Hvar ætlar þú að búa?

Þessi grein eftir mig birtist í gær á Vefritinu

* * *

Kjördæmaskipulagið á Íslandi gerir það að verkum að stjórnmál snúast oft á tíðum um baráttu á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Vegna ranglætis í kjördæmaskipulagi og mismunandi vægis atkvæða þá hefur landsbyggðin ávallt haft sterkari rödd á Alþingi okkar Íslendinga.

Ansi margir af þingmönnum landsbyggðarinnar, sem eru flestir komnir yfir fimmtugt (meðalaldur landsbyggðarþingmann er samkvæmt mínum útreikningum 55 ár), virðast líta á það sem sitt helsta hlutverk að stöðva flótta fólks frá þeirra kjördæmum yfir á höfuðborgarsvæðið.

Aðgerðir þeirra hafa tvenns konar áhrif. Fyrir það fyrsta draga þær meiri pening til landsbyggðarkjördæma til ýmissa verkefna, hvort sem það er til vegaframkvæmda, atvinnuskapandi verkefna, færslna á stofnunum og öðru slíku. Og í öðru lagi felast áhrifin í því að gera höfuðborgarsvæðið meira óaðlaðandi sem kost fyrir fólk til að búa á. Hvort sem að seinni niðurstaðan er ætlunarverk þeirra skal ósagt látið.

Hins vegar hafa aðgerðir síðasta tveggja samgönguráðherra verið nánast fjandsamlegar fyrir Reykjavík. Fyrir það fyrsta þá hafa þessir ráðherrar dregið ótrúlega lengi lagningu Sundabrautar. Þeir virðast engar áhyggjur hafa af þeim gríðarlegu tekjum sem tapast þegar að þúsundir höfuðborgarbúa þurfa að sitja í bílum sínum í mun lengri tíma en væri nauðsynlegur ef að Sundabraut væri staðreynd.

Í öðru lagi hafa þessir tveir ráðherrar gert allt sem í þeirra valdi stendur til að festa flugvöllinn í Vatnsmýrinni í sessi. Byggingarlandið, sem flugvöllurinn liggur á, er verðmætasta byggingarland höfuðborgarinnar. Það sem meira er, þetta land er sennilega okkar besta og hugsanlega síðasta tækifæri til að búa til í Reykjavík heillandi borgarsamfélag og forðast þá niðurstöðu að Reykjavík verði eingöngu samansafn af úthverfum tengd saman með hraðbrautum.

* * *

Ég nefni aldur þingmanna ekki vegna þess að ég hafi eitthvað sérstaklega á móti fólki, sem er komið yfir fimmtugt, heldur eingöngu til að benda á að þingmennirnir upplifðu allt annan raunveruleika á þeirra þrítugsaldri heldur en ungt fólk upplifir í dag. 55 ára gamall þingmaður var 41 árs gamall þegar að EES samkomulagið var gert. Einstaklingur sem var tvítugur árið 1973 stóð frammi fyrir allt öðrum (og færri) möguleikum en tvítugur einstaklingur gerir í dag.

Sennilega var það svo í kringum 1970 að fólk velti því í alvöru fyrir sér hvort það ætti að búa á landsbyggðinni eða í höfuðborginni. Í dag er það hins vegar svo að fæstir þeirra, sem hafa alist upp á höfuðborgarsvæðinu, hugsa til landsbyggðarinnar þegar þeir ákveða hvar þeir skuli búa.

Nei, alþjóðavæðingin og aðild okkar að EES hefur gert það að verkum að ungt fólk í dag horfir til allrar Evrópu þegar að það veltir því fyrir sér hvar það ætli að búa. Vel menntaður ungur Íslendingur getur sótt um vinnu í París, London, Róm, Kaupmannahöfn eða Madrid alveg einsog í Reykjavík. Þessar borgir bjóða uppá hlýrra loftslag, þróaðra borgarsamfélag, betri menntunarstofnanir, öflugra listalíf og svo framvegis og framvegis.

* * *

Því fer fjarri að ég hafi eitthvað á móti landsbyggðinni. Ég er alinn upp í borg og vil einfaldlega búa í borg. Þetta snýst bara um smekk minn. Málið er einfaldlega að þótt landsbyggðarþingmenn haldi enn að valið hjá ungu fólki standi á milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkur, þá tel ég að það standi miklu frekar á milli Reykjavíkur og London, Kaupmannahafnar eða annarra evrópskra stórborga.

