Innflytjendur

Ja hérna, það hlaut að koma að því. Ég er í öllu sammála grein eftir Sverri Jakobsson.

Greinin heitir “Þegar sumir verða jafnari en aðrir” og fjallar um innflytjendalöggjöf í Danmörku og svo um nýlegt dæmi frá Íslandi. Hérna var víetnamskri konu hafnað um vegabréfsáritun vegna þess að hún var “ung og ógift” og þær típur eiga það víst til að ílengjast hér á landi, samkvæmt stjórnvöldum.

Þessi synjun er svo ótrúlega rasísk að ég á ekki orð yfir því að enginn skuli hafa talað um þetta mál opinberlega. Ég verð að játa það að ég skil ekki stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda. Af hverju er Ísland svona ofboðslega verndað?

Á þessari stóru eyju búa undir 300.000 manns. Hins vegar þá höfum við meira af náttúruauðlindum en flest önnur ríki. Ég er sannfærður um að hér á landi gætu búið yfir milljón manns við jafnmikla velmegun og þessar 300.000 hræður búa við í dag. Öll tækifærin eru til staðar.

Þess vegna skil ég ekki að íslensk stjórnvöld séu svona viljug til að reisa múra til að halda þessu fólki frá. Af hverju á ekki að leyfa fólki, sem vill virkilega búa á Íslandi, að koma hingað??

Ég er ekki að segja að við eigum að hleypa 700.000 manns inní landið í einni lotu. Hins vegar vildi ég sjá að stjórnvöld myndu marka sér þá stefnu að fjölga fólki hér á landi. Hleypa á ári hverju umtalsverðu magni af innflytjendum inní landið. Seinna meir myndi það bara auka velmegun á Íslandi og auka áhrif þessa lands í alþjóðlegu samstarfi.

4 thoughts on “Innflytjendur”

 1. Dabbi og félagar eru fyrir löngu búnir að endurskilgreina “frelsi” upp á ameríska vísu. Í því felst meðal annars að “svona fólki” verður helst ekki hleypt inn í landið. Óbreytt ástand og stöðnun (“stöðugleiki”) eru nefnilega lykilatriði í þeirri stefnu stjórnvalda að halda völdum í þessu landi.

  Það verða því miður allir búnir að gleyma þessu fyrir næstu kosningar. Fólk er nefnilega með selektíft minni og innst inni er því nokk sama hvort farið er illa með útlendingana. Hvaða vit er líka í að fylla land af fólki sem ekki er hægt að fletta upp í Íslendingabók? Það leikur enginn vafi á því að stærstur hluti Íslendinga eru rasistar. Þeir mundu náttúrlega aldrei viðurkenna það, því það er ekki pólitískt rétt.

 2. Hvað í ósköpunum meinarðu með frelsi á ameríska vísu????? Og hvernig tengirðu það málefnum innflytjenda. Ameríka er land, sem er byggt á innflytjendum!

  Það er ekki alltaf hægt að koma einhverju slæmu um Ameríku inní allar mögulegar umræður.

  Ef innflytjendastefnan á Íslandi væri meira í takt við það, sem tíðkaðist áður í Bandaríkjunum, þá væri ég ánægður.

 3. Hmm, það er reyndar örugglega alltaf hægt að koma einhverju slæmu um Ameríku inní allar mögulegar umræður :o)

  Við erum örugglega sammála um að nauðsynlegt er að auðvelda útlendingum að flytjast til Íslands. Enda margsannað að inbreeding getur á endaum ekki endað vel. Því miður held ég að Íslendingar séu almennt ósammála, þeir bara segja það ekki upphátt. Nóg um það.

  Frelsi á ameríska vísu – Þar á ég við dæmigerðar aðgerðir yfirvalda gegn t.d. mótmælendum (Falun Gong – 17. júní osfrv.). Tengingin við USA er mjög einföld og augljós. Fór nokkuð fram hjá þér að víðast hvar í heiminum er meira frelsi heldur en einmitt í Ameríku? Frelsi er auðvitað skilgreiningaratriði sem fólk er endalaust ósammála um. Ætla ekki að rökræða þetta hér en ef ég hitti þig yfir bjór get ég kannski sannfært þig? :o)

Comments are closed.