Kjósum Samfylkinguna

logo-sam.gifÉg hef skipt um skoðun varðandi þessar kosningar í borginni nokkrum sinnum. Ég er jú flokksbundinn í Samfylkingunni, en var þó á báðum áttum hvort ég vildi sjá Sjálfstæðismenn komast aftur til valda í borginni. Fannst stundum einsog ég væri kominn með nóg af R-listanum. Eða kannski var ég bara kominn með nóg af vælinu í Sjálfstæðismönnum útaf R-listanum, sem er uppspretta alls ills í heiminum samkvæmt þeim.

En þessi kosningabarátta hefur hins vegar sannfært mig algjörlega um eitt: Ég ætla að kjósa Samfylkinguna á laugardaginn. Ástæðurnar eru nokkrar:

1. Reykjavíkurlistinn hefur gert Reykjavík að betri borg en hún var. Hann hefur ekki bara einbeitt sér að steinsteypu einsog nágrannasveitafélögin, heldur hefur tekið forystu um að efla Reykjavík sem menningarborg og bætt þjónustu við íbúana. Samfylkingin hefur verið kjölfestan í Reykjavíkurlistanum og hefur ekki skorast undan ábyrgð fyrir verk listans.
2. Samfylkingin hefur að mínu mati bestu stefnuna varðandi skipulagsmál. Helsta áhyggjuefni Íhaldsins er að gefa öllum jarðir, svo þeir geti byggt einbýlishús. Samfylkingin vill hins vegar uppbyggingu í Vatnsmýrinni, í slippnum og á fleiri svæðum þar sem verið er að þétta byggð. Eina leiðin til að bjarga Reykjavíkursvæðinu frá því að verða eitt allsherjar skipulagsslys er að þétta byggðina í kringum miðbæinn. Helsta framlag xD til skipulagsmála er að vita ekki hvort þeir ætli að fara með flugvöllinn og að vilja byggja mislæg gatnarmót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, sem eru glórulaus að mínu mati.
3. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að þykjast vera femínisti. En R-listinn hefur minnkað launamun kynjanna og hækkað laun þeirra lægstlaunuðu. Það eru framfaraskref, sem ólíklegt er að Sjálfstæðismenn hefðu tekið.
4. Dagur B. er að mínu mati besti kosturinn sem borgarstjóri Reykajvíkur. Vilhjálmur Þ. hefur verið lengi í borgarmálum og ég fæ það alltaf á tilfinniguna að honum finnist hann eiga stöðuna skilið, þar sem hann hafi unnið svo lengi að þessum málum. Að mínu mati þurfum við ungan og kröftugan borgarstjóra, sem vill sjá uppbyggingu í miðbænum, öflugra menningarlíf og betri þjónustu við þá hópa, sem þurfa á henni að halda. Dagur er einfaldlega frambærilegastur af þeim, sem eru í framboði. Mann, sem hefur sýn og vill gera Reykjavík að skemmtilegri og spennandi borg, en ekki bara endalausu samansulli af úthverfum.
5. Eina leiðin til að tryggja að Íhaldið komist ekki til valda er að kjósa Samfylkinguna. Þrátt fyrir að VG vilji eflaust helst vinna með Samfylkingunni, þá hafa þeir oft á tíðum talað ansi vel um Íhaldsmenn og virðast líta hýru augu til samstarfs með þeim. Draumur minn er að sjá vinstri stjórn með Samfylkingu sem kjölfestuna. Ef fólk kýs VG, þá á það á hættu að þeir vinni með Íhaldinu. Ef fólk kýs F eða B, þá getur það bókað að Íhaldið komist að með tilheyrandi ósköpum (fluvöllurinn áfram ef að F kemst að – og álver útí Örfirisey ef að framsókn kemst að)
6. Vilhjálmur Þ er kannski jafnaðarmaður, en með honum á lista eru hins vegar fjölmargir Frjálshyggjumenn, sem hafa skoðanir sem samræmast engan veginn þeirri bleiku auglýsingaherferð, sem Íhaldið hefur rekið. Einfaldasta leiðin til að forða því að þeir ráði er að kjósa Samfylkinguna.
7. Undir stjórn Íhaldsins og framsóknar hefur munur á milli ríkra og fátækra á Íslandi vaxið gríðarlega. Það er alger óþarfi að gefa Sjálfstæðismönnum völdin bæði í borginni og á landsvísu, nema að menn vilji að þessi munur aukist enn frekar. Undir stjórn R-listans hefur, einsog áður sagði, launamunur kynjanna lækkað og R-listinn hefur gert átak í að hækka laun þeirra lægslaunuðu umfram aðra.
8. Samfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að endurbæta Lækjartorg. Fyrir mann, sem átti einu sinni fyrirtæki við þetta torg, þá hljómar það frábærlega, enda það torg til skammar.

