Föstudagskvöld – þrif, Ungfrú RVK, klipping og fleira

Einsog þeir sem fylgjast með æsispennandi Twitter síðunni minni vita, þá er ég að eyða þessu föstudagskvöldi í þrif á íbúðinni minni. Það er yndislega sorglegt, en þar sem ég hef verið á djamminu tvo daga síðustu helgar, þá þarf ég hvíld. HVÍLD segi ég!

Við opnuðum Serrano í dag og allt gekk rosalega vel. Biðröð útúr dyrum og ég var þvílíkt feginn að geta hvílt mig eftir átökin.

* * *

Ég horfði með öðru auganu (ég er sko að taka til!) á Svalbarða og á eftir þeim þætti var svo Ungfrú Reykjavík-keppnin, sem er enn í gangi. Svo fékk ég Twitter skilaboð frá netkærustunni minni og þá datt mér í hug (af því að ég nenni ekki að taka meira til) að skoða það hvort að íslenskar stelpur væru að breytast eitthvað með árunum (og í leiðinni að kalla væntanlega yfir mig sömu gagnrýni og alltaf þegar ég fjalla um fegurðarsamkeppnir).

ALLAVEGANA, á Ungfrú Reykjavík síðunni er ekki lengur listað hvort stelpurnar séu á lausu, þannig að ég get ekki uppfært [fyrri tölfræði mína](https://www.eoe.is/gamalt/2005/05/04/23.21.17).

En hins vegar er hægt að skoða hvort að hugmyndir íslenskra stelpna um skemmtilega og spennandi hluti hafi breyst. Fyrir [þremur árum](https://www.eoe.is/gamalt/2005/05/13/22.39.35/) skrifaði ég færslu sem hét [“Er sjónvarpið toppurinn?”](https://www.eoe.is/gamalt/2005/05/13/22.39.35/) þar sem ég var að hneykslast á því hvað hinn ímyndaði fullkomni dagur í lífi fegurðardísanna væri stjarnfræðilega leiðinlegur að mínu mati. Sjö stelpurnar ætluðu að fara í ræktina á hinum fullkomna degi og sami fjöldi ætlaði að horfa á sjónvarpið.

Á þessu ári er ekki lengur spurt um hinn fullkomna dag, en það er hins vegar þarna spurningin: “Hvernig er rómantískt kvöld”. Ok, kannski ekki spurt um rómantískasta kvöld í heimi, en ef maður fær svona spurningar, reynir maður ekki að vera frumleg(ur)? Ha? Allavegana, hér eru nokkur svör:

– Bara að vera með elskunni sinni hvort sem það er í rólegheitunum að borða góðan mat, tala saman og horfa á mynd
– Nú þegar ástin tekur öll völd
– eða bara elda saman heima, eða að minsta kosti reyna það, ég er allavega ekki góður kokkur ..eyða svo kvöldinu saman, fara kannski í heitan pott með kertaljós og horfa svo á rómó mynd og hafa það kosy
– Að elda góðan mat heima með kærastanum og slaka á.. sundferð er líka rosalega kósý:)
– Gera eitthvað sem manni finnst gaman með sinni/sínum heittelskaða/u. Getur verið margt.
– Það er líka mjög rómantískt að vera bara heima með elskunni sinni, skiptir ekki alltaf máli hvað maður er að gera.
– Góður matur, kertaljós, góð tónlist og tvær manneskjur sem geta notið félagsskaps hvors annars.
– Rómantískt kvöld er þegar ég og kærastinn erum ein heima að elda góðan mat og hafa það kósý upp í sófa að horfa á góða mynd.
– Rómantískt kvöld hjá mér væri góður matur og eftirréttur heima með kærastanum við kertaljós og rólega tónlist. Eftir matinn myndum við svo færa okkur upp í sófa með skemmtilega spólu í tækinu.
– Slappa af við kertaljós, rómantíska tónlist og borða góðan mat með þeim sem maður elskar.
– Ég og kærastinn minn að elda saman góða máltíð, tala saman og hafa það rólegt heima.
– Fullkomið kvöld er annað hvort að fara út að borða með elskunni sinni eða bara kúra yfir spólu.

