Ég segi JÁ við Icesave

Icesave kosningarnar eru næsta laugardag á Íslandi og þótt að ég sé á gistiheimili í Bangladess, þá hef ég samt hugsað mikið um málið síðustu daga.

Ég segi JÁ við Icesave og ég hvet þig til að gera það líka. Ef þú ert vinur minn, fjölskyldumeðlimur eða tekur eitthvað mark á því sem ég segi, þá bið ég þig um að lesa þennan pistil og mæta svo á kjörstað og segja JÁ við Icesave samningunum.

Ég tel að það séu nokkrar stóra ástæður fyrir því að segja JÁ við Icesave samningunum, en ég ætla bara að fara yfir þær helstu, sem koma líka inná mína reynslu frá síðustu árum þegar ég hef reynt að vinna að uppgangi og vexti íslensks fyrirtækis í útlöndum.

* * *

 1. Kostnaður: Ég tel að kostnaður við Nei geti orðið miklu hærri en kostnaður við að samþykkja samningana. Ef við segjum Já, þá segir samninganefndin að kostnaðurinn sé líklega um 32 milljarðar. Ef við segjum Nei, þá getur beinn kostnaður mögulega orðið núll, en meiri líkur eru á því að hann geti orðið umtalsvert hærri en 32 milljarðar. Og þá er ótalinn óbeinn kostnaður við Nei-ið.

  Tryggvi Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að eingöngu kostnaður vegna lægri lánshæfiseinkunnar ríkisins ef að við segjum Nei við Icesave verði 27-43 milljarðar á ári. Eða 135-216 milljarðar á næstu 5 árum. Þetta er vegna þess að vaxtakostnaður ríkissins mun hækka gríðarlega ef við segjum Nei við Icesave. Ef við segjum nei, þá er eðlilegt að lánsmatsfyrirtæki líti svo á að það séu minni líkur á að lánadrottnar Íslands fái borgaðar skuldir frá landinu (þar sem við erum þá að hlaupast á brott frá því að borga Icesave, sem við höfum áður sagst ætla að borga). Það þýðir verra lánshæfismat og gríðarlega aukningu á vaxtakostnaði íslenska ríkisins.

  Ég tel því nánast öruggt að kostnaður við Nei verði hærri í krónum talið en kostnaður við Já. Miklu hærri. Jafnvel þótt að við myndum eftir einhver ár vinna dómsmálið þá væri kostnaðurinn vegna lækkaðs lánshæfismats ríkisins svo gríðarlegur að sigur í því máli yrði lítið gleðiefni.

 2. Orðspor: Ég tel að Nei í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu muni hafa neikvæð áhrif á orðspor okkar Íslendinga. Tvær ríkisstjórnir (og forsetinn okkar líka) hafa sagt að við munum borga Icesave reikningana og að deilurnar hafi staðið um hvernig þeir yrðu borgaðir. Ef að þjóðin segir núna að þrátt fyrir öll þau loforð að við ætlum svo ekki að borga þá tel ég að það muni hafa mjög neikvæð áhrif á orðspor okkar allra í viðskiptum. Sú neikvæðni er eitthvað, sem gæti fylgt okkur lengi.

  Í viðskiptum er orðspor þitt gríðarlega mikils virði. Það þarf enginn að segja mér annað en að það sé miklu erfiðara fyrir heiðarlegan Litháa eða Nígeríumann að stunda viðskipti heldur en heiðarlegan Þjóðverja. Jafnvel þótt að þessir þrír einstaklingar séu alveg eins, þá mun þjóðerni þeirra alltaf kveikja upp ákveðna fordóma hjá fólki. Ef við neitum núna að borga eftir að hafa lofað að borga þá tel ég að slíkt hið sama gæti gerst fyrir okkur.

  Ég á og rek íslenskt fyrirtæki í útlöndum og ég vil geta gert það áfram með stolti. Ég vil ekki þurfa að hlusta á brandara um að Íslendingar borgi ekki sína reikninga eða að mæta fordómum vegna þess hvaðan ég kem. Nei, ég vil geta stundað viðskipti á mínum eigin verðleikum og vera stoltur af því hvaðan ég og mitt fyrirtæki erum.

