Kertafleyting gegn Ísrael

Jens skrifar um kertafleytinguna og minnist akkúrat á það, sem hefur gert það að verkum að ég hef ekki mætt á þann atburð í nokkur ár:

Það var hins vegar fremur pirrandi að hlusta á ræðumann gærkvöldsins blóta Ísrael í sand og ösku á meðan hún fann fjölda sögulegra réttlætinga fyrir aðgerðum Hizboullah.

Ég held að ég hafi þolað allavegana tvær kertafleytingar þar sem undirstaða aðalræðunnar var að Ísraelsríki væri orsök alls ills í heiminum og að Palestínumenn hefðu á einhvern hátt unnið sér rétt til að sprengja sjálfa sig í loft upp í strætóum í Ísrael. Eftir seinna skiptið þá gafst ég upp á því að mæta. Leið einsog ég ætti ekkert sérstakt erindi þarna víst ég er þeirra trúar að Gyðingar séu ekki uppspretta allra vandamála í Mið-Austurlöndum.

Slíkar ræður má fyrir mér halda á atburðum til stuðnings Palestínumönnum, en þeim á að halda frá atburðum þar sem hvatt er til friðar í heiminum. Það er jú enginn sérstakur skortur á and-Ísraels áróðri á Íslandi sem stendur.

Eða einsog Jens segir:

ef þú ert sannur friðarsinni þá er andstyggð þín á stríði aldrei hlutdræg. Ég hef jafn mikla andstyggð á glæpum Hizboullah og Ísrael. Morð á saklausum borgurum er alltaf morð á saklausum borgurum. Friðarsamkomur sem þessar eiga að fordæma dráp beggja stríðsaðila en ekki lýsa skilning á aðgerðum annars aðilans á meðan hinn er fordæmdur.

Skipuleggjendur kertafleytingarinnar mættu hafa þetta í huga.

For the record – mín skoðun: 1 – Hizbullah réðst á Ísrael 2 – Ísrael hefur rétt á að verja land sitt hvort sem það er fyrir hryðjuverkamönnum eða herjum annarra landa 3 – viðbrögð Ísraela eru úr öllum takti við alvarleika byrjunnar átakanna.

20 thoughts on “Kertafleyting gegn Ísrael”

  1. Mér finnst þetta akkúrat vera réttlæting á Hizbullah sem samtökum. Það er í ræðunni vitnað í að þeir séu kallaðir “hetjur”, “frelsisher” og slíkt – ofsaverk Ísrael tíunduð en nákvæmlega ekkert minnst á árásir Hizbullah, sem *beinast nær eingöngu að óbreyttum ísraelskum borgurum*.

    Af hverju þarf að verja og réttlæta aðgerðir Hizbullah í ræðu á friðarsamkomu?

  2. Tökum nú kaflann eins og hann er í heild sinni í ræðunni:

    >”Hisballah samtökin voru einmitt stofnuð vegna hernáms Ísraela í Suður Líbanon 1982.

    >Shía múslímar vildu reka Ísraela á brott. Þeir voru einnig ósáttir við lítil ítök í stjórnkerfi landsins en franska nýlendustjórnin hafði falið kristnum mönnum stjórn landsins fyrr á öldinni. Hisballah samtökin voru semsagt stofnuð af reiðu og niðurlægðu fólki.

    >Ekki líta allir Líbanir á Hisballah-liða sem hryðjuverkamenn. Margir, sem eru ósammála hugmyndafræði samtakanna og aðferðum, líta samt á þá sem hetjur fyrir að standa uppí hárinu á Ísraelum fyrir 6 árum síðan. En þó eru þeir kannski flestir sem hingað til hafa litið á þá sem stríðsglaða eiginhagsmunaseggi sem eru til stöðugra vandræða.

    >Nú er þó þannig komið að fáir stjórnmálamenn í Líbanon – hvort sem þeir tilheyra Sunni múslímum, Druzum eða kristnum – fást til að fordæma Hisballah opinberlega. Þeir eru nú álitnir frelsisher sem reynir að verja landið gegn árásum 5. stærsta her heims og þeim tæknivæddasta. ”

    Bíddu – hvað í þessum kafla er það sem ekki gæti staðið í orðabókarskilgreiningu eða í fréttaskýringu í hvaða dagblaði sem er? Las kaflann um stjórnmál í Líbanon á Wikipediu og þetta er efnislega alveg eins.

    Deilir einhver um að Hisbollah varð til í kjölfar stríðsins 1982 – stríðs sem efnt var til undir þeim formerkjum að verið væri að uppræta hryðjuverkamenn. Meira að segja bandarísk dagblöð sem eru mjög hliðholl Ísraelsmönnum viðurkenna það eins og hverja aðra staðreynd.

