GWB

Þegar að allt er að verða vitlaust í Ísrael, hlutabréfamarkaðir eru í uppnámi og viðskiptaheimurinn er í uppnámi vegna spurninga um siðferði stjórnenda fyrirtækja ákveður George W. Bush forseti Bandaríkjanna að …

fara í mánaðarlangt frí

Þess má geta að flestir Bandaríkjamenn fá um tveggja vikna langt frí á hverju ári. George W. er engum líkur.

Endurtekið efni um alþjóðavæðingu

Stefán Pálsson endurtekur gamla grein sína á Múrnum. Núna heitir greinin Alþjóðavæðing og fótbolti en hún hét áður Alþjóðavæðing fyrir byrjendur.

Þarna er Stefán aftur að benda á tölur um vöxt í Suður-Ameríku, sem rök gegn alþjóðavæðingu. Ég svaraði síðustu greininni í þessum pistli.

Athyglisverð pæling hjá Geir Á.

Mugabe

Þeir í ritstjórn The Economist eru ekki ýkja sáttir við það að fréttaritara þeirra var vikið frá Zimbabwe. The Economist reynir að bjóða uppá hlutlausan fréttaflutning, sem útskýrir allar hliðar, en það er erfitt þegar um Robert Mugabe er að ræða. Einn af leiðurum blaðsins byrjar á þessum orðum:

FOR the sake of balance, here are some of Robert Mugabe’s virtues. He dresses stylishly. He is sincerely fond of cricket. His government is less crooked than Liberia’s, and less murderous than Sudan’s. After 22 years under Mr Mugabe, Zimbabwe is in better shape than Congo or Angola. But there ends the list, and also the part of this article that could be published in Zimbabwe without fear of prosecution.

Gagnrýni á Bandaríkin

Þrátt fyrir að ég hafi oft varið Bandaríkin þá er ég ávalt fylgjandi góðri og málefnalrgri gagnrýni á landið, enda er hér mjög margt, sem má bæta.

Jón Steinsson, sem samkvæmt email addressu, stundar nám við hinn ágæta skóla Harvard, skrifar mjög góða grein á Deiglunni í dag: Byssur og innlent smjör.

Þar gagnrýnir Jón m.a. aukna styrki til bænda, bjánalegar skattalækkanir og annað klúður í skrítinni efnahagsstefnu George W. Bush. Góð grein, sem ég mæli með.

Múrinn og USA. Enn aftur…

Ég veit að ég ætti sennilega ekki að vera að pirra mig á Múrsskrifum um Bandaríkin. Hatur þeirra á Bandaríkjunum virðist vera ótakmarkað. En samt, þá verð ég að mótmæla því, sem er skrifað í dag. Í grein, sem heitir Hausinn af! skrifar Katrín Jakobsdóttir þegar hún talar um hugsanlega árás Bandaríkjanna á Írak:

Þá er við hæfi að rifja upp litla sögu. Einu sinni var maður við völd í Evrópu. Lífsspeki hans gekk út á að þjóð hans væri betri en aðrar þjóðir og ætti þess vegna að ráða mestu. Honum tókst að vekja almenna móðursýki með þjóðinni þannig að hún stóð með honum. Svo fór hann að leggja undir sig ríki en fyrst bara í Austur-Evrópu því að þá gat hann verið viss um að Vestur-Evrópu-þjóðirnar myndu láta hann í friði. En hann lét ekki staðar numið þar.

Þessi saga gæti minnt á núverandi ástand. Hegðun vestrænna þjóða virðist benda til þess að þeim sé sama um það að arabaþjóðir séu skotnar í tætlur. Þetta gæti stafað af djúpstæðum ótta við það sem er framandi og öðruvísi.

Það að líkja Bandaríkjunum og væntanlega George Bush við Hitler er ótrúlega lágt lagst. Það væri í raun fáránlegt fyrir mig að vera að telja upp ástæður fyrir því af hverju það er slappt að líkja Bush við Hitler.

