Dans, dans, dans

Sá áðan auglýsingu fyrir Salsa námskeið hjá einhverju dansstúdíó-i. Ég þóttist einu sinni vera ýkt góður að dansa salsa og merengue, enda dansaði ég nánast hverja einustu helgi þegar ég var skiptinemi í Caracas í Venezulea fyrir alltof mörgum árum.

Partýin í Venezuela voru nefnilega algjört æði. Ég mætti edrú en fékk mér kannski 3-4 [Polar](http://www.empresas-polar.com/espanol/publi_sihay_es.html) bjóra í boði hússins. Drykkjan var hinsvegar algjört aukaatriði, ólíkt því sem gerist hérna heima. Nei, aðalatriðið var að *dansa*. Fólk setti bara merengue disk í spilarann og svo greip maður næstu stelpu og byrjaði að dansa. Og dansaði allt kvöldið. Nánast án þess að stoppa. Mikið var það æðislega gaman.

Vá, hvað ég sakna þess. Þessi hópdans, sem er stundaður á Íslandi er einfaldlega hundleiðinlegur miðað við það að dansa salsa eða merengue við stelpu.

Allavegana, stelpan, sem ætlaði með mér á salsa námskeið í haust hér á Íslandi, klikkaði á því, en ég er samt staðráðinn í að fara á námskeið fyrr en síðar. Fóstursystir mín í Venezuela kenndi mér að dansa merengue en ég lærði salsa aldrei nógu vel. Jú, einhverjar stelpur reyndu að kenna mér það bæði í Mexíkó sem og í Venezuela og á Kúbu en samt finnst mér ég ennþá vera hálfslappur í því. Og ég veit að núna er ég búinn að gleyma öllum sporunum, sem er synd.


Annars auk þess að læra salsa almennilega þá ætla ég alltaf að læra að dansa tangó. Ég sagði það einnhvern tímann við vini mína að ég ætlaði mér að gera þrennt áður en ég deyji:

1. Fara á Anfield
2. Sjá Pink Floyd á tónleikum
3. Dansa tangó við argentíska stelpu á götum Buenos Aires

Hingað til hef ég ekki gert neitt af þessu. Hef jú farið til Buenos Aires (sem er ein af mínum uppáhaldsborgum) og sá líka Roger Waters, fyrrum söngvara Pink Floyd á tónleikum. En það er ekki nóg.

Fyrir 5 árum var ég í Buenos Aires ásamt þremur af mínum bestu vinum. Við vorum þar í þrjár vikur, en samt klikkaði ég á tangó-inum með argentísku stelpunni. Ég er samt ekki ennþá búinn að gefa upp drauminn. Mig langar enn að finna þessa argentísku stelpu og dansa við hana tangó á hliðargötu í Buenos Aires alla nóttina.

Það væri æði.

9 thoughts on “Dans, dans, dans”

 1. FARA á Anfield áður en þú deyrð!!! Mér finnst nú að maður sem heldur úti Liverpool bloggi og segist vera gallharður Púlari eigi að hafa farið á Anfield. Meira að segja ÉG hef farið á Anfield og er Liverpool nú ekki mitt lið (að sjálfsögðu hef ég líka farið á Old Trafford).
  Spurning um að drífa sig bara sem fyrst því þetta er alveg ógleymanleg lífsreynsla og örugglega skemmtilegra að njóta hennar áður en maður er kominn langleiðina á grafarbakkann.

 2. Btw ef þig vantar ferðafélaga og guide þá býst ég svosem við að ég geti fórnað mér í það :laugh:

 3. Ja, ég var nú ekki að spá í því að bíða alveg fram á síðustu stund til að fara á Anfield. Vonandi tekst mér að draga vini mína með mér á næstu leiktíð 🙂

 4. það eru nú sennilega bara eitt og hálft ár þangað til að liverpool flytur frá anfield…. kanski best að fara að koma sér þangað 😉

  ég ætlaði einmitt að fara í ár… en stóru heimaleikirnir hafa bara verið á svo leiðinlegum tímum… næsta ár verðu því sennilega síðasti sénsinn til að horfa á púlarana spila við the kop :confused:

 5. Já, maður heldur alltaf í vonina að Pink Floyd fari einn túr í viðbót. En Gilmour og félagar virðast samt bara vera orðnir sáttir við sitt.

  En það var þó frábært að geta allavegana séð Roger Waters einu sinni.

Comments are closed.