Æ, hvað var aftur pointið hjá mér? Þetta er kannski ekkert sérlega merkileg uppgötvun. 🙂

Já, og þetta er sætasta stelpan í keppninni að mínu mati (miðað við þær myndir sem eru á síðunni). Það þýðir að hún lendir í síðasta sæti

* * *

Þátturinn Útsvar var í sjónvarpinu áðan. Það á víst að vera einn vinsælasti þáttur landsins, en ég hafði aldrei séð hann fyrr en í kvöld. Ég held að ég sé ekki í markhópnum.

Síðustu 10 dagar hafa annars verið einstaklega skemmtilegir í mínu sósíal lífi, en ég nenni svo sem ekki að fara útí smá-atriði þar, enda hæfa þær sögur frekar vinahópnum mínum frekar en bloggsíðu á netinu. Jú, þó, ég get sagt frá því að ég sá frábæra mynd í bíó. Allir eiga að sjá þá mynd.

Jæja, þessi íbúð þrífur sig ekki sjálf!

* * *

Að lokum – ein spurning: Á skalanum 1-13, hversu fáránlegt er það að mæta í klippingu með mynd af kvikmyndastjörnu og segja: “ég vil svona klippingu”?

13 thoughts on “Föstudagskvöld – þrif, Ungfrú RVK, klipping og fleira”

  1. úff ég veit ekki hvernig ég á að taka því að skilaboð frá mér fái þig til að vilja horfa á fegurðarsamkeppni! eitt það hallærislegasta sem ég veit:)

  2. Nei, ég var að horfa á keppnina og þá komu skilaboðin. Það fékk mig til að skrifa um stelpur.

    Og takk Sandra. Magnað að ég skuli hafa haft rétt fyrir mér. Þetta hefur ekki gerst oft. 🙂

  3. Sakna svona blogga frá þér. Og á skalanum 1-13 .. vanalega myndi ég segja 11, en af því þetta ert þú og þitt hár… lol .. þá segji ég 7.

  4. 13 án efa..held að þú sért nú ekki að spyrja fyrir sjálfan þig..
    ógeðslega rómó að horfa á spólu, jesús!!!!!!!

  5. Ok, 11 og 13. Og jú, ég var að spyrja fyrir sjálfan mig. Ég var í alvöru að velta þessu fyrir mér.

    Ég sleppti því að fara með mynd og núna er ég með STUTT hár!!! Í fyrsta skipti í mörg hár. Klippikonan fór hamförum. Hérna er fyrir myndin, eftir myndin kemur seinna.

  6. neh aðallega bara blogga um daginn og veginn og allan fjandann, ekki bara um pólitík or sum. 🙂

  7. Það er skelfilegt að vera illa klipptur þannig að mér finnst ekkert að því að vera on the safe site og mæta með mynd af klippingu sem maður vill. Ég hef reyndar aldrei gert það sjálfur en ég hef nokkrum séð eftir því að hafa ekki gert það.

  8. Ég hef oft viljað vera með sömu klippingu og einhver kvikmyndapersóna. Veit samt ekki hvort ég mundi meika að fara með úrklippu á hárgreiðslustofuna.

    Fer að koma klippitími hjá mér. Kannski geri ég þetta þá.

  9. nújæja pant þá sjá mynd af kvikmyndastjörnunni með fínu klippinguna 🙂

    mér finnst meira í lagi að vísa bara í eh stjörnu til að fá svipaða klippingu en ég myndi allavegana ekki draga upp mynd 🙂

  10. Elín, ég er ekki að fara að birta þessa mynd hér. Ég sýni þér hana næst þegar við hittumst.

    En myndin af mér eftir klippinguna er hérna.

    Og ég hvet þig til að prófa, Björgvin. Ég get ekki séð að maður tapi svo mikið á því.

Comments are closed.