeim og tók utanum þau og skíðaði með þau á milli lappanna. Þá fengu þau aftur öryggið.  Hérna er ég með yngsta strákinn minn á Åre þegar hann er 2,5 ára gamall.

Smám saman urðu þau þó betri í þessu og þau fá fljótlega mikið sjálfstraust því þeim líður einsog þau séu að skíða sjálf og hafi stjórnina þótt að ég væri auðvitað með alla stjórn.  Þetta er þó nokkuð líkamlega erfitt fyrir kennarann.  Ég þurfti oft að vera í plóg á eftir því í erfiðari brekkum er það einsog að vera með lóð á undan sér að hafa krakka í bandi, sem vill bara fara eins hratt og mögulegt er. Alltaf þegar þau voru óörugg þá tók ég þau svo aftur á milli lappanna þar til öryggið var komið aftur.

Þegar þau voru orðin betri þá byrjaði ég að kenna þeim að beygja sjálf svo þau hefðu stjórn á hraðanum.

Síðasta skrefið: Aftur í barnabrekku.

Þegar þau voru orðin alveg örugg í bandi og voru farin að beygja sjálf þá fór ég aftur í barnabrekkurnar og leyfði þeim að prófa að fara sjálf.  Sjálfstraustið er til staðar, svo það vantar bara smá öryggi við það að bandið sé alveg farið, en það var aldrei langur tími.  Yngsti strákurinn minn byrjaði að skíða alveg sjálfur þegar hann var 4,5 ára.  Þannig að þetta var tveggja ára ferli með honum (kannski svona 10-15 skíðadagar).

Hérna er yngsti strákurinn nýorðinn 5 ára í barnabrekkunni í Bláfjöllum – þetta var fyrsta skiptið á skíðum þennan veturinn svo við byrjuðum í barnabrekkunni.

Ég vona að þetta hjálpi einhverjum.

Luis Suarez er ekki rasisti

Íslenskir fjölmiðlar þýða bara greinar uppúr enskum fjölmiðlum og enskir fjölmiðlar hafa ekki beint fjallað málefnalega um málefni Luis Suarez, besta knattspyrnumanns Liverpool.

Suarez notaði orðið “negro” við Patrice Evra, þeldökkan leikmann Manchester United. Negro er fullkomlega eðlilegt orð í Suður-Ameríku og hefur enga tengingu við rasisma. Evra lýgur því að Suarez hafi sagt “fucking nigger” og svo að Suarez hafi sagt það 10 sinnum í sama leiknum. Hann dregur seinna í land með þær ásakanir en er samt talinn vera trúverðugt vitni og Suarez er dæmdur í 8 leikja bann og kallaður rasisti af enskum og íslenskum fjölmiðlum.

Ef einhver hefur áhuga á að lesa góðar greinar um þetta mál, þá mæli ég með eftirfarandi:

  • Media on Racism – Þetta er að mínu mati besta greinin um þetta mál og hreint ótrúlega óvandaða umfjöllun breskra fjölmiðla um málið. Ef þú lest eina grein um þetta mál, lestu þá þessa.
  • Luis Suarez – grein, sem við Kristján Atli skrifuðum á Kop.is um Suarez, þar sem ég fjalla meðal annars aðeins um notkun þessara orða í Suður-Ameríku.
  • All Spanish Speakers Are Racist – Frábær grein frá Paul Tomkins um málið.
  • KOP.is podcast – Við strákarnir á kop.is ræddum þetta mál svo í podcasti, sem var tekið upp í gær.

Stokkhólms hálf maraþon 2011

Í gær hljóp ég hálf maraþon í Stokkhólmi annað árið í röð. Í fyrra hljóp ég á 1.44, en í ár var ég með fimm mínútum lélegri tíma 1.49. Það sem kannski var aðallega merkilegt við þessi tvö hlaup var munurinn á því hvernig ég æfði fyrir þau.

Í fyrra hljóp ég í júní-september allavegana þrisvar í viku og að minnsta kosti 5-10 kílómetra í hvert skipti. Alls voru kílómetrarnir 62 í júní, 105 í júlí og 140 í ágúst. Samanlagt yfir 300 kílómetrar. Þegar að kom að því að hlaupa hálf maraþonið var ég því orðinn vel vanur að hlaupa mjög langar vegalengdir (hafði að mig minnir fjórum sinnum farið yfir 15 kílómetra. En á móti var ég ekkert í sérstaklega góðu líkamlegu formi. Mér fannst einsog ég gæti hlaupið endalaust en ég var dottin úr öllu CrossFit formi – var með fitu á maganum og gat litlu lyft. Það tók mig um 6-8 vikur að ná mér í almennilegt almennt form eftir þetta hlaupasumar.

