Davíð, Ingibjörg og Baugur

Ég var svo reiður eftir samsæriskenningar Sigurðar Kára í Kastljósi í gær að ég ákvað að drífa mig í að lesa þessa blessuðu Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Ræðuna má nálgast á vef Samfylkingarinnar.

Ég er alinn upp Sjálfstæðismaður, varð róttækari með árunum í átt til vinstri en skoðanir mínar þróðuðust aftur í hægri átt þegar ég var í námi í Bandaríkjunum. Ég hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ég reyndi einu sinni að kjósa í prófkjöri hjá flokknum en gat það ekki vegna þess að ég átti afmæli degi of seint.

Ég er hins vegar alltaf að tapa meira og meira áliti á Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur gert ýmislegt í frjálsræðisátt síðustu ár og ríkisstjórn hans og Alþýðuflokks var góð. Ég hins vegar hef óbeit á mörgum hliðum flokksins. Ég þoli ekki foringjadýrkunina í flokknum. Ég þoli ekki að þingmenn hans komi í áramótaannálum og tilnefni allir Davíð Oddson sem mann ársins. Ég þoli ekki að flokkurinn skuli kalla sig hægriflokk en reyni svo hvað hann geti til að ná að komast til áhrifa í RÍKISútvarpinu. Ég þoli ekki að hann skuli kalla sig hægriflokk en veiti svo ríkisábyrgðir til stórfyrirtækja.

En þessi umræða síðustu daga hefur valdið því að eftir tvo Kastljósþætti hef ég verið öskureiður útí Sjálfstæðisflokkinn. Mér er reyndar nokk sama um þetta Baugsmál. Heldur virkilega einhver Sjálfstæðismaður að Jón Ásgeir hafi ætlað að múta forsætisráðherra?? Trúir því virkilega einhver?

Ef að Davíð hefur svona mikla óbeit á Baugi og þeirra viðskiptaháttum þá á Davíð að beita sér fyrir breytingum á leikreglum í viðskiptalífi. Þeir eiga EKKI að kvarta bara og kveina yfir því að Baugsmenn séu nógu snjallir til að nýta sér hvernig kerfið er byggt upp. Ekki sér maður George Bush kvarta yfir því að Wal-Mart sé að yfirtaka bandarískan matvörumarkað. Hann gerir sér grein fyrir því að leikreglur viðskiptalífsins gera slíkum fyrirtækjum kleift að ná góðri stöðu á markaði með því að vera óhræddir og vægðarlausir í viðskiptum. Ef Davíð vill stuðla gegn því að Baugur hafi góða stöðu á markaðnum ætti hann að skerpa leikreglurnar, ekki að gera lítið úr stjórnarformanni fyrirtækisins í þingsölum og í sjónvarpi.

Eftir allt, þá er okkur frjálst að velja hvar við verslum. Ef almenningur í landinu hefði eitthvað á móti Baugi þá myndu þeir hætta að versla í Bónus og Hagkaup. Það hefur almenningur ekki gert. Það er nefnilega þannig að þótt stjórnmálamenn reyni að hafa áhrif á fyrirtækin í landinu þá er það almenningur sem hefur mesta valdið. Davíð getur reynt að koma slæmu orði á Baug en bara almenningur getur virkilega skaðað Baug, með því að hætta að versla hjá þeim. Það hefur ekki gerst.

Borgarnesræðan

Og þá að ræðunni sjálfri. Ef marka má orð Sjálfstæðismanna hefði mátt ætla að Ingibjörg hefði endað ræðuna á “Bónus býður betur”, því þeir hafa gert svo mikið úr stuðningi hennar við Baug og Jón Ólafsson.

Hér er hins vegar kaflinn, þar sem hún talar um þessi fyrirtæki:

Í efnahags- og atvinnumálum hljótum við líka að leiða til öndvegis leikreglur hins frjálslynda lýðræðis. Okkur kemur ekkert við hvað þeir heita sem stjórna fyrirtækjum landsins eða hvaða flokki þeir fylgja að málum. Gamlir peningar eru ekkert betri en nýir.

og

Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækjum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum?

Hvar í andskotanum er einhver stuðningur við Baug í þessari ræðu? HVAR?