 3. Gjaldeyrishöftin: Seðlabankastjóri hefur sagt að Nei við Icesave muni þýða að gjaldeyrishöftin verði við lýði enn lengur en ef við samþykkjum samninginn.

  Síðustu 3 ár hef ég rekið fyrirtæki, sem hefur þurft að glíma við þessi gjaldeyrishöft. Það er ekki gaman og það er ekki beint traustvekjandi þegar að maður þarf að nota gjaldeyrishöftin sem afsökun fyrir seinagangi í viðskiptum í Svíþjóð.

  Ég efa það ekki að önnur íslensk fyrirtæki lenda mun oftar í vandræðum vegna haftanna, þar sem að okkar fyrirtæki þarf ekki að standa í millifærslum á hverjum degi. Og ég er líka fullviss um að þessi fyrirtæki koma ekki í fjölmiðlum á hverjum degi og kvarta yfir höftunum, heldur reyna að taka á sínum vandamálum innan síns fyrirtækis.

  Ef við ætlum að ná okkur útúr þessari kreppu almennilega þá verðum við að gera það með viðskiptahugmyndum, sem gera útá viðskipti við útlönd. Gjaldeyrishöftin munu alltaf vera letjandi á ný fyrirtæki og nýjar hugmyndir. Það hefur sennilega enginn reiknað hversu mikið gjaldeyrishöftin kosta okkur í töpuðum viðskiptatækifærum fyrir íslensk fyrirtæki – en ég er viss um að það eru miklir peningar. JÁ við Icesave mun skv. Seðlabankanum gera okkur auðveldara að létta gjaldeyrishöftunum og því tel ég að JÁ við Icesave-samningunum sé rétt val.

* * *

Helstu rök Nei sinna, sem ég hef lesið á Facebook, eru þau að fólk vilji ekki borga skuldir óreiðumanna eða einkafyrirtækja. Það er allt gott og vel. En málið er einfaldlega að bankar eru ekki einsog hver önnur fyrirtæki. Landsbankinn tók við peningum Hollendinga og Englendinga og innistæður þessa fólks áttu að vera varðar af Tryggingasjóði okkar, alveg einsog innistæður okkar Íslendinga. Gleymum því ekki að íslenska ríkið ábyrgðist að öllu leyti innistæður Íslendinga í íslensku bönkunum.

Ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki íslands gerðu fjölmörg mistök í aðdraganda hrunsins. Auðvitað átti að færa Icesave til Landsbankans í Bretlandi, en það var ekki gert. Og í lýðræðisríki einsog okkar þá berum við ábyrgð á klúðri okkar ríkisstjórnar.

Fólk bendir á að stærstu eigendur Landsbankans eigi að borga skuldina. En Landsbankinn var hlutafélag og ábyrgð eigenda hlutafélaga er alltaf takmörkuð. Ef við ætlum að breyta því þá yrðum við líka að breyta því fyrir öll hlutafélög á Íslandi. Það myndi þýða að í framtíðinni myndi enginn þora að stofna fyrirtæki á Íslandi.

Og Landsbankinn var ekki bara í eigu Björgúlfanna (annar þeirra eru jú gjaldþrota og því ekkert að sækja í hans bú) – því stór hluti Íslendinga átti hlut í bankanum. Ég átti hlutabréf í Landsbankanum í gegnum vísitölu sjóði og ég geri ráð fyrir að ansi margir hafi átt hlutabréf í Landsbankanum í gegnum sína lífeyrissjóði. Ef Björgúlfarnir eiga að borga þá ættum við hinir hluthafarnir að gera það líka. Við töpuðum öllu því sem við höfðum borgað fyrir hlutabréf í Landsbankanum. Ef að það ætti að gera hluthafa ábyrga fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækja þá mun einfaldlega enginn kaupa hlutabréf.

Og hvað ef við segjum NEI við Icesave? Heldur virkilega einhver að Björgólfur Thor muni þurfa að borga eitthvað meira? Nei, auðvitað ekki. Í dómsmáli mun annaðhvort íslenska ríkið þurfa að borga – eða (ef svo ólíklega fer að við myndum vinna málið) almenningur í Bretlandi og Hollandi. Nei við Icesave skiptir Björgólf Thor engu máli.

