Draumalandið?

*Þessi grein birtist einnig á [pólitík.is](http://www.politik.is//?id=1550)*

tjorsarver.jpgÍ tíma um sögu Sovétríkjanna, sem ég sótti við Northwestern háskóla í Bandaríkjunum, sagði prófessorinn okkur litla sögu. Við lok valdatíma Stalíns í Sovétríkjunum heimsótti hann fjölskyldu þar í landi. Einsog von var á í Rússlandi fékk hann höfðinglegar móttökur. Hluti af þeim var að gestgjafinn sýndi honum fjölda mynda af fólki. Fólki á öllum aldri, við leik og störf. Þegar myndasýningunni lauk sagði gestgjafinn einfaldlega: “Allir á myndunum eru dánir”, annaðhvort dó fólkið í stríðum, úr hungri, eða voru myrt á annan hátt af stjórnvöldum. Fólkið á myndunum var ekki lengur til.

* * *

Ég verð að viðurkenna það núna að ég hef verið hálf sofandi undanfarin ár. Meðan ég bjó í Bandaríkjunum þá fylgdist ég reglulega með íslenskum fréttum og ekki hefur fréttaþorsti minn minnkað eftir að ég flutti heim. Ég horfi á fréttir á hverjum degi, hlusta sennilega á 3-4 útvarpsfréttatíma á dag og les tvö íslensk blöð. Samt, þrátt fyrir þetta allt, gat ég aldrei gert mér upp mikinn áhuga á álvers-málum okkar Íslendinga. Kannski voru fréttirnar bara of margar og kannski byrjaði heilinn í mér ósjálfrátt að blokka þær út.

Við lestur á Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason rifjuðust upp fyrir mér ósköpin öll af fyrirtækja- og staðanöfnum og ég áttaði mig á að ég var búinn að gleyma fyrir hvað þau stóðu. Norsk Hydro, Rio Tinto, Þjórsárver, Norðlingaölduveita, Impregilo og svo framvegis og framvegis. Ég var búinn að heyra þessi nöfn milljón sinnum, en hafði enga sérstaka skoðun á þeim. Ég var orðinn svo ruglaður að ég vissi ekki einu sinni hver staðan var. Var búið að sökkva Þjórsárverum, eða var framkvæmdin stöðvuð? Á að virkja þessa á, eða er bara búið að tala um það? Virkjanaæðið og fréttirnar af því höfðu gert það að verkum að ég var orðinn ruglaður, hafði ekki hugmynd um hver staða mála væri. Vissi bara að menn vildu virkja.

Ég var ekkert voðalega reiður yfir Kárahnjúkum þegar ég heyrði fyrst um þá virkjun. Sá að það voru aðallega Vinstri-Grænir, sem mótmæltu. En þar sem ég er alls ekki alltaf sammála þeim, þá fóru mótmælin að mestu framhjá mér. Ég hlustaði líka á einhverja sérfræðinga segja að þetta væri svo gott fyrir hagkerfið, en nennti ekkert að hugsa útí það frekar. Ég hafði einfaldlega nóg annað til að hafa áhyggjur af, hafði meiri áhyggjur af stelpum en álverum. Þess vegna fór þetta framhjá mér. Ég var partur af stóra meirihlutanum á Íslandi, sem mótmælti ekki. Ekki endilega af því að ég var svo fylgjandi álverunum, heldur var mér eiginlega nokk sama. Apathy er sennilega rétt orð, en vitlaust tungumál.

* * *

Við lestur á Draumalandinu leið mér á tíðum hálf einkennilega. Á einhverjum tímapunkti breyttist hún í spennusögu um framkvæmdir og virkjanir. Andri Snær gerði mig svo bjartsýnan á framtak landsmanna að ég sannfærðist fljótlega við lesturinn um að ég væri á móti frekari virkjunum. En ég var búinn að gleyma hvort það væri búið að sökkva Þjórsárverum. Var ég of seinn? Kannski væri þetta einsog í heimboðinu, að ég myndi lesa alla þessa góðu hluti um íslenska náttúru og svo fá þær fréttir að það væru allir dánir, að það væri búið að eyðileggja landið. En sem betur fer, þá las ég að framkvæmdunum var frestað og ég á því ennþá sjens á að gera eitthvað.

* * *

Bók Andra Snæs mun sennilega ekki breyta skoðunum þeirra, sem hafa sterkustu skoðanirnar í virkjanamálum. Valgerður Sverrisdóttir mun ekki sjá að sér og bókin gerir eflaust ekki mikið í að styrkja skoðanir þeirra, sem mótmæltu virkjunum mest. Þetta fólk hefur of sterka sannfæringu fyrir þessu máli.