* * *

Í ár ákvað ég að breyta algjörlega um áherslu. Í stað þess að hlaupa nokkrum sinnum í viku ákvað ég að æfa bara CrossFit. Ég tók bara þá tíma, sem voru í boði í gym-inu mínu og í CrossFit Reykjavík þegar ég var heima í sumar. Ég hljóp einhvern slatta, en það voru alltaf sprettir. Ég hljóp einu sinni meira en 6 kílómetra allt sumarið, það var í Midnattsloppet þegar ég hljóp á frekar hægu tempói. Ef ég tel bara hlaup yfir 5 km, þá hljóp ég í allt sumar samtals um 50 kílómetra (einu sinni 10km, annars 5-7km). Ólíkt Crossfit stöðunum heima á Íslandi, þá er mjög lítið um hlaup í okkar stöð í Stokkhólmi – það eru í raun aldrei tekin lengri hlaup en 500 metrar í einu.

Þetta hefur skilað mér í mjög gott form. Ég er miklu sterkari en ég var, með minni fitu og mér líður vel. Það var kannski smá bjartsýni hjá mér að fara beint í hálf maraþon eftir að hafa bara hlaupið 5-6 kílómetra og æft CrossFit, en mér fannst það vera tilraunarinnar virði.

Ég við 12 km markið

Fyrstu 7-8 kílómetrarnir voru fínir. Að æfa svona mikið CrossFit gerir mann góðan í sprettum og styttri hlaupum og því fannst mér fyrsti hlutinn vera léttur. Eftir 10 kílómetra fór ég að finna fyrir löppunum mínum talsvert og það var svo slæmt að eftir 13 kílómetra var ég næstum því hættur því auk þess var ég orðinn mjög slæmur í mjöðunum. Ég þurfti þá að stoppa í smá stund því ég var kominn með svo mikinn krampa í lappirnar. Næstu 4-5 kílómetrar voru gríðarlega erfiðir – ég var með stanslausam krampa í löppunum og mér leið einsog þær væru gerðar úr blýi – og að ef ég myndi hlaupa aðeins hraðar þá myndi ég detta niður og ekki geta labbað í mark. Þetta var í raun versti sársauki, sem ég hef fundið fyrir í íþróttum. Það var bara einhver þrjóska, sem hélt mér áfram í þessu. Ég þurfti að stoppa 3-4 sinnum og teygja á löppunum þegar ég hélt að kramparnir væru að drepa mig.

Eftir að ég gat hlaupið upp brekkuna að Götgötunni þá gat ég svo klárað þetta á sæmilegum hraða. Lokatíminn var 1.49:13. Ég var ótrúlega ánægður með að ná allavegana að klára þetta á undir 1.50, en takmarkið hafði verið að fara hlaupið á undir 1.40.

Kominn í mark

Það sem ég hef lært af þessu er jú að ef maður ætlar að hlaupa hálf maraþon, sama hversu góðu almennu formi maður er í, þá verður maður að taka nokkur lengri hlaup líka til þess að venja lappirnar á þá vinnu. Það skiptir engu máli hvað maður getur tekið í réttstöðulyftu því það er svo allt öðruvísi álag á mjaðmir og lappir að hlaupa 21 kílómetra. Ég er ekki alveg viss hvort ég fer í hálf maraþon á næsta ári, en þá mun ég sennilega taka svipað prógramm og núna, en á tveggja vikna fresti bæta við lengra hlaupi – frá 10-20 kílómetrum. Það ætti að koma í veg fyrir að maður verði jafn slappur í löppunum næst.

CrossFit er frábært!

IMG 2157Þegar ég var um helgina í hundraðasta sinn að mæra CrossFit þá fattaði ég að ég hef ekkert skrifað um CrossFit á þetta blogg. Það er með hreinum ólíkindum, því fátt hefur breytt lífi mínu jafnmikið og CrossFit og það er fátt sem ég tala meira um eða lofa jafn mikið.

CrossFit er einfaldlega besta og skemmtilegasta líkamsrækt sem ég hef nokkurn tímann prófað.

Síðan ég hætti að æfa fótbolta og handbolta þegar ég var 19 ára þá hef ég verið nokkuð duglegur við að hreyfa mig. Ég get nánast fullyrt að á þessum árum hafi ég alltaf æft að minnsta kosti 3-5 sinnum í viku. Ég hef verið smá í fótbolta og svo hefur líkamsræktin mín oftast falist í því að fara í World Class eða svipaða staði, hlaupa smá og lyfta lóðum. Ég hef prófað mestallt slíkri líkamsrækt. Ég hef verið með frábæra einkaþjálfara, ég hef verið einn og ég hef prófað fjarþjálfun.

En allan tímann þá hef ég aldrei haft neina sérstaka ánægju af þessari líkamsrækt. Ég mætti jú, því ég hef viljað vera í góðu formi og lifa heilbrigðu lífi. En mér hefur aldrei fundist neitt sérstaklega skemmtilegt að mæta í World Class og sitja þar í einhverjum Hammer Strength tækjum og gera tvíhöfða- eða magaæfingar. Ég þurfti nánast alltaf að pína mig af stað í ræktina.

CrossFit hefur breytt því.

Ég prófaði CrossFit fyrst fyrir um einu og hálfu ári. Þá var bara einn staður í Stokkhólmi þar sem ég gat mætt í CrossFit tíma – í bardagaíþróttasal rétt hjá þar sem ég bý. En í maí á síðasta ári skipti ég yfir í CrossFit Nordic, sem er stöð þar sem bara er æft CrossFit. Stöðin er í eigu þriggja stráka, sem hafa kennt tímana. Stöðin er full, aðeins 190 manns komast þar að og þar er núna biðlisti. Þetta er frábær stöð og þarna æfir ótrúlega mikið af hressu fólki og þar á meðal nokkrir Íslendingar.