Ég er ekki búinn að gera upp hug minn á því hvort ég sé fylgjandi árás á Írak. Ég, einsog sennilega margir Múrsmenn tók þátt í nokkrum mótmælum gegn viðskiptabanninu á Írak fyrir nokkrum árum. Ljóst er að það bann hefur aðeins styrkt Saddam Hussein í sessi. Þeir á Múrnum eru mér eflaust líka sammála um það að Hussein er hræðilegur forseti og að íbúar Íraks myndu vera mun betur af án hans. En þá er spurning hvað hægt sé að gera til að hjálpa saklausu fólki í Írak? Er árás kannski eina lausnin?

Múrinn??

Múrinn er vanalega afskaplega vel skrifað vefrit. Ég hef oft verið ósammála þeirra greinum, aðallega vegna þess að þeir telja slæma hluti bara geta gerst ef Bandaríkjamenn hafa eitthvað með málin að gera.

Allavegana, þá er í dag grein eftir Katrínu Jakobsdóttur, þar sem hún reynir að sannfæra lesendur um hinn illa kapitalíska markað. Ég vona að hún verði ekki reið þó ég vitni aðeins í greinina hennar.

“Vinur minn einn sem við skulum nefna Gunnar drekkur ekki bjór. Það er val hans í lífinu því að honum finnst bjór vondur. Eftir að bjór var leyfður hér á landi hefur hann öðlast gríðarlegar vinsældir og nú er svo komið að yfirleitt er boðið upp á bjór í öllum boðum – og oft ekkert annað. Gestgjafar vita að flestir drekka bjór og bjóða því ekki upp á neitt val. Gunnar neyðist til að vera edrú; ekki vegna þess að hann vilji vera edrú heldur vegna þess að hann er hindraður í því að vera fullur.

Annar vinur minn sem við skulum nefna Njál hefur ákveðið að nýta reiðufé fremur en plastkort. Þetta er afar þægilegt fyrir hann og tryggir að hann eyði aldrei meiru en hann á. Um daginn ætlaði Njáll að kaupa svokallað Miðborgargjafarkort vegna þess að hann var að fara í afmæli hjá Gunnari. Þá var honum tjáð að það væri aðeins hægt að greiða fyrir slíkt kort með plastkorti. Þegar Njáll spurði hvort peningar hefðu verið lagðir niður sem gjaldmiðill fékk hann engin svör en honum fannst eins og hann heyrði í fjarska óm af hlátri. Hann var einhvern veginn svona: „Mouahahahahaha.“

Ég þykist vita að hláturinn hljómi kunnuglega fyrir lesendur. Þetta er holur hlátur markaðsins sem horfir með ánægju á alla steypta í sama mót.

Verið er að þvinga Gunnar og Njál, í nafni frelsisins, til að gera eins og hinir, þó að það sé þeim á móti skapi. Er þetta frelsi? Eða eru þetta boð og bönn markaðsins sem dulbýr sig sem frelsara? Svari nú hver fyrir sig”

Katrínu vantar greinilega öll rök fyrir því að taka upp hennar draumaútgáfu af sósíalisma, þannig að hún ætlar að sannfæra okkur um það að þegar gestgjafi í boði býður bara uppá bjór, en ekki allar tegundir af áfengi, þá sé það einhvern veginn hinum frjálsa markaði að kenna. Ja hérna!

Sá hlær best…

Pedro Carmone, sem verður að teljast einn allra vitlausasti valdaránstilrauna-kall í mannkynssögunni er búinn að biðja um pólítískt hæli í Kólumbíu eftir að hafa flúið úr stofufangelsi.

Carmona þessi reyndi að steypa vini mínum Hugo Chavez af stóli fyrir nokkrum vikum en honum tókst að klúðra flestu, sem hægt er að klúðra í valdaránstilraunum. Hann hefur sennilega verið of góður gæji, enda bara einhver leiðtogi í atvinnulífinu en ekki morðóður herforingi einsog alvöru valdaránskallar.

