Múrinn og Hugo

Chavez11.jpgÞau á Múrnum virðast hafa afskaplega veikan blett fyrir Hugo Chávez. Af hverju er erfitt að skilja.

Í dag er á Múrnum grein, þar sem agnúast er útí (að mínu mati hálf kjánalegar) yfirlýsingar Condoleeza Rice um Hugo Chávez: [Rice finnur rauðu hættuna í suðri](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1886&gerd=Frettir&arg=7). Í þeirri grein er að finna marga skringilega punkta (feitletranir mínar):

>Rice sagði að ríkisstjórn Chávez væri ógn við lýðræðið í þessum heimshluta og að valdhafar í Caracas hvettu stjórnvöld annarra ríkja til að feta sig út af braut lýðræðislegra stjórnarhátta. **Það virðist því hafa farið framhjá fólki í Hvíta húsinu að Hugo Chávez var kjörinn forseti Venesúela í lýðræðislegum kosningum á sínum tíma, vann með yfirburðum þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem landsmönnum gafst kostur á að lýsa á hann vantrausti og að flokkarnir sem styðja ríkisstjórn Chávez unnu stórsigur í þingkosningum í byrjun desember á síðasta ári.** Framlag Bandaríkjastjórnar til varnar lýðræðinu þá var að hvetja stjórnarandstöðuflokkana til að sniðganga kosningarnar, sem þeir gerðu með þessum ljómandi góða árangri

Chávez **ER** ógn við lýðræðið. Þrátt fyrir að hann sé á móti Bandaríkjunum, þá þýðir það ekki að hann sé góður gæi. Já, hann vann lýðræðislegar kosningar, en það afsakar hins vegar ekki hvað hann hefur gert síðan hann komst til valda.

Bara til að nefna nokkra hluti, þá hefur Chávez t.d. lagt niður eftri deild þingsins í Venezuela, þannig að núna þarf hann bara að fara í gegnum eina deild með ný lög. Vegna þess að hann hafði aðeins lítinn meirihluta á þingi í upphafi, þá breytti hann lögunum þannig að nú þarf ekki lengur 2/3 atkvæða til að breyta lögum, heldur aðeins einfaldan meirihluta. Hann hefur nú algjöra stjórn á hernum, en þingið hafði áður hlutverk í stjórn hersins. Chávez stjórnar einnig stofnuninni, sem sér um kosningar í Venezuela.

Chávez hefur gefið sjálfum sér leyfi til að reka dómara og hefur lengt kjörtímabilið sitt um eitt ár. Hann hefur stækkað hæstarétt úr 20 í 32 dómurum og með því fyllt réttinn af dómurum hliðhollum sjálfum sér. Hugo Chávez ER ógn við lýðræðið í þessum heimshluta. Hversu mikið þarf hann eiginlega að gera að mati Múrsverja til að teljast ógn við lýðræði?

>Rice sagði ennfremur að hin nánu tengsl Venesúela og Kúbu væru „sérstaklega hættuleg“ og að „alþjóðasamfélagið“ yrði að vera betur á verði fyrir hönd almennings í Venesúela. Ekki er ljóst hverjum er hætta búin af þessum tengslum

Hvað með fólkinu sjálfu í landinu? Fólki, sem gat mótmælt í Venezuela. Það þykir hreint ekki svo sjálfsagt í dag að mótmæla í Venezuela í dag og pólitískum föngum hefur fjölgað undir stjórn Hugo Cavez. Hægt er að handtaka fólk ef það sýnir embættismönnum “vanvirðingu”. Auðvitað er ástandið í Venezuela, hvað varðar réttindi borgaranna til að mótmæla, ekki jafn slæmt og á Kúbu, en Chávez hefur ítrekað líst aðdáun sinni á Castro og hans stjórnarháttum. Hann hefur ekki (allavegana ekki svo ég viti) mótmælt meðferð Fidels á pólitískum andstæðingum sínum.

>Vissulega er það fleira sem stjórnin í Caracas hefur gert til að skaprauna George W. Bush og félögum. Til dæmis lagði hún líknarfélögum til ódýra olíu til húshitunar fyrir fátækt fólk í Bandaríkjunum fyrr í vetur og hefur keypt heilbrigðisþjónustu af Kúbverjum í stórum stíl.

Hvað nákvæmlega hefur SH fyrir sér í þessu? Getur hann nefnt einhver dæmi þess að GWB hafi pirrað sig útí að Venezuela hafi selt ódýra olíu til líknarfélaga? Eða er þetta bara byggt á almennum sleggjudómum, sem þeir á Múrnum virðast stundum hafa útí allt og alla, sem koma frá Bandaríkjunum?

>Ekki þarf að efast um að ríkisstjórn Hugo Chávez verðskuldi ýmiss konar gagnrýni eins og allar aðrar ríkisstjórnir.

Hvaða bull er þetta eiginlega? Á sama hátt væri hægt að skrifa að ríkisstjórnin í Norður Kóreu ætti skilið gagnrýni einsog allar aðrar ríkisstjórnir. Málið er auðvitað að ríkisstjórnin í Venezulea á skilið margfalt meiri gagnrýni en flestar aðrar ríkisstjórnir. Það er ekki hægt að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á Chávez með því að halda því fram að allar ríkisstjórnir eigi skilið gagnrýni.