    Eða deilir einhver um að Hisbollah naut talsverðs stuðnings hjá ákveðnum hópi í Líbanon og að sá stuðningur virðist hafa aukist í kjölfar stríðsins núna? Þetta er nákvæmlega það sama og maður hefur verið að lesa um í The Times og fleiri blöðum síðustu daga.

    Rökstuðningur Guðrúnar Margrétar er ekki flókinn. Hann segir einfaldlega að hugtakið “stríð gegn hryðjuverkum” sé rökleysa og sé líklegra til að stuðla að hryðjuverkum og ofbeldi vegna þess að það elur á tvískiptinguna – VIÐ gegn ÞEIM.

    Í bloggfærslunni sinni, sem vísað er í hér að ofan, staðhæfir Jens Sigurðsson að Guðrún Margrét sé ekki “sannur friðarsinni”. Slík ummæli eru sleggjudómar, nema að vísað sé í áþreifanleg dæmi – ekki bara “mér finnst” og “eitthvað fór í taugarnar á mér”. Þar sem ræðuna má lesa þarna í heild sinni ætti að vera hægðarleikur að benda á setningarnar þar sem ofbeldi gegn almennum borgurum er réttlætt. Benda á dæmin takk!

    Mér sýnist reyndar að umkvörtunarefnið hérna séu hin klassísku drepa-á-dreif-rök sem oft er reynt að nota í rökræðum af þessu tagi. Þau ganga út á að ekki megi fjalla um ofbeldisverk eins stríðsaðila án þess að setja inn setningar um hinn aðilann. Í þessu tilviki sé Guðrún Margrét ekki “sannur friðarsinni” og megi helst ekki tala um stórskotaárásir Ísraelshers án þess að vera inni með setningar um árásir Hisbollah. Er það ekki málið?

    En þessi krafa gengur ekki upp. Og í raun þjónar hún nákvæmlega sömu tvíhyggju og einmitt er verið að gagnrýna í ávarpinu.

    Væri þá ekki næsta skref í röksemdafærslunni að segja að “sannur friðarsinni” megi ekki fordæma kjarnorkuárásina á Hiroshima án þess að vera búinn að segja eitthvað um stríðsglæpi Japana í Mansjúríu? Að hvaða leyti er þetta ólíkt?

    Eða væri Einar Örn ekki “sannur friðarsinni” þegar hann fordæmir hryðjuverkin 11. september – NEMA hann væri búinn að týna til raunveruleg eða ímynduð dæmi fyrst um einhverjar misgjörðir Bandaríkjamanna?

    Og eru allir þeir sem gagnrýna ríkisverndaðar ofsóknir Súdansstjórnar gegn íbúum Darfur hræsnarar ef þeir slá ekki einhverja varnagla um að Darfur-menn séu nú ekki barnanna bestir?

    Að hvaða leyti eru þessi dæmi öðru vísi?

    Því miður er ansi algengt að fólk rugli saman tveimur gjörólíkum hugtökum þegar kemur að umræðum um alþjóðamál. Það eru hugtökin að skýra eða skilja ástæður einhvers annars vegar, en hins vegar það að réttæta e-ð.

    Ég er þeirrar skoðunar (enda sagnfræðingur) að það að skilja bakgrunn deilna og átaka í heiminum færi menn nær því að finna lausnir. Auðvitað getum við leitast við að skýra ástæður þess að einn eða fleiri stríðsaðilar hegða sér með tilteknum hætti – en það felur ekki í sér gildisdóm eða stuðningsyfirlýsingu. Auðvitað ekki!

  3. Mín skoðun – 1 Ísraelsmenn eru búnir að hertaka, Gólan Hæðir, Gasa og Austur Jerúsalem á síðustu 40 árum og neita að skila þeim 2 Ísrealsmenn hvetja BNA og SÞ til að fá Sýrlendinga út úr Líbanon 3 Ástandið í Líbanon fyirr suður með sjó enda enginn almennilegur her til að hafa stjórn á nokkrum hluta 4 Ísrealsmenn ráðast inn í Líbanon til að verja sig 5? Ísraelsmenn hertaka S-Líbanon, innlima í ríki sitt og skila aldrei?

    Jamm, Friður er ofmetinn!

  4. Altso bara hlutlæg fréttaskýringarræða? Og það gleymdist að geta þess að Ísrael er umkringt ríkjum og hópum sem enn hafa útrýmingu þess að markmiði.

    Og fyrst verið er að tala um skilning á bakgrunni átaka hlýtur maður að benda á komment Guðrúnar um Bandaríkin eru ekki í þá veru að benda á hvernig minni styrkur þeirra í kjölfar Íraksstríðsins er að auka spennu á svæðinu og magna fram stríðshættu: Þau hafa einfaldlega enga stjórn á atburðarásum á svæðinu lengur.