Það, sem bókin getur gert og hefur gert í mínu tilfelli, er að vekja okkur hin. Okkur, sem höfum látið þetta yfir okkur ganga og samþykkt þetta með þögninni. Hún dregur saman staðreyndirnar í málinu og fær okkur til að hugsa. Er þetta landið, sem við viljum byggja? Þurfum við á þessu að halda? Erum við ekki fátækari en áður, þrátt fyrir að hagvöxtur hafi aukist?

Ég segi allavegana að nú er mál að linni. Samfylkingin hefur ýtt undir álverin með því að taka ekki afdráttarlausa afstöðu gegn þeim, heldur hefur hún verið of hrædd við að styggja kjósendur. Næstu Alþingiskosningar hljóta að snúast að miklu leyti um áframhald álversstefnu íhalds- og framsóknarmanna. Með hverjum ætlum við þá að standa? Það hlýtur að vera takmark okkar jafnaðarmanna að fella núverandi ríkisstjórn og binda endi á þetta álæði. Þótt fyrr hefði verið.

Ál-þjóð

Já, ég veit að efnahagsástandið útá landi er sennilega á mörgum stöðum ekki jafngott og hér í bænum.

Og já, ég veit að fólkið þar er sennilega þreytt á því að hinir í bænum séu að flytja suður.

En samt, þá á ég erfitt með að skilja og mér þykir í raun afar sorglegt að sjá það þegar að fólk safnast saman í samkomuhúsi viðkomandi bæjar til að [fagna](http://veftivi.visir.is/veftivi/main.do?treeId=1002&progId=12315&itemId=11672) því að bandarískt risafyrirtæki hafi ákveðið á fundi á Manhattan að byggja enn eina risa-ál-verksmiðju hér á landi.

Og enn sorglegra þykir mér að ráðherrar þessa lands mæti á fundi á Manhattan og bíði þar ofurspenntir á biðilsbuxum eftir því að eitthvað bandarískt álfyrirtæki komi og bjargi kjördæminu sínu.

En ég er víst í minnihluta hér á landi og seint mun ég skilja hvernig allir hugsa.


Sjá einnig [hér](http://maggabest.blogspot.com/2006/03/ri-okkur.html).

Jafnrétti?

Ekki það að ég hafi minnsta vit á málinu (eða það komi mér hið minnsta við), en af hverju í ÓSKÖPUNUM gera menn strax ráð fyrir því að kyn þáttakenda hljóti að [skipta einhverju máli í nýsköpunarverðlaunum forsetans](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060224/FRETTIR01/60224018/1091).

Halda menn því virkilega fram að það séu líkur á því að dómnefndin hafi hafnað konum vegna kyns þeirra? Þetta er hreinlega ofar mínum skilningi, en kannski horfi ég bara of barnalega á hlutina. Ég á bara bágt með að trúa því að menn láti kyn þáttakenda hafa áhrif á sig, sérstaklega þegar um verðlaun forsetans er að ræða.

Er ekki nær lagi að [gagnrýnendurnir](http://www.runolfur.is/?p=165) séu að reyna að slá sér upp til riddara, sem einhvers konar jafnréttishetjum?

Múrinn og Hugo

Chavez11.jpgÞau á Múrnum virðast hafa afskaplega veikan blett fyrir Hugo Chávez. Af hverju er erfitt að skilja.

Í dag er á Múrnum grein, þar sem agnúast er útí (að mínu mati hálf kjánalegar) yfirlýsingar Condoleeza Rice um Hugo Chávez: [Rice finnur rauðu hættuna í suðri](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1886&gerd=Frettir&arg=7). Í þeirri grein er að finna marga skringilega punkta (feitletranir mínar):

>Rice sagði að ríkisstjórn Chávez væri ógn við lýðræðið í þessum heimshluta og að valdhafar í Caracas hvettu stjórnvöld annarra ríkja til að feta sig út af braut lýðræðislegra stjórnarhátta. **Það virðist því hafa farið framhjá fólki í Hvíta húsinu að Hugo Chávez var kjörinn forseti Venesúela í lýðræðislegum kosningum á sínum tíma, vann með yfirburðum þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem landsmönnum gafst kostur á að lýsa á hann vantrausti og að flokkarnir sem styðja ríkisstjórn Chávez unnu stórsigur í þingkosningum í byrjun desember á síðasta ári.** Framlag Bandaríkjastjórnar til varnar lýðræðinu þá var að hvetja stjórnarandstöðuflokkana til að sniðganga kosningarnar, sem þeir gerðu með þessum ljómandi góða árangri

Chávez **ER** ógn við lýðræðið. Þrátt fyrir að hann sé á móti Bandaríkjunum, þá þýðir það ekki að hann sé góður gæi. Já, hann vann lýðræðislegar kosningar, en það afsakar hins vegar ekki hvað hann hefur gert síðan hann komst til valda.