Þess vegna ættu stjórnmálamenn að hætta að reyna að spyrna gegn framþróun á höfuðborgarsvæðinu. Þeir ættu að greiða götur nauðsynlegra samgöngubóta og þeir ættu að styðja það að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði fjarlægður hið fyrsta og að þar verði gerð tilraun til að byggja upp borgarsamfélag, sem getur veitt öðrum borgum í Evrópu samkeppni.

* * *

Verkefni nútíma stjórnmálamanna er nefnilega það að auka samkeppnishæfni höfuðborgarinnar við aðrar borgir Evrópu. Þeir Íslendingar sem búa í útlöndum verða að hafa einhverjar ástæður til að flytja heim aðra en þá að margir vina þeirra og fjölskyldumeðlima búi hér. Þetta þýðir að mennta- og velferðarkerfið á Íslandi verður að keppa við það besta sem evrópskar borgir bjóða uppá. Ungt fólk þar að geta gengið að bestu leikskólum og skólum, sem völ er á í Evrópu.

En einnig þá dæmir ungt fólk hvar það mun búa út frá því hvað borgarsamfélagið býður uppá. Flestir Íslendingar virðast sækja í gamlar evrópskar borgir fremur en bandarískar bílaborgir. Hvers vegna reynum við þá að byggja upp bílaborg í Reykavík? Af hverju er ekki meiri áhersla lögð á spennandi miðborgarlíf?

Reykjavík hefur í mínum huga marga kosti sem borg. Ég er alinn upp hér og flestir mínir vina búa hér. Hún býður uppá ótrúlega öflugt menningarlíf miðað við stærð, hvort sem það eru heimsklassa veitingastaðir, leikhúslíf eða tónlistarlíf. Það tekur mig einnig aðeins um hálftíma akstur að vera kominn á gott skíðasvæði, hér eru golfvellir innan borgarmarka, það er stutt í fjallgöngur og ótal aðra útivist sem að íbúa í London tæki marga klukkutíma ferðalag að nálgast.

En hún hefur líka á síðustu árum þróast í átt til bandarískrar bílaborgar, sem er ekki heillandi þróun.

Íslenskir stjórnmálamenn ættu að byrja að hugsa það hvernig þeir geti gert borgina að heillandi stað fyrir unga Íslendinga. Ef þeir gera það ekki, þá munu skæru ljós stórborganna í Evrópu verða sífellt meria heillandi fyrir ungt fólk hér á landi og við eiga það á hættu að missa okkar unga og hæfa fólk til stórborga í öðrum löndum.

26 thoughts on “Hvar ætlar þú að búa?”

 1. Sama hversu mikið af stígum og öðrum hjólareiðamannvirkjum verður komið fyrir í Reykjavík verður borgin aldrei hjólaborg. Veðurfar og landslag koma í veg fyrir það.

 2. Það sama var sagt um Kaupmannahöfn á sínum tíma…

  Það er ekkert mál að hjóla í Reykjavík flesta mánuði ársins EF að það væru almennilegir stígar sem væru saltaðir í hálku og hreinsaðir í snjó. Svona eins og fyrir bílana. Og já, ég tala af reynslu. Þá daga sem verstu stormarnir geysa er svo hægt að taka strætó 🙂

 3. Svo sammála þessu. Ég hef kosið að búa í Reykjavík bíllaus. Fer allra minna ferða á hjóli, í strætó og gangandi og það er bara yndislegt en stundum er það bara ómögulegt og þreytandi. Þannig er ég sammála Árdísi að auka og bæta hjólreiðastíga og svo vildi ég gjarnan sjá almennilega metnað og þolinmæði í strætómálum, það tekur bara tíma að breyta hegðun fólksins. En eftir nokkur ár þar sem góðar strætósamgöngur eru í boði þá lærir fólkið að það getur alltaf hoppað í strætó og kemst til síns áfangastaðar fljótt og örugglega. Það sama á við með hugarfarsbreytinguna í tengslum við hólareiðarnar.

