Íslensk Þakkagjörðarhátíð í Washington D.C.

Ferðin okkar Hildar til D.C. var frábær. Talsvert meira spennandi en titill þessarar greinar.

Við gistum hjá Friðrik og Thelmu en þau eru bæði í skóla í Washington D.C., Friðrik er í George Washington en Thelma í University of Maryland. Einnig vorum við þarna til að heimsækja Jens og Jónu. Þarna komu líka Genni og Sandra, en þau eru í LSU í Baton Rouge. Auk þeirra eru þarna í D.C. Arnar og Dröfn, sem eru bæði í GW og Bjarni, en Bjarni, Friðrik og Arnar spila allir fótbolta fyrir GW.

Allvegana, þá komum við til D.C. á miðvikudeginum. Eftir að hafa komið okkur fyrir tókum við lest að Arlington kirkjugaðinum, þar sem við skoðuðum m.a. leiði John F. Kennedy. Þar nálægt er svo Iwo Jima minnismerkið, sem við skoðuðum. Eftir þetta löbbuðum svo (nokkuð lengi) yfir í Georgetown hverfið. Þar skoðuðum við tröppurnar, þar sem Karras fannst í snilldarmyndinni The Excorcist. Eftir að Thelma hafði skoðað búðina sína fórum við svo að borða á nokkuð góðum stað.

Genni og Sandra komu til D.C. seint um kvöldið og fóru Jens og Jóna að sækja þau. Við fórum svo öll heim til Jens og Jónu, þar sem við tókum á móti þeim og fengum okkur “einn” bjór.

Eitthvað fór þessi bjór í suma og því vorum við lengi af stað daginn eftir. Við (karlkyn) horfðum því á NFL mest allan daginn (Thanksgiving day). Um sjö fórum við svo heim til Jens og Jónu, þar sem allir voru og borðuðum við meiriháttar kalkún með þrjátíu tegundum af meðlæti. Við fórum svo upp til Arnars og Drafnar, þar sem við spiluðum og fengum okkur að drekka…

Á föstudeginum var svo tekinn léttur túristatúr um borgina, en í þessari blessuðu borg er nóg af túristastöðum. Við löbbuðum niður að National Mall, þar sem allir helstu túristastaðirnir eru. Við skoðuðum Capitol (þó ekki of nálægt, því sumu var lokað vegna árásanna) og löbbuðum svo yfir að Washington Monument og svo Lincoln Memorial. Því næst Vietnam War Memorial og svo á endanum Hvíta Húsið.

Um kvöldið fórum við svo yfir á GW campusinn, þar sem við vorum með smá partí í herberginu hans Bjarna, þar sem voru nokkrir fótboltagaurar auk okkar Íslendinganna. Seinna löbbuðum við svo yfir í Georgetown ásamt nokkrum af strákunum og fórum á bar þar. Við vorum án efa vinsælasta fólkið á barnum. Nokkrir af okkur drukku tequila á nokkuð óvenjulegan hátt og fyrir það urðum við afskaplega vinsælir og margir vildu kaupa staup handa okkur, sem við þáðum. Seinna um kvöldið byrjuðum við svo að syngja íslensk lög við gríðarlegar undirtektir á barnum.

Á laugardeginum skoðuðum við Pentagon og skemmdirnar þar en það var þó búið að hreinsa flest það versta og uppbyggingin er greinilega hafin. Stelpurnar fóru svo að eyða peningum, en við strákarnir leituðum að opnum bar. Því miður var skortur á slíkum stofnunum í borginni og heimsóttum við því Bjarna. Um kvöldið fórum við svo að borða í gömlu hverfi fyrir utan Washington D.C. Seinna um kvöldið fórum við til Bjarna og djömmuðum þar. Eftir það fórum við svo á “gríðarlega skemmtilegan” næturklúbb. Þar gerðist ekkert. Eftir klúbbinn fórum við aftur til Bjarna, þar sem Friðrik og Genni sungu Oasis lög fyrir alla nágrananna. Þegar þeir höfðu sungið nóg löbbuðum við alla leið heim, fram hjá Hvíta húsinu og helstu byggingunum. Þrátt fyrir tilraunir sumra tókst okkur ekki að vekja Bush.

Á sunnudeginum fórum við Hildur svo heim. Við flugum frá Dulles flugvellinum og var flugið frekar slæmt. Um mínútu eftir flugtak lentum við í rosalegri ókyrrð, sem stóð yfir í nokkrar mínútur. Mér var nokkuð brugðið, þar sem þetta var svo stuttu eftir flugtak. Einnig var fullt af fólki öskrandi og konan við hliðiná mér greip í mig og spurði mig “are we going to be alright??” Þetta var frekar óskemmtileg reynsla en sem betur fer komumst við heil út úr þessu öllu.