"I'm afraid we might have awaken a sleeping giant"

Ég er svona aðeins að reyna að átta mig á atburðum dagsins. Þetta er búinn að vera alveg hræðilegur dagur.

Ég var á leiðinni í vinnuna þegar árásirnar áttu sér stað. Ég var að hlusta á Howard Stern (sem sendir út frá New York) en samt hljómaði ekkert óvenjulega. Þegar ég kom hins vegar inná skrifstofu sagði Mary Jo, sem vinnur með mér, að hún hefði heyrt á leiðinni að lítil flugvél hefði hrapað á World Trade Center. Mér fannst þetta dálítið skrítið og reyndi náttúrulega strax að komast á netið og við kveiktum líka á útvarpi. Þá heyrðum við að í raun hefðu tvær stórar farðegaþotur skollið á World Trade Center.

Það var ómögulegt að komast inná alla bandarísku fréttavefina, þannig að maður varð að treysta á útvarpið. Stuttu síðar komu svo fréttir frá Chicago um að verið væri að tæma Sears Tower, sem er hæsta bygging í Bandaríkjunum. Ég hringdi heim í Hildi og vakti hana og hún kveikti strax á CNN í sjónvarpinu.

Í dag var síðasti vinnudagurinn minn, en það var ekki mikið unnið. Ég sat frammi hjá ljósritunarvélunum og við hlustuðum þar öll á útvarpið, en CBS með Dan Rather, voru með samsendingu í útvarpi og sjónvarpi. Smám saman komu fréttirnar svo frá Washington D.C. og Pittsburg. Ég man að á tíma var talað um að ráðist hefði verið á Camp David og að enn ein flugvél væri á leið til Washington D.C. Maður vissi ekki hvort maður ætti að vera hræddur eða bara hissa. Konurnar á skrifstofunni voru grátandi, því að fréttirnar voru mjög ruglandi. Við þekkjum öll fólk bæði í New York og Washington D.C.

Svo um klukkan 11 var okkur gefið frí í vinnunni og sagt að fara heim. Aðalástæðan fyrir því var sú að fyrirtækið er mjög nálægt O’Hare, sem er sá flugvöllur í Bandaríkjunum, sem hefur mesta traffík.

Ég keyrði því heim og kveikti strax þar á sjónvarpinu og er síðan þá búin að horfa á sjónvarpið í mest allan dag. Við erum með um 80 stöðvar í sjónvarpinu. Ég held að um 3-4 hafi haldið áfram venjulegri dagskrá. Allar hinar stöðvarnar annaðhvort sýndu atburðina eða höfðu bara skilti, þar sem þeir lýstu yfir sorg yfir atburðunum. Öllum atburðum hefur verið frestað. Öllum íþróttaleikjum hefur verið frestað og mörg fyrirtæki munu hafa lokað á morgun.

Það eru margar spurningar, sem vakna eftir þessa atburði.

  • Hvernig í ósköpunum er hægt að ræna fjórum farðegaþotum í einu?
  • Ef að eina, sem var notað, voru hnífar einsog hefur verið haldið fram, af hverju gátu engir farþegar yfirbugað árásarmennina? Ef við ímyndum okkur að um 80 manns hafi verið í hverri vél, þá eru væntanlega 40 karlmenn. þannig að ræningjarnir hljóta að hafa verið margir. Ef þeir hefðu verið t.d. 5, þá hefðu 40 karlmenn örugglega yfirbugað þá, sama þótt árásarmennirnir hefðu verið með hnífa.
  • Hvert átti þotan, sem hrapaði við Pittsburg, að fara?
  • Af hverju er ráðist á Washington D.C. þegar George W. Bush er staddur í Florida

Hvað á maður að hugsa eða segja. Sumir vitna í Nostradamus, aðrir kenna stefnu Bandaríkjanna um. Ég á ekki orð til að lðsa fyrirtlitningu minni á þeim, sem fordæma þessi atvik ekki fyrirvaralaust. Það er ekki á nokkrum máta hægt að kenna utanríkisstefnu Bandaríkjanna um þetta. Sama í hve mörgum löndum Bandaríkjamenn hafa afskipti, það hefur enginn rétt til, eða getur stutt, svona hræðilega og heigulslega árás. Það er hámark heigulsháttar að ráðast á saklaust án þess að taka á sig ábyrgðina.

Það er nokkuð ljóst að almenningur í Bandaríkjunum vill hefnd. Sumir gera sér ekki grein fyrir því að almenningur í Bandaríkjunum á afskaplega erfitt með að skilja af hverju fólk hatar þetta frábæra land. Ég hef auðvitað lítinn skilning á ástæðunum. Öfund er vissulega stór þáttur, en aðrir þættir spila væntanlega þar líka inní.

En fólk vill hefnd. Á skrifstofunni minni í morgun heyrði ég konurnar heimta aðgerðir. Þær, einsog flestir Bandaríkjamenn vilja aðgerðir sem fyrst. Ég held að það sé þó ljóst að Bandaríkjamenn munu ekki grípa til aðgerða nema að þeir finni út nákvæmlega hverjir stóðu að baki þessu.

Það er kannski dálítið kaldhæðið að á þessum hræðilega degi fyrir Bandaríkin þá erum við Hildur að flýja land. Við ætlum að halda til hins friðsæla lands í norðri, Kanada.