    Stefán, er það annars skoðun þín sem sagnfræðings að ræða geti sumsé aldrei talist einhliða, eða jafnvel hardcore áróður, bara ef þær upplýsingar sem koma fram í henni eru ekki rangar? Ég get amk ekki betur séð en þessi ræða sé nokkuð klassísk að því leyti að Bandaríkin og Ísrael eru í meginatriðum uppspretta alls ills en hryðjuverkamenn eru ekkert svo slæmir.

    Guðrún talar um stríðsmenningu, en sér hana ekki hjá ofsatrúarmúslimum þó hún sjái hana í árásum Ísraela og stuðningi BNA við þær – og talar síðan um friðarmenningu þegar hún skýrir tilurð Hizbollah.

    Kjarnorkuárásir BNA og hryðjuverkaárásir Hizbollah eiga það sameiginlegt að beinast fyrst og fremst gegn saklausum borgurum. Árásir Ísraela á Hizbollah hafa óneitanlega haft miklar þjáningar í för með sér fyrir almenna borgara – en engu að síður beinast þær gegn hernaðarlegum andstæðingum, þó ekki séu þær gáfulegar.

    Þannig að mér finnst í þessari ræðu sé heiminum snúið á hvolf, frekar en að ljósi sé varpað á málin.

  5. Ókey, hér erum við loksins farnir að tala um konkret dæmi. Það er mikil framför.

    Ég setti fram þessi dæmi í kommenti númer 2. Svo fór ég í internetlausa vinnu.

    Nei, það skiptir máli vegna þess að stuðningsmenn innrásar Ísraelsmanna láta að því liggja að Hissbollah séu einangraðar vígasveitir sem haldið sé úti af ríkisstjórnum annarra landa.

    Ég skil ennþá ekki af hverju ræða á friðarsamkomu reynir að útskýra tilvistarrétt hryðjuverkasamtaka, sem hafa útrýmingu Ísraelsríkis á stefnuskrá sinni.

  6. Hægan nú Guðmundur Rúnar! Spólum nú til baka og rifjum upp hvernig þetta karp byrjaði. Auðvitað dettur mér ekki í hug að halda því fram að ræða flutt við þetta tilefni og í skugga þessa tiltekna stríðs hafi verið – eða geti verið hlutlaus fréttaskýring.

    Þetta byrjaði einfaldlega á því að bloggarinn Jens sakaði konu sem flutti ræðu á samkomu sem ég tengist um að vera ekki “sannur friðarsinni” og fyrir að réttlæta morð á saklausu fólki. Þetta er ansi mikil ásökun. Einar Örn tekur þetta svo upp á blogginu sínu og tekur hálfpartinn undir það – án þess að hafa reyndar verið sjálfur viðstaddur.

    Ég sendi inn tengil á umrædda ræðu og bið ekki um annað en að bent verði á tilvitnun til að rökstyðja þessar ásakanir. Því miður virðist ganga erfiðlega að fá þessar ábendingar. Textinn er þarna, bendið á dæmin!

    En ég á svo sem ekki von á því að fá slíkar ábendingar, því gagnrýnin á ræðuna gengur ekki út á innihald hennar. Hún gengur út á hluti sem ekki koma fram í ræðunni og byggist á þeirri forsendu að gagnrýni á einn hlut verði að fela í sér gagnrýni á annan hlut. Það er einfaldlega gagnrýni sem ég er ekki til í að kaupa.

    Dæmin sem ég nefndi hér að ofan eru ekki valin út í hött. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur opinberlega fordæmt kertafleytinguna á Reykjavíkurtjörn vegna þess að þar sé kjarnorkuárásin á Hiroshima og Nagasaki gagnrýndar án þess að í leiðinni séu tilteknar sakir Japana. Að hans mati er rangt að standa fyrir þessari samkomu, nema rætt sé um stríðsglæpi í Mansjúríu, árásina á Perluhöfn o.fl.

    Þetta er vissulega sjónarmið, en jafnframt sjónarmið sem ég er fullkomlega ósammála. Mér finnst ekkert athugavert við að skilgreina kjarnorkuárásirnar sem hræðilegan stríðsglæp án þess að setja hann í samhengi við aðra verknaði í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta tel ég ekki að geri mig að minna “sönnum friðarsinna”.

    Einhverjar ófrjóustu þrætur kalda stríðsins mátti finna á síðum Moggans og Þjóðviljans, þar sem blöðin skömmuðu hvort annað á víxl fyrir hlutina sem þau töluðu ekki um. Ef Þjóðviljinn skammaðist yfir Víetnamstríðinu, svaraði Mogginn með því að saka vinstrimenn um að þegja yfir uppreisninni í Ungverjalandi – og öfugt. Þessar greinar skipta hundruðum og rökin voru alltaf jafnslöpp.