Það að biðja um að um að fyrirtæki séu ekki dæmd eftir því flokkslínum er alveg jafn réttlátt og að einstaklingar séu ekki dæmdir eftir kynþætti.

Útúrsnúningur Sjálfstæðismanna á þessu er óþolandi. Svona hagar sér ekki flokkur, sem segist hafa frelsi í atvinnulífi að leiðarljósi.

12 thoughts on “Davíð, Ingibjörg og Baugur”

 1. Já, Sjálfstæðisrisaeðlan minnir mig meira á trúfélag en nokkuð annað. Og á meðan fyrirtækin greiða tíundina sína er allt í orden. Lof sé Davíð. Amen

 2. Ég las það, sem þú skrifaðir um þetta. Ég tel, að nauðsynlegt sé að ræða þessi mál reiðilaust. Eftirfarandi liggur fyrir:

  1. Davíð, Hreinn og Illugi staðfesta það allir, að Hreinn hafi sagt í Lundúnum, að Jón Ásgeir hafi nefnt við sig, hvort bera mætti fé á forsætisráðherra.

  2. Með því að neita þessu er Jón Ásgeir að segja, að Hreinn hafi verið að segja ósatt. Það er annað mál, að Hreinn segist ekki hafa tekið þetta eins alvarlega og Davíð. Það er eðlilegt. Menn skynja samtöl á ólíkan hátt. En ég trúi Hreini frekar en Jóni Ásgeiri.

  3. Jón Ásgeir á Fréttablaðið og beitir því af hörku gegn Davíð og fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Jón Ólafsson á Stöð tvö og beitir henni af hörku á sama hátt. Það er auðvitað rétt, að Ingibjörg Sólrún er forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, en hún er líka bersýnilega forsætisráðherraefni Baugsfeðga og Jóns Ólafssonar.

  4. Ingibjörg Sólrún varpaði fram þeirri spurningu, einmitt í þeim orðum, sem þú tilgreinir, hvort rannsókn á Baugsfeðgum og Jóni Ólafssyni væri flokkspólitísk. Þetta voru dylgjur. Hún var að væna lögregluna og skattrannsóknastjóra um að ganga erinda Davíðs Oddssonar. Ég trúi hins vegar ekki öðru en því, að þessir aðilar hafi gengið efnislega til verks. Skýrsla þeirra um skattskil Jóns Ólafssonar er að minnsta kosti mjög rækileg og skildi ekki eftir neinn vafa í huga mínum. (Raunar var Ingibjörg Sólrún miklu afdráttarlausari í viðtölum eftir Borgarnesræðuna.)

  5. Með slíkum dylgjum haslaði Ingibjörg Sólrún sér völl á alveg nýjum stað í íslenskum stjórnmálum.

  Mér finnst, að við eigum öll að hafa það, sem sannara reynist!

  Hannes Hólmsteinn Gissurarson

 3. Hannes.

  Nú lýsti Davíð því yfir að hann sæji sér ekki fært að kæra Baugsmenn fyrir mútur sökum þess að hann hefði ekki vitni að mútunum.

  Hvernig fer það saman við þann málflutning að aðstoðarmaður Davíðs hafi verið á staðnum?

  Væri gaman að heyra þig svara þessu áður en þú ferð að tala um hvað er satt og hvað ekki.

  Sannleikurinn er sá að Davíð getur talað af sér, maðurinn er ekki fullkominn. En að hann sé saklausari en Jón Ásgeir (sem vantar nauðsynlega fjölmiðlafulltrúa) efa ég stórlega.

  Þá hefur sá málflutningur Sjálfstæðismanna að þetta sé allt frá ISG runnið ekki trúverðugur.

  Ef samsæriskenningar þínar um Baugsmenn, Jón Ólafsson og Ingibjörgu Sólrúnu eru sannar, hvað má þá segja um óendanlegt magn samsæriskenninga um Sjálfstæðisflokkinn.

  Þar sem það er efni í fáeinar bækur ætla ég ekki út í þá sálma en stend við það sem ég hef áður sagt; Sjálfstæðisflokkurinn er trúfélag. Davíð allt amen.

