Óvönduð vinnubrögð í Kastljósinu

Ja hérna, Kastljósið fjallaði áðan um klámvæðingu í auglýsingabransanum.

Þar var þáttastjórnandinn mjög snjall og sýndi auglýsingu fyrir Puma, sem hann sagðist hafa rekist á. Hefði þessi sami þáttastjórnandi eytt fimm mínútum í að rannsaka tilurð þessarar auglýsingar, þá hefði hann komist að því að hún er gabb og er ekki komin frá Puma. Þáttastjórnendur í Ríkissjónvarpinu ættu að sýna aðeins meiri ábyrgð í þáttagerð.

Sunnudagskvöld

Vá hvað 24 er góður þáttur. Ég held að það hafi aldrei verið sjónvarpsþáttur, sem heldur mér svona ótrúlega spenntum nær allan tímann. Í endan á þættinum, sem var sýndur í kvöld var ég staðinn upp, því ég gat ekki setið af spenningi. Ég var alveg heillaður af fyrstu seríunni af 24 en hélt að seinni serían hlyti að valda mér vonbrigðum. Það hefur hins vegar ekki gerst.

Sunnudagskvöld eru einu kvöldin, þar sem ég sit límdur við skjáinn í langan tíma. Boomtown er mjög góður þáttur og svo líka 60 Minutes. Síðan hef ég haft mjög gaman af “20. öldinni”. Mjög gaman að sjá öll þessi myndskeið. Svo fyllist ég alltaf gríðarlegu þjóðernistolti þegar afrek Íslendinga eru þulin upp, hvort sem það var verið að tala um sigrana í landhelgismálinu eða sýna þegar Ríkharður Daðason skoraði gegn Frökkum.

Gullgrafarar

Fox sjónvarpsstöðin, sem hefur gert þætti einsog “Whoe wants to marry a multi-millionaire” er að hefja sýningar á nýjum þætti, Joe Millionaire í Bandaríkjunum.

Þátturinn byggist upp á svipaðan hátt og “The Bachelor”, það er 20 konur berjast um einn mann, sem á 50 milljónir dollara. Eða það halda konurnar. Málið er að í raun er maðurinn bara smiður. Í þættinum er það látið líta út sem hann sé milljónamæringur en í lokaþættinum mun konunni, sem hann velur, vera tjáð að hann sé bara smiður en ekki multi-milljónamæringur. Þannig að þá kemur í ljós hvort allar ástarjátningarnar (sem munu væntanlega koma frá konunum) breytast eitthvað við þær fréttir. Góð hugmynd? Ég veit ekki.

Sjónvarpsrugl

Ég afrekaði það að horfa á þáttinn Rugl.is í fyrsta skipti fyrr í kvöld. Þvílíkur menningarþáttur, sem það nú er. Ég sá að minnsta kosti 10 stelpur kyssast í þættinum, sem hlýtur að vera einhvers konar met. Ég var alltaf að vonast til að ég þekkti eitthvað af fólki í þessum þætti, svo ég gæti hlegið að því hvað það væri vitlaust. Æi, annars langaði mig að skrifa eitthvað fyndið um þennan þátt en það er ekki alveg að takast.

Ég horfði svo á Ísland Andorra (berist fram Andorrrrrrra) á RÚV. Það var ágætisleikur, sérstaklega fyrri hálfleikurinn. Seinni hálfleikurinn var hálfger tímasóun enda var þetta Andorra lið arfaslakt. Ég held að ég hefði geta smellt mér á kantinn hjá þeim og það hefði enginn séð muninn. Mér tókst nú að sóla Arnar Viðars einu sinni í leikfimitíma en það er meira en nokkrum leikmanni Andorra tókst í leiknum.

Annars er þessi sjónvarpsdagskrá hér á Íslandi alveg stórfengleg. Ég er svo “heppinn” að foreldrar mínir eru áskrifendur að öllum íslensku stöðvunum en það breytir litlu, því það er bókstaflega ekkert í sjónvarpinu. Ég veit ekki hvernig þetta verður þegar ég flyt, því sennilega verð ég bara með RÚV og Skjá Einn. Það eina, sem ég horfi á í dag er Sex and the City en ég var ekki með HBO útí Bandaríkjunum og hef því ekki séð marga þætti úr þeirri góðu þáttaröð.

Að lokum vil ég leggja það til að allir skandinavískir og þýskir þættir verði bannaðir.

The Simpsons are going to Brazil

Þessi frétt er nokkuð fyndin.

Málið er að ferðamálaráðið í Rio de Janeiro er búið að kæra Fox vegna síðasta Simpson þáttar. Ég horfði á þáttinn síðasta sunnudag og var hann alger snilld. Lisa ákvað að gefa pening til lítils brasilísk krakka, sem hún missti svo sambandið við, svo Homer ákvað að fara með fjölskylduna sína til Brasilíu.

Í Brasilíu lenda þau í ýmsu og til dæmis er Homer rænt og Bart er gleyptur af snák. Einnig er gert grín að barnaþáttum, sem er mörgum stjórnað af fallegu kvenfólki til að laða að eldri áhorfendur. Ferðamálaráðið í Rio er eitthvað ósátt við þetta og segja þeir að þetta hafi eyðilagt þeirra starf.

Ferðamálaráðið í Rio hefur nefnilega verið iðið við að reyna að fegra ímynd borgarinnar. Það hefur ekki verið gert með því að reyna að leysa samfélagsleg vandamál, heldur hefur það verið gert með því að reyna að fela vandamálin. Ferðamönnum er haldið frá öllum fátækrarhverfunum og lítið er gert úr eymd hins almenna borgara þegar ferðamönnum eru sýndir magnaðir ferðamannastaðir þar í borg.