  En það er eitt sem ég er ekki sammála. Flugvöllinn vill ég hafa áfram í vatnsmýrinni. það er bara ekkert vit að hafa hann í keflavík og annað flugvallarstæði nálægt reykjavík virðist ekki vera í boði miðað við þá kosti sem settir hafa verið fram. En það má breyta umgjörðinni eitthvað, til að mynda með færslu annarrar flugbrautarinnar í sjóinn og svo framvegis.
  🙂

 4. Ég veit samt ekki með það hvort Kaupmannahöfn heilli fólk almennt. Fín borg og allt það, en persónulega myndi mér finnast frekar svekkjandi að borga 65% tekjuskatt, sem er það sem allir þeir sem hafa yfir 400.000 kall í mánaðarlaun í Danmörku þurfa að borga. Skattþrepin fyrir lægra launaða eru raunar einnig gífurhá. Þetta er náttúrulega bara rán. Svo er 24,5% vaskur á flestum vörum þar, eins og hér. Mér finnst gaman að skoða mig um og fara af og til til Kaupmannahafnar en þetta eitt gerir það að verkum að mig langar ekki að búa þar.

 5. það er bara ekkert vit að hafa hann í keflavík og annað flugvallarstæði nálægt reykjavík virðist ekki vera í boði miðað við þá kosti sem settir hafa verið fram

  Víst er vit í því að hafa hann í Keflavík. Það er einfaldlega engin glóra í því að hafa flugvöll á besta byggingarsvæði borgarinnar. Slíkt sér maður hvergi annars staðar.

  Og einnig hefur Hólmsheiði verið talin góður kostur fyrir nýjan flugvöll og það hefur verið reiknað út að miklar fjárhæðir muni sparast við að flytja flugvöllinn þar sem með því losnar um dýrmætt byggingarland.

  Það að flugvöllurinn fari og að þar byggist upp öflugt hverfi myndi klárlega styrkja stoðir borgarinnar hvað varðar möguleikana á að ferðast eingöngu með hjóli eða almennings-samgöngutækjum.

 6. Ég veit samt ekki með það hvort Kaupmannahöfn heilli fólk almennt

  Miðað við síðasta skipti sem ég gekk niður Strikið þá myndi ég segja að Kaupmannahöfn heilli unga Íslendinga mjög mikið.

 7. Sæll

  Les oft síðuna og skemmtilegar pælingar þó að ég sé oftar en ekki á annari skoðun en þú.

  Finnst samt ansi áhugaverð söguskýring að halda að það sé misræmi í því hvar skatttekjur verða til (hvar skattar eru borgaðir) og hvar peningum skattborgaranna er eytt og að það misræmi sé höfuðborginni í óhag. Það má vel vera að ef menn horfi á síðustu 5 ár með Héðinsfjarðargöngum og öðrum samgöngubótum sé það þannig að menn geti reiknað sig í það en það er einfaldlega þannig að 9 af hverjum 10 störfum hjá ríkinu eru á Höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan fyrir því að einstaklingar sem hafa farið í framhaldsnám flytjast ekki útá land er sú að störfin eru ekki fyrir hendi, allar ríkisstofnanir eru settar niður í Reykjavík, síðasta dæmið er það að forstöðumaður Vatnajökulsþjóðgarðar er með skrifstofu í Reykjavík! Það hvort að Byggðastofnun er fluttt norður á Sauðarkrók eða ekki hefur bara ekkert að segja því að það verða til 10 ný störf í Rvk fyrir hvert starf sem er búið til eða flutt útá land.

  Síðan held ég að maður sem hefur farið jafn víða og þú ættir að huga að því hvers vegna það er að lang flest lönd hafa þannig kerfi að það er tvískipting á uppsetningu löggjafans. Þannig að þetta sé eins og í USA, Þýskalandi og Bretlandi svo dæmi séu nefnd. Ég held að það sé ekki mjög víða þannig að kjördæmin séu jafn stór og hérna á Íslandi. Þá eru hagsmunir þeirra sem búa í þessu landi svo misjafnir að það væri aljgörlega óþolandi að hafa það þannig að höfuðborgarbúar gætu kúgað landsbyggðina.

 8. Þessi Makkari er verulega skrýtinn gaur. Hann skrifar aldrei á Liverpool blogginu nema til að pirrast útí mig og svo segist hann lesa bloggið mitt í hverri viku þótt að ég fari gríðarlega í taugarnar á honum. (bara á forsíðunni hjá honum er svar við þessari grein minni og svo einhverjar pillur á það í annarri færslu hvað ég fari í taugarnar á honum.)

  Hann reynir svo mikið í þessari grein að misskilja mig og gera mér upp skoðanir að ég nenni ekki fyrir mitt litla líf að svara þessu. Bara síðasta línan er nógu heimskuleg til þess að ég nenni ekki að ræða við hann um þessi mál

  “En þá er svosum alltaf hægt að skella skuldinni á landsbyggðarpakkið.”

