Ingibjörg Sólrún og klámið

Ég ætlaði að skrifa lofpistil um Ingibjörgu Sólrúnu byggðan á frábærum pistil Hallgríms Helga í Fréttablaðinu í morgun. En svo segir hún í þinginu í dag eitthvað á þessa leið um væntanlega gesti á klámráðstefnu:

>Ég spyr þá forsætisráðherra hvort ekki sé þá leið til að koma þeim skilaboðum til þessara aðila að hingað séu þeir ekki velkomnir.

Hvaða kjaftæði er þetta?

Vill Ingibjörg Sólrún að ríkisstjórn landsins taki að sér fyrir hönd þjóðarinnar að láta fólk vita hverjir séu velkomnir til Íslands og hverjir ekki? Þetta upphlaup útaf þessari ráðstefnu er algjörlega fáránlegt og þetta komment hjá Ingibjörgu Sólrúnu er með því vitlausasta sem ég hef heyrt.

Eru semsagt allir sem formanni Samfylkingarinnar þóknast ekki, ekki lengur velkomnir til landsins? Vill hún tilkynna Repúblikönum að þeir séu ekki velkomnir? Hvað með klæðskiptinga? Eða karlrembur? Eða Ísraelar? En fólk sem segir klámbrandara? Eða fólk sem skrifar klámfengnar sögur? Væri Henry Miller til að mynda velkominn til landsins ef hann væri enn á lífi?

Það er greinilegt að frjálslyndið er ekki mikið hjá formanninum.

Annars þá skrifar [Maggi um þessa grein hans Hallgríms](http://magnusmar.blog.is/blog/magnugu/entry/126991). Það er ansi margt til í þeirri grein varðandi fáránlega gagnrýni sem ISG hefur þurft að þola á síðustu mánuðum.

Meira um klám

Á Deiglunni er [góð grein um þessa fáránlegu klám hysteríu](http://www.deiglan.com/index.php?itemid=10950) sem að siðprúðu fólki hefur tekist að peppa landsmenn og þá sérstaklega yfirvöld uppí síðustu daga.

Svo ég vitni aðeins í greinina:

>Hver eru grundvallargildi íslensks samfélags? Hvers vegna vill fólk búa hér? Ég held að fáir mundu svara þeirri spurningu með orðunum “út af því að klám er bannað” eða “út af því að Íslendingar eru svona rosalega þéttir siðferðislega séð”. Sjálfum þykir mér vænst um frelsið, aðrir mundi eflaust nefna jöfnuð eða velferðarkerfið, en ég held að enginn mundi í alvörunni vilja monta sig af því helsti kosturinn við landið þeirra væri að “þar væru stjórnmálamenn voða duglegir að gera fólki sem hafði öðruvísi skoðanir en meirihlutinn lífið leitt”.

>Auðvitað eiga menn rétt á því að vera á móti klámi eins og hverju öðru. En menn ættu ekki að krefjast þess ofbeldi ríkisvaldsins verði beitt í þeirri baráttu með því að fangelsa eða gera brottræka úr landi þá sem eru á öndverðum meiði. Og auðvitað ætti hið opinbera ekki að verða við slíkum beiðnum. Stjórnmálamenn í rótgrónu lýðræðisríki verða að þola það að einn og einn kunni að gista í hótelum landsins á nokkurra ára fresti.

Nákvæmlega!

(Barna)klám

Ég nenni varla að blanda mér í umræðuna um þessa blessuðu klámráðstefnu. En þetta finnst mér [fullkomlega fáránlegt](http://www.visir.is/article/20070216/FRETTIR01/70216077) af borgarstjóra okkar:

>Borgarstjóri hefur óskað eftir að lögregla rannsaki hvort þátttakendur á klámráðstefnu kunni að vera framleiðendur barnakláms, eða annars ólögmæts klámefnis

Er þetta framtíðin? Á að kanna aðra ráðstefnuhópa líka? Það gætu reynst morðingjar á ráðstefnu sportveiðifélagsins. Hvað með næstu NATO ráðstefnu? Ætlar borgarstjóri að láta rannsaka hvort að ráðstefnugestir þar hafi eitthvað á samviskunni? En næsta friðar-ráðstefna? Þar gætu leynst hryðjuverkamenn. Eigum við ekki bara að skoða alla sem hingað koma?

Skemmtilegar nornaveiðar í boði hins [fjölskylduvæna](https://www.eoe.is/gamalt/2007/01/06/14.21.04/) borgarstjóra.

