Fahrenheit umræða

Fahrenheit 9/11 verður frumsýnd um helgina á Íslandi og því er hafin umræða um myndina hér á landi.

Ég sá myndina fyrir nokkrum vikum og skrifaði um hana hér: [Fahrenheit 9/11](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/03/17.01.27/)

Í Kastljósi í kvöld var riddari sannleikans frá því í fjölmiðlamálinu, Ólafur Teitur að þræta við [Sverri Jakobsson](http://kaninka.net/sverrirj/010514.html) og kvikmyndagagnrýnanda (Ólaf Torfason) um myndina.

Ólafur Teitur er löngu hættur að reyna að fela stjórnmálaskoðanir sínar, þrátt fyrir að hann sé blaðamaður. Hann, líkt og ansi margir hægrimenn í Bandaríkjunum kýs að einbeita sér að meintum staðreyndavillum í myndinni, svosem að Michael Moore hafi ekki getið þess rétt hvað bókin, sem Bush las í 7 mínútur í skólastofu á Florida á meðan ráðist var á Bandaríkin, hét. (Ok, Ólafur tiltók líka aðrar merkilegri meintar staðreyndavillur. Flestar þeirra eru ræddar [hér](http://www.michaelmoore.com/warroom/f911notes/)).

Einsog ég [skrifaði um áður](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/03/17.01.27/), þá eru samsæriskenningarnar án efa veikasti hluti myndarinnar. Ekki vegna þess að þær séu endilega ósannar, heldur draga þær úr áhrifum bestu hluta myndarinnar, sem sýna áhrif efnahagsástandsins og stríðsins í Íraks á venjulegt fólk. Vegna galla á samsæriskenningunum geta menn gert lítið úr bestu atriðunum með því að benda á óskyldar meintar staðreyndavillur í öðrum atriðum og þannig dregið á ósanngjarnan hátt úr trúverðugleika myndarinnar.

Besti hluti Fahrenheit 9/11 er nefnilega að hún gefur atburðum síðustu ára andlit. Í stað þess að heyra um tölfræði, þá sjáum við fólkið, sem stríðið og stefna Bush snertir. Auk þess gagnrýnir myndin á skemmtilegan hátt alla geðveikina í kringum Bush stjórnina, allt frá appelsínugulum hryðjuverkavörnum til skerðingar á borgaralegum réttindum Bandaríkjamanna.

Hversu margar meintar staðreyndavillur, sem Ólafur Teitur og félagar finna, þá nær það ekki að grafa undan þeim meginboðskap myndarinnar að Bush stjórnin hefur grafið undan réttindum borgara sinna, öryggi þeirra, sem og orðspori Bandaríkjanna á alþjóða vettvangi.

16 thoughts on “Fahrenheit umræða”

 1. Moore virðist hafa tekist að svara flestum ásökunum um rangfærslur sem ég hef séð hann fá á sig. En það breytir því ekki að rangar ásakanir um rangfærslur munu halda áfram, þar sem ákveðnum hópi manna finnst best að trúa því sem fellur af fyrirframgefnum skoðunum þeirra. Svo beita þeir bara hinni gömlu góðu aðferð að segja sama bullið nógu oft, á endanum verður það satt.

  Strumpakveðjur 🙂

 2. Já, Ólafur Teitur er orðinn sorglegur blaðamaður. Gaman að sjá hvað hann varð niðurlútur þegar bent var á að vestrænir fjölmiðlar hefðu ekki beint verið sannsöglir í umfjöllun sinni um síðustu stríð BNA.

 3. Jamm, einsog Stefán Pálss, þá furða ég mig líka á þessari áráttu Sjálfstæðismanna að verja Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum.

  Einsog staðan er í dag, þá eiga Repbúblikanar nákvæmlega ekkert sameiginlegt með frjálslyndum hægrimönnum á Íslandi.

 4. Reyndar eiga Sjálfstæðismenn ekki mikið sameiginlegt með frjálslyndum hægrimönnum á Íslandi heldur 😉

 5. Ég er sammála Moore í flestum atriðum sem snúa að pólitík (þar sem skoðun hans er á hreinu) en samt finnst mér þessi mynd einfaldlega vond. Mér fannst ekkert nýtt koma fram í henni og aðferðirnar sem hann notar til að vekja fólk til umhugsunar eru að mínu mati óskaplega ódýrar.

  Kannski fannst mér myndin vond þar sem ég er búinn að lesa allar bækurnar og hef heyrt flest af þessu áður.