* * *

Við fengum lán frá Norðurlandaþjóðunum og frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum vegna þess að við lofuðum að semja um Icesave málið. Hverslags hegðun er það þá að koma núna og segja “Nei, djók, við ætluðum ekkert að semja – við viljum að þetta fari til dómstóla”? Hver tekur mark á slíkri þjóð?

Hversu mikils virði er það að þykjast vera sjálfstæð og þenja sig út með fullyrðingum um fullveldi og sjálfstæði ef að engar aðrar þjóðar taka mark á okkur?

Einsog Ellert B. Schram skrifar í blaðagrein:

Veruleikinn er hins vegar sá að sjálfstæði og fullveldi hverrar þjóðar byggist á samvinnu við aðrar þjóðir, lánafyrirgreiðslum, viðskiptum, gjaldeyristekjum og orðspori.

* * *

Ég er orðinn þreyttur á Icesave. Ég er orðinn þreyttur á að rífast um þetta mál við vini og fjölskyldumeðlimi. Annars frábært steggjapartí hjá vini mínum snérist uppí rifrildi um Icesave. Hversu sorglegt er það?

En ég er ekki að biðja fólk um að segja Já við Icesave bara af því að ég er svona þreyttur. Nei, ég tel einfaldlega að JÁ við Icesave sé langbesti kosturinn fyrir Íslendinga.

Munið að þessi kosning á laugardaginn snýst ekki um hægri og vinstri. Þetta er ekki tækifæri til að klekkja á ríkisstjórninni eða Samfylkingunni eða VG eða Bjarna Ben. Það verður fólk að muna. Kosningarnar snúast ekki um Davíð eða Björgólf eða Jón Ásgeir eða Jóhönnu eða Steingrím. Björgólfur Thor mun ekkert þurfa að borga aukalega ef við segjum Nei. Nei á laugardaginn er ekki tækifæri til að klekkja á honum. Kosningarnar snúast ekki um þá, heldur hagsmuni allrar þjóðarinnar.

Ég segi Já við Icesave samningunum og ég bið þig um að gera það líka. Æstustu NEI sinnarnir munu mæta á kjörstað og því er það gríðarlega mikilvægt að við hin mætum líka á kjörstað og veljum JÁ.

Ég tel yfirgnæfandi líkur á að kostnaðurinn við JÁ verði miklu lægri en kostnaðurinn við NEI og ég tel að JÁ muni hjálpa til við að bæta orðspor Íslendinga. Orðspor okkar er jú eitt það mikilvægasta, sem við höfum. Þess vegna kýs ég JÁ.

Þetta var skrifað í Khulna, Bangladess síðasta laugardag

25 thoughts on “Ég segi JÁ við Icesave”

 1. Pingback: Anonymous
 2. Takk fyrir góðan pistil, en ég er ósammála.

  Á hvorn veginn Icesave getur hugsanlega haft áhrif á lánshæfismat Íslands, og til skamms tíma á verri veg. Það er vissulega rétt. Með Nei er óvissunni ekki eytt – en á móti kemur að skuldbindingar ríkisins eru minni sem vinnur á móti. Það er oft talað eins og lánshæfismatið standi og falli með Icesave sem er alrangt. Það er fjöldinn allur af breytum sem hafa áhrif þar á, og ég hef trú á að Nei hafi jákvæð áhrif á aðrar breytur.
  Orðspor Íslands og Íslands sem viðskiptalands mun ekki bíða hnekki við að segja Nei. Við sjáum að dagblöð eins og Wall Street Journal, Financial Times og The Guardian hafa lýst því yfir að Íslendingar ættu að segja Nei. Þó Nei verði vissulega til þess að hafa neikvæð áhrif á ímyndina í einhverjum vissum tilfellum mun það líka styrkja ímyndina í öðrum tilfellum, og af því sem ég hef lesið erlendis sýnist mér það vera raunin í mun fleiri tilfellum. Orðspor Íslands í heild verður fyrir afskaplega litlum áhrifum af þessu máli þar sem við erum búin að taka mesta skellinn þar.
  Gjaldeyrishöftin verða ekki minni við það að samþykkja Icesave – þar sem það veldur gríðarlegri gengisáhættu. Samningurinn leggur á okkur mikla gjaldeyrisáhættu og því verður enn mikilvægara en ella að halda gjaldeyrishöftunum. Því má bæta við að síðast þegar samningnum var hafnað varð ekkert hrun á krónunni né drógu AGS lánin til baka. Þetta er hræðsluáróður sem á ekki við rök að styðjast.