  Ef menn sjá þetta sem boðskapinn úr þessari grein, þá annaðhvort er ég hræðilegur penni eða þá að menn eru að reyna vísvitandi að misskilja inntak greinarinnar.

  Arnar segir:

  Finnst samt ansi áhugaverð söguskýring að halda að það sé misræmi í því hvar skatttekjur verða til (hvar skattar eru borgaðir) og hvar peningum skattborgaranna er eytt og að það misræmi sé höfuðborginni í óhag.

  Ég sagði þetta aldrei.

  óþolandi að hafa það þannig að höfuðborgarbúar gætu kúgað landsbyggðina.

  Er ég að biðja um það? Nei, ég er einfaldlega að biðja um það að mitt atkvæði sé jafn mikilvægt og atkvæði fólks á Ísafirði. Ég hafði ekki hug á að kúga einn né einn í krafti þess.

 9. Í sambandi við fyrri ummæli mín skildi ég þetta í þinni grein

  “Aðgerðir þeirra hafa tvenns konar áhrif. Fyrir það fyrsta draga þær meiri pening til landsbyggðarkjördæma til ýmissa verkefna, hvort sem það er til vegaframkvæmda, atvinnuskapandi verkefna, færslna á stofnunum og öðru slíku.”

  þannig að þú værir að gagnrýna það að peningar sem ekki yrðu til úti á landi væru færðir þangað handvirkt af þingmönnum. Ef það er þannig að það er ekki jafnvægi í því hvar skatttekjur verða til og hvar útgjöldin eru, er það þá ekki eðlilegt að landsbyggðin vilji sjá meira af þeim sköttum sem hún borgar fara í að borga þjónustu sem er nær henni stofnanir, vegir og margt fleira. Landsbyggðin getur ekki átt að niðurgreiða þjónustu til höfuðborgarbúa eða halda uppi fjölda ríkisstarfa þar til þessa að gera RVK samkeppnishæfa við Kaupmannahöfn.

  Ég segi ekki að þú viljir kúga landsbyggðina en ég held að það þurfi að tryggja að það gerist ekki. Menn hafa valið sér mismunandi aðferðir til að gera það. Hví ekki að hafa alþingi tvískipt. Eina deild þannig að kjördæmin hafi öll 4 þingmenn hvert í efri deild þar sem menn þurfi aukinn meirihluta ala USA eða Þýskaland og síðan neðri deild þar sem einmenningskjördæmi ráða og alltaf er sami fjöldi atkvæða á bakvið. Þannig verður það ekki svo að Alþingi myndi t.d samþykkja virkjunarbann (eða þrengja mjög möguleika til vað virkja) fyrir allt landið þrátt fyrir mjög bágborna atvinnustöðu úti á landi, menn yrðu að leita sátta og til að fá málin í gegn.

 10. Ég var ekki að leggja neitt mat á það hvort að það fari meiri tekjur útá land en koma þaðan. Enda er það ekki stóra málið og ég hef í raun ekki hugmynd um það hvort svo er.

  Punkturinn í þessari grein er sá að ég tel að þessir þingmenn (ekki bara af landsbyggðinni) sem eru kominn á ákveðinn aldur skynji ekki almennilega þá samkeppni sem að Reykjavík á við að etja. Borgin á að vera í fullri samkeppni við aðrar borgir, en ekki að eyða sínu púðri í þrasi við landsbyggðina um svona hluti.

  Ég held að þessir þingmenn skynji ekki þann raunveruleika að ungt fólk velur ekki (að minnsta kosti þeir sem eru fæddir á höfuðborgarsvæðinu) á milli landsbyggðar og höfuðborgar heldur Reykjavíkur og annarra borga erlendis. Það hefur ekkert með það að gera að ég vilji svelta eða kúga landsbyggðina að ég vilji sjá Reykjavík standa sig betur í alþjóðlegri samkeppni.

 11. Og bara svo það sé á hreinu, þá tel ég að færsla á flugvellinum sé mikilvægasta mál Reykjavíkurborgar og algjört lykilatriði ef það á að gera hana að meira spennandi kosti fyrir ungt fólk í framtíðinni. Ef við byggjum ekki þar, þá heldur þróunin einfaldlega áfram í þá átt að Reykjavík verði einsog bandarísk bílaborg með Smáralind sem miðpunkt.

 12. Eg er sammala thvi ad thad vaeri frabaert ad sja meira lif i midborg Reykjavikur frekar en aframhaldandi throun i ameriska bilaborg. Mer finnst skemmtilegast ad bua thar sem eg tharf ekki ad eiga bil. Folki finnst eg einfaldlega skrytin thegar eg segi theim ad eg taki straeto thegar eg er heima.