Ég er orðinn verulega spenntur fyrir kosningunum. Draumurinn er að sjá vinstri stjórn, en hann gæti þó breyst í algjöra martröð ef að Frjálslyndir komast að (flokksbrotin rata alltaf heim í Valhöll) og myndu vinna með Íhaldinu. Það myndi þýða að Íhaldsmenn réðu öllu og að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni og þétting byggðar í Reykjavík yrði þá nánast útilokuð.

Enn hef ég ekki heyrt neinn setja fram af hverju fólk ætti að kjósa Íhaldið aftur yfir sig. Til hvers að kjósa flokk, sem þykist vera Jafnaðarmannaflokkur rétt fyrir kosningar, þegar að það er hægt að kjósa sannnan jafnaðarmannaflokk, sjálfan Jafnaðarmannaflokk Íslands – Samfylkinguna. Ég hvet alla, sem búa í Reykjavík til að lesa áherslumál Samfylkingarinnar, sem komu í póstinum í gær. Vona að sem flestir sannfærist og kjósi áframhaldandi stjórn Jafnaðarmanna. Það er öllum Reykjavíkingum til hagsbóta.

xS

19 thoughts on “Kjósum Samfylkinguna”

 1. 1. Var það ekki Reykjavíkurlistinn sem skerti aðgengi íbúa töluvert að Félagsþjónustu.

  2. Var það ekki Reykjarvíkurlistinn sem henti fólki úr íbúðum félagsþjónustunnar á götuna?

  3. Er það ekki Samfylkingin sem hefur lagt til að lögð verði 23.000 manna byggð að Úlfarsfelli? – Og þú talar um þéttingu byggðar. Það er sannað mál og frambjóðandi Samfylkingarinnar(Stefán-borgarverkfræðingur) hefur meira að segja tekið undir það að ef byggt verður í Úlfarsfelli er ekki eftirspurn eftir byggð í Vatnsmýri fyrr en eftir 30-40 ár. Annars frambjóðandi Samfylkingarinnar er forstjóri Strætó BS. Undir hennar forystu hefur strætókerfið lamast og hefur aldrei verið lélegra. Verðið hefur hækkað, ferðum hefur fækkað og farþegum hefur stórfækkað. Samt leyfir þú þér að tala um að Samfylking standi fremst í skipulagsmálum?

  ALDREI undir forystu Sjálfstæðisflokksins voru almenningssamgöngur svona lélegar.

  ALDREI undir forystu Sjálfstæðisflokksins var viðskiptavinum félagsþjónustunnar hent út á götu.

  En í skipulagsmálum og varðandi vilja til að draga úr ójöfnuði er aðeins einn flokkur sem hefur stefnu til framtíðar. Stefnu sem nær lengra en að ná sem bestri kosningu til að ,,koma sínum manni í stólinn” Það eru Vinstri-Grænir.

 2. Væri ekki til bóta að endurskoða orðalag í grein 3. Það er væntanlega ekki framfaraskref að lækka laun þeirra lægstlaunuðu…:rolleyes:

  Það er ekki óeðlilegt að lítið þurfi til að sannfæra flokksbundinn samfylkingarmann um að kjósa eigin flokk. Íhaldssemi (mismikil) er manninum töm.

  Á hinn bóginn er eðlilegt að leggja fram spurninguna hvort D og B makki ekki saman eftir kosningu, frekar en D og F. D og F myndi etv. veikja ríkisstjórnarsamstarfið; enda aðstoðarmaður sjálfs forsætisráðherra í forystusæti.

 3. Sorry en ég á og hef átt lengi frekar erfitt með að sjá muninn á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Báðir miðjuflokkar með harðan frjálshyggjuarm. Get ekki séð að fólk sem setur manngildi á oddinn eigi annan kost en VG. Og finnst alveg eins líklegt að Samfylking myndi meirihluta með Sjálfstæðisflokki eins og að VG geri það, eiginlega líklegra.

  Og tek undir með Ónafngreindum að ofan hvað varðar að sannfæra flokksbundna um að kjósa sinn flokk. Og mér hefur einmitt fundist þú oft endurspegla hversu líkir þessir tveir flokkar eru.

 4. Góð röksemdafærsla. Reykjavíkurlistinn var góður og það ríkti góðæri og ferskir straumar léku um Reykjavík. Það urðu ótrúleg umskipti frá því sem áður var. Eina sem ég get sett út á Reykjavíkurlistann og borgarstjórnartíð Ingibjargar Sólrúnar er þegar Reykjavík varð skyndilega klámtán með búllum og strippstöðum á hverju horni í miðbænum. Sem betur fer var einkadansliðið rekið úr borginni út á túndruna (þ.e. í Kópavog).