  Þjóðir öðlast ekki virðingu við það að þora ekki að standa á sinni sannfæringu. Við eigum í góðu samstarfi við aðrar þjóðir og ef við teljum rétt að leysa einhvern ágreining fyrir dómstólum, þá gerum við það. Slíkt gera aðrar Evrópuþjóðir líka án þess að orðspor þeirra sé í molum fyrir vikið.

  Icesave umræðan er leiðinleg en við megum ekki láta það stoppa okkur frá því að gera það sem er rétt.

  Þess vegna kýs ég Nei – en vona að já og nei sinnar geti verið áfram vinir 😉

  Með bestu kveðju til Bangladess
  Hjörtur

 3. Vert er að taka fram að Icesave hjá landsbankanum var tvöfalda tryggingu, Icesave var með innistæðutryggingar hjá bretum líka, svo að innistæðutryggingasjóðurinn þar á að sjá um það sem tryggingasjóður hér heima nær ekki að klára.

  Breskur og hollenskur almenningur þarf ekki að greiða fyrir Icesave, það eru tryggingasjóðir hjá þessum löndum sem greiða þetta, þ.e.a.s fjármálafyrirtæki þar í landi þarf að greiða fyrir það sem ekki næst upp í út úr þrotabúinu, og takið eftir því að með setningu neyðarlagana þá eru bretar og hollendingar að fá fulla greiðslu upp í lágmarkstryggingu og ~94% upp í umframtrygginguna sem þeir ákváðu sjálfir að hafa(samkvæmt útreikningum Já sinna sjálfra), að halda því fram að bretar og hollendingar fái ekki neitt ef sagt er nei er bara langt frá því að vera satt.

  Kostnaður við samþykki á Icesave 3 á aldrei eftir að verða það sem ríkisstjórnin er búin að reikna út, gott dæmi um það er t.d. Iceland keðjan, en hún er metin á 200 milljarða en eina og hæsta boðið í hana er 120 milljarðar (þarna eru 60% endurheimtur af mati).

  Í icesave 3 þá eru hollendingar og bretar að fá 49% af endurheimtun þrotabúsins til að greiða umfram lágmarks ábyrgð.

  Í icesave 3 þá er kveðið á um það að öll endurgreiðslan skuli fara fram í erlendum gjaldeyri þrátt fyrir að lög um innistæðutryggingasjóð hér taki skýrt fram að hann skuli greiða til baka í Íslenskum krónum.

  Í icesave 3 þá er algert afsal á öllum rétti til breta og hollendinga þar sem það er tekið skýrt fram að allur ágreiningur um málið skal fara fram í hollenskum dómsstólum eftir breskum lögum.

  Þrátt fyrir að við höfum lofað að semja um Icesave þýðir ekki að við höfum verið að samþykkja ríkisábyrgð á innistæðunum, það þýðir bara að við höfum samþykkt að semja um málið.

  Orðspor, með því að segja Nei við Icesave kemur ekki til með að skaða orðspor Íslands, 99% af plánetunni hefur ekki hugmynd um að Icesave sé til og flestir sem af því vita (fyrir utan nokkra stjórnmálamenn í bretlandi, hollandi og hér á Íslandi) eru að hvetja okkur að merkja við Nei.

  Gjaldeyrishöftin, þau fara ekki neitt ef almenningur samþykkir Icesave, þá fyrst eru þau komin til að vera, ástæðan er sú að Icesave samningnum fylgir gífurleg gjaldeyris áhætta og mun ríkissjóður þurfa að halda gjaldeyrishöftunum uppi og kemur það til með að kosta ríkið svakalegar fjárhæðir.