  En erum vid ekki bara i minnihluta? Er ekki islenski draumurinn ad eiga stort hus a storri lod i uthverfi og storum jeppa i innkeyrslunni til thess ad skjotast ut i sjoppu og fara til utlanda til thess ad sitja a kaffihusi eda pobb og fa storborgarstjornur i augun og segja “thetta getur madur ekki gert heima thvi ad bjorinn er svo dyr eda thad vantar bilastaedi i midbaeinn”??
  Hefur folk a hofudborgarsvaedinu almennt ahuga a uppbyggingu i midbaenum?

 13. Sæll Einar.

  Líklega er sama hver hefði skrifað þessa grein, ég hefði alltaf svarað henni ef ég hefði rekist á hana.

  Ég hef orðið var við að margir eru á þessari skoðun sem þú ert og ég virði hana alveg þó ég sé henni ekki sammála.

  Það að draga mína persónu eða bakgrunn inn í dæmið og sverta skrif mín með því er dæmigerð rökvilla.

  Það er hins vegar rétt að ég dró þá ályktun út frá pistlinum að þér fyndist of miklir peningar og of mikil athygli beinast að landsbyggðinni, á kostnað höfuðborgarsvæðissins. Mér fannst það liggja beinast við með útskýringum á aldri þingmanna og að ungt fólk hugsaði ekki um landsbyggðina sem valkost til búsetu. Ef það var misskilningur þá hef ég líklega dregið of sterkar ályktanir út frá þessum punktum.

  Eftir standa þrjár spurningar sem voru stoðirnar í minni grein:

  Ert þú tilbúinn að fara með flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, annað hvort á Hólmsheiði eða til Keflavíkur og bæta þar með við mínútum sem tekur að færa slasaða og veika einstaklinga með sjúkraflugi á Landspítalann?
  Getur samgönguráðherra eitthvað afhafst í Sundarbrautarmálum meðan borgarstjórn er ekki tilbúin að leggja fram sína tillögu um hvaða leið skuli fara?
  Hvernig geta Alþingismenn fallið frá bílaborgarþróuninni á meðan flest allar aðgerðir borgarstjórnar síðustu ár hafa miðast að skammtímalausnum fremur en langtímastefnumótun?

 14. Ég er svo bullandi ósammála þessari grein þinni. Þú verður að fyrirgefa en mér finnst þú setja þetta upp þannig að landsbyggðin sé bara dragbítur á höfuðborginni! Fólk hlýtur að hafa rétt til að búa á landsbyggðinni ef það vill og fá þar lágmarksþjónustu.
  Mér finnst líka hæpið að setja þetta upp þannig að það sé annað hvort uppbygging á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Ég skildi þetta allvega þannig þegar ég renndi í gegnum pistilinn.

  Reykjavík er í raun haugadrullug skítaborg. Menningin blómstrar að einhverju leyti og það er margt hægt að gera hérna. Ég bý í Reykjavík og mér líður bara nokkuð vel með það. Það breytir því ekki að í hvert skipti sem maður ferðast erlendis og kemur í alvöru borgir sér maður hvað Reykjavík er áfátt.

  Ég er ekki sammála þér með nauðsyn þess að flytja flugvöllinn á brott. Allavega fyrr en nýtt stæði finnst í grennd við borgina eða með almennilegum samgöngum til Keflavíkur. Það þýðir ekkert að segja að það taki bara 20 min að keyra til Keflavíkur þegar það tekur mun lengri tíma.
  Það má vel þrengja að núverandi flugvelli og byggja upp talsvert í kringum háskólana og eins íbúðarhverfi.
  Ég efast stórlega um að Reykjavík verði einhver valkostur þó það komi tjörn í Vatnsmýrina frekar en flugvöllur. Þá held ég að það væri nær að lækka skatta til að laða hingað fólk.

  Heldurðu að það væri ekki nær að reyna að gera borgina aðeins skaplegri í staðinn fyrir að láta hana drappast niður eins og hún hefur gert? Svæðið í kringum Kvosina, Laugarvegur og fyrir ofan og neðan Laugarveg. Þetta er bara slömm. Ekkert annað. Það leysir þau mál ekki að henda flugvellinum burt.

  Ég held ég láti þetta duga í bili þó það sé margt fleira sem ég hef út á þessa grein að setja. Og já ég er landsbyggðarmaður að uppruna:)

 15. Ert þú tilbúinn að fara með flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, annað hvort á Hólmsheiði eða til Keflavíkur

  Já.