    Ef gagnrýnin á ræðu Guðrúnar Margrétar hvílir á þessum kalda stríðs HHG-rökum, þá gef ég ekki mikið fyrir hana. Ef hún snýst heins vegar um eitthvað sem er að finna í ræðunni sjálfri, þá skora ég á menn að benda á það.

  7. Að leitast við að skilja ástæður atburða er ekki það sama og réttlæting þeirra. Það hljóta nú ungir, skynsamir menn að geta fallist á.

    og

    Að skýra fyrirbæri er ekki það sama og að réttlæta það!

    Getum við ekki verið sammála um það?

    Þú byrjar og endar þetta á sama punktinum. Og jú, ég er sammála þessari fullyrðingu þinni. En þar sem þú sérð útskýringar, þá sé ég réttlætingu. Sama hversu lengi við deilum, þá munum við sennilega ekki verða sammála um þann punkt. Það er fín lína á milli þess að útskýra hluti og réttlæta þá. Við erum ósammála um það hvorum megin við línuna ræðan er.

    Punkturinn hjá mér í upphaflegu greininni var sá að friðarsamkomur á Íslandi virðast oft vera litaðar af and-Ísraels, and-USA síbylju. Af einhverjum ástæðum þykja það ávallt einu löndin, sem eru gagnrýni verð. Ekki hef ég einu sinni verið á friðarsamkomu þar sem er reynt að útskýra aðgerðir Ísraelsríkis.

    En allavegana, mér fannst þessi “útskýring” á atburðunum vera ansi lituð. Þess vegna leit ég á hana sem réttlætingu. Þú ert mér ósammála. Það má vel vera að ég líti út fyrir að vera tregur fyrir vikið og þú þurfir því að halda áfram stynja og berja hausnum við steininn. :confused:

  8. >Bíddu – hvað í þessum kafla er það sem ekki gæti staðið í orðabókarskilgreiningu eða í fréttaskýringu í hvaða dagblaði sem er? Las kaflann um stjórnmál í Líbanon á Wikipediu og þetta er efnislega alveg eins.

    Stefán, Hizbullah eru m.a. kallaðir hetjur og frelsisher í ræðinni. Jafnvel þótt að Guðrún sé að vitna í orð annarra, þá er valið á tilvitnunum ansi litað.

    Það er rétt að tilvitnanirnar eru réttar. Sumir kalla Hizbullah eflaust hetjur og aðrir frelsisher. En ég gæti líka haldið ræðu þar sem ég segði: “Sumir kalla Ísraela morðóða geðsjúklinga” og aðrir kalla þá “brjálæðinga”. Vissulega gæti ég bent á að þetta væru staðreyndir, en það myndi ekki breyta því að frásögn mín hallaði ansi mikið á Ísrael. Það sama var greinilegt í máli Guðrúnar. Með þessu vali á tilvitnunum er Guðrún svo sannarlega að fegra Hizbullah sem samtök.

  9. Mér sýnist að á þessum 22 árum hafi Palestínumálið verið í veigamiklu hlutverki í tvö skipti og Líbanonsstríðið bætist núna við. Það eru nú öll ósköpin.

    Ok, það kann að vera að það hafi verið gagnrýni á USA sem að stuðaði mig í hin skiptin. Minni mitt getur augljóslega ekki keppt við skrásetningu skipuleggjanda, þannig að ég dreg þetta ekki í efa.

  10. Ókey, hér erum við loksins farnir að tala um konkret dæmi. Það er mikil framför. Mér finnst lykilmálsgreinin í þessu sambandi vera þessi:

    “Ekki líta allir Líbanir á Hisballah-liða sem hryðjuverkamenn. Margir, sem eru ósammála hugmyndafræði samtakanna og aðferðum, líta samt á þá sem hetjur fyrir að standa uppí hárinu á Ísraelum fyrir 6 árum síðan. En þó eru þeir kannski flestir sem hingað til hafa litið á þá sem stríðsglaða eiginhagsmunaseggi sem eru til stöðugra vandræða.”

    Hér vísar Guðrún Margrét í tvær mismunandi skoðanir íbúa í Líbanon til Hisbollah. Annars vegar þá skoðun að Hisbollah séu hetjur en hins vegar að þeir séu stríðsglaðir eiginhagsmunaseggir. Þess er meira að segja getið að það sé líklega almenna afstaðan.

    Þegar þið Guðmundur Rúnar lesið þetta, þá virðist þið bara sjá fyrri hluta málsgreinarinnar. Er ekki eins hægt að segja að “með vali sínu á tilvitnunum” sé Guðrún að kalla Hisbollah stríðsglaða eiginhagsmunaseggi?