 5. Þetta eru bærileg rök. En mér finnst þetta allt vera aukaatriði við hliðina á því sem mér finnst vera það mikilvægasta af öllu saman:

  Nú eru Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn búnir að vera að berjast fyrir því að selja Landsvirkjun. Reykjavíkurborg á, ásamt Akureyrarbæ, meirihluta í henni, og hafa bæjarfélögin hingað til stoppað þetta af. Ef Sjálfstæðismenn ná meirihluta í Reykjavík gæti hæglega farið svo að Landsvirkjun verði seld. Jafnvel úr landi. Það myndi þýða að einkaaðilar ættu vetnismöguleika Íslands. Það myndi þýða að einkaaðilar gætu farið að okra á raforku. Sjálfur skil ég ekki hvernig nokkrum manni með greindarvísitölu sem er hærri en skónúmerið sitt getur dottið í hug að þetta sé góð hugmynd, en þetta vill íhaldið gera. Og þetta væri trúlega stærsta slys í sögu Reykjavíkur.

  Viljum við að Norsk Hydro eigi vetnisframleiðslu á Íslandi?

  -E

  ps.
  Kristinn: Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd var töluvert færra fólk í Reykjavík, og aðstæður voru allt aðrar. Þú getur ekki borið þetta saman. Veistu fyrir víst að ef Sjálfstæðisflokurinn væri við völd hefði engum verið hent út úr félagsþjónustuíbúðum, og að strætókerfið væri það besta í Evrópu?
  Mistökin voru að einkavæða Strætó… Almenningssamgöngur eiga ekki að vera einkareknar.

 6. Kristinn, ég þekki ekki fyrstu tvo punktana, enda ekki alfróður um borgarmál.

  Varðandi Úlfarsfell, þá er það allra mesta hræsni ef að xD ætla að mótmæla því. Þeir eru alltaf að kvarta undan skorti á lóðum og þá sérstaklega einbýlishúsum og loksins þegar þau eru til, þá kvarta þeir.

  R-listinn hefur hins vegar verið að þétta byggð og Samfylkingin ætlar að halda því áfram. Ég myndi ekki búa uppí Úlfarsfelli eða Grafarholti þótt mér yrðu boðnar tugir milljóna, en ég veit hins vegar að það er annað fólk, sem vill svona lóðir. Því fólki verður að sinna. Fyrir okkur hin, sem viljum búa í mið- eða vesturbæ, þá ætlar Samfylkingin hins vegar að auka framboð á kostum með þéttingunni á þessum svæðum.

  Og Gunnar, hvar í ósköpunum er þessi harði frjálshyggjuarmur í Samfylkingunni. Ég hef talið mig vera einn allra hægri sinnaðasta Samfylkingarmanninn, en enn hef ég ekki rekið mig á harðan frjálshyggjumann í þessum ágæta flokki.

  Ónafngreindur, takk fyrir ábendinguna. Búinn að laga þetta. 🙂

  Ef að xB vill eyða sjálfum sér endanlega, þá má hann endilega starfa með xD.

 7. Ég var lengi vel á báðum áttum um hvort ég ætti að kjósa S eða D. Þvert á þig er niðurstaðan er D. Á endanum snýst þetta um hvort við treystum fólkinu á þessum listum. Þau 16 atriði sem Samfylkingin hefur nú lagt fram auka ekki á mitt traust til framboðsins, sbr. mitt blogg. En annars vildi ég bara þakka fyrir þína pólitísku pistla. Gefa manni ávallt eitthvað að hugsa um.

 8. Það besta við þessar borgarstjórnarkosningar er að það kemur nýr borgarstjóri eftir þær (við getum deilt um hver sá nýi á að vera) 🙂

  Annars finnst mér ofureðlilegt að flokksbundinn maður velti fyrir sér að kjósa annan flokk í borgar/bæjarstjórnarkosnginum. Ég get ekki séð að það sé slíkur grundvallarmunur í slíkum kosningum á milli flokka að það sé eitthvað óeðlilegt. Auk þess getur það verið strategískt val, sbr. fylgi VG í Hafnarfirði í núna og fyrir fjórum árum, eða e.t.v. Framsóknarmenn sem kjósa D í Kópavogi. Mér finnst ekkert óeðlilegra að Samfylkingarkrati einsog þú velti fyrir sér að kjósa D eða Sjálfstæðismann sem líkar betur við stefnu S að kjósa samkvæmt því.

  Borgar/bæjarstjórnarkosningar hafa, ef eitthvað er, snúist meira um fólk og tiltekin málefni en áður. Skipulags- og leikskólamál hafa lítið með “stóru” málin að gera. Það hefur t.a.m. lítið með ESB eða “bandalag hinna viljugu” að gera.

