Hafnarstræti lokar

Við erum búnir að loka Serrano Hafnarstræti, einfaldlega vegna þess að staðurinn var ekki að skila hagnaði. Fyrir tveim vikum var ég frekar dapur útaf þessu og skrifaði eftirafarandi færslu, sem ég ætla að birta núna.


Við erum búin að loka Serrano Hafnarstræti.

Staðurinn gekk einfaldlega ekki nógu vel. Kringlan gengur mjög vel en þrátt fyrir margar tilraunir, þá var salan í Hafnarstræti aldrei nóg. Við ákváðum því að loka Hafnarstræti og einbeita okkur að því að styrkja staðinn í Kringlunni enn frekar.

Þetta er náttúrulega ein af ástæðunum fyrir því að þessi síða hefur ekki verið uppfærð lengi. Maður hefur verið eilítið þunglyndur og stressaður yfir þessu, en þetta er samt ekkert stórmál. Ég nenni varla að tala um þetta og ætlast ekki til að nokkur manneskja vorkenni mér.

Það er alveg ljóst að það hefur nánast allt, sem getur farið úrskeiðis, farið úrskeiðis í Hafnarstræti. Í fyrsta lagi voru gæðin á matnum *aldrei* þau sömu í Hafnarstræti og í Kringlunni. Þannig að ef þú hefur bara borðað á Serrano í Hafnarstræti, mæli ég með því að þú kíkir á Kringluna. Við áttum í erfiðleikum með eldunartæki þarna ásamt fleiru. Þetta var komið í ágætis lag uppá síðkastið, en þetta var samt aldrei eins. Gæðin á matnum voru aldrei þau sömu og í Kringlunni.

Ég veit samt ekki hverju maður á að kenna að staðurinn gekk ekki, nema náttúrulega því að við höfum gert fullt af mistökum í þessu öllu. En ef eitthvað er ljóst, þá er það að ég hef lært alveg gríðarlega mikið á þessu ævintýri í miðbænum.

Þó er það viss léttir núna þegar við erum búnir að loka. Við Emil hreinsuðum mestallt dótið útaf staðnum í dag og ég verð að segja að mér líður vel. Ég er í gríðarlega krefjandi starfi frá “9 til 5” en samt, þá hafa 95% af öllum áhyggjum í mínu lífi snúist um þennan ágæta stað í Hafnarstræti. Núna líður mér dálítið einsog þungu fargi hafi verið af mér létt. Kannski ég geti farið að gefa aðeins meira af mér til vina og ættingja núna þegar þessi staður fyllir ekki hugsanir mínar allar stundir.

Ég vil bara þakka viðskiptavinunum okkar. Starfsfólkið talaði ávallt um að það væri sama fólkið, sem kæmi aftur og aftur að borða í Hafnarstrætinu, hvort sem það var á djamminu eða í vinnunni. Við erum þakklátir fyrir viðskiptin og vonum að þetta fólk sjái sér fært að sækja staðinn okkar í Kringlunni. Þar verður tekið vel á móti ykkur.


Ég er ekki bitur útí neitt, en samt veltir maður ýmsu fyrir sér. Í fyrsta lagi þá mætti R-listafólk horfa duglega í spegil og reyna að sannfæra sjálft sig um að miðbærinn sé á réttri leið. Það koma dagar, sem það er *ekkert* af fólki í miðbænum. Einu stundirnar, sem það var virkilega mikið af fólki er á djammtímunum eftir miðnætti föstudaga og laugardaga. Á öðrum tímum, sérstaklega á veturna, er bærinn alveg svakalega dauður. Það þarf að gera eitthvað.

Eitt af fyrstu skrefunum er að gera eitthvað við Lækjartorg. Þetta torg er gersamlega dautt á virkum dögum. Fyrsta skrefið væri að fjarlægja þessa forljótu pulsu- og pizzuvagna, sem eru bara opnir um miðjar nætur. Þeir eru lýti á þessu torgi. Þegar það er búið ætti að endurskipuleggja torgið til að reyna að skapa þar eitthvað líf. Segafredo kaffistaðurinn er pottþétt skref í rétta átt. Það er vissulega gaman að sjá einhverja aðra en róna sitja við torgið.

Rónar eru líka gríðarlega mikið vandamál við miðbæinn. Ég labba þarna um torgið á nánast á hverjum degi en nánast eina fólkið, sem ég mæti á bekkjunum við Lækjartorg. eru rónar. Bekkirnir eru nær alltaf skítugir og ekki mjög sjarmerandi fyrir fólk að setjast niður.

Það er í raun svo margt sem þarf að laga við miðbæinn til að hann deyji ekki endanlega. Við vitum það mjög vel eftir að hafa rekið veitingastað í Kringlunni og miðbænum hversu svakalega mikill munur er á traffík á þessum stöðum. Og það er *ekkert* sem bendir til þess að það hlutfall muni batna, miðbænum í hag.

*En alls, alls ekki taka þetta sem ég vilji kenna öðrum um slæmt gengi staðarins.* Fyrir það tökum við alla sök á okkur. Sumir skyndibitastaðir virka þarna, aðrir ekki. Nonnabiti og Hlöllabátar ganga vel, þar sem fólk sækir þá á næturna. Einnig Bæjarins Bestu og staðir sem selja hamborgara og pizzur. Þannig er kannski skyndibita-matarmenningin hjá fólki í miðbænum. Algengasta spurningin, sem við fengum á Serrano á 17. júní var: “Seljiði franskar kartöflur?” Það fólk saknar greinilega McDonald’s, sem þó gekk ekki í miðbænum, þar sem það er einfaldlega ekkert af fjölskyldufólki í bænum. Fjölskyldufólkið er í Kringlunni eða Smáralind.