    Og hvers vegna má ekki benda á þá staðreynd að Hisbollah njóti stuðnings talsvert stórs hóps? Ég tel að það sé mikilvægt að halda því til haga að hreyfing þeirra hefur 10% sæta á líbanska þinginu og væri raunar með fleiri ef vægi atkvæða væri jafnt.

    Hvers vegna skipta þessar staðreyndir máli? Er það til að réttlæta gjörðir Hisbollah? Nei, það skiptir máli vegna þess að stuðningsmenn innrásar Ísraelsmanna láta að því liggja að Hissbollah séu einangraðar vígasveitir sem haldið sé úti af ríkisstjórnum annarra landa. – Slíkar sveitir mætti vissulega hugsa sér að uppræta með sprengjuárásum. Hreyfing sem sprettur upp úr staðbundnum jarðvegi verður hins vegar ekki upprætt svo glatt með sömu aðferðum. ÞESS VEGNA skiptir það máli hvort einhver eða umtalsverður hluti Líbana lítur á Hissbollah sem hetjur og frelsisher.

    Þetta fannst mér augljóst við lestur ræðunnar, en greinilega sjá það ekki allir sömu augum.

  11. Fyrst, einhver bendir á Big-Bro George á Sky News, sem er einhver sorglegasta fígúra breskra stjórnmála í dag, þá er vert að benda t.d. á þetta: http://switch3.castup.net/cunet/gm.asp?ai=214&ar=1228wmv&ak=null
    (notkun hans á hugtakinu “bandaríski hundurinn” þarna er áhugaverð, ræðusnilld hans nær ekki bara til enskumælandi áhorfenda, heldur er hann ágætlega kunnugur arabískum symbolisma)

    Varðandi skoðun Líbana á Hizbullah:

    Þegar Jumblatt, leiðtogi Drúsa, var spurður um það viðhorf margra Araba að Nasrallah væri hetja, sagði hann:

    Great, so [Nasrallah is] a hero. But I’d like to challenge this heroism of his. I have the right to challenge it, because my country is in flames. Besides, we did not agree… We agreed on an agenda with regard to Palestine. If the agenda changes, that will be another matter. The agenda with regard to Palestine, on which we agreed, includes the establishment of a [Palestinian] state alongside Israel, the right of return, Jerusalem as the capital, the demolition of the wall of humiliation, and the dismantling of the settlements. This is our agenda at this point in time. In his political speeches, [Nasrallah] says: ‘I do not recognize the state of Israel, and I want to set out from South Lebanon to liberate Palestine in its entirety.’ This is what he is doing. If this is his agenda, I have the right to oppose it.

    Í fyrra var yfirleitt talað um af kunnugum að stuðningur Hizbullah væri meðal ca. þriðjungs Líbana. Sýrlendingar notuðu samband sitt við samtökin grimmt í að sýna heiminum að Sýrlendingar væru vinsælir í Líbanon og þar með voru línurnar ágætlega sýndar. Að tala við Líbani í Beirút og sér í lagi Maroníta er athyglisvert. Nasrallah er álitinn hreinn landráðamaður af mörgum og að segja að Hizbullah séu frelsisher er einmitt að hitta naglann á höfuðið. Vandamálið undanfarið í Líbanon hefur verið að kristnir, Súnníar og Drúsar hafa viljað flestir afvopna Hizbullah, sem samtökin hafa neitað og hótað mis-opinskátt að berjast fyrir rétti sínum til að vera undir vopnum – til að verjast Ísrael, sem flestir hinna þriggja hópanna líta á sem hlutverk líbanska hersins. Þar fyrir utan hafa sérstaklega kristnum fundist það ógnvekjandi að hafa þetta ríki í ríkinu í Beqaa og suðurhluta landsins. Stór hluti landsmanna sjá samtökin sem merki erlendra áhrifa og boðflennu í lýðræðispartýinu sem Líbanir vonuðust til að halda síðasta vor.

    Að keyra um Beqaa stuttu eftir að ekið er í gegnum Zahle er líkt og að koma inn í íranska sveit. Nasrallah, Komenei og Khameini á stórum spjöldum þegar bæði ekið er inn í og út úr flestum þjóðvegarbæjunum. Enda flest allt í dalnum rekið af eða undir yfirsjá Hizbullah.

    Og kannski Stefán Shift-3 hefði áhuga á að fá lánaðan dvd diskinn sem Hizbullah liðarnir gáfu mér í Baalbeck og meta sjálfur hvort að þeirra eigin ímynd af sjálfum sér er ímynd friðarins.

    Hitt er svo annað mál að stuðningur við Hizbullah hefur aukist síðustu vikur í Líbanon. Auðvitað! Svona einsog að rasismi gegn múslimum og innflytjendum eykst yfirleitt með hryðjuverkaárásum múslimskra hryðjuverkamanna. Eða árásum á Gyðinga og eigur þeirra hafa aukist margfalt í París síðan seinni Intifadan byrjaði. En það eru ekki rök fyrir því að málstaðurinn sé réttlætanlegur. Engan veginn.

