Houllier burt!

Varúð, þessi grein er skrifuð af reiðum Liverpool aðdáenda og hún verður ábyggilega löng!

Aldrei hefði mig grunað að ég myndi skrifa þetta á þessa heimasíðu. En það er komið að því: Gerard Houllier þarf að hætta hjá Liverpool.

Þetta leiktímabil verður alltaf hræðilegra og hræðilegra. Eina, sem gæti mögulega toppað þetta væri ef Liverpool myndi tapa 5-0 fyrir Manchester United í Cardiff. Það að tapa 2-0 fyrir liði, sem er í 10. sæti í fyrstu deild eru úrslit, sem Liverpool aðdáendur mun aldrei sætta sig við. Aldrei nokkurn tímann.

Mér hefur í raun aldrei liðið svona gagnvart Liverpool. Í kvöld þegar ég byrjaði að horfa á leikinn þá var ég ekkert spenntur. Ég var vart búinn að hugsa um leikinn í allan dag. Svo byrjaði leikurinn og þá tók við þessi sama ömurlega spilamennska og hefur einkennt liðið í nær allan vetur. Einsog svo oft áður hafði maður ekki nokkra ástæðu til að gleðjast. Ekki yfir fallegu spili, ekki fallegum mörkum eða sendingum. Bara hreinræktuð leiðindi. Jafnvel þó Liverpool væru manni fleiri á heimavelli gegn fyrstu deildar liði tókst liðinu ekki að spila skemmtilega og spennandi knattspyrnu.

Hér eru ástæður fyrir því að Gerard Houllier ætti að sjá sóma sinn í að segja starfinu upp:

 • Hann er ófær um að láta liðið spila sóknarbolta. Eða þá að þetta lið, sem hann hefur sett saman, er ófært um að spila sóknarbolta í meira en 30 mínútur annan hvern leik. Það er leiðinlegt að horfa á Liverpool. Þegar að ég, sem dýrka og dái þetta lið, segi þetta, þá rétt get ég ímyndað mér hvað hlutlausum knattspyrnuáhorfendum finnst um spilamennsku liðsins.
 • Hann dýrkar Emile Heskey og Vladimir Smicer. Ég hef aldrei á ævinni haft aðrar eins tilfinningar til neins Liverpool leikmanns líkt og Emile Heskey. Á ævinni hef ég varið leikmenn einsog Björn Tore Kvarme, Neil Ruddock og Ronnie Rosenthal.

  Ég hins vegar hata Emile Heskey. Já, gersamlega hata hann. Hann er búinn að spila í nánast öllum leikjum Liverpool leikjum og er ekki búinn að geta rassgat. Svo skorar hann í tveim leikjum og þá segir Houllier að hann sé hættulegasti framherji á Englandi þegar hann er í toppformi!!!! Á HVAÐA PLÁNETU BÝR HOULLIER? Er hann að reyna að segja mér að Emile Heskey sé betri en Thierry Henry? Er maðurinn algerlega blindur? Heskey fær endalaus tækifæri í liðinu, sama hvað hann er lélegur. Ég man að þegar hann skoraði á móti Southampton þá fagnaði ég nærri ekkert, því ég vissi að þetta þýddi að Emile Heskey myndi verða í byrjunarliðinu næstu 10 leiki.

  Ég fyllist allur vonleysi þegar ég sé að Heskey byrjar leiki. Það er ósköp einföld staðreynd að leikur Liverpool breytist þegar hann er inná. Leikurinn snýst uppí að senda háar sendingar fram í þeirr von að Emile Heskey nái að vinna skallabolta. Þetta kallast leiðinlegur fótbolti en leikmenn Liverpool eru víst sérfræðingar í þeirri gerð knattspyrnu þessa dagana.

 • Houllier er gersamlega óþolandi í öllum viðtölum. Ég hef löngum haldið því fram að Alex Ferguson væri geðveikur en Houllier virðist að undanförnu hafa tekist að toppa hann.

