Fyrsta helgin, kaffi og ljósmyndapælingar

Fyrsta helgin á Íslandi er búin að vera verulega góð. Á föstudagskvöld horfði ég heima hjá vini mínum á Holland spila frábærlega gegn Frakklandi og þar á meðal Dirk Kuyt skora mark, sem gladdi mig mjög. Fór síðan í þrítugs afmæli hjá Guðföður bloggsins á Íslandi.

Í gær fór ég svo annan daginn í röð út að hlaupa. Er með harðsperrur nánast alls staðar eftir fáránlega létt hlaup og lyftingar. Það er með ólíkindum hvað maður er aumur eftir svona langt ferðalag. Í gærkvöldi fór ég svo í tvær útskriftir. Fyrst hjá bestu vinkonu minni í sal á Seltjarnarnesi og svo til vinar míns í Garðabænum. Þar var ég fram eftir kvöldi. Fór svo heim til annars vinar í partí og þaðan í bæinn. Ég var ekki alveg að höndla bæinn, þannig að ég fór frekar snemma heim.

* * *

Ég komst að því í ferðinni að það er bara eitt, sem ég get ekki lifað án og það er kaffi. Ég drakk nánast ekkert áfengi í þessar sex vikur, drakk sjaldan sódavatn, borðaði ekki pizzu né taílenskan mat og leið ekkert sérstaklega fyrir það.

En það sem ég var tilbúinn að leggja mest á mig var fyrir góðan kaffibolla. Á shabbat í Jerúsalem labbaði ég fjóra kílómetra til að finna kaffihúsakeðju, sem reyndist svo lokuð. Það voru gríðarleg vonbrigði.  Ég held að ég reyni ekkert að þræta fyrir það að ég er háður kaffi.

* * *

Ég er byrjaður að fara í gegnum myndirnar úr ferðinni.  Þær eru um 1.200 talsins, sem er hreinasta geðveiki.  Ætli ég hendi ekki um 60-70% af þeim en eftir munu þá standa nokkrar mjög góðar myndir.  Ég ætla í leiðinni að kenna sjálfum mér á Aperture, sem ég keypti í London.  Ég hef notað iPhoto í gegnum tíðina, en ætla að prófa að skipta til þess að geta leikið mér aðeins meira með myndirnar.

Og þá kem ég að einni spurningu fyrir ljósmyndanörda.  Málið er að fyrstu vikuna var ég óvart með 20D vélina mína stillta á ISO 800.  Það gerði það að verkum að myndirnar eru sumar grófar.  Ég tók allar myndirnar í RAW.  Og spurningin er, get ég gert eitthvað til að laga þetta?  Það er það klúður að hafa haft ISO alltof hátt þegar ég tók sjálfar myndirnar?

2 thoughts on “Fyrsta helgin, kaffi og ljósmyndapælingar”

  1. Ég nota ekki Aperture sjálfur en ég býst við því að það sé “Noise Reduction” fítus í forritinu. Það er misjafn hversu vel það gengur að nota svoleiðis fítus en síðan getur maður alltaf notað forrit eins og “Noise Ninja” (www.picturecode.com) til að bjarga því sem hægt er að bjarga. Noise Ninja er líklega þekktasta forritið fyrir svona vinnslu.

    Það getur samt verið trikki að renna myndum í gegnum svona vinnslu án þess að þær verði asnalegar á eftir (mér finnst þær asnalegar, sumum finnst þær æðislegar, fer eftir smekk).

    Það er því best að hafa ISO-ið á hreinu þegar maður skýtur myndirnar sjálfar, en það er auðvelt að gleyma því og ég held að allir hafi gert það á einhverjum tímapunkti 🙂

  2. Ok, takk. Ég kíki á þetta forrit.

    En já, ég veit að þetta var aljgört klúður hjá mér að fatta ekki stillinguna. Ég sá þetta um leið og ég sá myndirnar á tölvu í fyrsta skipti, en þegar ég var að taka myndirnar og skoða þær á skjánum fattaði ég ekkert. Einnig voru þær allar teknar í birtu, þannig að ég fattaði ekkert óvenjulegt varðandi hraðann. Ef ég hefði tekið mynd í dimmu og allt í einu ekki þurft flass, þá hefði ég kannski fattað þetta.

    Oh well, ég læri af þessu. Myndirnar eru líka flestar alveg þolanlegar.

Comments are closed.