While we’re on the subject, finnst engum nema mér skrýtið að hægt sé að kalla klám með 15 ára stelpu barnaklám og klám með 5 ára stelpu líka barnaklám? Eða að flokka barnaníðinga í sama flokk sama hvort þeir leiti á 5 ára krakka eða 15 ára?

Snillingar Davíðs

*(Þessi færsla birtist líka á [Kratablogginu](http://nykratar.blog.is/blog/kratabloggid/))*

Við Íslendingar njótum þeirra “forréttinda” (kaldhæðni að hætti Davíðs) að hafa sennilega pólitískasta Seðlabankastjóra í heimi. Í flestum öðrum löndum er embætti Seðlabankastjóra virðingarstaða þar sem menn sitja sem njóta virðingar innan fjármálaheimsins, sem og meðal almennings. Oftast reyna menn að ráða í þetta starf menn sem eru yfir dægurþras hafnir og geti því gefið Seðlabanka landsins trausta ímynd.

Á Íslandi er þetta embætti hins vegar notað til að koma gömlum stjórnmálamönnum í þægilegar stöður. Gallinn við það fyrirkomulag er sá að seðlabankastjóri verður aldrei yfir dægurþras hafinn og traust almennings á bankanum verður minna. Nú er það til að mynda svo að núverandi Seðlabankastjóri getur lítið gagnrýnt hagstjórn einsog slíkir stjórar ættu að gera, án þess að gagnrýna um leið þá stefnu sem hann skapaði.

Davíð Oddson er líka enn stjórnmálamaður og sýna [afskaplega barnaleg ummæli hans í kvöldfréttum í gær](http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338035/3) það greinilega. Davíð segir:

>Það er nú bara þannig að sumir hafa verið að segja að við verðum að taka upp evru, annars verði hagvöxtur minni – ég hef heyrt suma snillingana segja það.

Þetta er alveg afskaplega hallærislegt. Fyrir þá sem heyrðu ekki viðtalið og geta ekki lesið kaldhæðnina útúr textanum, þá var það augljóst að með “snillingum” þá átti Davíð við að þarna væru vitleysingar að tala. Gleymum því hversu kjánalegt það er að Seðlabankastjóri skuli láta svona útúr sér og einbeitum okkur fyrst að því sem hann segir “snillingana” hafa sagt. Það er, að upptaka evru sé til að auka hagvöxt.

Nú hef ég fylgst ansi vel með umræðunni, en ég man hreinlega ekki hvar það er minnst á það að upptaka evru geti aukið hagvöxt.

Getur einhver bent mér á það hvaða “snillingur” sagði það og við hvaða tilefni?

Það er ekkert mál að vinna rökræður ef menn gera andstæðingum sínum upp skoðanir. Hagfræðingar hafa bent á ótal rök fyrir upptöku evru – og Davíð ætti frekar að eyða tíma sínum í að andmæla þeim í stað þess að gera þeim upp nýjar skoðanir.

Fjölskyldur í ófjölskylduvænum hverfum?

(þetta birtist fyrr í dag á bloggi [Nýkrata](http://nykratar.blog.is/blog/kratabloggid/entry/98179/) þar sem ég skrifa)

Það er alveg þess virði að vísa á leiðara Jóns Kalddal í Fréttablaðinu í dag, sem fjallar um einstaklega furðulega herferð borgarstjóra Reykjavíkur, sama gamla Villa, gegn spilakassasal í Mjóddinni.

Nú þarf það svo sem ekkert að koma manni á óvart að Sjálfstæðismenn vilji hafa vit fyrir þegnum þessa lands, en það sem er einkennilegra er það hvernig Vilhjálmur skiptir höfuðborginni uppí “fjölskylduvæn” svæði og önnur svæði, sem eru þá væntanlega “ófjölskylduvæn”. Jón Kaldal talar um opnun spilakassasalarins:

>Meginrök borgarstjóra gegn því framtaki eru að borgaryfirvöld vilji ekki starfsemi slíkra “ógæfukassa” í fjölskylduvænum hverfum.

>Af því tilefni er rétt að spyrja hvort Vilhjálmur viti ekki að nú þegar eru reknir salir með spilakössum víða um borgina, og það í hverfum sem hingað til hafa ekki talist fjandsamlegri fjölskyldum en önnur hverfi? Ef sú er raunin, þá má borgarstjóri taka hinn nýja og að því er virðist röggsama lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, sér til fyrirmyndar og fá sér göngutúr um borgina sína.

Nú bý ég nálægt miðbæ Reykjavíkur, þar sem rekinn er spilasalur. Það finnst Vilhjálmi allt í lagi, þar sem mitt svæði er sennilega ekki “fjölskylduvænt” í hans huga. Það finnst mér magnað þar sem að ég er alltaf að sjá lítil börn á leikskólanum við hliðiná blokkinni minni og á æfingasvæði KR, sem er ekki langt frá mér.