  Að halda því fram að lánshæfismat lækki með aukinni skuldatöku stenst ekki rök, þetta er eitthvað sem allir ættu að vita sem hafa nokkurntíman tekið lán eða veitt það, því meira sem viðkomandi skuldar eða er með ábyrgð í, því minni líkur að viðkomandi fái lán.

  Kostnaður við tapað dómsmál kemur aldrei til með að vera verri heldur en samþykki á Icesave 3, áhættan er bara svo miklu meiri.
  Ef Icesave 3 kemur til með að kosta ríkið svo lítið afhverju samþykktu þá ekki bretar og hollendingar eingreiðslu upp á 47 milljarða?

 4. Kærar þakkir fyrir þessa upprifjun Einar….ég skora á alla að kjósa “Áfram Ísland” og segja JÁ á laugardaginn !!
  kv,
  Sigurjón Arthur Friðjónsson

 5. Vá, það er svo margt sem ég er ósammála hjá þér að ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Pistillinn er reyndar fínn og nokkrir ágætis punktar. Ég skil vel að þú sért orðinn langleiður á gjaldeyrishöftunum en eins og Halldór nefnir hér að ofan að þá fyrst festast þau í sessi ef að Icesave er samþykkt.

  Ég ætla að nefna nokkra punkta nú og næ vonandi að koma meiru að síðar.

  Fyrst þá er ekki rétt að ríkið ábyrgðist innistæður “Íslending” á Íslandi. Ríkið gekk í ábyrgð fyrir innistæður í krónum á Íslandi. Sama hver eigandi þeirra var. Það er eitt að ríki gangi í ábyrgð fyrir skuldum í eigin gjaldmiðli en að gangast í ábyrgð í gjaldmiðli sem það prentar ekki er algjör firra.

  Annað sem kemur ekki nægjanlega oft fram er það að Tryggingasjóður innstæðueigenda (TIF) var ekki með ríkisábyrgð. Í lögum um hann var hins vegar heimild hjá sjóðnum til þess að taka lán ef hann gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum.

  Varðandi lánshæfismat þjóðarinnar þá hef ég ekki tekið eftir því að neinn hafi talað um neikvæð áhrif synjunar á Icesave nema íslenskir stjórnmálamenn. Það má í raun segja að ríkisstjórnin hafi verið versti óvinur þjóðarinnar varðandi þetta mál hingað til.

  Ef við segjum já við samningnum á laugardag þá gengst ríkið í beina ábyrgð á þessari skuld, það þýðir að ábyrgð á Icesave fer fram fyrir óbeina ábyrgð ríkisins á t.d. Íbúðalánasjóði, Landsvirkjum og fleiri aðilum sem íslenska ríkið er því miður í ábyrgð fyrir. Ég get ekki séð annað en að þetta muni lækka lánshæfismat þessara stofnanna og í raun ríkisins líka. Því að það hlýtur að vera samasemmerki á milli gríðarlegrar aukningar skulda ríkis í erlendum gjaldmiðli og verra lánshæfismats ?

  Það eru margar ástæður fyrir því að ég ætla að segja NEI við Icesave III en fyrst og fremst sú að okkur ber ekki að gangast í ábyrgð á þessu máli. Önnur er sú að samningurinn er ekki nægjanlega góður. Ragnar Hall ákvæðið þarf m.a. að vera þarna inni og ríkisstjórnir Hollands og Bretlands þurfa að bera einhverja áhættu hvað samninginn varðar. Ísland ber hlutfallslega alltof mikla áhættu í þeim samningi sem þjóðin mun taka afstöðu til á laugardag.

  Það að stjórnmálamenn hérlendis hafa sagt að við eigum að borga finnst mér ekki skipta máli. Lögunum hefur verið vísað til þjóðarinnar og við eigum að grípa það tækifæri sem við höfum fengið til þess að hafna þessari firru fegins hendi.

