Íslensk tónlist

Ég er búinn að vera ótrúlega duglegur við að kaupa íslenska tónlist undanfarnar vikur. Keypti mér fyrir nokkru “Bent & Sjöberg” og “Afkvæmi Guðanna”, sem voru báðar góðar skífur, sérstaklega Þó “Afkvæmin”.

Í síðustu viku keypti ég svo Sigurrós og núna um helgina nýja Rotweiler diskinn. Ég hef verið að hlusta mikið á Sigurrós diskinn og finnst mér hann alveg frábær. Gagnrýnin í erlendum blöðum, sem ég hef lesið, hefur verið jákvæð, fyrir utan það að fólk er eitthvað að setja útá það að þeir skuli ekki nefna lögin neitt. Finnst gagnrýnendum það tilgerðarlegt. Mér finnst það bara kjaftæði og frekar tilgerðarlegt að vera að gagnrýna umbúðirnar í staðinn fyrir sjálfa tónlistina. Diskurinn er alveg frábær. Ég er búinn að heyra þessi lög tvisvar á tónleikum í Chicago, eða allavegana stóran hluta þeirra. Sérstaklega er mér minnisstætt að á seinni tónleikunum tóku þeir lag númer 8 á diskinum. Þeir enduðu tónleikana á því og var það alveg magnað. Trommurnar í því lagi eru æðislegar og var það sérstaklega áhrifamikið á tónleikum.

Núna er ég búinn að hlusta á Rotweiler tvisvar og líkar ágætlega. Einhvern veginn hef ég þó á tilfinningunni að þeir hafi unnið þennan disk á stuttum tíma. Samt lofar hann góðu en fyrri diskur þeirra er í miklu uppáhaldi hjá mér.

Þess má geta að diskurinn með Rotweiler á að vera með vörn, þannig að ekki sé hægt að spila hann í tölvum. Þvílíkt drasl. Eina trikkið á Makkanum mínum er að opna iTunes, setja diskinn inn, taka hann út aftur og setja aftur inn. Ég ætla þó ekki að fara að dreifa tónlist Rotweiler á netinu heldur vil ég eiga alla mína tónlist á harða disknum mínum. Þannig finnst mér langþægilegast að nálgast tónlistina mína. Geisladiskar eru úreltir.

2 thoughts on “Íslensk tónlist”

  1. ertu með 17 júní lagið mig vantar það fyrir morgun daginn því að ég á að syngja það með systir minni Plís geturu reddað mér!!?

Comments are closed.