Ich bin ein kugelschreiber

Það er tvennt, sem ég skil ekki við Þjóðverja. Í fyrsta lagi að þessi 80 milljón manna þjóð skuli hafa getað sætt sig á aðeins eina tegund af rúnstykki, sem er framreidd á öllum hótelum í landinu.

Önnur staðreyndin, sem ég skil ekki, er sú að stór bjór í Köln skuli vera 200 ml, en stór bjór í Frankfurt (sem er um 150 km frá Köln) skuli vera 500 ml. Þetta eru tvær magnaðar staðreyndir, sem hafa haldið fyrir mér vöku undanfarið.

En semsagt, ég er í Þýskalandi, Frankfurt nánar tiltekið. Nánar tiltekið á Sheraton í einhverju business hverfi í suður-Frankfurt. Ljómandi skemmtilegt alveg. Kom frá Köln í gær og er búinn að vera á fundi í dag. Fer svo til Prag á morgun, en hef vonandi tíma til að kíkja eitthvað í bæinn fyrri partinn.

Köln var fín einsog ávallt. Ég var á sýningu og fundum allan daginn, en um kvöldin voru partý í boði ýmissa birgja. Á mánudag var ég t.a.m. á siglingu um Rín og á þriðjudaginn var ég í partýi í boði Pez, þar sem var dansað uppá borðum. Gríðarlega hressandi. Það tekur þó furðu mikið á að vera á sýningu allan daginn og svo í boðum fram á morgun. En ég er ungur og hress, þannig að þetta er minnsta mál. Já, eða eitthvað. Mikið svaf ég samt fáránlega vel í nótt.

Hafði smá tíma til að versla. Mér finnst nefnilega gaman að versla föt undir eftirfarandi skilyrðum: Ég verð að vera einn, og ég verð að vera í útlöndum. Ég get ekki gefið neinar nánari skýringar en svona er þetta. Keypti mér m.a. flottustu skó í heimi. Þið verðið einfaldlega að sætta ykkur við að sama hversu mörg pör af skóm þið kaupið um ævina, þá verða þeir aldrei jafn flottir og mínir. Nema þá að þið kaupið nákvæmlega eins skó og ég keypti, en ég mæli alls ekki með því.

Það flæða ekki beinlínis útúr manni skemmtilegar ferðasögur í svona vinnuferðum, en svona er þetta. Vonandi verður Prag meira spennandi. En þetta er búið að vera skemmtilegt hingað til. Erfitt en gaman.

*Skrifað í Frankfurt kl. 22:01*

8 thoughts on “Ich bin ein kugelschreiber”

  1. mynd af skónnum, takk! fyrr samþykki ég ekki að þú hafir eignast flottustu skó í heiminum. en ef svo skyldi vera þá er ég farin út að versla .. get ekki leyft kallmanni að eiga flottustu skó í geiminum…. :tongue:

  2. Sko, Kölsch er 200ml og er einkennandi fyrir Köln og svæðið í kringum Köln. Ótrúlegt nokk drekkur meðalmaðurinn meira þegar hann drekkur Kölsch heldur en ella. Í Köln þarftu að setja glasamöttuna yfir glasið til að fá automatískt ekki áfyllingu. Mörgum getur þótt það ansi erfitt.

    Í München er síðan Mass (1L) mælieiningin sem tíðkast þar. Allastaðar annarsstaðar erum við að tala um 0,5L.

    Bakarísmenningu Þjóðverja ætla ég hinsvegar ekki að reyna að verja. Hún er ekki á sömu bylgjulengd og heima. Sölt en ekki sæt eins og á Íslandi.

  3. Hæ! Jamm, ég tók myndir og set þær inn við fyrsta tækifæri 🙂

    Og takk fyrir info-ið, Gísli. Kölsch, bæ ðe vei ÆÐI!

Comments are closed.