Einir heima – ég og Torres

Margrét er í Kaupmannahöfn um helgina. Það eru kannski ekki merkilegar fréttir, en þetta er samt sem áður í fyrsta skipti síðan við fluttum til Svíþjóðar í janúar 2009 sem við erum ekki saman. Núna um helgina höfum við því bara verið tveir hérna á Götgötunni, ég og kötturinn Torres.

Já, við Margrét fengum okkur nefnilega kött. Þetta er hreinræktaður british shorthair, sem er núna um 3,5 mánaða gamall. Margrét hafði mjög lengi reynt að tala mig inná þá hugmynd að kaupa gæludýr fyrir heimilið og eftir nokkra mánuði féllst ég á þá hugmynd og þessi köttur varð fyrir valinu. Við keyptum hann af konu, sem ræktar ketti rétt fyrir utan Västerås, vestur af Stokkhólmi. Ég fékk að velja nafnið á köttinn og varð Torres fyrir valinu, í höfuðið á mínum uppáhalds knattspyrnumanni.

Torres hefur búið hjá okkur í tvær vikur og það er ekki hægt að segja annað en að sá tími hafi komið mér skemmtilega á óvart. Ég hef jú aldrei átt gæludýr áður og því er þetta ný reynsla fyrir mig. Torres er einstaklega ljúfur köttur. Hann hefur nánast bara verið inni síðan að hann flutti til okkar (fyrir utan smá tíma á Nytorget um síðustu helgi) og þar flakkar hann á milli þess að vera í tryllingslegum eltingaleikjum við flugur um alla íbúð yfir í það að vilja liggja oná maganum mínum eða á milli lappanna minna og kúra. Hann er enn dálítið fyrir það að sjá hvað honum leyfist og hann stekkur ítrekað uppá eldhúsborð þrátt fyrir að hann viti greinilega að hann megi ekki gera það.

Það verður svo að segjast að það lífgar talsvert uppá íbúðina að hafa kött hérna, sérstaklega þegar að annaðhvort okkar er eitt heima. Það er gaman að vita til þess að kötturinn taki á móti manni þegar að maður kemur heim. Ég ætla þó að bíða með frekari yfirlýsingar um ágæti kattaeignar þangað til að Torres hefur búið hjá okkur aðeins lengur. En byrjunin lofar góðu.

* * *

Annars hefur þetta verið fín helgi. Á föstudagskvöldið kíkti ég með nokkrum strákum útað borða hérna á Södermalm og svo í afmæli til vinar míns í Saltsjö-Boo, þar sem var mjög gaman. Ég eyddi svo öðrum laugardeginum í röð í þynnku heima, en hef verið talsvert hressari í dag. Ég byrjaði á vorhreingerningum í morgun með fólkinu í húsinu og svo hljóp ég um miðbæinn.

Eitt það besta við að búa svona miðsvæðis í Stokkhólmi er hversu auðvelt það er að finna góðar hlaupaleiðir. Í dag hljóp ég um Gamla Stan, framhjá höllinni, yfir á Skeppsholmen og svo tilbaka framhjá Riksdag þinghúsinu. Veðrið var æðislegt og borgin lifnar ótrúlega við um leið og veðrið verður þolanlegt.

Annars verður þessi vika ábyggilega spennandi. Við munum opna Serrano á Kungsbron á fimmtudaginn og kvöldið áður verðum við með partí auk þess sem það er von á gestum frá Íslandi. Það er fátt skemmtilegra í þessum bransa en síðustu dagarnir fyrir opnun nýs staðar.

2 thoughts on “Einir heima – ég og Torres”

  1. Ég myndi fara með hann strax í hnjáspeglun til að fyrirbyggja frekari vandræði þegar hann eldist!

    Kv. Borgþór

Comments are closed.