  Getur samgönguráðherra eitthvað afhafst í Sundarbrautarmálum meðan borgarstjórn er ekki tilbúin að leggja fram sína tillögu um hvaða leið skuli fara?

  Já, hann getur það.

  Hvernig geta Alþingismenn fallið frá bílaborgarþróuninni á meðan flest allar aðgerðir borgarstjórnar síðustu ár hafa miðast að skammtímalausnum fremur en langtímastefnumótun?

  Ég sagði aldrei að þetta væri eingöngu verkefni Alþingismanna. Ég er alveg jafn fúll útí borgarstjórn.

  Andri, þú segist vera bullandi ósammála greininni. En aðallega virðistu vera ósammála skoðunum, sem þú gerir mér upp. Einsog þetta:

  þú setja þetta upp þannig að landsbyggðin sé bara dragbítur á höfuðborginni! Fólk hlýtur að hafa rétt til að búa á landsbyggðinni ef það vill og fá þar lágmarksþjónustu.

  Þetta er einfaldlega ekki rétt. Og alveg fáránlega dramatískt. Þetta er reyndar nokkuð típískt því oft mega þeir úr höfuðborginni ekki setja neitt útá núverandi skipulag án þess að fá á sig þann stimpil að hafa eitthvað á móti landsbyggðinni. Ég hef EKKERT á móti landsbyggðinni.

  Ég hef hins vegar ANSI mikið á móti landsbyggðarþingmönnum sem hugsa nánast eingöngu um hag sinnar byggðar, en ekki landsins (og þá höfuðborgarinnar) líka. Gott dæmi um þetta eru síðustu samgöngumálaráðherrar. Ég er ekki að biðja um að jafnmargar krónur fari í vegi á höfuðborgarsvæðinu per capita og útá landi. Ég geri mér grein fyrir að það er dýrara útá landi að leggja vegi.

  Reykjavík er í raun haugadrullug skítaborg

  Hvað hefði ég verið titlaður ef ég talaði svona um landsbyggðina?

  Heldurðu að það væri ekki nær að reyna að gera borgina aðeins skaplegri í staðinn fyrir að láta hana drappast niður eins og hún hefur gert?

  Jú, það var einmitt pointið með þessum pistli.

  Það leysir þau mál ekki að henda flugvellinum burt.

  Ég veit það vel. Ég er ekki að segja að það sé einhver töfralausn á öllum vandamálum borgarinnar. En hann er samt gríðarlega mikilvægur partur af því að hér sé hægt að byggja upp betri og þéttari borg. Algjört lykilatriði.

  Það að hafa flugvöll í miðbæ borgar er einfaldlega fáránlegt! Fáránlegt!

 16. Takk fyrir að svara mér svona ítarlega. Þú náðir meira að segja að kötta niður fyrstu spurninguna svo þú gætir svarað henni eftir þínum behag.

  Aftur, takk fyrir mig 🙂

 17. Það var ekki ætlunin að gera þér upp skoðun. Mér sýnist þú vera fullfær um það sjálfur og biðst ég afsökunar ef ég hef gert það.

  Eins og ég skil þessa grein þá seturðu dæmið upp þannig að framþróun á landsbyggðinni bitni á höfuðborginni og öfugt.

  Þess vegna ættu stjórnmálamenn að hætta að reyna að spyrna gegn framþróun á höfuðborgarsvæðinu.

  Svona seturðu þetta upp. Ef eitthvað er gert á landsbyggðinni þá er verið að vinna gegn framþróun á höfuðborgarsvæðinu.
  Mér finnst það of mikil einföldun. Það hlýtur að vera hægt að sinna bæði landsbyggðinni og höfuðborginni með sómasamlegum hætti. Hvað varðar Sundabrautina þá öfunda ég ekki samgönguráðherra að þurfa að ákveða þetta þegar íbúar á höfuðborgarsvæðinu geta ekki verið sammála um hvernig eigi að standa að þessu. Heldur þú að það spili ekkert inní þessa töf? Heldurðu að landsbyggðarfólkið bíði ekki líka eftir Sundabrautinni? Það verður þá fljótlegra að flytja í borgina.