Ég heimsótti Rio ásamt vinum mínum fyrir nokkrum árum og fannst mér Simpsons þátturinn ekkert vera voðalega móðgandi við borgina. Til dæmis þá var hótelinu okkar rænt tveim dögum eftir að við fórum og við heyrðum margar sögur af svipuðum atburðum.

The Simpsons er uppáhaldssjónvarpsþátturinn minn, ekki síst vegna þess að í þáttunum er hárbeitt ádeila á ýmsa hluti í mannlífinu. Sumir geta ekki sætt sig við þegar bent er á hlutina einsog þeir eru, eða þegar gert er grín af þeim. Fyrir þá er besta lausnin auðvitað að kæra framleiðendur þáttanna. Það breytir hins vegar ekki ástandinu einsog það er í Rio de Janeiro í dag.

Call miss Cleo for a free tarrot reading now!!!

Ja hérna, nú er ég svo aldeilis hissa!

Birth certificate shows Miss Cleo hails from California, not Jamaica

Ég, sem var búinn að sannfærast um krafta Cleo! Ég var að fara að hringja í hana, til að fá spurningarnar á næsta hagfræðiprófi.

Æi, það finnst þetta ábyggilega engum fyndið, nema kannski PR og öðrum, sem búa í Bandaríkjunum.

Box í sjónvarpinu

Sjónvarpsstöðin Fox er án efa sú metnaðarfyllsta í dagskrárgerð hér í Bandaríkjunum. Sem dæmi um frábæra þætti má nefna Who wants to marry a multi-millionaire, Love Cruise, Temptation Island og Glutton Bowl – The world’s greatest eating contest.

Í kvöld ætla þeir á stöðinni að toppa það allt með Celebrity Boxing. Þarna munu útbrunnar stjörnur berjast í alvöru boxi. M.a. mun Vanilla Ice berjast við Todd Bridges. Síðan mun skautastjarnan Tonya Harding berjast við fyrrum ástkonu Bill Clinton, Paulu Jones.

Ef þetta verður ekki snilld, þá mun ég hætta að horfa á sjónvarp.

Bush!!!

Ég hef ekki verið neinn sérstakur aðdáandi George Bush eftir hann settist í embætti forseta hér í þessu landi, sem ég bý í.

Hann hefur sagt og gert ýmislegt, sem hefur pirrað mig, en í dag fór hann yfir strikið. Árlega heldur hann nefnilega “State of the Union” ávarp og er því sjónvarpað. Ég veit ekki hver hefðin er með tímasetninguna, en í þetta skiptið ákvað hann að hafa þetta klukkan 8 á þriðjudagskvöldi. Það er akkúrat á sama tíma og 24 er í sjónvarpinu. ARRRGGGHHHHH!!!!!

Núna gekk Bush of langt.

24

Ég sá að Gummijóh (sem hefur verið að hræða lesendur með jákvæðum skrifum sínum um Apple undanfarið, 1 2) er að tala um 24, sem var greinilega verið að frumsýna á Stöð 2 heima á Íslandi.

Við Hildur höfum fylgst með þessum þáttum síðan þeir voru frumsýndir hérna í nóvember og erum sammála um að þetta sé langbesti þátturinn í sjónvarpinu hérna úti. Ég var líka duglegur í jólafríinu að mæla með þættinum fyrir alla, sem ég þekkti.

Hérna úti er búið að sýna 7 þætti, þannig að klukkan er orðin 8 um morgun, en allir þættirnir gerast á sama sólahringnum. Þetta eru alveg magnaðir þættir. Hildur fékk konu í vinnunni til að taka upp þættina, sem voru sýndir um jólin og því horfðum við á þrjá síðustu þættina seinasta þriðjudag. Spennan hefur haldist í öllum þáttunum. Ég veit ekki um neinn annan sjónvarpsþátt, sem hefur haldið mér jafn spenntum, nema kannski Twin Peaks.

Það er samt nokkuð magnað að þættirnir eru ekki mjög vinsælir hérna úti. Þættir einsog JAG, Frasier og NYPD Blue, sem eru sýndir sama kvöld eru mun vinsælli. Þetta er skrítinn heimur….

En allavegana, horfið á 24. Snilldar þættir!!!

Hank the angry, drunken dwarf

Hank, hinn ávallt blindfulli og reiði dvergur dó í gær, hann var 39 ára gamall. Hank var reglulegur gestur í morgunþætti Howard Stern og hann var vel þekktur eftir að hann hafði komið oft fram í sjónvarpsútgáfu þáttarins, sem er sýnd á E!

Hank þessi kom reglulega fram í þættinum í alls kyns búningum, sem áttu að skemmta áhorfendum. Hann var áfengissjúklingur og mætti ávallt fullur í útsendingu (þrátt fyrir að þáttur Howard Stern sé tekinn upp snemma um morgun) og átti það til að drepast áfengisdauða í miðri útsendingu. Hann var partur af hóp einkar furðulegra einstaklinga, sem koma reglulega fram í þættinum. Það var frekar auðvelt fyrir fólk að fá Hank til að reiðast og átti hann nokkur stórskemmtileg rifrildi, sérstaklega við hinn svarta dverg, Beetlejuice.

Hápunktur ferils hans var sennilega þegar hann var kosinn fallegasti maður í heimi í netkönnun, sem blaðið People stóð fyrir. Heimasíða Hank er á slóðinni Hankthedwarf.com.

Aðdáendur Howard Stern munu sakna Hank.