  Bestu kveðjur til Bangladesh 🙂

 6. @Halldór hér að framan: Þú segir” Kostnaður við tapað dómsmál kemur aldrei til með að vera verri heldur en samþykki á Icesave 3, áhættan er bara svo miklu meiri” Hvað hefur þú verið að lesa?
  Þessi ætti að vera búinn að kynna sér málið: http://eyjan.is/2011/02/05/segir-icesave-samninga-kosta-brot-af-thvi-sem-tapad-domsmal-myndi-kosta/
  Af hverju ætli að það eina sem ASÍ og SA geta komið sér saman um sé að staðfesta Icesave?
  Þegar fólk ætlar að segja nei er það alltaf út af einhverju öðru en þessum samningi; til að fara ekki í ESB, til að fella ríkisstjórnina eða til að kenna einhverjum bankamönnum lexíu. Lélegt.

 7. Jóhanna, ástæðan fyrir því að ég held þessu fram er að með töpuðu dómsmáli þá eru nokkrir þættir sem eru okkur í hag,
  1. að geta greitt þessa skuld í íslenskum krónum (tekið sérstaklega fram í lögum um tryggingasjóð að hann skuli greiða í íslenskum krónum) –
  2. að fá 100% af eignum þrotabúsins í staðin fyrir 51% eins og kveður á í samningnum –
  3. Halda lögsögunni í málinu sjálf (Í Iceave 3 þá erum við að afsala öllum okkar rétti til breta og hollendinga samkvæmt þeirra lögum) –
  4. þurfa einungis að greiða lágmarks innistæður upp að 20.887 evrum (eins og þetta er í Icesave 3 þá er þrotabúið að greiða upp að 100 þús evrum) –
  5. Engir vextir (Í svona málum þá eru vanalega ekki dæmdir vextir)
  — Besta mögulega útkoma úr dómsmáli er 0 kr, Besta mögulega útkoma úr Icesave samningi er 23+ milljarðar og þetta er engin smá tala…
  — Versta mögulega útkoman út úr töpuðu dómsmáli 674 milljarðar í íslenskum krónum, versta mögulega útkoman út úr Icesave 3 er 674 milljarðar + vextir (~20 milljarðar á ári).
  — Annað sem ég tók fram í fyrri athugasemd er það að þrátt fyrir að við segjum nei við þessum Icesave 3 samningi þá er það alls ekki þannig að bretar og hollendingar fái ekki neitt, ef allt stendur sem ríkisstjórnin er að halda fram um að þetta muni kosta þá eru bresk og hollensk stjórnvöld að fá í kringum 94-97% af þeirra kröfum.
  Hvað varðar ástæður sem þessir aðilar sem þú hefur séð og heyrt í sem ætla segja nei og þær ástæður sem þú tekur fram þarna þá verða þeir aðilar að eiga það við sig sjálfa, mínar ástæður eru byggðar á miklum rannsóknum á Icesave málinu og eins og einn sagði “blákalt mat” að það er mjög mikilvægt fyrir þjóðina að hafna þessum ólögvarða samningi.

 8. Segjum þú sért fangi í Sunville State Prison í Texas… það á að taka þig á lífi fyrir glæp sem þú framdir ekki. Þú færð valkost… A: Vera tekin af lífi með banvænni sprautu á fyrirfram ákveðnum degi ……eða B: Mál þitt fer fyrri dóm og tekið fyrir að nýju. Óvíst hver dómurinn verður en þú átt þó möguleika… most likely mun réttlætið ná fram að ganga

  Hvort veluru?

 9. Ástæður fyrir því að samlíking Inga er út í hött:

  a) Samþykkt Icesave er ekki dauðadómur

  b) Allar líkur eru á að ef við töpum dómsmáli þá sé það verri fjárhagsleg niðurstaða en samþykkt nú

  c) Við vitum ekki hvort við frömdum glæpinn. Þetta er ekki það einfalt. Það er vel mögulegt að við höfum gert það og frá sem lagt hefur verið fyrir er líklegra en hitt að við töpum dómsmálinu

 10. Fínn pistill en ég er meira sammála þeim mörgu sem andmæla þér hér fyrir ofan.. en það er eitt sem við eigum að hafa í huga hvort sem menn eru já eða nei menn… Ekki láta þetta spilla vináttu og skemmtunum okkar.. það er BANNAÐ….