 4. Svar mitt við spurningu Ragnars er þetta:

  Davíð Oddsson hefur svarað því, hvers vegna hann kærði ekki ummæli Jóns Ásgeirs. Svarið var, að ekki væri unnt að sanna fyrir dómi, að sett hefði verið fram tilboð um mútur. Það, sem greinilega gerðist, var, að Jón Ásgeir nefndi við Hrein, hvort ekki væri unnt að kaupa Davíð Oddsson fyrir 300 milljónir króna. Síðan leggja menn ólíkan skilning í þau ummæli (og Jón Ásgeir hefur vissulega þrætt fyrir þau, en því trúir ekki nokkur maður, enda standa orð Hreins og þeirra Davíðs og Illuga gegn orðum Jóns Ásgeirs um það). Raunar geri ég ráð fyrir, að ummæli eins og þau, sem Jón Ásgeir lét frá sér fara, séu ekki saknæm. Þau eru hugleiðingar, en ekki tilboð. Þau lýsa hins vegar manninum nokkuð. Hann hugsaði þetta upphátt.

  En mig langar af þessu tilefni til að rekja þráðinn aðeins áfram. Nú eru Samfylkingarmenn á harðahlaupum frá dylgjum þeim, sem Ingibjörg Sólrún varpaði fram í Borgarnesi (Getur verið, að … ?). Þeir vísa hins vegar enn í greinaflokk Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu. En um hvað var sá greinaflokkur? Hann var um það, að gætnir menn í viðskiptalífinu hefðu bundist samtökum um að koma í veg fyrir, að Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson legðu undir sig Íslandsbanka. Þessir gætnu menn treystu þeim Jóni Ólafssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni ekki fyrir bankanum. Hefur ekki komið í ljós, að mat þeirra var rétt? Það hefur lengi legið fyrir, að þeir Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson væru óvægnir og harðskeyttir kaupsýslumenn, þótt sjálfsagt séu þeir líka snjallir á mælikvarða skammtímaárangurs. Það hefur líka lengi blasað við, að Jón Ólafsson greiddi ekki skatta, eins og honum bar að gera.

  Að sjálfsögðu eiga þessir tveir menn að njóta sömu réttinda og aðrir. Báðir eiga þeir líka að teljast saklausir, uns sekt þeirra er sönnuð. En aðrir eiga líka að njóta þeirra réttinda að mega vega þá og meta og finna léttvæga. Og menn þurfa raunar ekki að vera sakamenn eða jafnvel ásakaðir um saknæmt athæfi, til þess að aðrir treysti þeim ekki til að fara með fúlgur fjár úr sjóðum banka eða tryggingafélaga.

  Þegar Ingibjörg Sólrún og aðrir Samfylkingarmenn vísa í þennan greinaflokk Agnesar Bragadóttur, eru þau með því að segja, að ekki hafi verið rétt að koma í veg fyrir það, að þeir legðu undir sig Íslandsbanka? Eru þau að lýsa yfir stuðningi við tilraunir Jóns Ólafssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til að leggja undir sig banka og tryggingafélög, svo að þeir geti notað sjóði slíkra fyrirtækja í áhættusöm ævintýri sín hér eða erlendis? Er mér ekki leyfilegt að spyrja þeirra spurninga án þess að vera að varpa fram einhverjum samsæriskenningum?

  Ég þarf ekki að setja fram neinar samsæriskenningar. Mér nægja þær staðreyndir, sem liggja fyrir. En umhugsunarefnið er þetta: Þeir Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson beita fjölmiðlum sínum harkalega fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, eins og alþjóð hefur séð. Um það verður ekki deilt. En eiga þessir menn að ráða því, hver verður forsætisráðherra á Íslandi?

  Að lokum: Ég held, að sannleikurinn hafi ekki tekið sér bólsetu í neinum einum flokki. Í öllum stjórnmálaflokkum er gott fólk. Líklega hefur almættið líka skipt heiðarleikanum tiltölulega jafnt á milli stuðningsmanna flokkanna. En mér finnst Ingibjörg Sólrún hlaupa illilega á sig, þegar hún dylgjaði um það í Borgarnesi, að rannsókn á Jóni Ásgeiri og Jóni Ólafssyni væri flokkspólitísk, og þegar hún vísar síðan í það úr greinaflokki Agnesar Bragadóttur, að komið hafi verið í veg fyrir, að þeir legðu undir sig Íslandsbanka. Það var ekki Davíð Oddsson, sem setti hana við hlið þeirra Jónanna. Það var hún sjálf, sem kaus að taka sér þar stöðu.

