Gyðingafordómar á Moggablogginu

Þessi grein eftir mig birtist á Vefritinu.

* * *

Þegar ég var að vinna að lengri grein fyrir næsta tímarit Herðubreiðar lenti ég í spjalli við vini mína um almennt viðhorf á Íslandi gagnvart Gyðingum og Ísraelsríki. Almennt séð virðist það viðhorf vera afskaplega neikvætt. Þegar ég reyndi aðeins að kynna mér þetta á bloggsíðum hjá fólki virtist oft vera ansi grunnt á stækum Gyðingafordómum.

Margir halda því fram að aukning á Gyðingafordómum megi eingöngu rekja til aðgerða Ísraels-ríkis.  Sú fullyrðing er fáránleg.  Í raun eins fáránleg og þegar að verjendur Ísraels ríkis halda því fram að öll gagnrýni á Ísrael sé sprottin út frá Gyðingahatri. Því fer fjarri, enda hefur Ísraels-ríki gert sig sekt um fjölmarga hluti sem réttmætt er að gagnrýna.

En hvernig er hægt að greina lögmæta gagnrýni á Ísrael frá gagnrýni sem er að vissu leyti byggð á Gyðingafordómum? Alan Dershowitz leggur í bók sinni The Case for Peace: How The Arab-Israeli Conflict Can Be Resolved til skilgreiningar á því hvernig greina megi þar á milli. Á meðal þeirra atriða sem Dershowitz segir benda til þess að gagnrýnin sé komin til vegna Gyðingafordóma nefndi hann:

 • Að halda því fram að Ísraelar séu verstir allra þjóða í einhverju jafnvel þótt það sé fjarri sannleikanum.
 • Þegar aðgerðum Ísraela er líkt við Nasista
 • Að vilja refsa Ísraelum einum fyrir hluti sem viðgangast í mörgum löndum og að gera þá kröfu að Gyðingar séu á einhvern hátt betri vegna sögu þeirra sem fórnarlamba.
 • Að kenna Ísrael um öll vandamál heimsins og ýkja áhrif deilnanna í Ísrael og Palestínu á alþjóðastjórnmál.
 • Þegar ákveðnar steríótípur sem oft eru notaðar af Gyðingahöturum eru notaðar til að lýsa öllum stuðningsmönnum Ísraelsríkis. Svo sem þegar mikið er gert úr völdum Gyðinga um allan heim (t.d. í Bandaríkjunum) eða þeir eru teiknaðir sem grimmir og ljótir gamlir menn með löng nef.

Í tengslum við greinina eyddi ég smá tíma í að skoða bloggfærslur tengdar fréttum af Ísrael og Palestínu á MBL.is. Margar þessara frétta virtust vera frétta-tilkynningar frá samtökunum Ísland-Palestína, þar sem sagt var af ævintýrum sjálfboðaliða þeirra samtaka. Aðrar voru helst af ferðalagi Barak Obama um svæðið og nýlegum árásum á Gaza.

Hérna fylgja með nokkur ummæli sem sýna að umræðan um Ísrael er oft ekki á háu plani á íslenskum vefmiðlum. Hugsanlega er hægt að finna svipuð komment um Palestínumenn, byggð á öðruvísi fordómum. Þar sem að um það hefur m.a.s. verið skrifuð bók þá ákvað ég að velja Gyðingahliðina á umræðunni. Tilvitnanirnar eru orðréttar og því hafa stafsetningarvillur ekki verið leiðréttar.  Tilvitnanirnar fann ég allar á á um tveggja klukkustunda rápi um Moggabloggið með aðstoð Google.


Fyrst er það mýtan um hina almáttugu Gyðinga, sem allir þurfa að beygja sig undir í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að Gyðingar séu í raun aðeins 2,5% af íbúum Bandaríkjanna.

Óskabarn BNA engu skárri en fyrri forsetar

Barack Hussein Obama er greinilega á sömu bylgjulengd og fyrri foreldrar Ísraels og ætlar hann sér að halda uppi þessari arfleyfð sem ætlar að vera seindræpari en Rasspútín. Ef marka má orð hans og gjarðir er hann mikill vinur lobbíista gyðinga í Bandaríkjunum sem eru jú þeir sem krefjast þess hvað mest að Ísrael sé verndað gegn öllum sem ætla sér að vinna eitthvað gegn Ísrael. Það er líka vitað að það er nánast ógjörningur að verða forseti Bændaríkjanna án þess að hafa stuðning gyðinga og er þetta sagt án allra fordóma. Þetta virðist bara vera svona. Má vera að þessi fullyrðing virðist fordómafull en það er hún ekki, með henni er aðeins verið að sýna hve mikil völd gyðingar í Bændaríkjunum hafa. Þeir eiga gríðarlegt fjármagn, stjórna mörgum stórum fyrirtækjum og blöðum svo fátt eitt sé nefnt.

Ekki séns!