  En það er kjánalegt ef menn halda að Moore hafi svarað allri gagnrýni sem hann hefur fengið á sig. Aðferð Moore er einföld, hann gefur hluti í skyn án þess að fullyrða nokkuð. Þannig getur hann alltaf neitað að hafa fullyrt eitthvað, réttilega, en það er ekki málið. Mörg svara hans við gagnrýni eru hreinir og klárir útúrsnúningar og snúast oft um að gera lítið úr þeim sem setja gagnrýnina fram.

  Mér finnst satt að hart í ári þegar heimildarmyndir Moore eru að fá svona mikið lof. Menn blása á alla gagnrýni og afgreiða helst alla þá sem tala illa um Moore sem öfgasinnaða hægrimenn eða vitleysinga.

  Vísa á umfjöllun Spinsanity um myndina og önnur verk Moore. Á Spinsanity er langbesta umfjöllunin um pólitíkina í BNA að mínu mati, allt spin fær sömu meðferð á þeim vef, sama hvaðan það kemur.

  Það var svo að mínu mati furðulegt hjá Ármanni að tala um það í kastljósþættinum að rangfærslur Moore væru réttlætanlegar vegna þess að kvikmyndaformið væri þess eðlis, ef menn vildu vandaða umfjöllun þyrfti að finna annann vettvang fyrir það. Moore notar formið sérstaklega til þess að koma rangfærslum á framfæri, hann leggur sig fram um að snúa úr hlutum til að draga upp ákveðna mynd. T.d. með því að klippa saman ótengd atriði, sýna blaðaúrklippur í smá stund og svo framvegis.

  Að mínu mati er ekkert athugavert við það að Moore geri hlutdrægar myndir um þessa atburði sem byggjast á stjórnmálaskoðunum hans. En að stór hópur fólks blási á alla gagnrýni á myndir Moore á þeim forsendum að gagnrýnin komi frá hægri fer óskaplega í taugarnar á mér.

  Hvað segir sama fólk um það þegar Moore gefur í skyn í bók sinni að Clinton hafi látið myrða fjölda manns í Bandaríkjunum, þar með talið nána samstarfsmenn hans? Þetta er dæmigert fyrir vinnubrögð Moore.

 6. Það er misskilningur ef einhver heldur ég hafi réttlætt rangfærslur Moores í þættinum. Ég tel einfaldlega að ekki sé um neinar rangfærslur að ræða. Ég hef lesið í gegnum 59 atriða lista Dave Koppels og fann þar ekkert bitastætt. Þar var hins vegar töluvert um útúrsnúninga og hártoganir.

  Margar af aðfinnslunum við mynd Moores eru þess eðlis að beðið er um upplýsingar og samhengi sem ekki er hægt að koma á framfæri í kvikmynd nema að hún verði ótrúlega löng og leiðinleg. Það fer svo eftir eðli manna og innræti hvenær menn telja að verið sé að blekkja eða bara einfaldlega að stytta sér leið.

  Moore notar t.d. oft myndefni sem hann útskýrir ekki hvaðan sé fengið. Það gera allir heimildamyndagerðarmenn. Munurinn á Moore og (flestum) þeirra er hins vegar sá að hann gerir betri og skemmtilegri myndir.

  Það sem er nýtt í myndinni tengist einkum myndefni. Maður hefur vissulega lesið margt af þessu áður en að sjá hlutina hefur auðvitað önnur áhrif á mann.

  Bækur Moores eru svo annar handleggur. Sjálfum finnst mér hann betri sem kvikmyndagerðarmaður en það er bara prívatskoðun.

 7. Ég biðst velvirðingar á þessari mistúlkun.

  Mér þykir furðulegt að fólk telji engar rangfærslur í mynd Moore. Það er hugsanlega hægt að halda því fram að Moore ljúgi ekki í mynd sinni en ýmsar fullyrðingar eru samt ansi nálægt því að vera hrein og klár blekking.

  það er áhugavert að sjá hversu misjöfnum augum menn líta þessar áróðursmyndir og bækur sem koma út um þessar myndir. Ég fyrir mitt leiti er ekki hrifinn af þessu yfir höfuð, þetta getur vissulega verið skemmtilegt en það fer alltaf í taugarnar á mér þegar blekkingar eru notaðar til að sannfæra fólk um einhverjar skoðanir, hvort sem um er að ræða pólítík eða trúmál, Ann Coulter, Georg Bush eða Michael Moore.

  Hversu margar meintar staðreyndavillur, sem Ólafur Teitur og félagar finna, þá nær það ekki að grafa undan þeim meginboðskap myndarinnar að Bush stjórnin hefur grafið undan réttindum borgara sinna, öryggi þeirra, sem og orðspori Bandaríkjanna á alþjóða vettvangi.

  Auðvitað dregur það ekki úr þeim meginboðskap, en það dregur úr gildi myndarinnar að mínu mati. Það getur hvaða bjáni sem er haft rétt fyrir sér af og til ef hann segir bara nógu andskoti mikið. Michael Moore segir of mikið að mínu hógværa mati.