  Núna í gær brjálaðist hann yfir því að Steven Gerrard hafi verið dæmdur í þriggja leikja bann. Hann hélt því fram að þetta væri eitthvað samsæri gegn Liverpool. Tæklingin, sem Gerrard fékk bannið fyrir, er einhver sú ljótasta, sem ég hef séð. Það að hann hafi bara fengið þriggja leikja bann er, að mínu mati, nokkuð vel sloppið

  Auk þess er Houllier alveg óþolandi montinn. Svo montinn að það er farið að fara verulega í taugarnar á mér. Þegar Emile Heskey skoraði loksins eftir þrjá mánuði sagði Houllier montinn í viðtali: “Ég sagði alltaf að Heskey myndi leika betur eftir jól”. Þegar að Baros skoraði sín fyrstu mörk sagði Houllier: “Ég sagði hinum þjálfurunum hjá liðinu að hann væri góður, en þeir trúðu mér ekki þá”.

  Hins vegar þegar Houllier gerir mistök (sem gerist æ oftar) þá er hann alveg ófær um að viðurkenna þau. Hann kennir alltaf einhverjum öðrum um. “Völlurinn var lélegur”, “Dómarinn var lélegur”, “Leikmennirnir eru svo þreyttir eftir HM”. Og þetta rugl með að leikmenn séu þreyttir eftir HM er náttúrulega fáránlegt, því Liverpool átti færri menn á HM en til dæmis Man United og Arsenal.

 • Houllier hefur gert alltof mörg mistök í leikmannakaupum. Houllier byrjaði ótrúlega vel í leikmannakaupum. Fyrsta sumarið keypti hann Hyppia, Henchoz og Hamann, sem eru einhver bestu kaup í sögu enska boltans. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við. Á eftir þessum leikmönnum hefur hann nánast ekki gert nein góð kaup nema Riise, Dudek og Baros.

  Hann hefur hins vegar keypt heila hrúgu af alveg gjörsamlega vonlausum leikmönnum: Smicer, Traore, Biscan, Heskey, Diomede, Xavier, Camara, Meijer, Song, Diomede (og einhvern frakka, sem spilaði aldrei leik) og fullt af mönnum, sem eru um það bil við að falla í flokk með vonlausum leikmönnum: Cheyrou (hefur ekki átt einn góðan leik með Liverpool), Diouf (sem ég bind reyndar enn vonir við) og fleiri.

 • Houllier GAF Jari Litmanen til Ajax. Langnefjaði öskurapinn Phil Thompson sagði þegar Liverpool tapaði 50 leikjum í röð frá nóvember-janúar að liðinu hefði vantað reyndan leikmann til að rífa það upp.

  Skemmtileg tilviljun, þar sem að síðasta sumar reyndi Houllier hvað hann gat til að losa Liverpool við akkúrat þann leikmann, Jari Litmanen. Hann er einhver allra flinkasti leikmaðurinn í evrópska boltanum og var auk þess harður Liverpool stuðningsmaður, sem hefði glaður setið á bekknum. En nei, Houllier varð hreinlega að losa sig við hann. Sennilega til að hafa efni á því að borga Igor Biscan hærri laun.

 • Houllier SELDI Nicolas Anelka OG Robbie Fowler en KEYPTI Emile Heskey og El-Hadji Diouf. Nicolas Anelka þorði að tjá skoðanir sínar og því var hann seldur. Houllier þarf nefnilega að sýna að hann ráði. Því geta bara leikmenn með nánast ekkert sjálfstraust og sem þora aldrei að tala gegn honum (einsog aumingja Heskey), að vera hjá liðinu. Nicolas Anelka er auðvitað búinn að blómstra hjá Manchester City á meðan að Emile Heskey getur ekki neitt hjá Liverpool.
 • Houllier er búinn að ákveða að Michael Owen og Emile Heskey séu besta framherjapar Liverpool og því ætlar hann bara að nota þá í hverjum einasta leik. Milan Baros skoraði eftir að hafa verið inná í 5 mínútur í síðasta leik. Hvað fær hann í staðinn? Jú, að sitja á bekknum í næsta leik. Hann fær svo að koma inná þegar 15 mínútur eru eftir og Emile Heskey og Michael Owen búnir að klúðra 18 dauðafærum.