Annars var Hugo Chavez í viðtali í 60 Minutes fyrir rúmri viku og virtist hann bara hress. Það er kannski ekki nema von enda var sagt frá því að hann drykki 20 bolla af kaffi á dag og svæfi aðeins fjóra tíma á dag. Ef ég drykki 20 bolla af kaffi á dag væri ég ALLTAF hress, sama hve margir væru að reyna að steypa mér af stóli.

Félagi Hugo var spurður að því hvort honum væri illa við Bandaríkjamenn. Hann neitaði því og sagðist elska pulsur, baseball og Yankee stadium.

Ég elska pulsur, baseball og Wrigley Field. Við Hugo erum greinilega bara nokkuð líkir.

Hugo Chavez

Atburðir síðustu daga í Venezuela hafa verið afar áhugaverðir. Ég ætlaði að skrifa um valdaránið en áður en ég komst í stuð hafði Hugo Chavez náð aftur völdum. Það kom á daginn að yfirmennirnir í hernum voru ekki mikið klárari í valdaránum en Hugo sjálfur.

Ég bjó í Venezuela, sem skiptinemi, árin 1995-1996. Síðan þá hef ég heimsótt landið einu sinni og fylgst með atburðum í gegnum netið og með bréfaskriftum við vini í Caracas.

Þegar ég bjó í Caracas var Rafael Caldera forseti. Caldera hafði verið forseti rúmum tuttugu árum áður en þá var hann frambjóðandi COPEI, aðal hægriflokksins í Venezuela. Á undan Caldera hafði Carlos Andres Perez, frambjóðandi AD, vinstriflokks, verið forseti.

Perez breytti nokkuð um stefnu eftir að hann var kosinn í seinna skiptið. Í stað þess populisma, sem hann predikaði í kosningabaráttunni þá tók hann u-beygju, svipað og Carlos Menem og Alberto Fujimori höfðu gert og tók upp frjálsa markaðsstefnu. Menem og Fujimori urðu gríðarlega vinsælir fyrir markaðsstefnu sína en ekki gekk eins vel hjá Perez. Mikið var um spillingu, sem leiddi á endanum til þess að Perez var látinn segja af sér.

Eftir að Perez sagði af sér átti arftaki hans, Rafael Caldera, í miklum erfiðleikum með að stjórna efnahaginum í landinu. Gengi bólivarsins féll á hverjum degi og því fylgdi óðaverðbólga, sem Caldera hafði enga stjórn á, þrátt fyrir tilraunir til að stjórna genginu með því að láta ríkið ákveða gengið. Þetta gekk þó lítið því fólk skipti peningum á svarta markaðnum, þar sem gengið jókst á hverjum degi og því þurfti Caldera að fella gengið reglulega.

Flokkakerfið í Venezuela

Flokkarnir tveir í Venezuela, COPEI og AD höfðu deilt með sér völdunum í fjóra áratugi eftir að þeir gerðu samkomulag, þekkt sem Punto Fijo. Þetta samkomulag var gert eftir að deilur flokkanna höfðu leitt til þess að herinn hrifsaði til sín völdin um miðja síðustu öld. Flokkarnir sömdu um að þeir skyldu deila með sér völdunum, sama hver ynni í kosningum. Þannig að ef COPEI ynni forsetakosninagrnar, þá yrði AD lofað sætum í ríkisstjórninni og svo framvegis.

Þetta samkomulag leiddi náttúrulega af sér mikla spillingu og takmörkun á lýðræði í Venezuela. Þessi spilling og getuleysi flokkanna í efnahagsmálum gerðu uppgang Hugo Chavez mögulegan.

