Hvað get ég gert?

stelpur-midam.jpgÉg er 28 ára gamall. Ég hef ferðast víða og upplifað margt. Ég vinn mjög mikið og hef komið mér ágætlega fyrir. Ég á engin börn og þarf ekki að sjá um neinn nema sjálfan mig.

Að undanförnu hef ég hugsað æ meira um það hvað ég get gert til að bæta mig og mitt umhverfi. Í raun er það fáránlegt að eyða þúsundum krónum í alls konar vitleysu, en láta svo ekkert af hendi rakna til betri málefna. Í gegnum árin hef ég kynnst flestum löndum Ameríku og séð fátæktina, sem þar er. Á þeim ferðalögum hafa stjórnmálaskoðanir mínar ávallt sveigst til vinstri og mig hefur langað til að gera eitthvað í málunum. En einhvern veginn hef ég aldrei látið neitt verða úr því. Ég veit að ég breyti ekki miklu sjálfur, en þótt að það hljómi klisjulega, þá getur tiltölulega lítið fjárframlag frá mér orðið til þess breyta lífi fólks í fjarlægum löndum.

Það er í raun súrealískt að hugsa til þess að peningar, sem mig munar ekki um, geti actually breytt *lífi* fólks á öðrum stöðum. Og það er fáránlegt að hugsa til þess að ég hafi ekkert gert í þessum málum. En núna skal því breytt.


Ég hef skrifað á þessa síðu í 5 ár og á [Liverpool bloggið](https://www.eoe.is/liverpool) í 18 mánuði. Í dag er það svo að um 1500 manns skoða þessar tvær síður í hverri viku. Það er nokkuð stór hópur. Ég ætla nú að reyna að nýta mér það í hag einhvers annars en eigin egós. Mér finnst það líka talsvert athyglisvert að sjá hvort að hægt sé að nýta bloggsíður til góðgerðarmála.Heima hjá mér er haugur af dóti, sem ég nota aldrei og líka haugur af dóti, sem ég nota en aðrir hefðu sennilega meiri not fyrir. Það, sem ég ætla að gera er að bjóða ykkur lesendum að bjóða í þessa hluti. ALLUR peningurinn, sem ég fæ fyrir þessa hluti mun fara til góðgerðarmála í Mið-Ameríku.

Þetta er fullt af gagnlegum hlutum og ég bið ykkur endilega að bjóða rausnarlega í hlutina. Ég ætla að setja lægsta boð á suma hlutina, en annars mun ég láta alla hlutina fara á hæsta boði. Þið getið ábyggilega gert þarna mjög góð kaup og þið getið verið viss um að 100% upphæðarinnar renna til góðgerðarmála. Ég er búinn að ákveða að peningarnir fari til að hjálpa krökkum í Mið-Ameríku, en mun ekki velja samtökin fyrr en ég veit hversu há upphæðin verður. Auk þess sem ég safna með þessu uppboði ætla ég að leggja 15% af laununum mínum fyrir desember mánuð í þennan málstað. Ef þið viljið leggja pening í þetta mál án þess að bjóða í hluti getiði [sent mér póst](https://www.eoe.is/ummig/). Ég legg auðvitað heiður minn að veði um að allir peningarnir munu skila sér til góðra samtaka.

Ég ætla að skipta hlutunum í þrennt. Í fyrsta hlutanum ætla ég að bjóða upp tæki eða nýja hluti. Ég ætla t.d. að selja nýlega Playstation 2 tölvu og svo framvegis. Í næsta hlutanum ætla ég að selja haug af Xbox tölvuleikjum, DVD diskum og CD diskum. Þar mun ég selja hlutina mjög ódýrt. Í þriðja hlutanum ætla ég svo að selja gamla hluti, sem einhverjum söfnurum finnast kannski sniðugir. Allt frá gömlum tölvuspilum til gamalla Liverpool treyja og Star Wars leikfanga.

Þetta byrjar allt á morgun, þá set ég inn tækin og nýju hlutina.

Ég ætla að biðja ykkur, sem eruð með blogg um að skrifa um þetta á ykkar síðum. Ég er ekki að þessu til að vekja meiri athygli á síðunni, heldur vill einungis ná inn eins mörgum lesendum og því hærri boðum í hlutina. Ég vona að þetta hljóti góðar undirtektir.

En allavegana, uppboðið hefst núna. Ég er búinn að búa til síðu undir þetta uppboð og er [hana að finna hér](https://www.eoe.is/uppbod).

Fyrsti hluti uppboðsins, tæki og nýtt dót, er kominn upp [hér](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/10/9.13.58/). Ég býst fastlega við að þetta fari mjög hægt af stað, en heimsóknir á þessa síðu eru vanalega fáar um helgar. DVD diskarnir fara upp á mánudag, Xbox leikirnir á þriðjudag og svo framvegis. Hver hluti uppboðsins mun vera uppi í fjóra daga.

25 thoughts on “Hvað get ég gert?”

 1. Frábært framtak Einar en þú verður að velja samtökin gríðarlega vel sem þú ætlar að setja peningana í, því alltof mikið af hjálparsamtökum í 3 heiminum stefna ekk i að sjálfbærri þróun heldur tölfræðilegum sigrum fyrir sjálfan sig til að fá meiri pening.

  Tvö mjög stór hjálparsamtök án beinnar ríkistengingar sem fá gríðarlega fjármuni en eyðileggja ótrúlega mikið fyrir öðrum slíkum samtökum í afríku er t.d. WorldVision og Carter Center (samtök Jimmy Carter). Ég mæli ekki með þeim meðal annars.