  Ég skil heldur ekki hvernig það getur verið lykilatriði í uppbyggingu borgarinnar að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Hverfa róna/dópistabælin af Hverfisgötunni við það? Flugvöllinn burt er bara engin forsenda fyrir því að hreinsa borgina og gera hana vistlega. Þó flugvöllurinn fari og þar rísi byggð og ný tjörn þá þarf enn þá að taka til í þeirri miðborg sem nú er við lýði. Það gerist ekki sjálfkrafa við það að byggja í Vatnsmýrinni.

  Jú, það var einmitt pointið með þessum pistli.

  Var ekki pointið með þessum pistli að benda á hvað landsbyggðarþingmennirnir hafi farið illa með höfuðborgina? Að það sé þeim að kenna að flugvöllurinn sé í Vatnsmýrinni. Að borgin sé í niðurníðslu.

 18. Þú náðir meira að segja að kötta niður fyrstu spurninguna svo þú gætir svarað henni eftir þínum behag.

  Ég gerði það eingöngu til að reyna að fara aðeins meira í taugarnar á þér.

  Ef eitthvað er gert á landsbyggðinni þá er verið að vinna gegn framþróun á höfuðborgarsvæðinu.

  Nei, þetta er ekki rétt. En þegar að samgönguráðherrar virðast bara hugsa um jarðgöng í sínu heimahéraði á kostnað gríðarlega mikilvægra framkvæmda í Rvk, þá er verið að vinna gegn höfuðborginni.

  Ég skil heldur ekki hvernig það getur verið lykilatriði í uppbyggingu borgarinnar að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni

  Þá þýðir í raun lítið fyrir mig að deila við þig. Ég get svo sem lítið gert í að reyna að sannfæra þig um hversu mikil geðveiki það er að vera með flugvöll inní miðri borg ef þú ert ekki á þeirri skoðun í dag. En þú gætir skoðað tillögurnar úr Vatnsmýrasamkeppnni og reynt að sjá þar hvort að bjóði uppá skemmtilegri borg; flugvöllur í miðbænum eða blómleg og blönduð byggð.

  Var ekki pointið með þessum pistli að benda á hvað landsbyggðarþingmennirnir hafi farið illa með höfuðborgina? Að það sé þeim að kenna að flugvöllurinn sé í Vatnsmýrinni. Að borgin sé í niðurníðslu.

  Nei, það var ekki pointið. Pointið var að í stað þess að menn sjái baráttuna um það hvar ungt fólk vill búa sem baráttu á milli Reykjavíkur og Akureyrar, þá er hún miklu frekar á milli Reykjavíkur og London. En ég hefði kannski átt að eyða meira en klukkutíma í að skrifa þetta, víst þetta komst svona illa til skila.

 19. hæ hæ smá innlegg. Mér finnst þetta fínn pistill þótt ég sé ekki sammála öllu í honum. Þegar að ég og kærastinn minn ákváðum hvar við vildum hefja búskap þá völdum við á milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Við völdum landsbyggðina og það var margt sem að spilaði þar inní. Ég er sjálf borgarbarn og sá það aldrei fyrir mér að ég myndi einhvern tímann búa út á landi fyrr en ég fór að vera þar af ráði. Tilfellið var að ég hóf nám á Bifröst og líkaði svona líka vel í Borgarfirðinum. Við kærasti minn höfum bæði búið erlendis en það kom ekki til greina að flytja út að svo stöddu, kannski síðar(vonandi).
  Ég hef líka fundið fyrir vaxandi áhuga hjá ungu fólki sem að vill búa út á landi, t.d. á Akranesi, í Borgarnesi og á Selfossi. Ég gæti nefnt 10 pör bara í kringum mig sem að hafa kosið það að búa út á landi. Ef atvinna væri næg og við hæfi sæi ég það alveg fyrir mér að fleiri vildu einnig búa lengra frá Reykjavík en raun ber vitni. Sveitarómantíkin heillar ennþá :)Það er frábært að vera með lítil börn úti á landi og t.d. lítill tími sem að fer í það að vera með pirrað barn í aftursæti á bíl í umferðarteppu. Ég viðurkenni þó að ég væri ekki til í að vera lengra en klst. fjarlægð frá Reykjavík (ennþá hehe) þar sem að öll fjölskylda mín og flestir vinirnir búa í Reykjavík. Mér finnst Reykjavík yndisleg og flyst ábyggilega aftur þangað í framtíðinni. En mér finnst það ekki alveg allskostar rétt hjá þér að ungt fólk sé aðallega að velta því fyrir sér hvort það vilji búa í Reykjavík eða öðrum erlendum stórborgum og enginn sé að spá í landsbyggðina. Ef að atvinnutækifærin væru góð og spennandi á landsbyggðinni væru eflaust einhverjum sem að þættu það heillandi að flytjast út á land í einhvern tíma eða til frambúðar. Vera í nálægð við náttúruna, lítill tími í umferð, rólegheit osfrv. Mér fyndist það allaveganna heillandi framtíðarsýn fyrir landið í heild.
  ps. ég hef aldrei hitt vini mína meira en eftir að ég flutti út á land, fólk er þvílíkt duglegt að rúnta í heimsókn 🙂
  pps. ég viðurkenni að sum paranna (þó ekki öll) hafa einhverja tengingu við landsbyggðina (þ.e. annar aðilinn af landsbyggðinni en hinn úr Rvk.) og ég þekki enga/nn einhleypa/n úr Reykjavík sem að hefur valið það að búa út á landi nema þá í stuttan tíma.