* * *

Fyrir þá sem aldrei hafa heyrt um CrossFit þá eru þetta hóptímar (hjá okkur eru um 12 manns í einu að æfa) þar sem teknar eru æfingar úr fimleikum, kraftlyftingum og annarri líkamsrækt og lögð áhersla á að æfa í stuttan tíma á gríðarlega háu tempói. Í okkar gym-i eru tímarnir byggðir þannig upp að fyrst er 15 mínútna upphitun, svo eru 20 mínútur þar sem farið er í gegnum tækni í ákveðnum æfingum og oft reynum við að slá okkar met í ýmsum lyftum. Og svo lýkur tímanum á WOD-i dagsins (workout of the day). Það er æfing, sem er oftast stutt (allt niður í 3-5 mínútur) en fer fram á gríðalega háu tempói. Fyrirfram veit fólk oftast ekki hvaða æfing er hvern dag og æfingarnar eru gríðarlega fjölbreyttar. Sem dæmi var æfing gærdagsins 21-15-9 af réttstöðulyftu og armbeygjum á haus og í síðasta tíma var blandað saman dýfum í hringjum og spretthlaupum. Mjög mikil áhersla er lögð á grunnæfingar í ólympískum lyftingum einsog réttstöðulyftu, hnébeygju, axlapressu og svo æfingar með líkamsþyngd, svo sem upphýfingar, armbeygjur og slíkt.

Þegar um er að ræða ólympískar lyftingar þá er alltaf gefin upp þyngd í æfingum dagsins, sem að fólk getur svo lækkað ef að það ræður ekki við hana. Þetta þýðir að nánast allir geta farið í gegnum CrossFit æfingar á góðum tíma – ef þú getur ekki tekið upphýfingu þá byrjarðu á að taka þær í gúmmíbandi þangað til að þú getur þær – armbeygjur á hnjánum, ketilbjöllur með léttum bjöllum og svo framvegis.

Það að allir gera æfingarnar á sama tíma og að fólk í ólíku formi getur verið að klára æfingarnar á sama tíma (með mismunandi þyngdum) veldur því að það er alltaf mikil keppni í CrossFit tímum. Þegar ég er að æfa þá ber ég mig oftast saman við svona 5 manna hóp af strákum, sem ég veit að eru í svipuð formi og ég (fólk skrifar tímana uppá töflu, þannig að maður getur borið sig saman við fólk sem er að æfa á öðrum tímum dags). Það heldur mér alltaf við efnið því mér er hroðalega illa við að vera með lélegri tíma en þeir. Þegar maður er einn í líkamsræktarsal þá er mjög auðvelt að láta sig liltu varða hvort maður sé að bæta sig – en í CrossFit er maður alltaf í keppni – annaðhvort við sjálfan sig eða aðra. Auk þess er til íslensk síða – WOD.is þar sem maður getur skráð tímana sína í svokölluðum benchmark æfingum. Það eru æfingar, sem allir gera eins með sömu þyngdir og því getur maður borið tímana sína saman við vini sína og líka þá allra bestu í heiminum.  Það eru líka ekki alltaf þeir sömu sem eru bestir í tímunum.  Það virkar kannski ekki sanngjarnt að ég sem er 75 kíló eigi að taka sama og maður sem er 95 kíló, en mjög oft þá geta þeir léttari bætt upp þyngdarmuninn með því að vera betri í æfingum með líkamsþyngd eða hlaupum.  Þeir sem eru bestir í CrossFit eru ekki bara sterkir, heldur í gríðarlega góðu alhliða formi.

Þrátt fyrir að sjálfar WOD-æfingarnar séu oft undir 10 mínútum, þá er maður samt sem áður fullkomlega uppgefinn eftir flestar æfingarnar. Ég er miklu uppgefnari eftir 10 mínútna CrossFit æfingu en ég var eftir 60-90 mínútna venjulega æfingu í ræktinni. Þetta sparar manni tíma og gerir hlutina skemmtilegri því þegar maður er í CrossFit þá er maður á fullu allan tímann, en eyðir ekki tímanum sitjandi í einhverjum tækjum á milli setta.

CrossFit byggir líka á því að þú eigir að vera góður í nánast öllu. Þú ert ekki bara að æfa tvíhöfðann eða ná brjálæðislegum brjóstkassa með endalausri bekkpressu, heldur áttu að vera sterkur í löppum og höndum og baki. Þú átt að geta tekið spretti og hoppað hátt og unnið lengi.

* * *

Allt þetta hefur líka gert það að verkum að ég hef náð árangri sem ég ég taldi ómögulegan. Ég hef bætt mig í öllum ólympísku lyftunum um tugi prósenta, en einnig eru ótrúlegustu hlutir orðnir léttir núna. Í Fran æfingunni, sem er 21-15-9 af thrusters og upphýfingum þá verða 21 upphýfing í einu nánast einsog þægileg hvíld því thrusters æfingin er svo miklu erfiðari. Í kringum mig í CrossFit salnum sé ég fólk sem mætir í hræðilegu formi og nokkrum vikum seinna er byrjað að taka upphýfingar án aðstoðar. Það eru allir að bæta sig, alltaf.