Borgarstjóri segir um þetta

>Ég sannreyndi að til að banna spilakassa í söluturnum þarf að grafa mjög djúpt lögfræðilega en mun hins vegar fara yfir þessi mál heildstætt með eigendum spilakassanna og reyna að ná sátt um að þeir séu ekki settir upp í fjölskylduvænum fjölskyldukjörnum

Þessi spilasalur í Mjóddinni er fullkomlega löglegur og það er einfaldlega hræsni af borgarstjóra að vilja ekki svona “óæskilega”, en fullkomlega löglega starfsemi í sínu heimahverfi bara vegna þess að hann skilgreini sitt hverfi sem “fjölskylduvænt”.

Borgarstjóri þarf líka að svara fyrir það hvernig hann skilgreini ófjölskylduvæn hverfi. Eru fjölskyldyrnar sem þar búa í minni metum hjá borgarstjóra og eiga þær fjölskyldur að sætta sig við að hvers konar starfsemi sé þar rekinn á meðan borgarstjóri haldi verndarskildi yfir þær fjölskyldur sem búi í “fjölskylduvænu” hverfunum? Það væri gaman að heyra.

Fólk, sem getur hvergi tjáð sig

Í kvöld í **næst vinsælasta fréttaþætti á Íslandi** (Ísland í dag) var viðtal við andstæðing stækkunnar álvers í Hafnarfirði um að andstæðingar stækkunnar álvers fengju engin tækifæri til að tjá andstöðu sína við stækkun álversins.

Þetta viðtal var byggt á grein í **stærsta dagblaði landsins** um sama mál.

My head is spinning.

Kynjakvóti?

Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju “kynjakvóti” Vinstri Grænna, sem var notaður í [prófkjörunum á höfuðborgarsvæðinu](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1244282) heitir ekki sínu rétta nafni, “karlakvóti”?

Björn og Dagur í Kastljósinu

Það er ekki oft sem ég horfi á Kastljósþátt tvisvar sama kvöldið. Ég og Emil horfðum á Björn Inga og Dag B í Kastljósþættinum og ég var svo hissa að ég varð að horfa aftur á þáttinn seinna um kvöldið.

Ég held að frammistaða Björns Inga hljóti að vera einhver hræðilegasta framganga stjórnmálamanns, sem ég hef séð í svona þætti. Ég hef hvorki tíma né þekkingu til að skrifa um allt sem tengist málinu. En [Guðmundur Steingrímsson skrifar frábæran pistil](http://www.gummisteingrims.blog.is/blog/gummisteingrims/entry/90504/) um málið, sem ég get verið 100% sammála. Mæli með þeim [pistli](http://www.gummisteingrims.blog.is/blog/gummisteingrims/entry/90504/).

Eftir síðustu tvo Kastljósþætti hef ég haft góðar ástæður til þess að vera stoltur af því að vera í Samfylkingunni.

ISG og GH í Kastljósi

Í kjölfar Kastljósþáttarins áðan vil ég bara segja:

**Mikið er ég þakklátur fyrir þá staðreynd að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skuli vera formaður míns flokks en ekki Geir Haarde.**

Af orðum og stolti Geirs Haarde í þættinum mætti halda að bankar og fjármagnstekjuskatturinn væri umtalsverður hluti af tekjum ríkissjóðs. Núna er ég ekki stærðfræðingur, en ég heyrði þrjár tölur í dag. Leiðréttið mig ef mér misheyrðist.

Fjármagnstekjuskattur skilaði 19 milljörðum á síðasta ári
Bankarnir borguðu 10 milljarða í skatta
Ríkisútgjöld verða 356 milljarðar á næsta ári.

Það þýðir að bankar og fjármagnstekjuskattur borga því 8% af útgjöldum ríkisins. Við hin borgum svo 92%.

Breytingartillögur Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum eru **árás** á bændur samkvæmt Geir Haarde. Af hverju stíga menn ekki bara skrefið til fulls og sameina alla framsóknarmenn í einum stórum Íhaldsflokki?

Já, og hvalveiðarnar eru bara einhver flipp tilraun samkvæmt Geir. Við ætlum að skjóta hvali og svo tékka svo hvort við getum selt kjötið.

En ég spyr, af hverju að stoppa við hvali? Af hverju prófum við ekki að gefa út kvóta á 200 ketti í Reykjavík og sjáum hvort við getum selt kjötið af þeim? Það væri skemmtileg tilraun.