  Mér finnast sakamál ekki eiga erindi í stjórnmál. Það sýndu Geirfinnsmálið og Hafskipsmálið. Það á að rannsaka sakamál sérstaklega eftir réttum reglum og lögum samkvæmt, ekki að deila um þau í stjórnmálabaráttunni. Þess vegna var það ekki rétt af Ingibjörgu Sólrúnu að fitja upp á hinni opinberu rannsókn á þessum tveimur mönnum í Borgarnesræðu sinni. Og Davíð Oddsson er ekki fullkominn fremur en aðrir menn. En enginn deilir um það, að hann hefur veitt þjóðinni farsæla forystu síðustu tólf árin.

  Hannes Hólmsteinn Gissurarson

 5. Takk, Hannes og Ragnar fyrir innleggin.

  Þetta var samt alls ekki það, sem ég vildi tala um. Ég vildi ekki ræða hvort Davíð eða Jón Ásgeir hafi logið eða hvort þrír menn eða tveir hafi verið á einhverjum fundi í London fyrir ári. Þetta skiptir mig bara engu máli.

  Besti punkturinn í ummælunum við þessa færslu er að mínu mati hjá Hannesi, “Mér finnast sakamál ekki eiga erindi í stjórnmál.” Nákvæmlega. Þess vegna átti Davíð bara að sleppa því að tala um þessi mál í útvarpinu og í stað þess að láta lögregluna vita. Davíð segir að hann hafi ekki getað sannað neitt og því ekki farið í lögregluna. Ef það er rétt, þá hefði hann EKKI átt að fara í útvarpið og tala um þetta mál. Ef hann treystir lögreglunni ekki til að sanna mál sitt, þá á hann ekki að opinbera ásakanir sínar fyrir alþjóð.

  Varðandi Samfylkinguna og Borgarnesræðuna þá segir Hannes um greinaflokk Agnesar Bragadóttur: “Hann var um það, að gætnir menn í viðskiptalífinu hefðu bundist samtökum um að koma í veg fyrir, að Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson legðu undir sig Íslandsbanka”. Það er nákvæmlega ekkert athugavert við þetta. Hins vegar, þá hefur það oft komið fram (ég hef að vísu ekki lesið greinarnar, þannig að leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál) að Stjórnarráðið (væntanlega Davíð) hafi verið að skipta sér af málum. Það er óásættanlegt.

  Persónudýrkun

  Það, sem ég vildi líka benda á er þessi gríðarlega persónudýrkun hjá Sjálfstæðismönnum. Þeir tala alltaf um að Davíð Oddson hafi leitt okkur í gegnum mesta hagvaxtarskeið allra tíma. Málflutningur Sjálfstæðisflokksins gengur alltof mikið útá það að sýna fram á að Davíð Oddson sé ómissandi. Að ef við kjósum hann ekki, þá fari allt í rugl.

  Þetta er hættulegur málflutningur, því enginn maður er svo merkilegur. Bandaríkjamenn áttuðu sig á þessu fyrir löngu og því settu þeir takmörk fyrir því hversu lengi menn ættu að sitja á stóli. Slíkt væri, að mínu mati, hollt fyrir lýðræðið. Það er nefnilega enginn maður ómissandi.

  Ég tek það fram að þetta á jafn vel við persónudýrkun í öðrum flokkum. Mér hefur bara fundist dýrkun Sjálfstæðismanna á Davíð Oddsyni, hvort sem hún er einlæg eða útaf flokkshollystu, hafa keyrt úr hófi. Í Silfri Egils fyrir einhverjum tveimur árum, þegar flestir tilnefndu, að mig minnir sigmenn Landhelgisgæslunnar sem menn ársins, þá komu allir þingmenn Sjálfstæðsflokksins, sem talað var við, og tilnefndu Davíð Oddson.

