Gore og Bush

Ég var að horfa á kappræðurnar milli Gore og Bush. Þær voru í sjónvarpinu áðan og var stjórnað af hinum mikla snillingi, Jim Lehrer. Að mínu mati þá tók Gore Bush í nefið. En kannski á ég örlítið erfitt með að vera hlutlaus. Ég held þó að flestir myndu vera sammála um að Gore var mun öruggari og hann vissi meira um málefnin. Og afstaða hans til flestra málefna höfðar einfaldlega meira til mín.

Einnig var Al Gore ávallt með allar tölur á hreinu. Bush gat aldrei svarað fyrir sig og neitaði aldrei tölum Gore, heldur reyndi að vera fyndinn og sagði að Gore hefði fundið upp reiknivélina. Gore var með allt á hreinu, en Bush var alltaf í vörn.

Bush klúðraði svo endanlega öllu, þegar hann var kominn út í horn og byrjaði þá að ráðast á persónu Al Gore. Hann fór eitthvað að tala um Clinton og svo búddhista musterið. Al Gore leysti þetta á einfaldan hátt. Hann sagði einfaldlega að hann vildi ekki tala um persónur, heldur málefni. Nákvæmlega!