Hvar er rúmið mitt, hvar er þynnkan mín?

Í morgun vaknaði ég á miðju stofugólfi, með engan hausverk. Það er sennilega í fyrsta skipti í langan tíma sem ég vakna hausverkslaus á sunnudegi. Ætli það sé þeirri staðreynd að þakka að ég svaf á stofugólfinu eða því að ég drakk ekki nema 3 bjóra í gær?

Ástæðan fyrir því að ég svaf í stofunni er sú að íbúðin mín er í algjöru rusli akkúrat núna. Ég og Emil erum búnir að parketleggja hálfa íbúðina og erum komnir alveg inní svefnherbergi. Því þurfti ég að rýma það í gær og rúmið endaði á miðju stofugólfinu.

Þannig að þessi helgi reyndist tiltölulega róleg. Parketlagði mikið en djammaði lítið. Kíkti á Vegamót í gærkvöldi og reyndi að átta mig á því af hverju ég ætti að fíla þann stað. Einhvern veginn er alltaf svo mikið af sætum stelpum á myndasíðunni þeirra, þannig að ég er alltaf sannfærður um að ég muni hitta draumadísina þar. En troðningurinn er alveg fáránlegur þarna, svo ég gafst upp eftir mjög stutta dvöl.

Annars var ég ýkt góður á föstudagskvöld og fór í kaffiboð til mömmu, sem átti afmæli. Vá, ég er búinn að vera ýkt góður þessa helgi, nánast ekkert djamm! Ef ég væri svona allar helgar myndi mamma sennilega fyrirgefa mér fyrir það að ég sé ekki í Sjálfstæðisflokknum.


Annars horfði ég með vini mínum á Liverpool-Fulham í dag. Ég get svo svarið það að horfa á þetta Liverpool lið er slæmt fyrir geðheilsu mína. Hefðu þeir ekki unnið leikinn hefði ég sennilega brotið helminginn af húsgögnunum mínum og vinur minn hinn helminginn.

Sigurinn gaf okkur þó orku til að rusla dótinu mínu útúr barnaherberginu (eða tölvuherberginu, víst ég á enga krakka svo ég viti). Þannig að ég sit núna á stofugólfinu fyrir framan Makkann minn. Það er ekki eins þægilegt og það hljómar.

5 thoughts on “Hvar er rúmið mitt, hvar er þynnkan mín?”

  1. Ertu að tala um Vestmannaeyjamyndina á forsíðunni, eða strandamyndina, sem er á færslusíðunum?

    Ef það er Vestmannaeyjamyndin, þá get ég bara sent þér hana í góðri upplausn á þessa email addressu, sem þú gefur upp á heimasíðunni þinni. 🙂

  2. jamm.. þess vegna var ég að biðja um leyfi… svo stendur líka eoe eða eitthvað á henni… þannig..já mátt endilega senda mér hana…vestm.eyjamyndina 🙂

Comments are closed.