Í stuttu máli sagt er CrossFit skemmtilegasta og besta líkamsækrin sem ég hef kynnst. Ég get ekki sagt nógu margt gott um CrossFit. Ég æfi CrossFit 5-6 sinnum í viku og mig hlakkar til hverrar æfingar. Klukkan 7.30 er ég mættur útá lestarstöð til að taka lest í annan borgarhluta og mæta á CrossFit æfingu. Og aldrei dettur mér í hug að sleppa úr æfingu. Þetta er einfaldlega of skemmtilegt til þess.

Eflaust passar CrossFit ekki fyrir alla, en í okkar gym-i er elsti CrossFitarinn sennilega á milli 50-60 ára gamall og stelpur eru ábyggilega 40% af meðlimum. Sérstaklega myndi ég þó mæla með CrossFit fyrir stráka, sem hafa æft íþróttir og leiðist líkamsrækt þar sem hún býður ekki uppá sömu keppnina einsog keppnisíþróttirnar. Slíkir aðilar ættu að elska keppnis-hlutann í CrossFit. En ég held að CrossFit passi klárlega alveg jafn vel fyrir stelpur. Margrét unnusta mín æfir CrossFit 4-5 sinnum í viku og elskar það.

Á Íslandi eru nokkrar stöðvar, sem bjóða uppá CrossFit og fólk byrjar oftast á byrjendanámskeiðum þar sem betur er farið í tæknina. Ég hef æft af og til í CrossFit Reykjavík og það er mjög góð og skemmtileg stöð. Tímarnir eru byggðir upp öðruvísi þar en í minni stöð, svo að fólk getur borið saman stöðvar og fundið hvað hentar þeim best. CrossFit stöðvarnar eru flestar mjög minimalískar einsog sést kannski á myndinni af mér við þessa færslu. Í stöðinni okkar er bara gúmmígólf, stangir fyrir upphýfingar, 6 róðrarvélar, ketilbjöllur, sippubönd og lóð. Það er það eina sem þarf.

Íslendingar eru líka að ná gríðarlega góðum árangri í CrossFit. Um helgina fór fram Evrópu-undankeppnin í CrossFit games, sem er aðalkeppnin í CrossFit heiminum. Þar var íslensk stelpa, Annie Þórisdóttir, í fyrsta sæti (hún er hálfger goðsögn í þessum CrossFit heimi, enda er hún með ólíkindum góður íþróttamaður) og önnur íslensk stelpa komst líka áfram.  Einn Íslendingur komst svo inn í karlaflokki (af þremur, sem komust inn í allri Evrópu). Númi vinur minn lenti í sjötta sæti í Evrópu, en hann æfir einmitt í sama sal og við Margrét og hann er núverandi Svíþjóðarmeistari í CrossFit.   Íslenskt lið vann svo liðakeppnina.  Það er ekki slæmur árangur hjá Íslendingum í þessari nýju íþrótt.

Stokkhólms hálf maraþonið

Hálf maraþonið í gær var hálf skrautlegt. Ég reyndi að passa mig á því fyrir hlaupið að undirbúa mig á sama hátt og ég hafði undirbúið mig fyrir lengri hlaup að undanförnu – borðaði nokkurn veginn það sama og aðalmunurinn á hlaupinu í gær og lengri hlaupum að undanförnu átti að vera sá að ég var talsvert betur úthvíldur fyrir hlaupið í gær.

Mér leið því vel þegar ég mætti niður á Gamla Stan um fjögur leytið í gær. Þar sem ég hef ekki hlaupið áður opinberlega og á engan tíma, þá lenti ég mjög aftarlega í rásröðinni. Ég var í starthóp F, sem þýddi að um 8.000 hlauparar fóru af stað á undan mér (af um 10.000 hlaupurum, sem tóku þátt. Ég ætlaði að hlaupa á milli 1.35-1.40 og það þýddi að ég tók framúr gríðarlegum fjölda af fólki. Það sem ég fattaði hins vegar ekki alveg var að ég var í raun fyrstu 10 kílómetrana stanslaust að taka framúr fólki, þannig að vegalengdin, sem að GPS tækið mitt mældi var á endanum um hálfum kílómetra lengri en opinber vegalengd hlaupsins, þar sem ég þurfti alltaf að taka framúr með því að fara í langar beygjur og slíkt (sjá hérna GPS mælinguna mína með korti)

Ég að hlaupa á Kungsholmen
Ég að hlaupa á Kungsholmen (sirka 10km búnir)

Allavegana, eftir um 3-4 kílómetra leið mér vel í löppum og lungum, en maginn á mér var verulega skrýtinn. Hann versnaði svo smám saman og var orðinn svo slæmur að ég var að spá í að hætta eftir um 15 km. Til að gera langa sögu stutta, þá eyddi ég eftir hlaupið öllu kvöldinu annaðhvort á klósettinu eða í fósturstellingu uppí rúmi. Þegar að Margrét fór útí apótek í morgun að sjá hvort hún gæti keypt einhver lyf sagði apótekarinn að ég hefði klárlega fengið magavírus, sem væri að ganga akkúrat núna í Stokkhólmi og gengi yfir á 2-3 dögum. Það hlýtur að vera sérstakt afrek hjá mér að fá þennan vírus akkúrat núna þegar ég var að hlaupa hálf maraþon. Mér hefur sjaldan liðið jafnilla og mér leið í gærkvöldi.