  Lifið heil
  Eiður

 11. Frábær pistill og tekur á mörgu sem ég hef sjálfur hugsað. Langar að bæta við smá klausu úr grein sem Gylfi Magnússon skrifaði í Fréttablaðið í dag:

  “Þegar líklegur reikningur ríkisins vegna Icesave, 30 milljarðar, er skoðaður má hafa í huga að íslenska ríkið hafði um 450 milljarða í tekjur á árunum 2003 til 2007, sem beint má rekja til góðærisbólunnar og þess fjár sem íslensku bankarnir dældu inn í hagkerfið, m.a. af Icesave-reikningunum.”

  Hlutirnir eru settir í raunsætt samhengi í þessari grein, hvet sem flesta til að lesa hana: http://visir.is/aeseifskvida/article/2011704069999

 12. Ég tók út plugin, sem var að valda því að öll kommentin komu einsog ein málsgrein. Þeir sem settu inn komment kunna á Enter takkann, en WordPress ruglaði þeim.

  Og ég verð að biðjast afsökunnar á því að ég get ekki lagt mig fram um að svara þessum kommentum, sem hér eru komin inn. Vinnupóstur og smá ferðapistill verður að fá að ganga fyrir.

  En ég mæli líka með greininni, sem að bent er á hér í kommentinu á undan.

 13. Sæll Eggert,

  Hvað varðar þennan líklega reikning upp á 30 milljarða þá er það mjög hæpin útkoma að mínu mati.

  Hvað varðar þessa 450 milljarða tekjur sem ríkið hafði á árunum 2003-2007 þá er mjög takmarkað magn af því komið frá Icesave, bróður parturinn af þessum innlánum fóru beint út aftur í bresku og hollensku hagkerfin í formi lána til fyrirtækja og eigenda þeirra, einnig er vert að taka fram það tjón sem bresk stjórnvöld ullu íslensku þjóðinni með setningu neyðarlagana, það tjón var gífurlegt og er þessi 450 milljarða hagnaður liggur við klink við hliðinni á þeirri tölu.

  Hvað varðar Gylfa Magnússon þá er að mínu mati lítið hægt að taka mark á honum þar sem hann var með hverja dómsdagsspánna fyrir Icesave 1 og Icesave 2, ekkert af því rættist heldur fór það í hina áttina.

 14. Púff… lið fyrir lið.

  1. Kostnaður – Það sama var sagt þegar við ákváðum að henda gömlu Icesave samningunum út um gluggann. Hvorugt gerðist. Skuldatryggingaáróðurinn er hræðsluáróður.

  2. Orðspor – Það væri enn verra að láta fara illa með sig í samningum. Gengisáhættan til 35 eða 50 ára eða hvað það nú er, er svo skelfileg í ljósi sögunnar (þar sem krónan hefur rýrnað niður í 1/2000 af því sem hún var fyrir 60 árum) að það er bara viðbjóður að hugsa til þess að einhver mæli með því. Þú tókst varla gjaldeyrislán fyrir 5 árum eða hvað??

  3. Að lyfta gjaldeyrishöftunum og setja krónuna á flot væri það fáránlegasta sem við gætum gert í ljósi veikingar krónunnar. Sjá lið #2.

  Ertu orðinn þreyttur á Icesave? Sorrý vinur, ég er ekki að fara að steypa framtíð okkar í glötun á meðan einhver von er til þess að semja um þetta betur eða jafnvel (þótt það sé ekki gott) að fara dómstólaleiðina. Þú verður að vera þreyttur áfram. Og ekki held ég það mundi bjarga þreytunni þinni það sem við tæki næstu áratugi. Ekki það að þú þurfir að hafa áhyggjur af þessu búandi í útlöndum, bara með smá ónot á kantinum vegna gjaldeyrisflæðisins. Út frá praktískum sjónarhóli er grundvallaratriðið þetta: Gjaldeyrisáhættan er algerlega óviðunandi, um annað má semja þ.s. leiða má rökum að því að dótturfélag íslensks banka hafi að einhverju leyti verið á ábyrgð íslensks fjármálaeftirlits en ekki aðeins þess breska – Þótt það sé reyndar alveg út í hött – eins og íslensk yfirvöld bæru ekki ábyrgð á því að gefa banka leyfi til starfsemi hér á landi og á því að innistæðutryggingasjóður viðkomandi banka væri nægjanlegur. Í raun er það hlægilegt. En leiða má að því rökum. Þó ekki með þeim afleiðingum að taka mikla áhættu (svona 80% til 90% kannski) á því að gera Ísland gjaldþrota með þeim samningum eins og nú stendur til.