Bara til að nefna nokkra hluti, þá hefur Chávez t.d. lagt niður eftri deild þingsins í Venezuela, þannig að núna þarf hann bara að fara í gegnum eina deild með ný lög. Vegna þess að hann hafði aðeins lítinn meirihluta á þingi í upphafi, þá breytti hann lögunum þannig að nú þarf ekki lengur 2/3 atkvæða til að breyta lögum, heldur aðeins einfaldan meirihluta. Hann hefur nú algjöra stjórn á hernum, en þingið hafði áður hlutverk í stjórn hersins. Chávez stjórnar einnig stofnuninni, sem sér um kosningar í Venezuela.

Chávez hefur gefið sjálfum sér leyfi til að reka dómara og hefur lengt kjörtímabilið sitt um eitt ár. Hann hefur stækkað hæstarétt úr 20 í 32 dómurum og með því fyllt réttinn af dómurum hliðhollum sjálfum sér. Hugo Chávez ER ógn við lýðræðið í þessum heimshluta. Hversu mikið þarf hann eiginlega að gera að mati Múrsverja til að teljast ógn við lýðræði?

>Rice sagði ennfremur að hin nánu tengsl Venesúela og Kúbu væru „sérstaklega hættuleg“ og að „alþjóðasamfélagið“ yrði að vera betur á verði fyrir hönd almennings í Venesúela. Ekki er ljóst hverjum er hætta búin af þessum tengslum

Hvað með fólkinu sjálfu í landinu? Fólki, sem gat mótmælt í Venezuela. Það þykir hreint ekki svo sjálfsagt í dag að mótmæla í Venezuela í dag og pólitískum föngum hefur fjölgað undir stjórn Hugo Cavez. Hægt er að handtaka fólk ef það sýnir embættismönnum “vanvirðingu”. Auðvitað er ástandið í Venezuela, hvað varðar réttindi borgaranna til að mótmæla, ekki jafn slæmt og á Kúbu, en Chávez hefur ítrekað líst aðdáun sinni á Castro og hans stjórnarháttum. Hann hefur ekki (allavegana ekki svo ég viti) mótmælt meðferð Fidels á pólitískum andstæðingum sínum.

>Vissulega er það fleira sem stjórnin í Caracas hefur gert til að skaprauna George W. Bush og félögum. Til dæmis lagði hún líknarfélögum til ódýra olíu til húshitunar fyrir fátækt fólk í Bandaríkjunum fyrr í vetur og hefur keypt heilbrigðisþjónustu af Kúbverjum í stórum stíl.

Hvað nákvæmlega hefur SH fyrir sér í þessu? Getur hann nefnt einhver dæmi þess að GWB hafi pirrað sig útí að Venezuela hafi selt ódýra olíu til líknarfélaga? Eða er þetta bara byggt á almennum sleggjudómum, sem þeir á Múrnum virðast stundum hafa útí allt og alla, sem koma frá Bandaríkjunum?

>Ekki þarf að efast um að ríkisstjórn Hugo Chávez verðskuldi ýmiss konar gagnrýni eins og allar aðrar ríkisstjórnir.

Hvaða bull er þetta eiginlega? Á sama hátt væri hægt að skrifa að ríkisstjórnin í Norður Kóreu ætti skilið gagnrýni einsog allar aðrar ríkisstjórnir. Málið er auðvitað að ríkisstjórnin í Venezulea á skilið margfalt meiri gagnrýni en flestar aðrar ríkisstjórnir. Það er ekki hægt að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á Chávez með því að halda því fram að allar ríkisstjórnir eigi skilið gagnrýni.

Þeir á Múrnum virðast hafa skringilega veikan blett fyrir Hugo Chávez. Já, Hugo hefur haldið úti verkefnum, sem hafa skilað einhverju til fátæks fólks í landinu. En hann hefur getað leyft sér þau verkefni vegna gríðarlega hás olíuverðs. Og já, hann er töffari, sem dissar Bandaríkin. (og já, hann fílar basbeall – að mínu mati mikill kostur)

En ef ekki væri fyrir hátt olíuverð, þá væri þessi bólívarska bylting hans farin á hausinn og það sem eftir stæði væri að lýðræðið í Venezuela stendur umtalsvert veikari fótum en áður.

Prófkjör Samfylkingarinnar

Jæja, [prófkjör í Reykjavík](http://www.samfylking.is/?i=4&o=2700) hjá afturhaldskommatittum á morgun. Við hér á eoe.is kjósum svona og hvetjum ykkur auðvitað til að gera það líka:

1. Dagur B
2. Stefán Jón
3. Sigrún Elsa
4. Andrés
5. Oddný
6. Helga Rakel
7. Steinunn Valdís
8. Dofri/Stefán Ben/Stefán Jóhann – get ekki gert uppá milli þessara.

