"I've been chatting online with babes all day"

Einhvern veginn líður mér einsog það sé mið nótt því ég er eitthvað undarlega þreyttur. Var alveg að sofna áðan en ákvað að fá mér einn Tuborg í tilefni dagsins og er aðeins að hressast við það.

Var í matarboði í gær en drakk ekkert, þannig að ég var voðalega hress í morgun. Var vakinn útaf einhverju veseni á Serrano, sem ég komst að eftir 5 símtöl að var í raun ekkert vesen. Kíkti samt í Kringluna til að sjá hvort ekki væri allt í lagi. Fór svo uppá X-FM, þar sem ég fór í [Liverpool viðtalið](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/03/11/18.49.01), sem mér fannst heppnast vel.

Þetta var að ég held í þriðja skiptið á ævinni, sem ég er í útvarpi. Fyrsta skiptið var þegar PR tók viðtal við mig fyrir Útvarp Verzló, þar sem ég tjáði mig um félagslífið einsog mikill speningur. Svo fórum ég og Emil í viðtal í viðskiptaþættinum á Útvarp Sögu fyrir rúmu ári.


Kíkti svo í göngutúr. Fór uppí Háskóla þar sem átti að vera eitthvað dæmi á vegum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna, en ég virtist vera of seinn. Labbaði því aðeins um skólalóðina í svona um það bil 35 stiga frosti.


Það gerist æ oftar að ég hlusti á tónlist eða horfi á bíómynd, sem er mælt með af öðru fólki á netinu. Einhvern veginn virkar það oft sterkar á mig en góð gagnrýni í fjölmiðlum. Til dæmis hef ég hlustað á fulltaf tónlist, sem að Dr. Gunni, Gummijóh eða hagfræðingurinn ónefndi hafa mælt með á heimasíðum sínum.

Ég horfði áðan á [Napoleon Dynamite](http://kvikmyndir.is/?mynd=napoleondynamite), sem ég varð spenntur fyrir eftir að hafa lesið [þetta á MeFi](http://www.metafilter.com/mefi/40123). Allavegana, myndin er ekki eins frábær og margir tala um, en hún er vissulega fyndin á köflum.

*”I’m Rex, founder of the Rex Kwan Do self-defense system! After one week with me in my dojo, you’ll be prepared to defend yourself with the strength of a grizzly, the reflexes of a puma, and the wisdom of a man.”*


Annað dæmi um að ég hafi hrifist af umfjöllun á netinu er ákveðið lag. Málið er nefnilega að fyrir nokkru fór ég að taka eftir greinum, þar sem skynsamlegt fólk var að hrósa lagi með *Kelly Clarkson*, sem vann víst American Idol fyrir einhverjum árum. Eftir að hafa lesið umfjöllun [hér](http://www.kottke.org/05/03/earworm), [hér](http://a.wholelottanothing.org/2005/03/this_weeks_best.html) og [hér](http://www.livejournal.com/users/merlinmann/311286.html) varð ég verulega forvitinn og ákvað að nálgast lagið, sem heitir Since U Been Gone. Ég setti það í spilun og hlustaði á það 3-4 sinnum og hætti svo. Viti menn, nokkrum klukkutímum var ég kominn með þetta á heilann og næ því ekki svo auðveldlega úr hausnum á mér.

Ég hvet alla til að prófa þetta. Sérstaklega þá, sem telja sig hafa hinn fullkomna tónlistarsmekk og eru of miklir töffarar til að fíla popp. Ég þori að bóka það að þið munið fíla lagið (þrátt fyrir að þið þorið kannski ekki öll að viðurkenna það). 🙂

5 thoughts on “"I've been chatting online with babes all day"”

  1. hey sástu tvífarana mína? napoleon og árni sveins.. ég á samt eftir að horfa á myndina, ég sofnaði yfir henni bara um leeeiiiið

  2. Nákvæmlega! Ég náði mér einmitt í lagið eftir að hafa lesið um það hjá Jason Kottke og verð að segja að það kom mér bara verulega á óvart – og ég er alveg óhræddur að segja það. Þetta er bara virkilega fínt lag :blush:

  3. Já, ég sá tvífarana, Katrín. Þú ættir alveg að horfa á restina af myndinni, hún er alveg þess virði, þótt hún sé ekki sú stórkostlega snilld, sem margir vilja meina.

    Og Kristján, gaman að heyra. Gott að ég sé ekki einn 🙂

  4. Ég sótti “indie” útgáfuna sem Kottke vísaði á, ekki þá með Kelly Clarkson. Er svo lítið í því að sækja tónlist á netinu. Hef ekki ennþá fallið fyrir laginu.

Comments are closed.