Fahrenheit 9/11

Einsog ég hef minnst á, þá fór ég og sá Fahrenheit 9/11 á þriðjudaginn. Sá myndina klukkan hálf ellefu í kvikmyndahúsi í Houston, Texas. Og biðröðin inná myndina náði nánast í kringum kvikmyndahúsið. Þannig að jafnvel í ríki George Bush er áhuginn á myndinni gríðarlegur.

Gagnrýnin sem ég hafði lesið og séð um myndina er fáránleg, sérstaklega þar sem flestir íhaldssamir gagnrýnendur höfðu alls ekki séð myndina áður en þeir hófu gagnrýnina. Margir halda því fram að Moore hati Bandaríkin og sé á móti hermönnum, en sennilega er fátt jafn fjarri sannleikanum. Moore elskar Bandaríkin meira en allir þessir “ditto-hausar”, sem samþykkja skilyrðislaust allt sem Bush segir og gerir. Honum er einfaldlega mikið í mun um að landið breytist til batnaðar. Alveg einsog mörgum Evrópubúum, þá blöskrar Moore hvernig Bush og hans félagar hafa farið með stjórn landsins. Fahrenheit 9/11 er beitt gagnrýni á Bush og bandarísk stjórnvöld, en jafnframt óður til bandarísku þjóðarinnar og ákall til hennar um að koma Bush frá völdum

**Myndin er snilld.**


Einsog [Paul Krugman bendir á í pistli sínum](http://www.iht.com/articles/527698.html), þá hefði myndin verið mun betri ef Moore hefði einfaldlega sleppt samsæriskenningum sem koma fram í myndinni. Í aðdraganda frumsýningu myndarinnar var mikið gert úr fullyrðingum Moore um samskipti Bush og Bin Laden, auk samstarfs fyrirtækja tengdum Bush við Sádi Arabíu. Ég veit ekki hvort þær eru allar sannar, en sennilega er hægt að finna einhverjar staðreyndavillur í þeim kenningum. Á þeim forsendum hafa margir gert lítið úr myndinni. Þeir, sem einblýna hins vegar á þær villur eru algjörlega að missa af boðskapi myndarinnar.

Myndin er nefnilega hárbeitt gagnrýni á Bush og það ástand, sem hann hefur skapað undanfarin ár. Hún sýnir okkur afleiðingar gjörða Bush. Allt frá hnignun ameríska hagkerfisins til þeirra þjáninga, sem aðgerðir hans hafa ollið öðrum þjóðum og hans eigin þegnum.


Moore fjallar stuttlega um kosningarnar árið 2000 og eftirmála þeirra, sem voru hneyksli enda vann Al Gore kosningarnar einsog allir vita. Hann fjallar svo um þann fáránlega mikla tíma sem Bush eyddi í fríi fram að 11. september. Á þeim áhrifaríka degi sýnir Moore mjög áhrifaríkt 8 mínútna myndband, þar sem Bush situr með krökkum og les uppúr bók í 7 mínútur eftir að það er hvíslað að honum að seinni flugvélin hafi flogið á WTC turnana. Í sjö mínútur starir Bush útí loftið í stað þess að gera eitthvað. Á meðan að farþegar voru að berjast við hryðjuverkamenn í flugvél yfir Pennsylvaníu, starði Bush útí loftið. Þannig að allt blaður um hversu hugaður Bush hafi verið þann 11. september er afsannað með þessu ágæta myndbandi.

Eftir 11.september dregur Moore svo saman margar af þeim fáránlegu fréttum, sem komu út um alls konar hættur sem áttu að steðja að Bandaríkjunum, svo sem um springandi penna, anthrax og allt það bull. Ég bjó í Bandaríkjunum á þessum tíma og veit vel hvernig ástandið var. Á hverjum degi var búin til ný frétt um að það væri varla hægt að fara útúr húsi án þess að rekast á meðlim Al-Quaeda, sem vildi drepa mann. Auðvitað þjónar þessi hræðsla tilgangi yfirvalda. Því ef fólkið er hrætt er hægt að fá það til að fórna ýmsum borgaralegum réttindum. Þessi hræðsluáróður tengist svo innrásinni í Írak og minnkandki borgaralegum réttindum Bandaríkjanna.


Moore er einnig ennþá trúverðugur verjandi lítilmagnans í Bandaríkjunum. Einsog í öðrum myndum sínum dregur hann upp mynd af ástandinu í Bandaríkjunum og vísar oft til heimabæjar síns í Michigan fylki. Þar sýnir Moore hvernig það eru þeir allra fátækustu eru ávallt þeir fyrstu, sem bjóða sig fram í herinn. Þar sem ekki er herskylda í Bandaríkjunum, þá auglýsir herinn sig í sjónvarpi með loforðum um að borga fyrir háskólamenntun. Þannig að þeir ríkustu í Bandaríkjunum hafa lítið með herinn að gera því þeir borga einfaldlega fyrir sig sjálfir.