  12. Stuna! Mér finnst ég vera að berja höfðinu við steininn.

    Reynum samt einu sinni enn:

    Að skýra fyrirbæri er ekki það sama og að réttlæta það!

    Getum við ekki verið sammála um það?

    Nú er morgunljóst að hin agressíva hegðun Ísraelsríkis frá stofnun þess skýrist að miklu leyti af helförinni og gyðingaofsóknum tuttugustu aldar. Það að fallast á þessa skýringu er ekki það sama og viðurkenna réttmæti hinnar agressívu stefnu eða réttlæta hana. Skýring og réttlæting eru tveir ólíkir hlutir, sem vissulega geta þó stundum verið nátengdir.

    Á sama hátt er eðlilegt að skýra tilurð og hegðun Hisbollah með stríðinu 1982. Mér er til efs að það séu margir liðsmenn í sveitum þeirra sem ekki misstu vini eða ættingja í slátrununum sem hæstiréttur Ísraels úrskurðaði sem stríðsglæp og sakfelldi Ariel Sharon fyrir. Þetta er skýring – ekki réttlæting.

    Erum við ekki ennþá sammála hérna?

    Gott og vel. Í ræðunni umræddu beitir mannfræðingurinn Guðrún þekktu menningarfræðilegu líkani, þar sem hún skilgreinir friðarmenningu og stríðsmenningu. Stríðsmenningin felur í sér trú á að friður verði tryggður með hernaði, ekki hvað síst vegna þess að neitað er að fallast á að óvinurinn sé sprottinn upp úr félagslegum jarðvegi, heldur er litið á hann sem aðskotadýr – ekki ósvipað krabbameini í líkama sem unnt er að skera burtu.

    Það eru ekki bara ríkisstjórnir stórvelda sem falla í þessa gryfju. Oft trúa hryðjuverkamenn, mótmælendur eða stjórnarandstæðingar þessu sama. Það er fólkið sem heldur að allt yrði gott í heiminum ef einungis tækist að stúta einum ráðamanni eða svo. Eflaust halda einhverjir í alvörunni að stóriðjustefnan á Íslandi myndi gufa upp – ef það tækist bara að “drekkja Valgerði”.

    En persónugerving af þessu tagi er ofureinföldun. Utanríkisstefna Bandaríkjanna er ekki tilkomin vegna þess að George W. Bush sé vondur, heimskur eða hvorttveggja. Hún á sér rökréttar skýringar og er að mestu í innra röklegu samhengi.

    Allir sammála ennþá?

    Þegar Bandaríkjastjórn reynir að sannfæra sig um að borgarastyrjöldin í Írak sé verk fárra, einangraðra hópa – einkum útlendinga – þá er það til að sannfæra sjálfa sig og aðra um að her þeirra geti komið á friði. Þegar Bandaríkjastjórn reynir að tengja öll hryðjuverk sem framin eru á byggðu bóli nú um stundir við persónu hins þjóðsagnakennda Osama bin Laden, er tilgangurinn hinn sami. Og þegar reynt er að skilgreina Hisbollah sem fámennan hóp sem ekki njóti nokkurs stuðnings erum við á sömu braut.

    Ég trúi því ekki að stóriðjustefnan myndi gufa upp ef Valgerði Sverrisdóttur væri stungið í poka og varpað í Brúará. Ég trúi því heldur ekki að hryðjuverk aflegðust ef Osama bin Laden fengi sömu örlög. – Er ég þar með að réttlæta þau Valgerði og bin Laden? Auðvitað ekki.

    Að leitast við að skilja ástæður atburða er ekki það sama og réttlæting þeirra. Það hljóta nú ungir, skynsamir menn að geta fallist á.

  13. Og þá hljótum við líka að vera sammála um að stuðningur Hizbullah sé jafn mikill núna og stuðningur Bandaríkjamanna við George W. Bush var veturinn 2001-2002. Og það að “fáir stjórnmálamenn í Líbanon” gagnrýni Hizbullah núna er ekki ólíkt því þegar fáir stjórnmálamenn vestanhafs gagnrýndu forsetann.

    “Annaðhvort ertu með *okkur* eða með óvininum”.

    En fyrst við erum svona sammála, erum við þá líka sammála, Stefán, um þetta: Ræðan minnist ekki orði á hvernig stríðssinnar nota óbreytta borgara sem skjól, eða hvernig stríðssinnar séu enn undir vopnum í landi þar sem ríkja á(tti) friður að nafninu til a.m.k. – sé a.m.k. athyglisvert? Eða að stríðssinnarnir báðu megin við víglínunna eigi mímargt sameiginlegt, á meðan að friðelskandi borgarar eru þeir sem helst láta lífið – báðum megin víglínunnar?