þetta hlýtur að vera ein allsvakalegasta sýndarmennska sem til er. Bandarísk yfirvöld munu aldrei sjá til þess að Palestína öðlist sjálfstæði, og þar af leiðandi, sín eigin viðurkenndu landamæri. Ísraelar hafa í gegnum tíðina haft gríðarlegt tangarhald á bandarískum yfirvöldum. Peningarnir eru bara of stórir í þessum bransa…

Ofbeldi ísraela tekur á síg ótrúlegustu myndir

Ég heyrði því fleygt að nokkrir þeirra “vina Villa vitlausa í Köben” sem skrifa undir “(IP-tala skráð)” af því að það er búið að loka hjá þeim aðganginum að Mbl.is/blogg, séu á launum. Það væri gaman að heyra hvort þeir peningar koma frá Köben, New York eða beint frá Ísrael!

Hvenær drepur maður börn?

Ísraelski herinn og Mossad leyniþjónustan eru tæknivæddustu og fullkomnustu drápsvélar heimsins í dag dyggilega studdum af bandarískum gyðingum


Næst er það algengt stef um að Gyðingar telji sig vera yfir aðrar þjóðir hafna. Menn mistúlka “Guðs útvalda þjóð” einsog það þýði að Gyðingar telji sig öðrum betri.

Framferði ísraela

Gyðingar segjast eiga rétt á landsvæðinu sem var tekið frá Palestínumönnum, því;

1. Þeir séu guðs útvalda þjóð 2. Guð gaf þeim landið (má ég sjá afsalið?).

[og]

Þeirra framferði er íslensku þjóðinni til skammar því við erum með stjórnamálasamband við þessa villimenn

Það minnkar einmitt árásirnar!

Ísraelar eru hálfvitar

[og]

Ég hef ekkert á móti gyðingum sem slíkum, en Ísralesstjórn sýnir djöfullegan hroka og fíflaskap haldandi því fram að þeir séu hin guðsvalda þjóð og ég veit ekki hvað og hvað

fordómar ísraela

Það er dagljóst að ísraelsmenn eru uppfullir af fordómum gagnvart öðrum þjóðum og telja sig öðrum þjóðum æðri. Þeir vilja ekki fyrirgefa og fyrirgefa ekkert.. Þeir hanga á gamla testamentinu eins og heilögum sannleika og nota hana til þess að fá afsökun til þess að misþyrma nágrannþjóðum sínum. Israelar eru aumkunnarverð þjóð í alla staði.

[og]

Maður gæti alveg huxað sér heiminn án ísraelsríkis 🙂

Skyldi vera reiði í Ísrael yfir palestínsku börnunum…

Ah, auðvitað ekki, fyrir Ísraelsmönnum eru Palestínumenn óæðri og þar af leiðandi óþarfi að gráta óæðri börn, drepin af Guðs útvöldu þjóð.

Af einhverjum ástæðum hef ég akkúrat enga samúð með Ísraelsmönnum þegar ógæfan dynur á þeim.

Guðs útvalda þjóð?

Ég efast um að israelar séu guðs útvalda þjóð þar sem þeir eru morðingjar og glæpamenn þeir munu brenna í heilögum hreinsunnareldi guðs,þegar palestínumenn hrekja þá úr landi sínu þó handklæðahausarnir séu vondir þá munu þeir aldrei verða jafn slæmir og israelarnir.


Þá að samlíkingunni við Nasista og þegar tengslin við Helförina eru dregin upp – og að Gyðingar eigi að vera betri vegna sögu þeirra sem fórnarlamba meðal annars í Helförinni.

Gyðingar fyrr og nú

Gyðingar voru ofsóttir fyrr á öldum en núna eru það þeir sem ofsækja aðra. Þeir hafa greinilega ekkert lært á því hvernig það er að vera “fórnarlamb”

Ætli þetta brjálæðislega hatur hermannanna sé tilkomin vegna þess að þeir voru allir umskornir í æsku?

Höfuðlaus her

Fyrir nokkrum árum sagði einn góður kunningi minn að það, versta sem Hitler gerði á sínum tíma var að kenna Gyðingum hvernig á að standa í útrýmingu minnihlutahópa. Ég held að þessi kunningi minn hafi haft nokkuð til síns máls þó hann hafi fengið að heyra hversu mikill rasisti hann væri. Því miður njóta Ísraelsmenn ennþá mikillar samúðar vegna helfararinar í síðari heimstirjöldini.

Gæta skaltu bróður þíns

Já Ísraelsmönnum hefur liðist meira í gegnum tíðina en öðrum. Heimsbyggðin telur sig þurfa að hafa slæma samvisku gagnvart þeim fyrir helförina. Og það launa þeir með því að nýta sér allt sem þeir lærðu í helförinni og haga sér eins gagnvart nágrönum sínum


Og að lokum, hér er gefið í skyn að verk Gyðinga og Ísraela markist af einstakri grimmd og hryðjuverk Palestínumanna eru afsökuð sökum kúgunnar.

