Kjósum Samfylkinguna

Fyrir fjórum árum skrifaði ég hérna pistil [þar sem ég lýsti því yfir að ég ætlaði í fyrsta sinn að kjósa Samfylkinguna](https://www.eoe.is/gamalt/2003/05/01/18.36.10). Í gegnum ævina hef ég að vissu leyti fylgt merkum ráðleggingum Irwin Weil prófessors við háskólann minn, Northwestern, sem bað okkur í síðasta tímanum að hafa ávallt þroska til þess að geta skipt um skoðun.

Sem krakki var ég mikill hægri maður og lýsti ítrekað yfir aðdáun á þeirri frjálshyggju, sem að Hannes Hólmsteinn boðaði. Eftir að hafa búið í nær tvö ár í Suður-Ameríku breyttist eitthvað innra með mér. Ég sá hvað frjálshyggjan hafði gert þeirri álfu og réttlætiskenndin varð sterkari þegar ég sá eymdina rétt fyrir utan stofugluggann.

Fjögurra ára hagfræðinám í Bandaríkjunum breytti mér svo enn frekar. Ég sannfærðist um að hægri stefna einsog er iðkuð þar í landi í dag leiðir ekki til þjófélags, sem ég vil búa í. Þegar ég kom aftur heim eftir nám var ég ekki alveg viss hvar ég stæði í pólitíkinni. En smám saman varð ég sannfærðari um að velferðarþjóðfélög Norðurlandanna kæmust næst mínum óska þjóðfélögum. Ég kaus Samfylkinguna fyrir fjórum árum kannski fyrst og fremst af því að hún var skásti kosturinn. Ekki fullkomin, en sá flokkur sem komst næst mínum skoðunum.

* * *

Ég er jafnaðarmaður.Ég trúi því að allir eigi að fá jöfn tækifæri til að mennta sig, óháð efnahag. Ég trúi því að konur og karlar eigi að sömu laun fyrir sömu vinnu. Ég tel það ekki vera hlutverk ríkissins að selja orku á gjafverði til stórfyrirtækja. Ég trúi því heldur ekki að okkar kynslóð hafi einhvern rétt til þess að nýta alla orku landsins í sína þágu. Það er stórkostleg frekja.

Ég trúi því að ríkið eigi ekki að skapa störfin, né að þingmenn eigi að koma með tillögur að nýsköpun, því ég er sannfærður um að í réttum skilyrðum muni almenningur sjá um nýsköpunina. Ríkið á einungis að skapa hér tækifæri til þess að atvinnulífið og þá sérstaklega minni fyrirtæki geti blómstrað. Það er erfitt í efnahagskerfi þar sem ríkja miklar gengissveiflur og okurvextir einsog á Íslandi í dag.

[Ég vil að Íslendingar sækji um aðild að ESB](http://eoe.is/gamalt/2007/04/10/21.34.38) og taki upp evru sem gjaldmiðil. Krónan er ónýtur gjaldmiðill, sem er haldið uppi aðallega útaf tilfinningarökum. Gengissveiflur og vaxtaokur er fyrirtækjum og einstaklingum mikill baggi. Ég vil að Íslendingar skilgreini sín samningsmarkmið við ESB, sæki um aðild og leggi svo aðildarumsóknina í dóm kjósenda. Allar aðrar Norðurlandaþjóðir hafa fengið slíkt tækifæri nema við. Það er ósanngjarnt.

Ég trúi því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé líklegust til að setja þau mál í forgang, sem ég tel mikilvægust. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann er ófær um að viðhalda stöðugleika í íslensku þjóðfélagi. Flokkurinn sem auglýsti sig eitt sinn undir orðinu “stöðugleiki” er nú sami flokkur og stjórnar í landi þar sem vaxtaokrið er með eindæmum, verðbólgan yfir takmörkum og viðskiptahallinn gríðarlegur.

* * *

Á þessu kjörtímabili hef ég verið svo heppinn að starfa örlítið innan Samfylkingarinnar. Jensi byrjaði að draga mig á fundi í flokknum stuttu eftir að ég kom heim úr námi og fyrir fyrir tæpum þrem árum gekk ég í flokkinn. Ári seinna var ég svo heppinn að starfa í hinum frábæra framtíðarhópi Samfylkingarinnar. Þar sat ég sem fulltrúi UJ í atvinnulífshópnum með góðu fólki og vann það sem ég taldi vera gott starf í þágu stefnumótunnar flokksins. Ég heillaðist strax af þeim vinnubrögðum, sem voru viðhöfð innan flokksins.

Og smám saman hef ég heillast meira af Samfylkingunni. Ég hef kynnst þarna afskaplega góðu fólki, sem hugsar svipað og ég. Ég hef á þessum árum innan flokksins sannfærst um að þetta er flokkur fyrir mig. Ég er sannfærður um að innan þessa flokks starfar gott fólk með sterka réttlætiskennd, sem vill að landinu sé stjórnað undir formerkjum jafnaðarstefnunnar. Og smám saman hef ég orðið stoltur af því að vera Samfylkingarmaður.

Ég er jafnaðarmaður og því mun ég kjósa Samfylkinguna á morgun. Ég hvet þig til að gera slíkt hið sama.

6 thoughts on “Kjósum Samfylkinguna”

  1. Vel mælt Einar. Hefði ekki getað orðað það betur. Þetta er í hnotskurn ástæða þess að ungt fólk á að kjósa Samfylkinguna frekar en t.d. Sjálfstæðisflokkinn.

  2. Frábær grein hjá þér Einar! Vonandi að hún hjálpi óákveðnum lesendum síðunnar þinnar að ákveða sig.

  3. Greinin hjálpaði allavega einum óákveðnum lesanda að ákveða sig! 😉

  4. Æj.

    Kaldhæðnin er auðvitað að þú ert að kjósa sama gamla þingflokkinn með sömu gömlu lummurnar innanborðs. Þegar Íhaldið er orðið “endurnýjað” samanborið við Samfó held ég að þið hipp og kúl liðið þurfi aðeins að fara að hugsa ykkar gang 🙂

    Gott samt að þú hældir ekki Jóni Magnússyni einsog fyrir fjórum árum 😛

  5. Takk Gulli og Aggi og frábært að heyra Jóhanna.

    Ágúst, gömlu lummurnar eru þó margar hverjar skárri en nýju þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Get ekki séð hverju þeir bæta við.

    En varðandi Jón, þá talaði hann nú allt öðruvísi fyrir fjórum árum en í dag. Þá var hann aðallega að gagrnýna Sjálfstæðisflokkinn en ekki að tala niður til múslima.

Comments are closed.