Venezuela er næst stærsti olíuframleiðandi í heimi. Þrátt fyrir það lifa yfir 80% af þessari rúmlega 20 milljóna þjóð undir fátækrarmörkum. Hvernig stjórnmálamönnum hefur tekist að klúðra þessum olíuauðæfum er hin mesta ráðgáta. Flestir íbúar Venezuela telja sig þó vita svarið. Þeir telja að spillingu stjórnmálamanna sé um að kenna. Margir eru nefnilega sannfærðir um að þeirra bíði gull og grænir skógar ef spillingu stjórnmálamanna væri eytt og olíauðæfunum skipt bróðurlega á milli allra íbúanna.

Hugo slær í gegn

Hugo Chavez gerði sér fyllilega grein fyrir þessu og því var hans aðalbaráttumál að berjast gegn spillingunni, sem tengdist stjórnmálaflokkunum tveim. Kosningabaráttan 1998 var hin furðulegasta. Til að byrja með var Irene Saez, fyrrum ungfrú alheimur fremst meðal frambjóðenda. Hún gerði hins vegar mistök með að samþykkja að verða frambjóðandi COPEI. Um leið og hún var orðin tengd öðrum af hinum gerspilltu stjórnmálaflokkum hrundu vinsældir hennar. Það varð úr að hvorki AD né COPEI buðu fram í kosningunum heldur lýstu þeir báðir yfir stuðningi við mótframbjóðenda Hugo Chavez. Það breytti þó litlu því Chavez vann yfirburðarsigur.

Síðan hann var kosinn hefur Chavez reynt að breyta mörgu í Venezuela. Hann lagði niður þingið og bauð síðan til kosninga, þar sem ný stjórnarskrá var samþykkt. Það kom þó andstæðingum hans dálítið á óvart að hann virti ávallt fjölmiðlafrelsi og vilja meirihlutans. Hvað það varðar þá hefur hann verið mjög ólíkur stórvini sínum og baseball félaga, Fidel Castro. Svo ég vitni nú í sjálfan mig úr ritgerð, sem ég skrifaði fyrir rúmum mánuði (vá, hvað ég er góður spámaður).

In Venezuela, the future of democracy depends on Hugo Chavez. Up until now he has followed the will of the majority, but he really has not been tested because of his majority support. Today, however, he is supported by less than 40% of the population. The question is, whether he will continue to respect the will of the majority. If he does, then democracy should be relatively safe. If he does not, he risks military intervention and the end of Venezuelan democracy.

Í efnahagsmálum hefur Hugo Chavez þó mistekist algerlega, þrátt fyrir að hann hafi fylgt Múrsskólanum varðandi efnahagsstefnu. Hann hefur tekið upp stjórnmálasamband við Írak, Lýbíu og aukið samstarf við Kúbu. Hann hefur hafnað ráðum frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum og Bandaríkjunum og þess í stað hefur hann til að mynda reynt að ná völdum í stærsta olíufyrirtækinu í Venezuela. Þessar aðgerðir Chavez hafa þó nánast ekkert hjálpað hans helstu stuðningsmönnum, sem eru þeir allra fátækustu í Venezuela.

Þrátt fyrir það, þá nýtur Hugo í dag töluverðs stuðnings. Stuðningur hans hefur þó minnkað úr yfir 60 prósentum niður fyrir 35 prósent. Hans hörðustu stuðningsmenn halda þó tryggð við hann einfaldlega vegna þess að þeir sjá ekki að neinn annar muni sinna þeirra vandamálum eða sé jafn annt um þeirra vandamál einsog Chavez. Fyrir þeim þá var valdaránstilraunin tilraun til þess að færa sig aftur í tímann, aftur til þess tíma þegar flokkarnir tveir réðu öllu. Þetta fólk hefur enga ástæðu til að þrá afturhvarf til þess tíma.