Félagi Jesús og júðarnir

Annars hafa blessaðir júðarnir stundum verið hálf svo einkennilegir í tiltektum sínum. Það er til dæmis ógleymanlegt hvernig þeir fóru með lækninn og sósíalistann, félaga Jesús frá Nasaret; þeir létu sér ekki muna um að krossfesta þann góða dreng fyrir kjafthátt og útborutilhneigingar. Öldum síðar myrtu taglhnýtingar peningahyggjunnar, félaga Che Guivara, en hann var líka læknir og sósíalisti.

15 sekúndur … II

Börn drepin, bara svona af þau lágu vel við höggi.

Skotheld heimild?

Það er að sjálfsögðu ekki réttlætanlegt að drepa saklausa borgaraa en þegar fólk elst upp sem fangar í eigin heimkynnum þá er skiljanlegt að það reyni að spyrna á móti með einu aðferðinni sem er í boði

Hvar er Sderot?

Þá kann einhver að segja að það sé ansi lágt lagst að ráðast á leikskóla en því er til að svara að þessar heimatilbúnu eldflaugar Palestínumanna eru ekki það námkvæmar að þeir geti miðað á ákveðin hús heldur senda þeir eldflaugarnar aðeins eitthvert inn á svæði landránsmanna

10 thoughts on “Gyðingafordómar á Moggablogginu”

 1. Þetta er alveg rétt en mér finnst þó nauðsynlegt að gera þann fyrirvara hversu almenn gífuryrði eru meðal bloggara og ekki síst þeirra sem tengja á fréttir Mbl., það á líka við um suma vini Ísraels og fólk sem skrifar ekki um þessi mál heldur önnur.

  Og þetta gildir ekki aðeins um gífuryrði heldur líka um óígrundaðar og óupplýstar skoðanir, alhæfingar og órökstuddar fullyrðingar.

 2. Jú, vissulega er það rétt. Án þess að það afsaki Gyðingafordómana þó eitthvað að sumir “vinir Ísraels” séu líka fordómafullir.

  Það væri eflaust hægt að skrifa heila röð af greinum þar sem tekin væru fyrir fordómafull ummæli um Araba, Bandaríkjamenn og fleiri hópa á íslenskum bloggsíðum. Ég tók bara Gyðinga af því að Ísrael er mér kannski ofarlega í huga og ég var að skrifa þessa grein fyrir Herðubreið.

  Flest þessi ummæli voru af síðum sem eru vinsælar á Moggablogginu og fæst þeirra virtust vekja upp sérstaklega sterk viðbrögð.

 3. Já ég meinti fyrst og fremst að vegna þess hversu fúkyrði eru almenn og útbreidd er erfitt að draga mjög róttækar ályktanir af þessum tilteknu dæmum; þau fá ekki sterk viðbrögð hvert og eitt vegna þess að margir hafa gefist upp á að eiga orðastað við fólk sem notar blog.is. vegna þeirrar orðræðuhefðar sem þar þrífst.

 4. Ég er alveg sammála Ármanni. Það er erfitt að draga róttækar ályktanir út frá dæmum á blog.is. Ég er viss um að hægt er að finna fúkyrði um nánast allt og alla þar. Óhugnanleg afhjúpun heimóttarskaps allsráðandi – ábyrgðarlaust kaffistofutal.

 5. Ég er alveg sammála þessu með fúkyrðin á Moggablogginu og að hægt sé að finna slíkt fyrir aðra hópa.

  En hver segir að Moggabloggið sé ekki bara ágætis þverskurður af samfélaginu? Er það ekki aðallega snobb í okkur gömlu bloggurunum að halda því fram að á Moggabloggið veljist bara einhver skrýtinn hópur af fólki?

 6. Ég held það sé ágætis þverskurður af fólki á Íslandi sem hringdi áður í Þjóðarsálina, kvartar í Útvarpi Sögu eða hefur tíma og nennu í skrifa um allt því sem því dettur í hug.

  Ekki viss um að það sé góður þverskurður af þjóðinni.

 7. Gífuryrði, vissulega. Takk fyrir góða færslu Einar. Hins vegar verð ég að segja að það er ekkert af þessu nýtt í mínum eyrum, þetta eru skoðanir sem ég heyrði oft á Íslandi þegar ég bjó þar, fyrir meira en sjö árum síðan, þ.e. löngu fyrir tíma Moggabloggs.

  Ekki heyri ég svona tal nokkurn tíman hér í UK, hvað þá í New York þegar ég bjó þar. En ég vann reyndar með slatta af gyðingum í NY og líka hér í Cambridge.

 8. Nákvæmlega, Erna!

  Tilhneiging margra virðist vera í þá átt að verja þessi komment eða segja að þetta séu jú “bara Moggabloggarar”.

Comments are closed.