  14. Hitt er svo annað mál að ég hef næstum því alltaf forðað mér heim eða aftur upp á Laugarveg í lok Friðargöngunnar á Þorláksmessu af einmitt sömu ástæðu og stöðunni sem Jens lendir í þarna. Man ekki betur en m.a.s. Sveinn Rúnar Hauksson hafi verið einu sinni ef ekki tvisvar ræðumaður á þeirri samkomu. Ég gafst upp fljótlega.

    – Útúrdúr hefst –
    Margir heiðvirtir friðarsinnar í Bretlandi hættir að mæta í stríðsmótmæli í London til dæmis. Þeim er skiljanlega illa við það þegar maðurinn við hliðina á þeim gengur með Hizbullah eða Hamas fána. Ég er ekki að bera þetta saman, ekki frekar en Stefán Valgerði og Osama, en í “friðar”-göngunni hefur maður séð ófáum merkjunum bregða fyrir. Uppáhaldið mitt er samt myndin frá 1. maí í Reykjavík sem ég sá á netinu þar sem palestínski fáninn er meira áberandi en nokkur annar. Allt er hey í harðindum greinilega.
    – Útúrdúr lýkur –

    Einar, Galloway er yndislegga klikk. Hann er Ann Coulter vinstrimanna í Bretlandi. Skoðaðu þetta líka: http://switch3.castup.net/cunet/gm.asp?ai=214&ar=788wmv&ak=null

    Og þar sem þú ert mikill áhugamaður um Chavez, sem nú hefur lofað stuðningi gegn Ísraelum, nýsósíalistum á Vesturlöndum eflaust til mikillar ánægju: http://switch3.castup.net/cunet/gm.asp?ai=214&ar=1220wmv&ak=null

  15. Minni manna er selektívt. Það gerir það að verkum að þeir sem láta umfjöllun um Palestínu fara í taugarnar á sér, þeim finnst að það sé endalaust rætt um það mál. Þannig finnst Ágústi að Sveinn Rúnar sé sífellt að tala um Palestínumálið í lok Þorláksmessugöngunnar, meðan veruleikinn er sá að hann hefur einu sinni verið þar ræðumaður – fyrir fimm árum síðan.

    Reyndin er sú að við kertafleytinguna hefur fókusinn yfirleitt verið settur á þau mál sem hafa verið efst á baugi í alþjóðamálum hverju sinni. Af því sem fjallað hefur verið um síðustu árin má nefna:

    * Hótanir Indverja og Pakistana um beitingu kjarnorkuvopna fyrir nokkrum misserum
    * framferði Rússa í Téténíu
    * kjarnorkutilraunir Frakka í Kyrrahafi
    * uppsetning gagneldflaugakerfisins og tilraunir með hagnýt kjarnorkuvopn
    * Íraksstríðið
    * Afganistanstríðið
    * stríð á Balkanskaga
    * barátta gegn barnahernaði og jarðsprengjum
    * herskipakomur á Íslandsmið og spurningin um hvort kjarnorkuvopn hafi verið geymd á Íslandi.

    Þess utan hefur upprifjun á sjálfum kjarnorkuárásunum 1945 oft verið fyrirferðarmikil í dagskránni.

    Við sem stöndum að þessari aðgerð höldum ávörpunum til haga og við eigum flestar ræðurnar frá 1985. Mér sýnist að á þessum 22 árum hafi Palestínumálið verið í veigamiklu hlutverki í tvö skipti og Líbanonsstríðið bætist núna við. Það eru nú öll ósköpin.

    En þeir sem eru vissir um að ræðurnar á kertafleytingunni snúist alltaf um illsku Ísraelsstjórnar, þeir munu halda áfram að vera sannfærðir um það – á sama hátt og manni finnst að í gamla daga hafi alltaf verið gott veður á sumrin og snjór á jólunum.

    Ætli það sé samt ekki rétt hjá Einari – að við verðum líklega áfram ósammála um þetta.

  16. Pointið er engu að síður Stefán að rétt einsog minni manna er selektívt, þá eru áherslur manna einnig selektívar.

    Og vegna áherslanna selektívu þá hefur t.d. undirritaður ekki verið og verður ekki meðlimur í samtökum á borð við SHA og Ísland-Palestína. Á hinn bóginn fylgist ég mun betur með því sem Amnesty á Íslandi sendir frá, sem meðlimur þar og þrátt fyrir að ég hef ekki alltaf verið fullkomlega sáttur við áherslurnar þar þá hefur það aldrei náð að stuða mig.