Fyrir þá fátækustu er hins vegar herinn oft eina leiðin til að fólk geti menntað sig. Í áhrifaríkum atriðum í myndinni slæst Moore í för með tveimur hermönnum þegar þeir reyna að fá fólk til að ganga í herinn. Þeir ákveða að fara ekki í flotta “mall-ið”, heldur aðeins “mall-ið” í fátækari hluta borgarinnar.

Það er áberandi í Fahrenheit 9/11 hversu *lítið áberandi* Moore er. Ólíkt fyrri myndum er hann nánast aldrei sýnilegur. Þó fer hann á kostum í tveimur atriðum fyrir utan þinghúsið, sérstaklega þegar hann reynir að fá þingmenn til að senda syni sína í herinn til að berjast í Írak.


Áhrifaríkust eru þó atriðin, sem sýna betur en nokkur tölfræði, þær þjáningar sem stríðið í Írak hefur valdið. Moore tekur fyrir nokkur mannleg dæmi í stað þess að telja upp tölfræði, sem við erum öll ónæm fyrir.

Í fyrsta lagi sýnir Moore nokkrar af svakalegustu fréttamyndunum frá Írak. Það er auðvelt að láta þessar fréttamyndir líða framhjá sér þegar maður er heima í stofu, en þegar þeim er varpað uppá bíótjald, þá getur maður ekki forðast það að horfa í augu við hörmungarnar. Ég varð að líta undan nokkrum sinnum í myndinni og ég sá aðra gesti gera það líka. Mjög áhrifaríkt er líka þegar Moore fer beint frá stríðsmyndunum yfir á skot á Britney Spears, sem á ábyggilega heimskulegasta komment allra tíma, en sem lýsir afstöðu alltof margra. Einnig talar Moore við hermenn, sem skilja ekki tilganginn í stríðinu og eru svekktir yfir því að vörubílstjórar frá [Halliburton](http://www.halliburton.com/) séu með margölf laun á við hermenn.


Hin hliðin á stríðshörmunginni er svo fátæk móðir í Michigan, sem missir son sinn í Írak. Moore fylgist með henni allt frá því að hún reynir að réttlæta stríðið yfir í það að hún missir son sinn og smám saman allan skilning á tilgangi stríðsins. Það eru gríðarlega áhrifaríkar stundir í myndinni þegar Moore fylgir móðurinni eftir, þar sem hún reynir að sjá einhvern tilgang í því að sonur hennar hafi dáið í tilgangslausu stríði.


Semsagt, myndin er *frábær*. Mæli með henni fyrir alla. Já já, hún er áróður, en Moore viðurkennir það líka. Það dregur samt ekkert úr áhrifamætti myndarinnar, sem sýnir hverjir það eru sem þjást útaf stríðsrekstri og stefnum Bush. Á meðan hans vinir græða eru það þeir, sem verst standa í Bandaríkjunum, sem þjást.

Eflaust er hægt að finna einhverjar staðreyndavillur í myndinni, en þær draga ekki úr áhrifamætti boðskaparins.

Ég grét, hló og hneykslaðist. Salurinn stóð upp og klappaði. Frábær mynd!

5 thoughts on “Fahrenheit 9/11”

 1. Fyndið að sjá myndina af Moore við hlið Bush. Það er aðeins búið að photoshoppa af honum mörinn. 😉

 2. “enda vann Al Gore kosningarnar einsog allir vita”

  Er ekki allt í lagi? Skv. því kosningakerfi sem gildir í BNA vann Bush að sjálfsögðu. Það er svo önnur spurning hvort mönnum finnst það vera réttlátt.

 3. Æji, ég var nú ekkert heilluð af þessarri mynd. Mér fannst hún ágæt, ég var að vona að hann kæmi kannski með einhvern ogguponsu ferskan vinkil. Mér leiddist helminginn af myndinni, það var EKKERT þarna sem ég hafði ekki séð eða hugsað um áður… Ég var frekar “un-impressed”.

 4. Vissulega var þarna ekkert nýtt fyrir þá, sem fylgjast mjög vel með fréttum. En þetta var bara sett mjög vel saman á áhrifaríkan hátt. Svo er líka fullt af fólki, sem sér myndina en fylgist lítið með fréttum.

  Skil ekki hvernig þér gat leiðst á myndinni, ég var spenntur allan tímann. 🙂

 5. “hnignun ameríska hagkerfisins”, nú jæja, hefur hagkerfið hnignað. Rétt að báknið hefur stækkað frá dýrðardögum frjálsrar verslunar fyrir þarsíðustu aldamót.

  Er að reyna að downloada myndinni, enda glæpamaður í gegn og forvitin að sjá hvernig hagkerfinu hefur hrakað undanfarin ár.

Comments are closed.