Valdaránið

Í nýlegri ritgerð, sem ég skrifaði hélt ég því fram að lýðræðið í Suður-Ameríku væri á viðkvæmu stigi en þrátt fyrir það væri það sterkara en oftast áður. Besta dæmið um það er ástandið í Argentínu. Þrátt fyrir hrikalegt ástand þá óttaðist fólk aldrei að herinn myndi taka við völdum. Fyrir 15 árum hefði verið öruggt að herinn hefði gripið inní. Því kom það manni auðvitað dálítið á óvart að herinn skyldi grípa inní í Venezuela. Það mátti þó búast við þessum atburðum því yfirmenn í hernum hafa verið ósáttur í meira en ár. Aðalmálið fyrir þá var að hermenn voru látnir vinna í vegavinnu og í að hjálpa þeim fátæku. Einnig hafði Hugo Chavez stutt skæruliða í Kólumbíu, sem gerði ástandið við landamærin erfitt.

Mikið hefur verið gert úr þátti Bandaríkjanna í hinni misheppnuðu valdaránstilraun fyrr í þessum mánuði. Þeir á Múrnum gengu svo langt að líkja stuðningi Bandaríkjanna við valdarán, sem framin voru gegn Allende í Chile og Arbenz í Guatemala. Það er þó fáránlegur samanburður. Í þeim tilfellum var CIA öflugur þáttakandi í valdaránunum. Í Venezuela var hins vegar eina sök Bandaríkjamanna að fordæma ekki strax valdaránið. Ég skal þó taka fram að þrátt fyrir að ég verji Bandaríkjamenn í flestu, sem þeir Múrsmenn gagnrýna þá fyrir, þá fannst mér viðbrögð Bandaríkjamanna í þetta skiptið ekki vera til fyrirmyndar. Þeir hefðu auðvitað átt að taka strax fram að þeir myndu ekki viðurkenna valdaránið.

Það er þó ljóst að dagana fyrir valdaránið brást Hugo Chavez þegnum sínum. Í fyrsta skipti voru mótmæli barin niður og fjölmiðlum var lokað. Mótmælin fyrir og eftir valdarán sýna augljóslega hversu gríðarlega mikið bil er á milli stuðningsmanna og andstæðinga Chavez. Hann gerir sér þó grein fyrir því í dag að hann er ekki nærri því jafnvinsæll og hann var fyrir fjórum árum.

Hugo Chavez hefur mistekist að bæla niður spillingu eða bæta efnahaginn. Því hefur hann algjörlega brugðist stuðningsmönnum sínum. Það er ljóst að ef að ástandið breytist ekki fljótlega í Venezuela munu jafnvel hörðustu stuðningsmenn Chavez yfirgefa hann.

Helgin, Hugo og misskilningur Stefáns P.

Ja hérna, ég er að fara í skólann á stuttbuxum í fyrsta skipti á þessu ári. Jibbííí. Veðrið í gær var líka alger snilld. Ég var að keppa í fótbolta og það var svo heitt að ég var nánast örmagna eftir leikinn. Mér tókst þó að pota inn einu marki með vinstri og við unnum 2-0.

Það er alltaf jafn gaman að labba um campusinn þegar veðrið er gott. Þá fyllast allir grasblettir af fólki. Northwestern nemendur eru þó ávallt sömu nördarnir því allir eru með bók og yfirstrikanapenna í hönd.

Annars fórum við Hildur í sittvhoru lagi á djammið á föstudag. Hildur fór á barhopp meðan ég fór í partí til einnar vinkonu minnar, sem var fínt.

Svo horfði ég á Liverpool, Cubs og Bulls vinna leiki og við Hildur fórum í bíó og sáum Changing Lanes, sem var fín.

Já, og svo á meðan ég naut góða veðursins komst félagi Chavez aftur til valda. Ég ætla í þessari viku að skrifa smá pistil um hann. Stefán Pálsson minnist á endurkomu Chavez og segir sögur um fylgishrun Chavez vera komnar til vegna áhrifa frá hægrisinnuðum bandarískum fjölmiðlum. Má ég benda á þá staðreynd að þegar Chavez var kosinn studdu 57% landsmanna hann en í nýlegri könnun, sem El Universal (dablað í Caracas) tók þá fékk Chavez aðeins stuðning 35% kjósenda. Þetta var þó áður en fylgismenn hans byrjuðu að myrða saklausa mótmælendur.