  Árangur Davíðs

  Sjálfstæðismenn taka skýrt fram að Davíð hafi aukið frelsi í viðskiptum og aukið gangsæi. Það er rétt og fyrir það ber að hrósa flokknum. Það þýðir hins vegar ekki að menn eigi bara að sætta sig við sinn hlut. Sjálfstæðisflokkurinn á að stefna að því að hætta með öllu afskiptum af viðskiptalífinu. Ég veit ekki hversu mikil afskipti flokksins eru, en ef þau eru einhver, þá er það neikvætt.

  Þegar Samfylkingin gagnrýnir flokkinn fyrir afskipti af viðskiptalífinu þá á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að fara í vörn og segja “já en við erum búnir að gera svo og svo til að bæta ástandið”, heldur einfaldlega slá vopnin úr höndum Samfylkingarinnar og setja það á stefnuskrá sína að hætta algjörlega öllum afskiptum. Þá skiptir ekki máli hvort frumkvæðið af afskiptunum komi frá ríkinu eða fyrirtækjunum sjálfum.

  Hannes endar ummælin sín á orðunum: “Og Davíð Oddsson er ekki fullkominn fremur en aðrir menn. En enginn deilir um það, að hann hefur veitt þjóðinni farsæla forystu síðustu tólf árin.” Já, ok gott og vel, hann hefur verið farsæll í starfi. Það þýðir samt ekki að ef maður gagnrýnir hann fyrir þetta þá sé maður að gagnrýna allar embættisfærslur hans. Ég er ánægður með margt, sem hann hefur gert. Þrátt fyrir að Davíð sé gagnrýndur þá mega menn ekki fara í algjöra vörn og þylja upp öll hans afrek síðustu tólf ár.

 6. Mér fannst síðasta framlag Einars Arnar málefnalegt. Við erum sammála um, að ekki á að draga sakamál inn í stjórnmálabaráttuna, eins og Ingibjörg Sólrún gerði í Borgarnesræðu sinni. Við erum sammála um, að margt hefur gott gerst síðustu tólf árin, þótt margt sé enn ógert. Við erum sammála um, að Davíð er öflugur foringi, sem nýtur mikils trausts í eigin flokki.

  Er góður árangur síðustu tólf ára Davíð einum að þakka? Auðvitað ekki. Ein ástæða er, að sósíalisminn lamaðist eftir hrun Berlínarmúrsins. Andstaða við endurbæturnar er því ekki eins hörð og áður. Viðhorf hafa breyst í heiminum. En ég er ósamþykkur því, sem oft heyrist, að samningurinn um E. E. S. hafi ráðið úrslitum. Hann var afleiðing, en ekki orsök. Stjórnin stefndi að frjálsu og opnu hagkerfi, og einn liður í því var aðildin að E. E. S. (við hefðum getað náð sömu markmiðum með tvíhliða samningi, held ég). Annar liður var að leggja niður sjóði, enn annar að einkavæða fyrirtæki, enn annar að koma á peningalegum stöðugleika, enn annar að snúa halla í afgang í rekstri ríkissjóðs. Þetta gerðist allt eða hófst fyrir alvöru, áður en við gengum í E. E. S. Það er hvorki ástæða til að ofmeta eða vanmeta aðildina að E. E. S.

  Ég held, að Davíð hafi skipt eins miklu máli um kerfisbreytinguna á Íslandi og Thatcher í Bretlandi. Á nokkrum úrslitastundum brugðust þau ekki, þegar stjórnmálamenn minni gerðar hefðu gert það. Auðvitað hljóta sjálfstæðismenn að meta það við sinn foringja, hversu sigursæll hann hefur verið og mikill lagabætir.

  Ég held, að við Einar Örn séum líka sammála um verkefni framtíðarinnar. Annað er að varðveita stöðugleikann og smíða með því umhverfi utan um gróðasæl fyrirtæki (um leið og mistök eru leiðrétt, en á tímanum, áður en Davíð tók við völdum, var alltaf ausið fé í mistökin, fyrirtæki aldrei tekin til gjaldþrotaskipta). Hitt er að lækka skatta á einstaklingum til jafns við skatta á fyrirtækjum, hvort sem það gerist nú hratt eða hægt.