  Það er svo augljóst að Milan Baros er heitasti framherjinn hjá Liverpool þessa dagana en þrátt fyrir það fær hann aldrei að spila tvo leiki í röð. Houllier heldur hins vegar tryggð við leikmenn einsog El-Hadji Diouf, Vladimir Smicer og Bruno Cheyrou, sem hafa ekki getað neitt, því hann er svo sannfærður um að kaup sín á þeim leikmönnum hafi verið rétt. Mér dettur ekki í hug að fara að gagnrýna Michael Owen, en hann hefur samt átt mjög slæma leiki undanfarið. Því hefði verið rétt að hvíla hann og leyfa honum að koma sterkum til leiks eftir nokkra daga.

 • Houllier taldi meirihluta tímabilsins að Djimi Traore væri betri vinstri bakvörður en John-Arne Riise. Engum í heiminum fyrir utan mömmu Traore og Gerard Houllier dettur í hug að halda þessu fram. John-Arne er einn af fáum leikmönnum Liverpool, sem stendur sig nánast alltaf vel. Í síðustu leikjum er búin að vera meiri ógn frá honum en Bruno Cheyrou, þrátt fyrir að Riise leiki fyrir aftan hann.
 • Houllier neitar að kaupa reynda leikmenn, sem hafa sannað sig í boltanum. Hann vill bara kaupa unga, ódýra og óreynda leikmenn, sem hann getur sjálfur mótað. Þetta leiðir til þess að hann er alltaf að byggja upp lið fyrir framtíðina. Houllier getur þá alltaf afsakað sig og sagt að liðið sé ennþá ungt. Fyrir þrem árum keypti Houllier reyndan leikmann, Gary McAllister, og hann reyndist besti leikmaður liðsins þegar það vann bikarana þrjá. Reynsla og leiðtogahæfileikar eru ómetanleg. Samt heldur Houllier áfram að kaupa einhverja óreynda Frakka til liðsins.

Og þá koma þrír mikilvægustu punktarnir:

 1. Liverpool liðið hefur ekki sýnt neinar framfarir síðustu tvö ár. Þegar liðið vann bikarana þrjá, þá var sterkasta liðið: Westerveld, Babbel, Carragher, Henchoz, Hyppia, Hamann, Gerrard, Murphy, McAllister, Heskey og Owen. Í dag þá er sterkasta liðið (að minnsta kosti að mati Houllier): Dudek, Carragher, Henchoz, Hyppia, Riise, Murphy, Smicer, Hamann, Gerrard, Heskey og Owen.

  Breytingarnar eru aðallega þær að Dudek er kominn í staðinn fyrir Westerveld (mikil framför), Carragher fyrir Babbel í hægri bakvörðinn (ólýsanlega mikil afturför), Riise fyrir Carragher í vinstri bakvörðinn (framför) og Smicer inn fyrir McAllister (svo mikil afturför að það er ekki einu sinni fyndið). Owen er ekki að leika eins vel og Heskey ekki heldur. Þrátt fyrir þetta hefur Houllier eytt einhverjum 30 milljónum punda í nýja leikmenn. Þessir leikmenn eru þó flestir varamenn í liðinu.

 2. Arsenal er langtum sterkara lið en Liverpool. Houllier er núna búinn að stjórna Liverpool liðinu í meira en fjögur ár og það er ljóst að getumunurinn á milli Arsenal og Liverpool hefur aldrei verið meiri. Og þetta á ekkert eftir að batna. Sama þótt Vladimir Smicer fari allíeinu að leika alltaf vel, þá verður hann aldrei jafn góður og Robert Pires.

  Þrátt fyrir að Danny Murphy leiki toppleik í hverri viku, þá verður hann aldrei jafn góður og Freddie Ljunberg. Þrátt fyrir að skipt væri um heila í Emile Heskey, þá yrði hann aldrei jafn klár knattspyrnumaður og Dennis Bergkamp. Houllier eyddi 10 milljónum í Emile Heskey, Arsene Wenger eyddi 12 milljónum í Thierry Henry. Houllier eyddi 7 milljónum í Igor Biscan, því sama og Wenger eyddi fyrir Robert Pires.

