Rúst

Ég er allur í rúst eftir leikinn með Diðrik í gær. Það er óhætt að segja að ég hafi átt betri daga í boltanum. Ekki meira um það

Júdas

Þegar ég var skiptinemi í Venezuela fyrir einvherjum 5 árum horfði ég alltaf á spænska boltann í sjónvarpinu. Uppáhaldsliðið mitt var (og er enn) Barcelona. Ég sá þá í fyrsta skipti Luis Figo spila og fannst mér hann alveg einstakur leikmaður. Síðan þá hefur hann verið uppáhaldsleikmaðurinn minn (reyndar fyrir utan þá, sem spila fyrir Liverpool).

Alveg þangað til í dag. Hvernig getur maðurinn farið til Real Madrid? Þetta er jafnslæmt og ef Robbie Fowler færi frá Liverpool til Man. United. Allavegana þá er Figo ekki lengur í miklu uppáhaldi hjá mér. Stuðningsmannaklúbbur Figo í Barcelona kom saman í gær og brenndi treyjurnar sínar merktum honum. Það segir meira en mörg orð.

(Ó)heppni

Það hefur löngum fylgt mér að lið, sem ég held með, eru alveg afskaplega óheppin. Góð dæmi þess eru Stjarnan í handbolta og Liverpool í fótbolta. Þegar NBA deildin var sem vinsælust fyrir nokkrum árum hélt ég með Boston Celtics, sem aldrei unnu neitt, en hataði Chicago Bulls. Á hverju ári hélt ég með nýju og nýju liði í úrslitunum, Portland, Utah, Phoenix, en alltaf unnu Bulls og ég svekkti mig alveg ofboðslega. Ég flutti svo til Chicago í fyrra og viti menn, ég byrjaði að halda með Bulls og er það nú svo komið að mér er bara mjög annt um þetta lið. En núna geta þeir auðvitað ekki neitt. Ég veit ekki af hverju ég er að fylgjast með íþróttum, því ég verð alltaf bara fyrir stöðugum vonbrigðum.

Ég var núna að lesa á vefsíðu Chicago Tribune, að Tracy McGrady ætli að fara til Orlando og verði þar ásamt Grant Hill. Ég skil þessa menn ekki, því Orlando er ömurlega leiðinleg borg. “Gerviborg”, einsog Phil Jackson kallaði hana, þar sem það eina, sem fólk gerir er að hanga í verlsunarmiðstöðvum. Af hverju í ósköpunum komu þessir menn ekki til Chicago?? Nú vona ég bara að Eddie Jones komi frá Charlotte. Þá ætti Chicago að geta byggt upp ágætislið.

Cubs

Í gær ákvað ég að sleppa því að lesa stjórnmálafræði og skella mér á völlinn. Ég fór með þrem vinum mínum að sjá Chicago Cubs á móti Arizona í hafnabolta. Auðvitað unnu Cubs, 4-1. Wrigley Field er sennilega sá fallegasti íþróttavöllur, sem ég hef komið á og stemningin er einstök.

EM

Ég var að komast að því að Evrópukeppnin byrjar áður en ég kem heim. Ég verð því að láta taka upp fyrir mig fyrsta leikinn með Hollandi, sem er mitt lið. Reyndar hef ég dálitlar tilfinningar til Tékka, þar sem uppáhaldsknattspyrnumaðurinn minn, Patrik Berger leikur með þeim. Annars eru hérna tvær ágætar Euro 2000 síður: Teamtalk Euro 2000 og Eurofinals 365.