    Og aftur, mannlegur sem ég er, e.t.v. er ég að skjóta of fast á Svein Rúnar þarna, en gagnrýnin var ekki einskorðuð við hann. Hitt er svo annað mál að ég hef lítið álit á rökræðu hans oft á tíðum og hugtakið “selektívt minni” á vel við hann. En hann er ekki umræðuefni hér.

    Ef þú óvarpar samkomu í nafni friðarins er hreinlega ósanngjarnt að fjalla um Hizbullah líkt og um frelsisher fólksins í Líbanon sé að ræða, sem berst gegn hermaskínu Ísraelsríkis. Ef rýnt er í textann orð fyrir orð má færa rök fyrir því að ekkert “rangt” komi þar fram. Að fela sig á bak við slík rök er lágkúrulegt. Tónninn í ræðunni er þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Vef-Þjóðviljinn hefur líka aldrei kallað forseta lýðveldisins svín. Þeir fjalla bara um svínarækt o.þ.h. einu sinni á ári og í síðustu efnisgreininni óska forsetanum til hamingju með afmælisdaginn. Ég er ekki að segja að sama lágkúran sé í ræðunni. En að segja að hún sé hlutlæg er út í hött.

    Þess má til gamans geta að áður en ég sagði mig úr Flokknum var mín eina formlega tilraun til að hafa stefnu á ályktanir þar var að leggja það fyrir SUS þing að gagnrýna stefnu Ísraelsstjórnar fyrir að skerða frelsi óbreyttra borgara og reka aðskilnaðarstefnu. Hún var felld 5 atkv. á móti 20 ef ég man rétt, þar sem 4/5 þingfulltrúa sátu hjá.

    Það sem ég held að við Einar eigum báðir sameiginlegt er að gagnrýna einfeldni og skekkju í umræðunni. Það þýðir ekki að maður styðji stefnu Ísraelsstjórnar.

  17. Ég man eftir þessu Ágúst. Verðandi formaður, IHÓ steig í pontu og rökræddi þetta ekki en talaði um að óheppilegt væri að samþykkja þetta.

    Og það voru sex sem greiddu atkvæði með þessari tillögu, þeirra á meðal ég.

    Ég er altso búinn að vera renna yfir þetta í fyrsta skipti núna og sýnist þessi debatt vera búinn, en vil hafa það skrásett að mér finnast hryðjuverk verri og alvarlegri glæpur en heldur en hernaðarárásir þar sem almennir borgarar falla, þó ég vilji síður réttlæta þær.

    Þá finnst mér það alltaf dapurlegt hvað eru margir sem raunverulega virðast tilbúnir að trúa því að hryðjuverk, handahófskennd árás á óþekktan almennan borgara, sé eðlileg afleiðing af félagslegu ástandi, líka þó það blasi við að í mörgum tilvikum eru þau skipulögð að ofan og pólitísk samtök leitist við að magna fram þá trú og þær tilfinningar sem gera fólk tilbúið að fremja hryðjuverk og sjálfsmorðsárásir: Hryðjuverkamönnum er att út í árásirnar rétt eins og börnum er att út í hernað víða um heiminn.

    Það er ekki nóg með að hún sé hlutdræg í ræðunni, og hafi samúð með hryðjuverkamönnum, téðar “útskýringar” á uppruna hizbollah eru ekki réttar: Samtökin eru ekki stofnuð af reiðu og niðurlægðu fólki, heldur eru þau stofnuð af ofsatrúarmönnum sem nærast á reiði fólks og niðurlægingu, sem magna hana fram til að fá fólk á sitt band, og sem þurfa á reiðinni og niðurlægingunni að halda til að halda völdum sínum og áhrifum.

    Sjálfsagt er það stríðsmenningartal, en þeir sem halda að ofstækismenn af þessu tagi hverfi af sjálfu sér samhliða félagslegum úrbótum, hafa einfaldlega rangt fyrir sér. Hins vegar er það alveg rétt að það dugir ekki eitt og sér að beita þá valdi.

    Svo sé ég listann hjá Stefáni yfir þau mál sem tekin hafa verið fyrir á kertafleytingunum: Allt saman góð og gegn mál. En aldrei fjallað neitt um hryðjuverk sem konsept, þó kjarnorkuárásirnar séu gjarnan kallaðar stærstu hryðjuverk veraldarsögunnar.

    Síðan verð ég að bæta því við að bætiflákar SHIFT-3 eru á köflum ótrúlega hæpnir, enda er hlutdrægi tónninn í ræðunni augljós. Til að mynda talar hún um 1000 fórnarlömb fjöldamorða Ísraela, sem er að sumu leyti langsótt; stuttu síðar tæpir hún á “árás öfgatrúamanna á skotmörk í Bandaríkjunum 11. september 2001”.

    Þar hafiði það: Skotmörk! Ég bíð spenntur eftir því að Stefán útskýri það með einhverum þeim hætti sem allir geta verið sammála um.

Comments are closed.