Pop-under auglýsingar

Þetta er mjög gott málefni. Þessar pop-under auglýsingar (gluggar, sem opnast undir þeim glugga, sem þú ert að skoða) eru orðnar verulega pirrandi, þrátt fyrir að þær séu bara búnar að vera í gangi í nokkra mánuði. Núna virðast fyrirtæki, sem hýsa heimasíður einstaklinga vera farnar að nota þetta til að ná inn meiri pening.

Ég hef orðið var við auglýsingar t.d. hjá gummajoh.net. Þar koma upp alls kyns klám fídusar, svo sem að auglýsingarnar bjóða manni strax að setja inn einhver forrit og einnig spyrja þær mann hvort maður vilji breyta um upphafssíðu. Þetta er óþolandi og er árás á heimasíður viðkomandi einstaklinga. Sem betur fer er ég svo heppinn að skólinn minn vistar mína heimasíðu.

Þetta er einstaklega neikvætt sérstaklega þegar um persónulegar heimasíður, því sá sem heldur uppi síðunni getur lítið gert í málinu, nema segja upp þjónustunni (sem er jú ókeypis).

Hrekkjusvín.is

Björgvin Ingi skrifar mjög góða grein á hrekkjusvín.is, þar sem hann gagnrýnir hrekkjusvin.is, sem og önnur vefrit. Ég er nokkuð sammála greiningu hans á hrekkjusvínum.

Á hrekkjusvínum hafa verið birtar alltof margar leiðinlegar greinar um allt og ekki neitt (og hef ég ábyggilega skrifað einhverjar). Inná milli hafa þó leynst margar góðar greinar og tel ég að ritið eigi bjarta framtíð ef að vel tekst til með endurskipulaggningu.

Ég tel að það sé markaður fyrir vefrit, sem sé fjölbreytt og aðhyllist ekki endilega eina ákveðna stjórnmálaskoðun. Þrátt fyrir að hrekkjusvin þurfi að viðhalda fjölbreytninni þá er það rétt hjá Björgvini að ritið þarf að marka sér skýra ritstjórnarstefnu.

Netfíkn – (framhald)

Ég var fyrir nokkrum dögum að tala um netfíkn mína. Ég á nefnilega nokkuð erfitt með að halda mér frá netinu og tölvupósti í langan tíma.

Í byrjun sumars ákvað ég að taka stórt skref og ég sagði upp áskrift að kapal internet tengingunni minni. Þannig að síðan þá hef ég þurft að skoða netið í gegnum 56k mótald, sem er óþolandi. Við þetta hefur hins vegar netnotkun mín (utan vinnu) minnkað mjög mikið.

Í póstinum í dag kom hins vegar bréf frá AT&T og vilja þeir endilega fá mig aftur í viðskipti. Þeir bjóða mér nú fyrstu 6 mánuðina á helmingsafslætti. Ég skal alveg viðurkenna að ég mun eiga mjög erfitt með að hafna því tilboði. Það er svo spurning hvernig þetta fari með mig.

Netfíkn

Ég held að það sé nokkuð ljóst að ég er frekar háður netinu. Björgvin Ingi skrifar á síðunni sinni að hann eigi erfitt með að halda sér frá því að skoða tölvupóstinn sinn á nokkurra mínútna fresti. Ég er að glíma við svipað vandamál. Ég er alltaf að kíkja á póstinn minn, í von um að eitthvað nýtt sé þar. Einnig kíki ég alltof oft á sumar síður á netinu í von um að þær hafi verið uppfærðar.

Núna er í gangi leikur á milli Liverpool og Bayern Munchen um Super Cup, það er hvað sé besta lið í Evrópu. Þessi leikur er sýndur á minni uppáhaldsstöð, Fox Sports World, en þar sem ég er í vinnunni, þá verð ég að láta mér duga að taka hann upp. Vegna þess þarf ég að forðast flestar þær vefsíður, sem ég skoða reglulega til að ég sjái ekki úrslitin, og ég þori ekki að skoða póstinn min af ótta við að einhver hafi í kvikindisskap sent mér úrslitin. Þetta er auðvitað mjög erfitt og ég hef átt erfitt með að hemja mig síðasta klukkutímann.

Ég reyni að neita fíkn minni og segi bara einsog Björgvin: Ég er ekki háður tölvum, ég get alveg lifað í dag án þess að lesa tölvupóstinn minn (á klukkutíma fresti)

Tiltekt

Ég var í gær að taka til í Entourage, póstforritinu á makkanum mínum. Var að setja inn nýjar addressur og eyða gömlum pósti. Ég hafði þá stefnu að halda aðeins eftir persónulegum pósti, það er bréfum frá vinum og ættingjum.

Allavegana, þá eftir alla tiltektina bæði á Northwestern reikningnum mínum og Hotmail reikningnum hafði ég hent um 1500 skilaboðum. Það finnst mér vera hreinasta geðveiki. Þrátt fyrir að það sé ekki nema svona 6-7 mánuðir síðan ég hreinsaði til síðast.

Einnig er athyglisvert hvað sumt fólk er með margar e-mail addressur, sem það notar. Ég sjálfur nota 4 addressur, 2 hjá Danól, eina hjá Northwestern og eina hjá Hotmail. Auk þess hef ég stofnað einhverja Yahoo! reikinga fyrir rusplóst. Mjög margir í addressubókinni minni eru með 2-3 addressur. Jens slær þó metið því hann var með 6.

RSS Tenglar

Ég var að uppfæra aðeins tengla síðuna mína. Ég hafði ekki lagað þá síðu lengi. Allavegana þá setti ég inn lítinn ramma með RSS uppfærslum. Því koma þar nýjustu fyrirsagnirnar á þeim íslensku síðum, sem ég heimsæki oftast. Einnig uppfærði ég þær erlendu síður, sem ég skoða oft.

Þetta virkar ekki fyrir Netscape 4. Fyrir þá, sem eru að skoða þessa síðu með Netscape 4, í guðanna bænum, skiptið um ‘browser’ eða einfaldlega uppfærið.