 9. Fannst þetta smellið:

  Velmegunin er orðin svo mikil að menn telja sig jafnvel hafa efni á að kjósa vinstrigræna.

  Andríki.is 27. maí 2006

 10. Þú hefur augljóslega ekkert vit á pólitík. Það sannarðu í hvert skipti sem þú kemur með pólitíska pistla. Haltu þig við Liverpool þar sem þú veist eitthvað.

 11. Huginn, hoppaðu uppí rassgatið á þér og hættu að lesa þessa síðu ef þér líkar ekki við innihaldið. Það er nákvæmlega ENGINN að biðja þig um að lesa mín pólitísku skrif.

  Ef þú vilt lesa um Liverpool, þá geturðu lesið [Liverpool bloggið](http://www.eoe.is/liverpool), sem er einmitt sér síða svo að snillingar einsog þú geta sleppt því að lesa um pólitík frá vitleysingum einsog mér.

 12. Eyvindur, ég veit það ekkert fyrir víst að engum hefði verið hent útúr félagsþjónustuíbúðum ef D hefði verið við völd seinustu tólf árin. En hinsvegar veit ég að það gerðu þeir aldrei í þá áratugi sem þeir stjórnuðu borginni. Annað en R-listinn.

  Strætókerfið mun aldrei verða gott meðan D verður með hreinan meirihluta í borginnni. En það er staðreynd að á tímum R-listans lappaðist það ennfrekar niður. Eini flokkurinn sem hefur stefnu sem vit er í í strætómálum eru Vinstri-Grænir.

  Þó málflutningur Sjálfstæðisflokks sé hræsni, þá gerir það ykkar málstað ekki betri. Þegar Samfylkingin er búinn að byggja Úlfarsfellið, hvað ætla þeir þá að gera við Vatnsmýrina?

  A. Ætla þeir að losa sig við flugvöllinn án þess að hafa þá eftirspurn eftir landi sem til þyrfti?
  B. Ætla þeir að hafa flugvöllinn áfram og svíkja gefin loforð?

  Þetta er hræsni.

 13. ,,Mistökin voru að einkavæða Strætó… Almenningssamgöngur eiga ekki að vera einkareknar”

  Strætó hefur ekki verið einkavæddur. Svo kolruglaður var R-listinn nú ekki. Það er ekkert framboð í Reykjavík sem vill einkavæða almenningssamgöngur. Slíkt er bara bábilja.

 14. Einar, þú hefur ekki tekið afstöðu.is prófið eða hvað? Hvernig væri að birta niðurstöður fyrir okkur áhugasama lesendur um pólitískar pælingar þínar? Ekki les maður þetta blogg af áhuga á fótbolta 🙂

  Mér tókst að fá 30-30-20-10-10, þar sem D og S toppuðu og F og V blessunarlega voru á botninum.

 15. >Þegar Samfylkingin er búinn að byggja Úlfarsfellið, hvað ætla þeir þá að gera við Vatnsmýrina?

  Það verður einfaldlega eftirsóttara að búa í Vatnsmýrinni fyrir ákveðnar tegundir af fólki. Ég hef ekki áhyggjur af því að Vatnsmýrin verði tóm. Frekar að jaðarbyggðir uppá Vatnsenda og við álverið muni tæmast af ungu fólki, sem gæti þá loksins keypt sér nýlegt hús á viðráðanlegu verði nálægt miðbænum.

  Það er glórulaust að gefa sér það sem staðreynd að það verði ekki eftirspurn eftir húsnæði í Vatnsmýrinni. Sjáðu bara hversu hátt íbúðarverð er í miðbæ og vesturbæ. Þar vill ansi mikið af fólki búa.

 16. Æji, mér finnst þetta “afstada.is” próf ekki vera merkilegt. Mér gæti ekki mögulega verið meira sama hvort að Sundabraut verði botngöng, brú eða hvað. Vil bara að hún verði kláruð. Sama með hvort þessi braut er í stokk eða ekki.

  En niðurstöðurnar voru svona:

  Þú ert 30% hlynntur S lista
  Þú ert 30% hlynntur B lista
  Þú ert 20% hlynntur F lista
  Þú ert 10% hlynntur V lista
  Þú ert 10% hlynntur D lista

 17. >hí á samfylkinguna..

  Borgarfulltrúar áður og nú

  Framsókn: 2 => 1
  Vinstri Grænir: 2 => 2
  Sjálfstæðisflokkur: 6 => 7
  Frjálslyndir: 1 => 1
  Samfylking: 4 => 4

  Einn flokkur tapaði, einn vann. Sjálfstæðisflokkurinn er með næstverstu niðurstöðu í sögu flokksins. Fyrir hvað nákvæmlega ákváðu Vinstri Grænir að slíta R-lista samstarfinu?

Comments are closed.