Jammm, góður listi! 15 sinnum betri en Íhaldið, svo mikið er víst.

Fleiri skopmyndir

Hérna er [frábært samansafn af skopmyndum](http://www.cagle.com/news/Muhammad/1.asp) þar sem fjallað er um viðbrögðin við skopmyndunum af Múhameð spámanni. Sumar myndanna eru hreint frábærar.

Teiknimyndasögur

Það er magnað að hugsa til þess að þrátt fyrir milljón fréttir og fréttamyndir af mótmælum múslima um allan heim, þá hefur engin fréttastofa (að því minnsta ekki svo ég hef séð) tekið fyrir af hverju múslimar eru brjálaðir akkúrat núna.

Á Dailykos, sem er bandarískur vinstri-vefur (vinstri, þá á bandaríska vísu – semsagt demókratar), er ágætis [samantekt á því hvernig þessi vitleysa öll byrjaði](http://www.dailykos.com/storyonly/2006/2/5/13149/60748). Þrátt fyrir að [mér hafi fundist asnalegt](https://www.eoe.is/gamalt/2006/01/31/10.13.56/) að leggja til að myndum af Múhameð sé dreift bara til að sýna að við getum gert það, líkt og Egill Helga gerði, þá þýðir það ekki að mér eitthvað vit vera í viðbrögðum múslima. Allavegana að greininni. Upptökin á þessu eru í hinu skemmtilega landi Sádí Arabíu:
Continue reading Teiknimyndasögur

Móðgum múslima!

[Þetta](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060130/SKODANIR0201/60130076/1080) hlýtur að vera asnalegasti pistill, sem Egill Helgason hefur skrifað á Vísi.is: [Birtum fleiri skopmyndir](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060130/SKODANIR0201/60130076/1080). Egill fjallar þarna um viðbrögð múslima við því að danskt blað hafi birt skopmynd af Múhameð spámanni.

Egill, sem hefur verið iðinn við að verja kristna íhaldsmenn, en bölvast útí múslimska íhaldsmenn að undanförnu, er ósáttur við viðbrögð múslima við skopmyndinni. Viðbrögðin eru að mörgu leyti öfgakennd, en þó að einhverju leyti skiljanleg, þar sem það þykir ekki til siðs í íslam að reyna að búa til myndir af Múhameð spámanni. Því er skiljanlegt að múslimar móðgist þegar að skopmynd birtist af honum. Ólíkt kristnum mönnum, sem birta kristmyndir útum allt, þá er það bannað í íslam að birta myndir af Múhameð.

Skopteikningar af Múhameð eru því asnalegar og sanna ekki neitt. Þær virðast vera birtar einungis til að móðga múslima og særa. Okkur kann að finnast það bjánalegt að þeir móðgist við slíkt, en svona er það samt. Því er tillaga Egils í lok pistilsins afskaplega skrýtin:

>Það má alls ekki beygja sig fyrir þessu, heldur er eina andsvarið að birta fleiri svona myndir – ofbeldismönnunum mun vaxa í augum að þurfa að ofsækja þúsundir blaðamanna, ritstjóra og netverja. Þið gætuð til dæmis kópíerað myndirnar sem birtist með þessari grein og sett þær sem víðast.

Þarna er Egill væntanlega að gefa í skyn að ofbeldismenn séu þeir einu, sem móðgist við slíkar myndbirtingar. Það er náttúrulega tóm tjara. Fullt af góðu fólki móðgast um leið þegar að trú þeirra er vanvirt. Það kann að vera að okkur finnist þessi trú skrýtin, en það gefur okkur samt ekki leyfi til að gera lítið úr henni. Og það að virtur fjölmiðlamaður leggi til að við reynum að gera sem mest í að móðga múslima er afskaplega kjánalegt.

Prófkjör í Kópavogi

[Jens vinur minn](http://www.jenssigurdsson.com/) er að bjóða sig fram í 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi. Ef þú býrð í Kópavogi, þá mæli ég eindregið með því að þú kjósir hann og fáir jafnvel vini og vandamenn til að gera hið sama.

Jens er nefnilega snillingur!

Hann er afburða greindur og er einn af fáum pólitíkusum, sem hefur áhuga á breiðari línum í pólitík í stað þess að standa í almennu dægurþrasi. Við erum svo oftast sammála um pólitík, sem er jákvætt. Höfum fylgt hægri og vinstri sveiflum hjá hvor öðrum í gegnum árin.

En allavegana, ef þið hafið áhuga á bæjarmálum í Kópavogi (sem ég hef reyndar ekki), þá mæli ég með að þið tékkið á [síðunni hans Jensa](http://www.jenssigurdsson.com/), sem er ekki aðeins ein besta bloggsíða landsins, heldur inniheldur hún líka hugmyndir Jensa og hans stefnu í bæjarmálum.

Áfram Jens!