Ég gefst upp

Áður hef ég á þessari síðu kvartað yfir því að ég sé tekinn í skoðun í tollinum í hvert einasta skipti sem ég geng þar í gegn. Var það svo að það skipti engu máli hvort ég kom ógreiddur í rifnum gallabuxum með bakpoka á bakinu eftir ferðalag í Mið-Ameríku, eða nýkominn af Saga Class, stífgreiddur og í jakkafötum frá London.

Nú er það svo að ég er varamaður í stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og var í Osló í vinnuferð stjórnar um helgina. Ætli það hafi verið nóg til þess að ég væri ekki lengur stoppaður í tollinum?

Nei. – Ég gefst upp.

* * *

Annars gerði ég lítið í Osló nema vinna, eyddum heillöngum tíma í heimsókn á Gardemoen og funduðum á hótelinu. Ég fór varla útúr húsi nema til þess að fara inn og útaf hótelinu og til þess að labba á einn veitingastað.

* * *

Brúðkaup aldarinnar var haldið í gær nú þegar að 93 ár eru eftir af öldinni. Það finnst mér magnað.

Og að lokum, Guði sé lof fyrir það að Atli Gíslason var gestur í Silfri Egils í innflytjendaumræðunni.  Einnig var í þeim sama þætti nokkuð fyndið að sjá Laffer dásama bandaríska efnahagskerfið á meðan að Stiglitz birtir [þessa grein](http://www.vanityfair.com/politics/features/2007/12/bush200712).

14 thoughts on “Ég gefst upp”

  1. ég held að þú sért bara á ákveðnum aldri og þessvegna hafa þeir meiri áhuga á að skoða þig. Strákar á aldrinum 20-30 ára gamlir eru margir hverjir með Ipod, Iphone, digital myndavél og fartölvur sem tollararnir hafa rosalegan áhuga á að komast í.

    Það var því ekki af ástæðulausi sem ég laumaði nýja Iphone símanum minum í töskuna á aldraðri móður minni þegar ég labbaði í gegnum flugstöðina í síðustu viku. Þeir vita það alveg að það er vonlaust að taka gamlar konur með fulla tösku af flíkum, endavonlaust að reyna að finna út verðmætið á þeim og þvi horfa þeir frekar á okkar ákveðna aldurshóp.

  2. Jamm, þetta var einsog Fox News – einsog Egill væri að reyna að fá fólk, sem hann vissi að myndi segja hluti sem væri líklegastir til að æsa almenning.

  3. oh ég er alltaf tekin líka
    síðast þegar ég kom heim úr landsliðsferð, var ég að rúlla fullri tösku af sveittum búningum í gegn og var stoppuð

    ég óskaði þess innilega að þeir ætluðu að gramsa í sveittu búningunum en þeir létu það vera eftir að ég svaraði þeim um hvert innihaldið var!

    en hey ég var að spá með brúðkaup aldarinnar.. var ekki brúðkaupið hjá þarna loga og svanhildi líka kallað brúðkaup aldarinnar? mig minnir það..

  4. “Var ekki brúðkaupið hjá þarna loga og svanhildi líka kallað brúðkaup aldarinnar? mig minnir það..”

    Jú, gott ef ekki. Þessi öld er greinilega öld hinna merku brúðkaupa!

  5. Nú er það svo að ég er varamaður í stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar

    Skrítið? Ég hef nefnilega verið að slá um mig með þessu þegar ég hef verið að fara um flugstöðinna upp á síðkastið.

    Nú síðast þegar þeir stoppuðu mig í tollinum sagði ég „hey ég þekki Einar Örn (blikk) Einar Örn í stjórninni (blikk!)“ og þá var umsvifalaust hætt við allt og ég beðinn innilegrar afsökunar!

    PR, getur þú ekki bara látið reka þennan gaur á næsta fundi?

    PS Er ögn valddrukkinn um þessar mundir!

  6. Ef þú ert ALLTAF tekinn þá gæti það bent til þess að þú sért óheppinn með alnafna.

    Kunningi minn heitir nánast sama nafni og piltur sem flæktist inn í eitt af stærri eiturlyfjainnflutningsmálum seinni ára. Fyrir vikið var hann nánast hættur að nenna að fara til útlanda – vitandi af öllum vandræðunum sem hann yrði fyrir í tollinum hér heima og jafnvel erlendis líka.

  7. Skil ekki nafnatenginguna? Eruð þið spurðir til nafns í tollinum?

    Hef verið spurður eftirfarandi:
    1) hvað ertu með mikið sprútt?
    2) hvað er tölvan þín gömul?
    og
    3) hvað ertu með mikið sprútt?

    en aldrei til nafns.

  8. Já, þessi völd eru ekki alveg farin að stíga mér jafnmikið til höfuðs og valdasetan í borginni. 🙂

    En já, Shift-3 – ég skil ekki heldur nafnatenginguna. Ég hélt að ég væri bara svona grunsamlegur í útliti. Og svo hljóta þeir að vera að leita að eiturlyfjum hjá mér, en ekki tækjum? Nú var ég t.d. með iPhone, Macbook Pro fartölvu og myndavél með mér.

  9. Minst á tollinn 🙂 ótrúlegt en satt þá hef ég labbað beinustu leið í gegn í síðustu 2 skipti… en það eru líka einu skiptin sem ég hef ekki verið stoppaður… veit ekki hvort það sé triks að bjóða tollurunum bara góðan daginn þegar meður labbar framhja´:)

  10. Án þess að vita sérstaklega hvernig eiturlyfjatékkinu hjá tollinum er háttað, þá trúi ég því ekki að tollararnir standi bara í hliðinu og svipist um eftir flóttalegum náungum. Það hljóta fjandakornið að vera einhverjir tilburðir í þá átt að fara yfir farþegalista og sigta út nöfn sem eru á svörtum lista – ekki satt?

    Og væntanlega hlýtur kerfið líka að virka þannig að þegar e-r af svörtu listunum er væntanlegur í flugi, fái tollararnir ábendingu – t.d. með mynd. Það að viðkomkandi sé svo böstaður með fartölvur er bara aukageta…

  11. Það er engin varastjórn í Flugstöðinni.

    Það er hins vegar varafólk í stjórninni, sem hleypur í skarðið þegar að stjórnarmenn forfallast.

    Og já, # þetta hlýtur að vera eitthvað vísindalegra en að dæma bara eftir því hversu flóttalegur maður er.

Comments are closed.