Þeir á Múrnum virðast hafa skringilega veikan blett fyrir Hugo Chávez. Já, Hugo hefur haldið úti verkefnum, sem hafa skilað einhverju til fátæks fólks í landinu. En hann hefur getað leyft sér þau verkefni vegna gríðarlega hás olíuverðs. Og já, hann er töffari, sem dissar Bandaríkin. (og já, hann fílar basbeall – að mínu mati mikill kostur)

En ef ekki væri fyrir hátt olíuverð, þá væri þessi bólívarska bylting hans farin á hausinn og það sem eftir stæði væri að lýðræðið í Venezuela stendur umtalsvert veikari fótum en áður.

3 thoughts on “Múrinn og Hugo”

  1. Já ágætis pistill. Það sem kannski er undirliggjandi í umfjöllun múrsins þrátt fyrir að nálgunin sé ekki rétt er vitanlega sú staðreynd að öll gagnrýni Bush stjórnarinnar á skort á lýðræðislegu stjórnarfari í öðrum ríkjum missir marks og er ótrúverðug sé litið til þess hvernig þeir sjálfir hafa haldið á málum að undanförnu. Frasinn um að kasta steini úr glerkastla á vel við um það.
    Það að ætla sér að réttlæta skort á lýðræðislegu stjórnarfari hjá Cháves með því að það sé ekkert skárra í USA eru hinsvegar ekki boðleg rök. Hinsvegar er ekkert nema eðlilegt að benda á hræsnina í gagnrýni Rice. Stjórn sem setti á fót Guantanamobúðirnar og neitar að loka þeim getur ekki með góðri samvisku úthrópað aðra fyrir svipaða hegðun gagnvart lýðræðinu. Við sem viljum eðlilegt stjórnarfar eigum þess vegna að halda uppi gagnrýni á báða aðila.

    kv. einum af óðu framsóknarmönnunum sem fylgjast með síðunni 😉

  2. Gleymum því ekki að framan af reyndi Múrinn að verja Múgabe sé gúddígæja sem væri bara að taka af “hvíta manninum” því sem hann stal. Þó hann hafi raunar stolið margfalt meira af innfæddum, óevrópskum þegnum sínum.

    Gleymum því heldur ekki að sama lið er mjög upptekið af öllum “góðum hlutunum” sem Castro hefur gert fyrir þjóð sína. Og horfir fram hjá bláköldum mannréttindabrotum óstjórnar hans.

    Gleymum enn heldur ekki að sama liði fannst Lula fínasti gaur þangað til hann “seldi sig” Vesturveldunum.

    Og með “sama liði” á ég ekki bara við Múrverja eða höfund pistilsins, heldur almennt séð þennan þjóðflokk vinstrimanna, sem virðast þjáðir af hálfgerðu “Washingtonsiðgæði”, nema hvað í andverðum pólitískum rétttrúnaði.

    Það á líka eftir að fagna því þegar brauðfótastjórn konungsins í Nepal verður felld af maóistum eða ef Naxalítar verða indversku Singh-stjórninni að falli.

    Stundum snýst stuðningur við “and-vestræna” einstaklinga eða hópa upp í farsa. WSF mætti kalla leikhús slíks. Mahatir hinn malayíski var dæmi um slíkt. Kókabóndinn Morales er annað dæmi.

    Mergurinn málsins er Chavez, Múgabe, Castro, Morales; þetta eru allt “óvinir óvinanna” og óvinur óvinar míns hlýtur, samkvæmt þessu, að vera vinur minn. Innan vissra marka þó. Með öðrum (frægum) orðum, Chavez er “þeirra tíkarsonur” 🙂

  3. Ég mana Ágúst til að finna grein eftir mig á Múrnum þar sem Múgabe er varinn. Eða aðra ritnefndarmenn Múrsins, t.d. Steinþór og Sverri.

    Þetta er nýjasta grein Múrsins um Múgabe:

    http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1615&gerd=Frettir&arg=6

    Þú ert væntanlega til að vísa til greina eftir Stefán Pálsson sem ýmsir túlkuðu sem málsvörn fyrir Múgabe. Í einni af þeim fyrstu stendur engu að síður orðrétt:

    „Um það verður ekki deilt, að stjórn Roberts Mugabe er gjörspillt og að forsetinn skirrist ekki við að grípa til ofbeldis ef pólitískir hagsmunir eru í húfi. Þá er það jafnljóst, að það er fyrst og fremst hentistefna sem veldur því Mugabe lætur nú til skarar skríða í að gera búgarða hvíta minnihlutans upptæka. Ofbeldi og manndráp eru aldrei réttlætanleg – skiptir engu hvort þau eru framin í nafni baráttu gegn fátækt, stríðs gegn hryðjuverkum eða einhvers annars.“

    Sjá þennan hlekk: http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=372&gerd=Frettir&arg=2

    Finndu setningu á Múrnum sem hægt er að túlka svo að einhver þar á bæ hafi talið Múgabe „gúddígæja“ en ekki þann gjörspillta hentistefnu- og ofbeldismann sem lesendur Múrsins kannast við.

    Ég skal gefa það eftir að orðið þarf ekki beinlínis að koma fyrir.

Comments are closed.