* * *

Allavegana, tíminn sem ég kom á í mark var **1:44.41**.

Í fyrra þegar ég hljóp þetta sjálfur þá var tíminn 1:51:56. Þá hljóp ég auðvitað styttri hring, þar sem ég var einn og þurfti ekki að taka fram úr. Svo að þetta er bæting á meira en 7 mínútum á milli ára. Það er svosem ágætt, en ég hafði auðvitað sett markið hærra. Ég fann það líka þegar ég kom í mark að ég hafði lítið reynt á lungun og að lappirnar mínar voru í fínu ástandi (og þær eru það enn í dag). En helvítis maginn fór alveg með þetta. Ég var á ágætis millitíma í bæði 5 og 10km, en eftir um 13-14 kílómetra, þegar ég var að hlaupa leiðir sem ég hleyp oft í viku hérna á Södermalm, þá var maginn nánast að gera útaf við mig og þar versnaði tíminn umtalsvert.

Eftir mánuð ætla ég svo að prófa að hlaupa 10 kílómetra í Hässelby hlaupinu, en eftir það ætla ég að leggja hlaupa-skóna á hilluna þangað til næsta sumar.

Vika í hálf maraþon

Núna er tæp vika í hálf maraþonið hérna í Stokkhólmi. Ég hef verið að undirbúa mig síðustu 10 vikur með því að hlaupa þrískipt prógramm þrjá daga í hverri viku.

Þetta hefur gengið misjafnlega. Prógrammið er semsagt þrískipt:

– Sprettir: 400, 800 eða 1600 metra. Ég hef ekki átt í miklu erfiðleika með þá (400 metra á 90 sekúndum, 800 metra á 3.03 og 1600 metra á 6.27).
– Lengri hlaup á hægu tempói. Þetta eru hlaup frá 10 og uppí 19km á tempói, sem samsvarar 5 mínútum og 7 sekúndum á hvern kílómeter. Þetta hefur ekki verið neitt sérstaklega erfitt.
– Milli-vegalengdir á hröðu tempói. Það eru 6-13km hlaup á tempóinu 4.20 per kílómeter. Ég hef átt í bullandi erfiðleikum með þessi hlaup. Í dag náði ég í fyrsta skipti að klára 10km hlaup nokkurn veginn skammarlaust. Þessi slappi árangur í þessum hlaupum hefur gert mig aðeins stressaðan fyrir sjálft hlaupið næsta laugardag.

Í gegnum þessar vikur þá hef ég haldið utanum allt með því að nota Runkeeper forritið í iPhone símanum mínum. Síminn er með GPS og Runkeeper forritið heldur utanum hlaupaleiðir og tíma. Forritið getur líka hjálpað manni því ég set inní það hraðann sem ég ætla að hlaupa á og forritið lætur mig vita á 500 metra fresti (eða hversu oft sem ég vel) hvernig ég standi mig miðað við hraðann, sem ég ætlaði að hlaupa á. Þetta hefur algerlega haldið mér við efnið í sumar – og ég á bágt með að skilja hvernig ég gat nokkurn tímann hlaupið án forritsins.

Auk þess þá fær maður þessa fínu heimasíðu á Runkeeper.com þar sem maður getur flett upp gömlum hlaupum, teiknað upp og mælt nýjar hlaupaleiðir og fleira. Síðan tekur einnig saman fyrir mann tölfræði um hvað maður hefur hlaupið mikið. Samkvæmt henni þá hljóp ég t.a.m. 140 kílómetra í ágúst. Ég mæli með þessu fyrir alla, sem hafa áhuga á hlaupum.


Annars var í gær Tjejmilen hlaupið í Stokkhólmi, sem er risa kvennahlaup þar sem 26.000 konur taka þátt. Margrét Rós tók þátt og náði léttilega þeim tíma, sem hún hafði ætlað sér að ná. Hún var því klárlega hetja dagsins hérna á Götgötunni.

Punktar um HM

Hérna eru nokkrir punktar í kjölfar HM.