 15. http://vimeo.com/21929491

  Á þessu myndbandi (16 mín) ættu menn að hlusta á áður en þeir segja já eða nei við Icesave.
  Reimar Pétursson er lögmaður á alþjóðafjármálamörkuðum. Hann útskýrir þetta á mjög skýran og einfaldan hátt.

  Finnbogi Kr.

 16. Fyrirgefðu.. hvað með þau rök að við gerðum ekki þessi mistök, ekki vorum við að leika okkur með peninga, við gerðum þetta ekki, við borgum ekki, ég þori að veðja að ef þessir bankamenn hefðu ekki verið með hausinn svo djúpt uppí rassgatinu á sér þá hefðu þeir án ef tekið eftir viðvörunarmerkjunum.

  og að segja “já” þá eru þið EKKI að ýta þessu máli frá okkur, þar sem þetta er ekki okkar mistök þá eigum við rétt á að semja þangað til okkur finnst samningurinn sanngjarn.

  með því að segja já.. þá er verið að hella 25 milljörðum.. (eða meira) yfir okkur í einu, skattar fara uppúr öllu valdi og fleiri manns mun missa ALLT.

  Gerið rétt.. segið nei

 17. Hrafn, án þess að vera neinn sérstakur Tryggva maður, en er það ekki rétt munað hjá mér að hann hafi hætt störfum sem ráðgjafi Geirs á sínum tíma vegna þess að það var ekkert hlustað á hann?

  Ef ekki, þá finnst mér amk skrítið að koma með svona persónuleg rök inn í þessa umræðu, hvort heldur um hann eða “bankaelítuna” svokölluðu.

  Einar, takk fyrir pistilinn, búinn að vera að lesa talsvert um þessi mál síðustu daga og verð að játa að ég er enn á báðum áttum.
  Ég hallast þó að sömu niðurstöðu og þú en þá vegna þess að ég tel okkur verða að komast áfram með þessa svokölluðu “endurreisn” landsins.
  Hugsa að það verði enginn heimsendir ef við segjum nei en ég held að við komum hraðar undir okkur fótunum með já.

  Á hvorn vegin sem fer, þá hugsa ég að við munum við búa við gjaldeyrishöft svo lengi sem við reynum að notast við einn minnsta gjaldmiðli þessa heims.

 18. Einar,.. ég hefði þokkalega þurft á þér að halda undanfarna daga hérna í Lundi við að sannfæra fólk um að kjósa JÁ. En þessi grein þín ætti nú einfaldlega að vera skyldulesning fyrir alla viti borna einstaklinga sem hafa kosningarétt.

  Kveðja frá vorinu hérna í Lundi.

  Borgþór

 19. Flottur pistill hjá þér. Rökviss og sanngjarn. Því miður er ég ekki svo viss um að virki á þá sem hafa fyrirfram ákveðið að nei-ið sé leið til þess að sparka í stjórnvöld, gefa puttann í útlönd og fá almennt útrás fyrir sína reiði og frústrasjón.

  Það þarf skynsemi, hófsemi og stillingu til að taka góða og upplýsta ákvörðun. Þegar forsprakkar nei-sinna tala um að selja börn í þrældóm til útlanda þá er augljóst að illa er komið fyrir þjóð sem ætlar að hugsa um sína bestu hagsmuni í víðara samhengi.

  Í fréttum gærdagsins var talað um að ef sala á Iceland Foods gengur eftir á téðum verðum þá yrði upphæðin af því að samþykkja samninginn svo gott sem engin. En því miður skiptir það of marga engu málin. Tækifærið til að steyta hnefann er of gott til að sleppa því. Því miður mun að eflaust bitna verst á þeim til lengri tíma litið.

  Ég mun segja JÁ við skynsemi, víðsýni, frið og sálarró. Ég segi JÁ við jákvæðum samningi og góðri lausn á leiðindamáli.

  Áfram Ísland

  YNWA

Comments are closed.