 8. Ja, miðað við að hafa séð myndina einu sinni þá finnst mér Moore ekki hafa reynt að blekkja neinn.

  Auðvitað túlkar hann margt sínum skilningi en það er þá yfirleitt mjög greinilegt að hér er á ferð hans túlkun. Og ekki má gleyma því að hún er yfirleitt á skjön við það sem hefur verið ríkjandi í fjölmiðlum, þannig að ekki er um að villast að hér er aðeins ein hlið málsins (og óvænt fyrir marga Bandaríkjamenn).

  Enda finnst mér sú umræða sem ég hef fylgst með frá Bandaríkjunum staðfesta það. Menn geta verið sammála Moore eða ekki, en þeir sem eru uppteknastir af „staðreyndafölsunum“ í myndinni eru yfirleitt harðlínuhægrimenn sem vilja ómerkja hann með þessum sparðatíningi.

  Harðir efahyggjumenn geta eflaust líka gagnrýnt þessa mynd en hvaða heimildarmynd er þess eðlis að ekkert megi finna henni til lasts?

 9. Ég verða að segja að ég er alveg hjartanlega sammála Sverri í þessum umræðum.

  Harðir efahyggjumenn geta eflaust líka gagnrýnt þessa mynd en hvaða heimildarmynd er þess eðlis að ekkert megi finna henni til lasts?

  Þetta er nákvæmlega það sem þetta snýst um. Efahyggjumenn einsog Matti geta ávallt fundið eitthvað að slíkum heimildamyndum. Það er svo sem allt í lagi með það. En þegar menn láta aðalgagnrýni á mynd snúast um slíka punkta í stað þess að horfa á meginþemað, þá er það verra mál.

  Mig grunar að Matti sé ekki að gagnrýna þessi atriði vegna þess að hann sé svo mikill Bush aðdáandi. 🙂

  Hins vegar náði ég aðeins að horfa á nokkra spjallþætti þegar ég var í Bandaríkjunum á þeim tíma sem Fahrenheit var frumsýnd. Þar var mjög mikið um menn, sem voru ósammála meginþema myndarinnar. Í stað þess að gagnrýna það þema eða reyna að verja Bush, þá reyndu þeir (einsog Ólafur Teitur í Kasljósinu) að gera lítið úr trúverðugleika myndarinnar með því að benda á minni atriðiði í myndinni, sem þeir vilja túlka sem blekkingar.

  Þessir sömu menn voru auðvitað búnir að ákveða það löngu áður en þeir fóru á myndina að hún væri rusl, full af lygum og áróðri. Það er sama hvað Michael Moore hefði haft í myndinni, þessir menn hefðu alltaf fundið eitthvað að myndinni. Það segir meira um þá menn, heldur en myndina.

 10. Þessir sömu menn voru auðvitað búnir að ákveða það löngu áður en þeir fóru á myndina að hún væri rusl, full af lygum og áróðri.

  Svo eru aðrir sem eru löngu búnir að ákveða að allt sem Moore sendir frá sér sé gargandi snilld 🙂

 11. “Ólafur Teitur er löngu hættur að fela stjórnmálaskoðanir sínar þrátt fyrir að vera blaðamaður”

  …og hvað með það? Gott mál að hann gengur til dyranna eins og hann er klæddur í staðinn fyrir að fela sig á bakvið hlutleysi. Væri ÓTG heiðarlegri eða betri blaðamaður ef hann reyndi að fela skoðanir sínar um leið og hann væri að skrifa í blöðin?

  Um Michael Moore og hans mynd, þá er ég á móti henni sem og ég er á móti manninum, hann er að mínu mati lygari. Myndin er auðvitað ekkert annað en áróður, persónulega finnst mér að hann ætti að eyða sínum hæfileikum í eitthvað merkilegra en að koma George W Bush frá völdum, vissulega er W hálfviti og hræðilegur forseti, en halda menn virkilega að John Kerry verði eitthvað skárri? Persónlega gæti mér ekki verið meira sama hver verður næsti forseti, sé lítinn mun á þeim, ef Michael Moore væri alvöru myndi hann að sjálfsögðu búa til mynd á móti bæði Repúblikönum og Demókrötum, og styðja Ralph Nader. Ef Micheal Moore væri svona rosalega mikill mannivinur væri hann ekki demókrati. Þetta er jafnvitlaust að mínu mati og að fyrilíta Hitler og dýrka Mussolini.

  PS. Annars vill ég bara hrósa þér Einar og Kristjáni fyrir þetta frábæra Liverpool-blogg, frábært framtak!

