Dagurinn í dag

Þetta er búinn að vera góður dagur í Stokkhólmi. Margrét var loksins í fríi í vinnunni og því gátum við túristast aðeins um borgina. Við tókum strætó yfir á Gamla Stan (sem er reyndar í göngu-fjarlægð frá íbúðinni, en það er kalt) og löbbuðum þar um og skoðuðum bæinn. Löbbuðum svo yfir á Skeppsholmen, þar sem við fórum á Moderna Museet. Þar var í gangi frábær ljósmyndasýning með myndum eftir Andreas Gursky. Sú sýning var afskaplega skemmtileg.

Við kíktum aðeins á varanlega hluta safnsins áður en við löbbuðum yfir á Norrmalm þar sem við fengum okkur kaffi í NK. Liverpool gerðu reyndar sitt besta til að reyna að eyðileggja góða skapið mitt, en það mun ekki takast hjá þeim. Átta komment hjá mér á Kop.is var ágætt til að ná pirringnum úr mér.

Í kvöld eigum við svo pantað borð hér og svo ætlum við að kíkja á djammið.

* * *

Vissulega er það ánægjulegt fyrir Samfylkinguna að Jóhanna verði forsætisráðherraefni flokksins í næstu kosningum. En ég verð að játa það að ég er ekkert rosalega spenntur fyrir því að enginn nema Ingibjörg og Össur ætli að sækjast eftir sæti 2 og 3 í Reykjavík. Ég hefði nú talið æskilegt að fá aðeins ferskara fólk inn þar. Það væri nú ekki beint rosalega hresst að hafa Jóhönnu, Ingibjörgu, Össur, Mörð og Ástu Ragnheiði í efstu fimm sætunum miðað við endurnýjuna hjá öðrum framboðum.

Ætli ég skrifi ekki meira um þetta prófkjör seinna, en ég hvet allavegana alla til að kjósa Önnu Pálu í fimmta sætið. Anna Pála er afskaplega skemmtileg og klár stelpa. Hún er líka án efa með bestu framboðssíðuna, sem útskýrir á einfaldan hátt hver hennar pólitík er og kynnir hana sem persónu á skemmtilegan hátt.

Ég þekki Önnu Pálu persónulega og mæli klárlega með henni í þessu prófkjöri.

* * *

Ég er búinn að borða á svo mörgum skemmtilegum veitingastöðum hér í Stokkhólmi að ég er að spá í að koma mér upp einhverju kerfi til að halda utanum þá alla á þessari vefsíðu, þannig að fólk geti gengið að þeim stöðum sem ég mæli með. Ef einhver veit um einhverja sniðuga leið til að halda utanum þetta í WordPress, þá væri ég þakklátur.

5 thoughts on “Dagurinn í dag”

 1. Sigríður Ingibjörg býður sig reyndar fram í 3. – 5. sæti þannig að það er ekki rétt að enginn nema Ingibjörg og Össur bjóði sig fram í 2. og 3. sæti. Sigríður Ingibjörg er mjög öflugur frambjóðandi sem á fullt erindi í 3. sætið.

  Svo eru það nokkur frambjóðendur sem bjóða sig fram í eitt af efstu sætunum og spurning hvernig má túlka það.

 2. Anna Pála: Ekkert mál.

  Ingibjörg: Ég hef ekki hugmynd um það hver þessi Sigríður er eða fyrir hvað hún stendur. Google hjálpaði heldur ekki mikið.

 3. Sigríður Ingibjörg er flottur frambjóðandi og á minn stuðning í 3.sætið.
  Hún er hagfræðingurinn sem sagði sig úr stjórn seðlabankans fyrir jól og skoraði á bankastjórana að gera slíkt hið sama.

  Sammála þér með Önnu Pálu. Hún er verðugur fulltrúi.

  Knústu Margréti frá mér.

Comments are closed.