  Wenger keypti Gilberto Silva síðasta sumar fyrir jafnmikinn pening og Houllier eyddi í Bruno Cheyrou. Eina staðan, sem Houllier hefur betur er markmaðurinn, en Houllier keypti Dudek. Reyndar hafði Arsene Wenger viljað kaupa hann, en fékk ekki samþykki hjá stjórninni, þannig að Houllier á nú varla skilið mikið hrós. Á þessu og árangri liðanna undanfarin ár er augljóst að Arsene Wenger er mun betri þjálfari. Á meðan Wenger kaupir leikmenn, sem smám saman styrkja liðið, heldur Houllier áfram að kaupa nýja og ferska varamenn.

 3. Liverpool leikur leiðinlega knattspyrnu. Það er ekki gaman að horfa á Liverpool leiki lengur. Liðið leikur á útivelli gegn Crystal Palace í bikarnum og spilar varnarbolta allan leikinn. Leikmenn berjast á fullu og uppskera jafntefli. Eftir leikinn er Houllier fullkomlega sáttur. Honum tókst jú að gera jafntefli við fyrstu deildar lið (sem eftir kvöldið í kvöld virðist bara vera ágætis árangur). Liðið leikur sóknarbolta á þriggja vikna fresti. Þegar það gerist verð ég allt í einu fullur af spennu og bjartsýni en Houllier tekst vanalega að drepa þá bjartsýni hjá mér með einhverjum fáránlegum innáskiptingum.

Jæja, þettu eru helstu atriðin, sem ég hef á móti Houllier. Í meginefnum það að Liverpool leikur leiðnlegan varnarbolta og ég fæ litla, sem enga ánægju af að horfa á uppáhaldsliðið mitt spila. Liðið, sem ég haldið með í 20 ár, liðið sem hefur fært mér ómælda ánægju, er núna orðin uppspretta eintóms þunglyndis í mínu lífi. Á það ekki að vera þannig að þegar maður er í vondu skapi eigi maður að geta kveikt á sjónvarpinu til að geta slakað á yfir fótbolta?

Gerard Houllier hefur á síðustu tveimur árum tekið alla ánægju burt úr því að horfa á Liverpool. Fyrir það á hann skilið að missa starfið.

6 thoughts on “Houllier burt!”

 1. Ég er ekki allveg sammála þér varðandi Heskey, en jú það koma kick and run boltar þegar hann er inná. En hvað er málið með þjálfaranna, hvað gera þessir menn á æfingum, er ekki hægt að kenna Carragher að sparka í bolta á þessum blessuðum æfingum. Síðan er maður allaveg að gefast upp á Owen eiginlega búinn að gefast upp á honum.

  Burt með Houllier, hann er ekki maðurinn til að stjórna þessu liði. Leiðinleg knattspyrna.

 2. Ég er nú engan vegin sammála þér með Danny Murphy og svía djöfulinn, eina sem ég vildi segja

 3. Ég verð að vera sammála þér í mjög mörgum atriðum ég er búinn að halda með þessu liði í 28 ár og hef ekki áður orðið vitni að leiðinlegri bolta.

  BURT MEÐ HANN !!!!!!!!!!!

 4. Margir góðir punktar í greininni. Fimm atriði sem ég vil þó nefna og bæta við.

  Í fyrsta lagi tel ég Owen stórlega ofmetinn leikmann. Tel reyndar það sama gildi um Gerrard, sem aðeins sýnir sitt rétta andlit í stórleikjum, og David Beckham. Allir stórlega ofmetnir.

  Í öðru lagi skil ég ekki afhverju einn besti leikmaður liðsins, Murphy, er alltaf tekinn útaf. Er hann meiddur?

  Í þriðja lagi er Houllier haldinn ungliða dýrkun. Kannski auðveldara að tjónka við stráklinga.

  Í fjórða lagi gleymist oft að liðið var ekki alltaf að spila stórkostlega á síðustu leiktíð sbr. sigurinn á Blackburn á útivelli þar sem fyrsta skot liðsins á mark var á 64 mín. og þá reyndar skorað.

  Í fimmta lagi þá voru þetta ekki neinar stórkeppnir sem liðið sigraði á sínum tíma. B-bikarkeppni, B-evrópukeppni og svo ein alvöru keppni, Enski bikarinn (þökk sé Dixon og Henchoz aukamarkverði)

 5. Djöfull er ég ánægður að halda ekki með svona svakalega lélegu liði.

  Hvernig gat Heskey klikkað og skotið í bumbuna…….

Comments are closed.