 12. Ég var ekki alveg viss hvort ég ætti að svara þessu, þar sem mér þótti þetta svo skrítið komment. Takk samt fyrir hrósið á Liverpool bloggið 🙂

  >personulega finnst mér að [Moore] ætti að eyða sínum hæfileikum í eitthvað merkilegra en að koma George W Bush frá völdum

  Fyrirgefðu, en er virkilega eitthvað þarfara en að koma GWB frá völdum? Ég get varla fundið betri málstað. Það er fásinna að halda að Kerry sé alveg jafn slæmur. Hann hefur mun sterkari tengsl til Evrópu og hefur sagt að það sé hans helsta verkefni að endurreisa orðspor Bandaríkjanna.

  Því ástandið hefur ekki alltaf verið svona slæmt. Þrátt fyrir að Clinton hafi gert ýmislegt án aðstoðar annarra landa, þá hefur GWB samt slegið öll met í þeirri viðlitni. Það er 100% pottþétt að utanríkisstefna Kerry verður ekki verri en GWB.

  Einnig varðandi Nader, þá hefur Moore stutt hann í gegnum árin. Moore er hins vegar enginn bjáni og hann gerir sér fyllilega grein fyrir því að eina leiðin til að fella Bush er að Kerry vinni hann. Moore veit að Nader mun ALDREI vinna og því eyðir hann ekki tíma sínum í það.

  Varðandi Ólaf Teit, þá eiga blaðamenn nú að reyna að vera hlutlausir í sínu starfi. Það fyndna er einmitt að ÓTG hefur verið að gagnrýna aðra blaðamenn fyrir hlutdrægni (sbr. herferð hans í fjölmiðlamálinu) en samt opinberar hann stjórnmálaskoðanir sínar í hvert sinn sem hann mætir í sjónvarpið eða skrifar greinar.

 13. Mikilvægt komment með venjubundnar lygar USA þegar þeir standa í stríðsrekstri.

  Meðan að Bush og félagar voru enn að leita að afsökun til að ráðast á Írak voru undirverktakar í varnarmálaráðuneytinu og CIA byrjaðir að leita að fólki til að starfa við fréttafölsun. Þetta kom mér á óvart en ég rakst á síðu undirverktakans sem leitaði að fólki með menntun í mál- og félagsvísindum. Þeir sögðu hreint út í starfslýsingunni að það fæli í sér að framleiða falskar fréttir fyrir bandaríkjaher. Versta er að ég man ekki linkinn á þetta. Var að hugsa um að sækja um að ganni og sjá hvað myndi gerast. Þeir sögðu í auglýsingunni að búið væri að gera samning um marga tugi stöðugildi í þessu.

  En þetta er málið. Fyrir þeim er fréttafölsun orðin opinbert leyndarmál og virðast telja það vera nauðsynlega og réttlætanlega taktík í stríði.

  Skuggalegt!

 14. “Ólafur Teitur er löngu hættur að reyna að fela stjórnmálaskoðanir sínar, þrátt fyrir að hann sé blaðamaður. Hann, líkt og ansi margir hægrimenn í Bandaríkjunum kýs að einbeita sér að meintum staðreyndavillum í myndinni,”

  Ólafur Teitur segir þetta um afstöðu sína til myndarinnar í athugasemdum við greinina “Fahrenheit 9/11” á Skoðun. Mér datt í hug að ykkur þætti áhugavert að lesa þetta:

  ” Ég vann grein um myndina upp úr samantekt Kopel (hún birtist í Viðskiptablaðinu í dag, föstudag) og las hvert einasta svar Moore-vefsins við þeim atriðum Kopels sem ég nefni í greininni. Ekki eitt einasta svar breytir að mínu mati neinu um niðurstöðu Kopel.”

  “Margt í myndinni á sjálfsagt rétt á sér. En hvað? Því miður telja flestir bíógestir að svarið sé: “Allt.” Þeir vita að hún er hlutdræg en gera ráð fyrir að hún sé a.m.k. meira eða minna sönn, enda heldur Moore því fram að allt sé satt og rétt í henni.”

  […]

  “Mjög fáir hafa fyrir því að kynna sér blekkingarnar, sem eru hreint ævintýralega bíræfnar! Að mínu mati er myndin allt að því glæpsamleg og í öllu falli dapurlegt að vísvitandi blekkingar njóti slíkra vinsælda sem raun ber vitni og séu samþykktar sem sannleikur.”

  […]

  “Myndin vekur vissulega upp mikilvægar spurningar, en mér finnst Michael Moore ekki rétti maðurinn til að svara spurningum.

  Ég tek undir hvatningu þína til fólks um að kynna sér málið – og tel allar líkur á að það komist að sömu niðurstöðu og ég!”

Comments are closed.