Land hinna frjálsu…

Við Hildur erum komin aftur hingað út til lands hinna frjálsu, heimili hinna hugrökku, einsog segir í laginu.

Við komum hingað til Chicago á sunnudaginn. Áttum reyndar að koma á laugardag, en fluginu okkar frá Íslandi var frestað, þar sem veðrið í Keflavík var geðveikt. Við þurftum því að eyða fimm klukkutímum í leiðinlegustu flugstöð veraldar (þar sem eini maturinn, sem boðið er uppá eru Júmbó samlokur og kleinur).

Við flugum svo til Boston, þar sem við gistum á Hilton flugvallarhótelinu í boði Flugleiða.

Síðan að við komum erum við búin að vera að koma okkur fyrir hérna. Erum búin að fara í fyrstu tímana og kaupa alltof dýrar skólabækur. Mér líst bara nokkuð vel á önnina, sem er framundan.