Dagdraumar

Ég náði að klára slatta af verkefnum í dag og var því nokkuð sáttur við sjálfan mig þegar ég settist niður til að horfa á landsleikina með Englandi og Íslandi.

Ég hafði ekki setið lengi þegar ég fékk þessi skilaboð á MSN: *”Keypti miðann til Beirút áðan”.*

Og ég fékk sting í magann. Mig langar svo að fara að ferðast að ég er að deyja. Sá, sem sendi mér skilaboðin var [herra Flygenring](http://www.semsagt.net/kairo/), sem býr í Kaíró þessa dagana.

Við fórum eitthvað að spjalla um ferðalög og Ágúst benti mér á vefsíðu hjá [þessari stelpu, Siggu Víðis](http://siggavidis.blogspot.com), sem hefur ferðast mikið um Asíu. Ég fékk hreinlega í magann þegar ég skoðaði [myndirnar](http://jonssonfamily.com/gallery/view_album.php?set_albumName=sigga/), því mig langar svo mikið að fara út núna.

Þessi stelpa hefur nefnilega ferðast mikið um Suðaustur Asíu, en þangað langar mig að fara í haust. Hef pælt svona lauslega í því hvernig ferðalag ég gæti farið og er spenntastur fyrir að fara allavegana til Kambódíu, Tælands og Búrma (Myanmar). Sigga talar einmitt gríðarlega fallega um Búrma og það virðist hafa verið alveg einstök lífsreynsla að hafa farið þangað.

Ég las einhverja Lonely Planet bók um það land fyrir nokkrum mánuðum og þar var fólk frekar hvatt til að ferðast til Búrma, þar sem að ferðalagið myndi að öllum líkindum hafa það jákvæð áhrif á landið að það myndi vega upp þá staðreynd að mikið af peningunum, sem ferðamenn eyða, fara til herforingjastjórnarinnar. Það heillar mig einfaldlega gríðarlega að ferðast til staða, sem eru ósnertir af vestrænni menningu.

En það er alltof langt til haustsins, heilir 5 mánuðir og því má ég ekki hugsa of mikið um þetta því þá kemst ekkert annað að hjá mér. En ætla samt aðeins að leyfa mér að dreyma pínu.

6 thoughts on “Dagdraumar”

  1. Það sem ég gleymdi að segja var að fyrst þú ert að skipuleggja þetta sjálfur frá grunni þá ættirðu að kanna flug í gegnum Dúbaí eða mögulega Doha frá London. Það eru mýmörg flug frá þessum stöðum til SA-Asíu og þau eru oft boðin á góðum kjörum. Bara að tala við traustan travel agent í London.

  2. Þessi mynd af Búrma er náttúrulega alveg fáránlega flott! Ég er sammála þér Einar … mér leið mjög vel í dag, í páskafríi á Íslandi, þangað til ég sá þessa mynd. Núna langar mig helst að fara strax í fyrramálið á næstu ferðaskrifstofu, þó það sé allt lokað á morgun… :confused:

  3. ef þú ætlar á annað borð til Asíu þá er algjört möst að fara til Tælands. og ekki bara í einhverja 2 daga, heldur bæði að kynnast Bangkok, ströndunum (sem eru sagðar með þeim fallegri í heimi) og að fara inn til landsins og kynnast því hvernig Tælendingarnir sjálfir búa … Tæland og Tælendingar eru æði!

  4. Jammm, planið var pottþétt að heimsækja Bangkok og eyða 2-3 vikum í Tælandi. Ég á m.a. góðan vin í Bangkok.

    Og takk, Ágúst fyrir upplýsingarnar. Ég tékka á þessu.

    Og Kristjan, það er fullt af ferðaskrifstofum á netinu, sem eru opnar akkúrat núna 🙂

Comments are closed.