Kosningarnar í Bandaríkjunum

Það er með eindæmum gaman að lesa pistla Águsts Flygering um Bandaríkin og málefni þessa ágæta lands. Águst, sem kallaði bandarískan almenning einfaldan fyrir nokkru, fer aftur á kostum í umfjöllun sinni um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í tveim pistlum. Ég er með nokkrar athugasemdir:

Það er til marks um vanþekkingu Bush á utanríkismálum að hann kýs ávallt að varpa ábyrgðinni á aðra. Ef að utanríkisilðið hans er svona gott, af hverju eru þeir ekki í framboði? Já, og “svarta konan” er Condoleze Rice.

Varðandi fóstureyðingar þá getur Bush ekki bannað þær. Hann getur (og mun) hins vegar skipað hæstaréttardómara, sem eru að sínu skapi (menn einsog Clarence Thomas). Næsti forseti getur nefnilega skipað nokkra hæstarettardómara og ef Bush verdur vid völd getur hann náð meirihluta í hæstarétti og sá meirihluti getur fellt Roe/Wade úrskurðinn úr gildi og þar með bannað fóstureyðingar.

Varðandi Al Gore, þá HEFUR hann barist fyrir sínum málum undanfarin 8 ar. Það, sem Águst virðist ekki gera sér grein fyrir er að í Bandaríkjunum hefur þingið völd (ólikt því, sem gerist á Íslandi). Þar sem Repúblikanir hafa verið með meirihluta í þinginu í 6 ár hafa þeir fellt mikið af baráttumálum Clinton og Gore.

Varðandi netið þá sagði Al Gore ALDREI að hann hefði fundið upp internetið. Staðreyndin er hins vegar sú að Gore átti hins vegar mikinn þátt í því að í þinginu fóru í gegn lög, sem auðvelduðu uppbyggingu netsins.

Gore er ekki á móti því að fólk geti valið um skóla. Lausn Bush er sú að ef skólarnir eru lélegir, þá eigi fólk að fá “voucher”, sem þeir geti notað, svo barnið fari i einkaskóla. Þessi stuðningur nægir þó aðeins fyrir hluta af skólagjoldunum. Því verða þeir fátækustu alltaf eftir. Það, sem Gore vill gera er að ef skólarnir standa sig ekki, þá vill hann loka þeim og opna aftur með nýju starfsliði. Þannig verður enginn skilinn eftir.

Gore er umhverfisverndarsinni, en ekki umhverfisverndarofstækismaður, það er alltof neikvætt orð til ad lýsa honum. Í staðinn fyrir að eyðileggja nátturuperlur í Alaska fyrir olí, eins og Bush vill, þá vill Al Gore frekar eyða peningum í rannsóknir á öðrum orkulindum. Kosningarnar i Bandarikjunum snúast ekki um hvalveiðar, en ég er þó fullviss að bæði Gore og Bush eru á móti þeim.

Að mínu áliti snúast kosningarnar í Bandaríkjunum um hvor sé klárari og betri leiðtogi. Á því leikur enginn vafi. Al Gore er rétti maðurinn.