  • Mínir menn töpuðu í úrslitaleiknum.  Ef ég hefði samt getað valið einhverja mynd í heiminum, þá hefði sennilega engin mynd geta glatt mig jafnmikið í kjölfar leiksins og þessi hér.  Fernando Torres með HM styttuna og Liverpool trefil?

    torresHM.jpg

  • Mér fannst Spánverjar leika hundleiðinlegan bolta á HM.  Þeir voru án efa með besta liðið og besta mannskapinn.  En að menn haldi því að þeir spili skemmtilegan bolta og að “knattspyrnan hafi unnið” er bara bull.  Ég horfði á flesta leiki Spánar og get ekki sagt að neinn þeirra hafi verið skemmtilegur.
  • Það að Spánn hafi tapað fyrir Sviss og svo unnið alla hina leikina með einu marki er glatað.
  • Fólk vælir ótæpilega yfir leik Hollendinga og hversu grófir þeir voru.  Ég er eflaust með litaðar skoðanir, en mér fannst þetta ekki vera jafn slæmt og margir vilja meina.  Vissulega eru Van Bommel og De Jong grófir leikmenn og hefðu geta fengið fleiri spjöld, en ég get ekki séð af hverju menn vilja dæma hollenska liðið svona hart.  Þeir unnu alla leiki í undankeppninni og uppað úrslitaleiknum.  Þeir voru vissulega heppnir með sjálfsmörk andstæðinganna, en yfir allt var ég nokkuð sáttur við mína menn.
  • Fernando Torres er minn uppáhalds knattspyrnumaður og það var slæmt að sjá hversu illa hann náði sér á strik í keppninni.  Þó er ágætt að benda á að samkvæmt tölfræði Fifa var mesti hraði, sem að Torres náði í keppninni sami hraði og Gareth Barry náði.  Það er klárt mál að meiðsli háðu honum.  Hann kórónaði svo óheppnina með að meiðast aftur í úrslitaleiknum.
  • Mér fannst þessi HM keppni ekki sérstaklega skemmtileg.  Ég heyrði einhvers staðar að þegar að Þýskaland komst yfir gegn Úrúgvæ hafi það verið í fyrsta skiptið í keppninni, sem að bæði liðin höfðu haft forystu í sama leiknum.  Það er hreint ótrúleg staðreynd.  Ég hafði frekar takmarkaðan áhuga á þessari keppni.  Kannski að þetta síðasta tímabil hjá Liverpool hafi minnkað áhuga minn á fótbolta aðeins.
  • En aðal vonbrigðin eru að Spánn hafi ekki spilað almennilega skemmtilega í neinum leik.  Það er með ólíkindum að lið, sem er að kjarna til sama lið og Barcelona skuli spila svona leiðinlegan fótbolta á meðan að Barca spilar svona skemmtilegan.  Ég veit að það vantar Messi í liðið, en samt.

Á HM held ég með…

Kærastan mín heldur því fram að ég sé miklu meiri Liverpool aðdáandi en fótboltaaðdáandi. Þegar að ég horfi á Liverpool leiki er ég spenntur, það má ekki trufla mig með málefnum ótengdum Liverpool, ég missi ekki af mínútu úr leik og svo framvegis. Yfir HM (sérstaklega riðlakeppninni) missti ég hins vegar af leikjum og þegar ég var að horfa á leiki þá var alltaf á Twitter eða að gera aðra hluti.

Þegar ég hugsa þetta er þetta að vissu leyti rétt. Ég er fyrst og fremst Liverpool aðdáandi. Og ég hef líka þann kost/galla að ég þarf að hafa tilfinningar til annars hvors liðsins í íþróttaleik til þess að ná að fylgjast með honum af áhuga. Þetta veldur því meðal annars að ég horfi á mun færri fótboltaleiki en ég myndi annars gera. Margir myndu segja að það væri kostur.

Þegar ég var spurður að því fyrir þessa HM keppni með hverjum ég héldi, þá var svarið nokkuð flókið. Einu liðinu held ég með af því að ég haldið með því síðan ég var 10 ára. Hinum liðunum held ég með af því að ég tengdist þeim á einhvern hátt þegar að ég bjó í löndunum eða var á ferðalagi þar. Ég hélt/held með:

1. Holland: Ég hef haldið með Hollandi síðan ég var lítill strákur. Ég á einhverjar smá minningar frá HM 1982, en ég man svo sem ekki hvort það var af því að ég hafi horft mikið á keppnina eða bara séð hlutina í sjónvarpi einhverju seinna. En á HM 1986 hélt ég með Frakklandi og ég held að ég hafi örugglega gert það mín fyrstu ár. Platini var minn uppáhaldsleikmaður og ég man að ég með Juventus (sem Platini spilaði fyrir), einsog ég útskýrði í þessari færslu á Liverpool blogginu um Heysel slysið.

Eftir 1986 hætti Platini að spila og á einhverjum tímapunkti varð Ruud Gullit minn uppáhaldsleikmaður. Þegar ég var 10 ára voru hann og Marco van Basten keyptir til AC Milan og næstu ár voru það myndir af þeim tveim ásamt Frank Riijkard, sem að þöktu veggina í herberginu mínu. Á EM 1988 byrjaði ég fyrir alvöru að halda með Hollandi og þeir unnu auðvitað þá keppni með glæsibrag. Síðan þá hefur Holland verið mitt lið. Ekki vegna þess að ég hafi einhver sérstök tengsl við landið, heldur er það bara Gullit og félögum að þakka að ég hef haldið tryggð við þá síðan þá.
2. Mexíkó: Síðustu 12 ár hef ég haldið með Mexíkó eftir að ég bjó þar. Ég elska Mexíkó einsog ég held að hafi komið fram hér áður. Og í þessari keppni komst ég að því að tilfinningar mínar gagnvart Mexíkó eru talsvert sterkar. Ég var allavegana nógu andskoti fúll þegar að þeir duttu út gegn Argentínu.
3. Argentína: Ég hef haldið með þeim nokkuð lengi þó ég sé ekki einn af þeim, sem elskaði Maradona á HM 1986. Þá hélt ég með Frakklandi og ég man að ég hafði líka talsvert sterkar tilfinningar til Belgíu, sérstaklega til Jean-Marie Pfaff, markvarðar þeirra. Ég man að í einhverri Þýskalandsferð með foreldrum mínum hafði ég fengið Bayern Munchen plakat þar sem að Pfaff var með félögum sínum.