  Ég vil, að þeir ríku verði ríkari og að þeir fátæku verði ríkari! Þetta hefur verið að gerast síðustu tólf ár. Ef við fáum vinstri stjórn, eins og Samfylkingin vill, en aðeins um 6% þjóðarinnar, þá hverfur stöðugleikinn, verðbólgan gýs aftur upp, afgangur breytist í halla, skuldir ríkisisins aukast, skattar á fyrirtæki hækka (þetta fólk var allt andvígt skattalækkunum á þau), og innan skamms verður mikill ófriður á vinnumarkaði.

  HHG

 7. Kannski skemmtilegt ad benda a thad ad thott hagvoxtur hafi verid godur undanfarin misseri tha var natturulega eitt mesta hagvaxtarskeid Islands seinni heimstyrjoldin. Tha nam hagvoxtur i kringum 10 prosent a ari ad medaltali!

  Vissulega endadi thjodarbuid i miklu ojafnvaegi i kjolfarid en thad hefdi tho ekki thurft ad gerast.

 8. Hannes segir:
  “Þeir Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson beita fjölmiðlum sínum harkalega fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, eins og alþjóð hefur séð. Um það verður ekki deilt. En eiga þessir menn að ráða því, hver verður forsætisráðherra á Íslandi?”

  Af hverju er ekki um það deilt? Ég man ekki eftir að hafa séð á blaði skiptingu eignarhluta í þessum fjölmiðlum?

  Í annan stað þá eru það kjósendur sem ráða hvaða flokkar fá að pukra sig saman til að velja næsta forsætisráðherra, ekki fjölmiðlarnir. Morgunblaðið verður líka seint kallað hlutlaust, það má sjá á jafn einföldum hlutum og nafnlausum Staksteinum þar sem aðilar fá að skjóta nafnlausum skotum á hina og þessa. Pistlahöfundar sem fóru í framboð voru beðnir um að hætta skrifum nema hvað Björn Bjarnason var undanþeginn því.

  Ef að verið er að beita DV og Fréttablaðinu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, hvað má þá segja um Davíð og Morgunblaðið undanfarna áratugi?

  Hannes segir:
  “Það er auðvitað rétt, að Ingibjörg Sólrún er forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, en hún er líka bersýnilega forsætisráðherraefni Baugsfeðga og Jóns Ólafssonar.”

  Og þá slengi ég því fram í anda Hannesar að Davíð Oddsson er forsætisráðherraefni Sjálfstæðisflokksins, en hann er bersýnilega líka forsætisráðherra efni kvótaeigenda, Morgunblaðsins, olíufurstanna og Kolkrabbans.

  Hannes segir:
  “að gætnir menn í viðskiptalífinu hefðu bundist samtökum um að koma í veg fyrir, að Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson legðu undir sig Íslandsbanka. Þessir gætnu menn treystu þeim Jóni Ólafssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni ekki fyrir bankanum.”

  Gætnir menn já, hvernig fær maður þannig stimpil? Fylgir maður réttum flokki? Greiðir arð til hluthafa á ári hverju? Segir ekki upp fólki nema í ítrustu neyð? Kemur vel fram við starfsfólk sitt? Gerir tugmilljóna starfslokasamninga? Hvað þarf til þess að vera talinn gætinn maður eða kona? Hingað til hefur frelsi markaðsins verið boðorð Hannesar og lærisveina hans, núna er það frelsi markaðsins ef þú ert gætinn?

  Hér má taka það fram að mér er nokk sama um Jón Ásgeir og Jón Ólafsson. Mér mislíkar menn sem njóta þeirra fáu fríðinda sem eftir eru hér á landi (eftir að heilsugæsla varð það dýr að fólk fer ekki nema í ítrustu neyð, menntun það dýr og námslán það lítil að velja þarf milli þess að metta munna núna eða svelta fjölskylduna með von um betri framtíð) en flýja með tekjur sínar úr landi. Það eru ekki einstaklingar sem vilja vera hluti af samfélagi sem gera svo, SAM-FÉLAG.