Auðvitað er partur af ástæðunni fyrir slæmu gengi einfaldlega sá að það er ekki nóg af fólki í miðbænum, en það vissum við svosem fyrir, en áttum samt von á meiri umferð. Okkur tókst bara ekki að höfða nógu vel til fólks.

En maður hefur lært af þessu og það þýðir ekki að hugsa um hvað maður hefði átt að gera. Það besta, sem maður getur gert í viðskiptum, er að reyna að læra af mistökunum. Ég hef allavegana lært ansi margt um viðskipti, mannleg samskipti og sjálfan mig, við rekstur staðarins í Hafnarstræti. Núna einbeitum við okkur að því að styrkja staðinn í Kringlunni og erum með fullt af hugmyndum um hvernig við getum styrkt okkur enn frekar í samkeppni við þrjár stærstu skyndibitakeðjur í heimi, sem eru við hliðiná okkur á Stjörnutorgi.

Hafnarstrætið bara gekk ekki upp, en einsog einhver sagði, það gengur bara betur næst. 🙂

3 thoughts on “Hafnarstræti lokar”

 1. Ég borðaði nú aldrei þarna niðrí Hafnarstræti – enda á ég lítið leið þar um sem Hafnfirðingur. :confused: En ég fíla staðinn í Kringlunni alveg í botn…

  Það er leitt að heyra að þetta hafi ekki gengið sem skyldi niðrí miðbæ, en ég er alveg sammála þér að ástandið þar er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þau skipti sem maður fer niðrí bæ þá tekur maður nær alltaf eftir því hvað það er hræðilega fámennt þarna. Þótt það safnist margmenni þarna fjórum-fimm sinnum á ári (þorláksmessa, 17. júní, menningarnótt, Gay Pride, skólabyrjun að hausti) þá er það ekki nóg til að halda því fram að það sé mikil umferð þarna um.

  Það hlýtur að vera eitthvað sem Reykjavíkurbær getur gert til að gera miðbæinn aðgengilegri einhverjum öðrum en þeim örfáu bakpokaferðalöngum sem gista í hundrað-og-einum, og svo starfsfólki miðbæjarins.

  En allavega, eins og þú sagðir þá fer þetta bara í reynslubankann. Ég er viss um að þið Emil rústið þessu bara næst… 😉

 2. Sæll

  Svona rekstur gefur gríðarlega reynslu, oft ekki síst þegar illa gengur. Það er ekki síður reynsla í kringum ákvörðun að ákveða að loka. Margir mættu læra af þessu, enda keyra margir svo lengi að allt er komið á kúpuna áður en þeir átta sig á að loka og hætta.

  Stofnun og rekstur staðanna er frá upphafi eitthvað sem margir myndu segja að væri mikil bjartsýni og það er ekki spurnig að það þarf töluverða djörfung að ráðast í að koma svona stöðum á stað, án þess að hafa verið í þessum bransa. Margir þessir staðir keyra á svörtu og því getur jafnframt verið erfitt fyrir þá sem vilja keyra þessa staði með allt upp á 10 að vera í samkeppni við slíkt. Að koma með alveg nýtt concept frá upphafi. Frá því að láta sér detta í hug að opna mesíkanskan stað og upp í allt það sem þessu fylgir. Að lokum að vera komnir með concept sem gengi hvar sem er í heiminum.

  Þrátt fyrir að við þekkjumst ekkert og ég hef aldrei hitt þig, þá verð ég að segja að ég hef alltaf haft mikla aðdáun fyrir þetta framtak og held að það sé nokkuð góð lýsing á þér. Þetta er kannski bara svona “netímyndum”, en ég held samt ekki. Sumir eru bara framtaksmenn.

  Ég held að þú sért reynslunni ríkari af rekstri þessa staðar í Tryggjvagötunni. Þetta er eitthvað sem á eftir að nýtast þér í starfi alla ævi.

  Kveðja Tómas Hafliðason
  Framkvæmdastjóri

 3. Takk fyrir þetta.

  Það er oft erfiðasta ákvörðunin að hætta með eitthvað til að gera aðra hluti rekstrarins sterkari. Þá er sama hvernig hlutar rekstrar það eru sem skila tapi. Í þessu tilfelli var það bara annar af stöðunum, sem skilaði tapi og því var það rökréttast að loka honum.

  Þegar maður gerir það, þá viðurkennir maður auðvitað viss mistök, alveg einsog er gert þegar að framleiðslufyrirtæki hætta framleiðslu á einhverri ákveðinni vöru sem virkar ekki.

  Ég var bara dálítið lengi að sætta mig við að það væri auðvitað enginn stórkostlegur ósigur í því að þessi staðsetning virkaði ekki í þessu tilfelli. Ég áttaði mig þó á því á endanum og gat sætt mig við þetta. Það eru sennilega alltof margir, sem taka slíkar ákvarðanir alltof seint.

  Og ég vil nú meina að þetta með framtakssemina sé annað og meira en “netímyndun” hjá þér 🙂

  Og já, ég er sammála þessu um reynsluna. Ég hef talsvert meira lært af því að lenda í veseni heldur en ef að hlutirnir hefðu alltaf gengið einsog í sögu. Tel mig vita meira um viðskipti eftir þetta allt saman.

Comments are closed.