 20. Með að flytja flugvöllinn á Hólmsheiðina að þá hefur það komið fram að veðurskilyrði þar er ekki eins gott með tiliti til flugvallarstæðis og í Reykjavík. Hinsvegar tekur um 45 mínútur að keyra úr miðbæ Reykjavíkur (BSÍ) til Keflavíkur sem er of langt.

  Ég segi það aftur að ég styð einhverja þrengingu/breytingu á flugvallarstæðinu og betri nýtingu svæðinu þar í kring. Ég sé þetta alls ekki sem brýnasta málið fyrir Reykjavík, þvert á móti er þetta samgönguleið fyrir allt landið og alla íslendinga, ekki bara landsbyggðarfólk heldur líka íbúa höfuðborgarsvæðisins. Það hefði verið mun nær að nýta landið af hringbrautinni í eitthvað annað en umferðarferlíki sem hefði mátt gera með því að leggja hana í stokk líkt og ég hef séð til að mynda í Köln í Þýskalandi þar sem það kom snilldarlega út.

  En ég tek það fram að ég er Reykvíkingur í húð og hár þótt ég hafi búið hér á Akureyri síðastliðið ár.

 21. Með að flytja flugvöllinn á Hólmsheiðina að þá hefur það komið fram að veðurskilyrði þar er ekki eins gott með tiliti til flugvallarstæðis og í Reykjavík

  Mig minnir að þeim dögum sem hægt sé að lenda í Reykjavík myndi fækka um tvo á ári við flutning uppá Hólmsheiði. Það er vel þess virði fyrir landið sem vinnst upp.

  Svo skil ég ekki af hverju 45 mínútna akstur er of langur. Og ég held að ansi margir á höfuðborgarsvæðinu skilji það ekki heldur, sérstaklega ekki fólkið sem bíður í bílnum sínum í klukkutíma á morgnana til að komast til vinnu.

 22. “Nei, alþjóðavæðingin og aðild okkar að EES hefur gert það að verkum að ungt fólk í dag horfir til allrar Evrópu þegar að það veltir því fyrir sér hvar það ætli að búa. Vel menntaður ungur Íslendingur getur sótt um vinnu í París, London, Róm, Kaupmannahöfn eða Madrid alveg einsog í Reykjavík. Þessar borgir bjóða uppá hlýrra loftslag, þróaðra borgarsamfélag, betri menntunarstofnanir, öflugra listalíf og svo framvegis og framvegis.”

  nákvæmlega, ENDA ER ALLT UNGT FÓLK AF LANDSBYGGÐINNI…EKKI ÞAR!!!
  Þetta er eins og að flytja fréttir af því að minnsta atvinnuleysi sé á Vestfjörðum…ahahahaha..hvað heldur þú…fólk flytur!!!.
  Ef þér tekst ekki að halda fólki á landsbyggðinni, verður næsti varnarpóstur Íslands Reykjavíkursvæðið.
  Ég held að þú sjáir hvað ég er að fara, það eru ekki allir sem vilja flytja á mölina ef þeir þurfa að flytja á annað borð.

 23. Til viðbótar….meginhluti fólks sem býr á stór-Reykjavíkursvæðinu er af “landsbyggðinni” eða getur rakið sig þangað. Fólk á Íslandi almennt er orðið “global”og er ekki í vandræðum með að haga sér eftir því, þar með talið “landsbygðarfólk” sem er að mestu leit fólk yfir 50 í dag, þar sem allir undir því eru að mestu leiti flúnir á mölina.
  Þökk sé stefnu undanfarinna ára.
  Heldurðu að Reykjavík haldist í fólkið?..fínn sumarbústaðarstaður….;)

Comments are closed.