  Það eru ekki heldur einstaklingar sem vilja vera hluti af samfélagi sem að ákveða að láta þá sem minna mega sín svelta og hafa ekki efni á heilsugæslu. Þar er afskaplega auðvelt að benda á Davíð Oddsson sem að í firru sinni sagði að það væru nú bara einhverjir sem að vildu fá frían mat sem færu til Mæðrastyrksnefndar. Honum hefur þegar verið boðið af einstæðu móðurinni Hel Bergmann að standa í röðinni fyrir hana og bíð ég spenntur eftir því að hann taki boðinu og sjái raunveruleikann.

  Varðandi milljónirnar 300 þá virðist furðu fljótt að gleymast að þessi upphæð var nefnd þar sem að lengi var sá orðrómur í gangi að það hafi Davíð þegið frá Kára í Decode í staðinn fyrir ríkisábyrgðina sem ekki virðist langt í að falli á okkur að borga. Orðrómur er auðvitað aldrei meira en orðrómur þar til sannanir koma fram.

 9. Verd ad segja ad thessar paelingar (dylgjur?) um Morgunbladid eru half sorglegar. Hver sa sem les morgunbladid ser ad frettadeild theirra er langoflugusta frettadeild landsins asamt Rikissjonvarpinu.

  Tho ad adsendar greinar og nafnlausir pistlar seu birtir i bladinu tha er orettlatt ad bendla bladid vid thaer skodanid sem bladid bydur vettfang fyrir. Adsendar greinar (eftir Bjorn Bjarnason og adra – og eg leyfi mer ad gera rad fyrir ad BB njoti virdingar innan bladsins vegna thess ad hann starfadi thar a arum adur) eru birtar undir nafni og thad verdur ad vidurkenna ad Morgunbladid veitir goda thjonustu med thvi ad birta thaer.

  Hvort su thjonusta eigi erindi mikid lengur eftir tilkomu veraldarvefsins og heimasidna einstaklinga og samtaka er onnur spurning. Vardandi nafnlausa hluta bladsins tha er thad alveg rett ad thad er bladinu til skammar og vonandi ad their baeti ur thvi.

  Morgunbladid er lang fagmannlegasti fjolmidill landsins og faranlegt ad fara ad reyna ad verja skitkast minni adila a markadi med thvi ad benda annad og segja a barnalegan hatt “ja, en hann gerdi thad lika”. Ad tala um ad Morgunbladid hafi tekid thatt i flokkspolitik a arum adur gaeti verid rett en thad er ekki rett ad their taki thadd i sliku lengur.

  Einar talar um thad fyrir ofan ad thad skipti ekki mali hvad thu hafir gert heldur thad sem thu sert ad gera og thad sem thu aetlir ther ad gera. Held ad thad se rettara ad daema tha einstaklinga og fjolmidla sem um raedir fyrir theirra eigin gjordir an thess ad bera thaer saman vid fortid annara. Fortid sem margir nuverandi starfsmenn eiga ekkert vid skilt.

 10. Varðandi Morgunblaðið, þá ætti það að leysa þetta með að ráða til sín reglulega leiðarahöfunda – sem skrifuðu þá undir nafni.

  Besta dæmið um þetta er eitt langbesta dagblað í heimi, New York Times, sem hefur virkilega hæfa penna sem skrifa reglulega pistla í blaðið en hafa hinsvegar oft(ast) mjög ólíkar skoðanir á málum. Þannig heyrast ólíkar raddir um ýmis málefni.

  Vísir af þessu hefur sést undanfarið en við skulum vona að við fáum að sjá þetta eftir kosningar, þegar fólk fer aftur að tala af viti 😉

 11. Það má vel vera að fólk trúi því að Mogginn sé fullkomlega óháður og fylgi óhlutdrægri fréttamennsku.

  Ég veit að Mogginn er það ekki. Ég veit fyrir víst að starfsmenn þar hafa látið undan pólitískum þrýstingi varðandi ýmis mál.

  Hitt er svo allt annað mál hvort hann sé verri eða betri en hinir fjölmiðlarnir.

 12. Oli sagði:
  Verd ad segja ad thessar paelingar (dylgjur?) um Morgunbladid eru half sorglegar.

  En dylgjurnar um Fréttablaðið og Dagblaðið? Það var af ráðnum hug sem ég tók upp orð Hannesar og skipti út “Fréttablaðið” fyrir “Morgunblaðið”. Annað gerði ég ekki.

  Tak staf þinn og gakk!

Comments are closed.