Kokkur á Serrano

Úff hvað þetta er búinn að vera langur dagur. Kokkurinn á Serrano var veikur í dag og því þurfti ég að fylla í skarðið. Þar sem ég er svona 10 sinnum lengur að gera alla hluti en kokkurinn, þá varð þetta langur dagur. Svo var brjálað að gera á tímabili, þannig að ég er alveg uppgefinn í lok dags. Ég held að ég hafi eytt einhverjum tveimur tímum bara í að búa til Guacamole (en mikið djöfulli varð það gott hjá mér ;-). Einnig tókst mér að rústa matvinnsluvélinni okkar. Ég var að búa til sterku sósuna þegar allt í einu byrjaði að rjúka úr vélinni og svo drap hún á sér. Emil þurfti því að keyra niðríbæ til að kaupa nýja (og betri) vél.

Annars hef ég lítið skrifað um Serrano undanfarið. Þetta er farin að vera miklu meiri rútína. Staðurinn gengur mjög vel og erum við ótrúlega sátt við móttökurnar. Ég er nánast hættur í afgreiðslunni, enda var það alltaf ætlun okkar Emils að draga okkur útúr þeim störfum. Núna er ég að ég held búinn að kynnast öllum hliðum afgreiðslunnar og því læt ég starfsfólkinu eftir að sinna því í framtíðinni.

Ég held líka að bæði maturinn og afgreiðslan sé mun betri núna en hún var þegar við byrjuðum. Við erum búnir að gera ótrúlega margar smávægilegar breytingar á matnum og afgreiðslunni. Þegar við byrjuðum vissum við Emil náttúrulega ekkert um það hvernig á að reka veitingastað. Í dag erum við engir sérfræðingar en við erum allavegana mun klárari en við vorum í byrjun. Maturinn hefur breyst dálítið og er það aðallega að þakka vinum (og fyrrverandi kærustu 🙂 ), sem hafa verið dugleg við að koma með uppbyggilega gagnrýni á matinn. Ég held að í dag getum við verið stoltir af því, sem við bjóðum uppá.

By the way, þá setti ég upp á Serrano.is form til að fólk geti komið með kvartanir/uppástungur fyrir staðinn. Þannig að ef fólki finnst eitthvað að matnum, þjónustunni eða það vill stinga uppá nýjum réttum eða einhverju slíku, þá er það hægt að gera það á síðunni.

One thought on “Kokkur á Serrano”

  1. Ekki að það skipti miklu máli en þá hefur slæðst inn tvöfaldur skammtur af http hjá þér í fyrri Serrano línknum 😯

Comments are closed.