Hroki

Ég veit að ég á ekki að vera að gagnrýna Ágúst Flygenring, þar sem ég er viss um að hann lifir á því að fólk sé að hneykslast á honum. Ég hef hins vegar komist að því að hann er með ólíkindum hrokafullur.

Til dæmis vil ég benda á skoðanakönnun hans um hver sé “skástur” forseta Bandaríkjanna á þessari öld. Með þessu orðavali, að tala um skásta forsetann er hann að segja að í raun sé enginn forseti, sem geti talist góður á þessari öld. Hann segir að enginn sé bestur, heldur bara skástur. Þetta er ótrúlegur hroki, sem er alltof algengur hjá Íslendingum og Evrópubúum gagnvart Bandaríkjunum.

Fyrirgefðu, en er FD Roosevelt ekki bara nokkuð góður forseti (ég kaus hann), maðurinn, sem leiddi Bandaríkjamenn útúr mestu kreppu þessarar aldar? Var það ekki nokkuð gott hjá Truman að koma á Marshall aðstoðinni? Reyndar þá minnist Ágúst ekki einu sinni á menn einsog Richard Nixon (sem m.a. hóf samskipti við Kína, þrátt fyrir að hann hafi gert önnur mistök), LB Johnson og Gerald Ford. Er það ekki bara nokkuð gott hjá Reagan að enda í raun kalda stríðið? Og er það ekki bara nokkuð gott hjá Bill Clinton að stýra Bandaríkjamönnum í gegnum 8 ára uppsveiflu? Ágúst segir um Clinton:

Svo má ekki gleyma að honum mistókst ekki að stýra Bandaríkjunum í gegnum eitt mesta góðæri síðustu áratuga.

Hvers konar bull er þetta eiginlega? Þetta er gríðarlegur og óþolandi hroki hjá dreng, sem kann ekki einu sinni að stafa “Roosevelt”.