Allavegana, síðustu ár hef ég haft tilfinningar til Argentínu, aðallega eftir að ég eyddi þrem vikum þar með vinum mínum og fór meðal annars á ógleymanlegan Boca Juniors leik þar sem ég var með heitustu stuðningsmönnum þess liðs fyrir aftan annað markið. Ég komst þó að því á þessu HM að tilfinningar mínar til Argentínu eru ekki jafn sterkar og til hinna tveggja liðanna. Ég varð brjálaður þegar að Argentína sló út Mexíkó og ég varð ekkert svo svekktur í gær þegar að Argentína datt út fyrir Þjóðverjum.

Auk þessara þriggja liða hélt ég að mestu leyti með liðum útaf Liverpool mönnum. Ég held með Spánverjum útaf Reina og Torres, en ég verð að játa að um leið og Torres var tekinn útaf í gær varð mér eiginlega alveg sama um leikinn. Þó vildi ég heldur sjá þá áfram því ég vil ekki sjá Þýskaland í úrslitunum. Ég hélt pínu með Englendingum útaf Gerrard og Johnson, en það var ekki mjög sterkt. Auk þessara liða þá hefði ég væntanlega haldið með Svíþjóð og Venezuela ef þau hefðu komist á HM. Eina landið, sem ég hef búið í en held ekki með er sennilega Bandaríkin. Ég bara get ekki haldið með Bandaríkjunum í fótbolta.

Í þessi 22 ár, sem ég haldið með Hollandi, hefur liðinu aldrei gengið jafnvel og á þessu HM móti. Það er ánægjulegt og ekki skemmir fyrir að þeir eru með Liverpool-manninn Dirk Kuyt, sem ég elska að hata og elska. Ég er nokkuð öruggur á því að Holland komist í úrslitin og ég held að á góðum degi ætti liðið að geta unnið bæði Þýskaland og Spán.

Ég hata íþróttir

Okei, látum okkur sjá:

  • Chicago Bears, uppáhaldsliðið mitt í amerískum fótbolta eru núna búnir að vinna 5 leiki og tapa 8 á þessu tímabili. Þeir eru í næst-neðsta sæti í sínum riðli og munu ekki komast í úrslitakeppnina.
  • Chicago Bulls, uppáhalds-körfuboltaliðið mitt er einfaldlega hörmulegt þessa dagana. Þjálfarinn er slæmur brandari og hann verður sennilega rekinn á næstu dögum. Liðið hefur unnið 8 leiki og tapað 14. Þeir eru í neðsta sæti síns riðils. Í síðustu viku töpuðu þeir fyrir lélegasta liði deildarinnar.
  • Chicago Cubs, uppáhalds hafnaboltaliðið mitt komst ekki í úrslitakeppnina í sumar.
  • Liverpool, uppáhaldsfótboltaliðið mitt, er dottið úr Meistaradeildinni fyrir Fiorentina og Lyon. Þeir eru núna í sjöunda sæti í ensku deildinni með jafnmörg stig og Birmingham og einu stigi meira en Fulham. Þeir eru færri stigum frá botnsætinu en toppsætinu. Þeir hafa tapað fleiri leikjum en þeir hafa unnið á þessu tímabili í öllum keppnum. Þeir eru einnig dottnir útúr deildarbikarnum. Í gær sá ég þá labba yfir Arsenal og ég fór á jólahlaðborð vitandi það að þetta yrði auðveldur 3-0 sigur. Þvílíkir voru yfirburðirnir. En þeim tókst samt einhvern veginn að tapa 1-2. Þeir finna nýjar leiðir í hverri viku til að gera mig pirraðan.

Á svona dögum spyr maður sig af hverju í andskotanum maður fylgist með íþróttum.

Hálfmaraþon

Fyrir um ári var ég í sögulegri útilegu í Úthlíð og var þar tæklaður af vini mínum svo illilega að ég gat ekki hlaupið í marga mánuði. Um jólin fór ég í fótbolta með nokkrum strákum og var þá svo slappur að ég sagði við Margréti þegar ég kom heim að ég yrði eitthvað að gera í málinu. Ég var vissulega í ágætis formi, enda hafði ég lyft reglulega, en það var alveg ljóst að hlaupaformið var orðið afleitt.

Janúarmánuður fór í að opna Serrano hérna í Stokkhólmi, en í byrjun febrúar byrjaði ég svo að hlaupa eftir prógrammi, sem að Margrét lét mig fá. Þetta er 13 vikna prógramm sem átti að undirbúa mann undir hálf maraþon. Ég byrjaði 4. febrúar og hljóp þá í 36 mínútur. 1 mínúta hlaup, 2 mínútur labb – 12 sinnum. Ég hljóp þetta á hlaupabretti og ætli ég hafi ekki farið um 3-4 kílómetra.

