Föstudagur

Á hverjum föstudegi þegar ég kem heim úr vinnunni þá slökknar vanalega algjörlega á líkamanum, ég verð alveg uppgefinn og enda á því að sofa í 2-3 tíma. Það gerðist í dag og ég er nývaknaður aftur og líður afskaplega einkennilega einsog alltaf þegar að ég sef á daginn.

* * *

Allavegana, ég setti loksins ferðasögurnar frá Rússlandi inná ferðalagasíðuna mína. Rússlands ferðasöguna, sem er frá árinu 2003, má nú nálgast hérna. Vinsælasta myndin mín á Flickr var einmitt tekin í þeirri frábæru ferð.

Þetta blogg hefur gefið mér ansi margt í gegnum árin og eitt af því er að ég á sæmilega frásögn af öllum helstu ferðalögunum mínum. Auðvitað er sú ferðasaga sem birtist hér á þessari síðu ekki endilega sú saga sem ég segi vinum mínum, enda er oft margt ekki birtingarhæft, en ég verð samt að viðurkenna að ég hef farið nokkrum sinnum og lesið yfir þessar ferðasögur og þær kveikja alltaf í mér ferðaáhugann og rifja upp fyrir mér góðar stundir.

* * *

Í dag eru tvær vikur þangað til að við opnum Serrano í Hafnarfirði.  Ég tók nokkrar myndir á miðvikudaginn (afgreiðsla og salur), en ansi margt hefur breyst síðan þá.  Í gær settum við afgreiðsluborðið inná staðinn og það var ansi skrautlegt.  Afgreiðsluborðið, sem er sennilega um 800 kíló og kom í einu lagi, komst ekki í afgreiðsluna þar sem smiðirnir höfðu misreiknað plássið inná staðnum.  Við þurftum því að lyfta því yfir þær innréttingar, sem voru komnar fyrir á staðnum.  Það tókst á einhvern ótrúlegan hátt með hjálp tjakks og 10 manna.

Ég geri þó ráð fyrir því að opnunin ætti að vera á föstudaginn eftir tvær vikur og að stressið verði talsvert minna en það var í Smáralindinni.

* * *

Undanfarnar vikur hef ég verið að hlusta á Either Or með Elliott Smith.  Ég hef lengi ætlað mér að hlusta á tónlistina hans, en einhvern hefur aldrei komið að því þangað til núna.  Þessi plata er algjörlega frábær og nær hápunkti í einstöku lokalagi, Say Yes.  Mæli hiklaust með þessari plötu.  Hérna er hægt að sjá Smith taka Say Yes á síðustu tónleikunum áður en hann framdi sjálfsmorð.

7 thoughts on “Föstudagur”

 1. Ég er einmitt búinn að hlusta mikið á þessa plötu, hún er alveg frábær. Persónulega finnst mér “From a Basement on the Hill” og “New Moon” bestu plöturnar og það er dáldið sérstakt að þær komu báðar út eftir að hann dó.

  En það er rosalegt að sjá hann í “Say Yes” laginu. Sérstaklega þegar hann þakkar fyrir sig……það sést greinilega hvað hann er gjörsamlega brotinn!

 2. Já, þetta er fyrsta platan sem ég hlusta á eftir Smith. Ég tékka pottþétt á þeim plötum, sem þú talar um.

 3. Já Einar ég má til með að hrósa þér fyrir þessa snilldar mynd “Lada” eða “Russian police car on the Red Square with St. Basil’s Cathedral in the background.” hún er svo með ólíkyngdum flott, litirnir í henni eru alveg meiriháttar já stemmingin svona nútímaleg, gamaldags, leyndardómsfull og já full af andstæðum:-)
  Annað sem mér finnst skondið er hvað margir þurfa að vera með ja svona aðfinnslu comment, það liggur við að maður hugsi hvort að þeirra/þau sé öfundsjúkir út í þessa fínu mynd:-) Eða já oft á bara mannskepnan svo erfitt með að samfangna örðum algerlega og af heilum hug, alltaf betra að draga aðeins niður í fólki í leiðinn…:-)

 4. Takk kærlega, Ásgeir. 🙂

  Og já, Álfheiður – það er alltaf jafn gaman að uppgötva listamenn sem hafa gefið upp fullt af góðu efni. Ég er spenntur yfir því að hlusta á fleiri plötur með honum.

 5. En stora spurningin er hvernig ther list a nyja lagid med Madonnu og JT??

  Mer fannst thad svona allt i lagi fyrst en er nuna komin med thad a heilann…

 6. Já, ég hef ekki hlustað á það oft en ég held að ég sé að byrja að fíla það. Síðasta plata Madonnu var auðvitað snilld ef það hefur ekki komið fram á þessari síðu.

Comments are closed.