 2. þú ert snillingur!
  ég býð spennt eftir dvd diskum á mánudaginn, vona að þú eigir eitthvað spennandi fyrir jólin 🙂

 3. Einar, þetta er frábær hugmynd. Ég hef oft spáð í því að gera eitthvað af svipuðum toga. Margir borga t.d. með barni í gegnum Rauða Krossinn eða UNICEF… einhvernveginn hef ég aldrei komið mér að því að skrá mig.

  Nú ætla ég að drífa í því.

  Takk fyrir áminninguna :smile

 4. Frábært að leggja sitt af mörkum fyrir litla fólkið 😀 mjög ánægð að sjá hvað þú ert að gera hér 😉

 5. Takk kærlega. 🙂

  Solla, gott að ég hafi hvatt þig til þess að gefa. Ég hef einmitt verið í áskrift hjá UNICEF síðan í sumar. Það er allavegana góð byrjun.

  Og Daði, ég hef spáð mikið í samtökunum og mun íhuga þau vel.

 6. Rausnarlega gert af þér Einar. Gott að vita að fólk hugsi um fleiri en sjálfan sig, sérstaklega um jólin.
  Gangi þér vel með þetta.

 7. Sæll og flott framtak.

  Langaði bara að benda lesendum á fleiri aðferðir til að láta gott af sér leiða.

  Í björgunarsveitum hér heima er hægt að sérhæfa sig í fjallabjörgun, sjúkrahóp, rústabjörgun / alþjóðasveit sem send er á skaðasvæði erlendis, og fleiri áhugaverðum sviðum.

  Nýliðar eru teknir inn á haustin. Skemmtilegt og gefandi starf. Nánari upplýsingar er að finna á http://www.bjorgunarsveit.is.

 8. Já hvernig er þetta með að borga með barni? Getur einhver frætt mig um það? Þ.e hvað maður fær að gera og hvar maður skráir sig…..

 9. Hjalti, farðu bara á http://www.unicef.is/ eða http://www.sos.is þar er allt sem þú þarft að vita. Þú borgar c.a2000 kr á mánuði, færð senda mynd af barninu sem þú borgar fyrir, stöku bréf og fréttir af þeim, og þegar/ef barnið er orðið nógu gamalt þá færðu teikningar eða jafnvel bréf sem þau skrifa sjálf. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi.

 10. Frábært framtak hjá þér og vonum að þú náir að safna heilum helling.

  En Marella, ég held að Unicef séu samtök sem byggja brunna og svona nauðsynjar en fólk á ekki “sitt” barn heldur fara peningarnir í að byggja upp samfélagið í heild sinni.

 11. Það er alltaf gaman að sjá þegar að einstaklingar eru tilbúnir til að hjálpa öðrum en sjálfum sér 🙂 sérstaklega svona rétt fyrir jólin 🙂 Frábært framtak 🙂

 12. Frábært framtak!!!!!!! Ef allir hugsuðu svona þá væri heimurinn betri!
  Ég hef líka heyrt þetta um sum hjálparsamtök. Því miður rata peningarnir ekki alltaf á rétta staði.
  Þar sem ég er skítblankur námsmaður þá get ég ekki styrkt neitt nema sjálfa mig þessa stundina en um leið og ég get gefið af mér mun ég gera það.
  Getur einhver bent mér á góðar upplýsingar um hjálparstarf?
  Gleðileg jól

 13. Ég er alveg sammála að við sem erum betur sett og erum að drukkna í öllu þessu lífsgæðakapphlaupi þar sem allt snýst um að eiga óþarfa græjur og dót, eigum að láta af hendi rakna til þeirra sem minna mega sín. Ég er fátækur námsmaður en ég borga samt 500 kr mánaðarlega til Unicef. Engin gríðarleg upphæð en safnast þegar saman kemur.
  Allavega, ótrúlega gott framtak hjá þér. Vonandi vekur þetta aðra til umhugsunar um að við getum öll lagt okkar af mörkum.

 14. ok, nú langar mig að fara að kíkja á þetta unicef.
  ég er einn af þeim sem er svo hræddur um að peningarnir rati ekki á réttan stað ef ég veit ekki nóg um góðgerðarsamtökin sem ég styrki.
  Það er auðvitað skemmtilegast að geta séð í hvað peningar manns eru nákvæmlega að fara.

 15. Þetta er frábært hjá þér – ekki síst núna fyrir jólin þegar margir eru að tapa sér í efnishyggjunni.

 16. Vil líka benda ykkur á samtökin Vini Indlands og Vini Kenýa, fyrst þið eruð að tala um samtök sem styrkja börn. Þessi samtök eru íslensk og þar eiga alir peningar sem safnast að renna beint til barnanna. http://www.vinirindlands.is

  Eflaust eru mörg önnur góð samtök, en ég hef styrkt þessi og svo Unicef. Hjá Vinum Indlands er bæði hægt að gefa almenna styrki og svo styrki til einstakra barna, en hjá Unicef eru þeir allir almennir, þ.e. þú færð ekki bréf frá neinu einu barni eða neitt slíkt. Ekki að það sé endilega neitt verra.

  En Daði, hvað hefur þú á móti World Vision? Bara forvitni, vann einu sinni að verkefni með þeim og sá ekki betur en þeir væru að gera ágæta hluti þar sem ég var.

 17. Ég er á svipuðum nótum og aðrir, lofa gott framtak. Vonandi að þetta verði sem flestum innblástur, ég veit að ég ætla allavega að leggja til málana og láta verða af því að skrá mig hjá sos.

Comments are closed.