Prógrammið hélt svo áfram þrisvar í viku, alltaf blanda af labbi og skokki. Til að byrja með voru þetta vanalega 3-6 kílómetrar í hvert skipti. Ég þurfti nokkrum sinnum að taka mér hlé frá prógramminu. Ég fór í ferðalag til Frakklands í viku og svo fékk ég auðvitað heilablóðfall í lok mars. Síðasta hlaupið fyrir heilablóðfall var nokkrum dögum fyrir það og í kjölfarið tók ég mér um mánuð í frí samkvæmt læknisráði. Þegar ég byrjaði hins vegar aftur að hreyfa mig eftir heilablóðfallið þá var hlaup það fyrsta sem ég gerði, nokkru áður en ég byrjaði til að mynda að lyfta lóðum.

Það tók mig smá tíma eftir heilablóðfallið að ná fyrra þoli, en það hefur smám saman komið og ég hef smám saman farið að hlaupa vegalengdir sem ég hafði aldrei áður hlaupið. Áður en ég byrjaði á þessu prógrammi þá hef ég sennilega hlaupið mest einhverja 10 kílómetra á bretti, en síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum náð að bæta það og lengst hljóp ég einhverja 12,2 kílómetra í gríðarlegum hita. Síðustu vikur hafa hlaup uppá 6-8 kílómetra verið afskaplega létt.

Í dag var svo síðasti dagurinn á þessu plani og planið var einfalt: 21,1 kílómetri. Það mesta sem ég hef hlaupið hingað til var 12,2 kílómetrar þannig að ég var ekki alveg viss um að ég gæti þetta. Ég sagði því engum nema fólki sem var hér í matarboði í gær. Ég undirbjó mig ekkert sérstaklega, nema að ég borðaði talsvert meira af brauði í gær en ég geri vanalega. Í morgun vaknaði ég um 2 tímum fyrir hlaup, fékk mér að borða, hitaðið smá upp og byrjaði að hlaupa. Og þetta tókst.

half-marathon

Sjá kort hér á Google Maps.

Leiðin sem ég fór var mjög svipuð og er hlaupin í Stokkhólmsmaraþoninu (það er tveir hringir). Ég byrjaði reyndar hérna á Söder (vanalega er byrjað á Ólympíuleikvanginum), hljóp yfir Vesturbrúna yfir á Kungsholmen, þaðan niður í miðbæ, svo uppá Odengatan og Valhallarvägen. Þar eftir kemur sennilega leiðinlegasti kafli leiðarinnar þegar hlaupið er að Frihamnen og þaðan niður á Strandvägen á Östermalm. Strandvägen var svo frekar erfiður kafli leiðarinnar þar sem ég var kominn með slæman sting í bakið, auk þess sem þar var rosalega mikið af fólki, sem var að borða ís og njóta dagsins. Þaðan hljóp ég svo framhjá Konungshöllinni á Gamla Stan og þaðan aftur yfir á Slussen þar sem ég kláraði.

Tíminn: 1:51:56

Ég er nokkuð sáttur við það. Eina takmarkið hjá mér í þetta skiptið var að klára hlaupið og gera það helst á undir tveimur tímum. Það tókst. Það er aðeins verra að gera þetta einn. Maður hefur enga hvatningu og ég þurfti að halda á vatninu allan tímann. Auk þess þurfti ég stundum að bíða á rauðu ljósi, en það skipti ekki neinu svakalegu máli. Núna eru um tveir tímar síðan ég kom heim og ég er að sötra einhvern prótínsjeik og reyna að jafna mig í löppunum sem eru afskaplega þreyttar. Mér fannst aldrei reyna sérstaklega á lungun í hlaupinu, en þegar ég kom heim þá hóstaði ég mikið sem er búið að lagast núna. En það sem hefur verið að bögga mig fyrst og fremst í hlaupum að undanförnu hefur verið að lappirnar þreytast verulega. Það var þó ekki jafn mikið vandamál í dag og ég bjóst við.

Ég er afskaplega ánægður með þetta. Ég er dálítill nörd og ég verð að játa að það sem hefur haldið mér gangandi í gegnum þetta hefur verið að halda utanum árangurinn. Það að prenta út prógrammið og skrifa á það tíma og vegalengdir eftir hvert hlaup hefur hjálpað mér. Einnig er það að nota GPS tækið í iPhone-inum gríðarlega skemmtilegt þar sem maður hefur eitthvað til að keppa við. Ég er viss um að ég hefði ekki enst jafnlengi í þessu ef ekki hefði verið fyrir það. Einnig er Stokkhólmur alveg einstaklega falleg borg og hérna er alveg frábært að hlaupa. Hérna er endalaust af fallegum leiðum og það sem hjálpaði mér klárlega í dag var að ég var að hlaupa alveg nýja leið. Hafði t.a.m. aldrei hlaupið yfir Vesturbrúna, sem er algjörlega æðisleg.

Ég er sáttur.