Leti og djamm

Það er frekar góð tilfinning að hafa ekkert að gera. Þurfa hvorki að læra né vinna þessa vikuna. Þess vegna er ég búinn að eyða síðustu dögum horfandi á baseball og fótbolta, vinnandi í nýju síðunni minni og á djammi með vinum.

Á fimmtudaginn fór ég útað borða með Elizabeth vinkonu minni. Hún kom hingað nokkuð seint og því vorum við ekki búin að borða fyrr en um 11 leytið. Við fórum þá heim til Dan, þar sem partí var í gangi. Flest fólkið var búið að vera þarna nokkuð lengi og því voru flestir mjög drukknir. Þetta partí var ágætt og ég gat kvatt fulltaf fólki, sem var að fara eitthvað í sumar. Becky vinkona mín var að fara aftur til New York og svo gat ég kvatt Ryan, fyrrum herbergisfélaga minn, en hann ætlar að fara með kærustu sinni til Vermont, þar sem þau verða að vinna í sumar.

Á föstudag var ég að reyna að pakka einhverju af dótinu, sem ég ætla að senda með Eimskip heim til Íslands. Um kvöldið fór ég með Katie, Kristinu og Elizabeth í partí, sem var heima hjá vinkonu Elizabeth. Þar var auðvitað ókeypis bjór og var bara nokkuð gaman, þrátt fyrir að við höfðum ekki þekkt mikið af fólki þarna. Einhverjir strákar voru að horfa á fótboltaleikinn, Paragvæ-Þýskaland. Það er alltaf gaman að sjá bandaríkjamenn horfa og tala um fótbolta.

Allavegana, þá í gær, laugardag fór ég í útskriftina hennar Hildar, sem var haldin í kirkju rétt hjá Northwestern campusnum. Mark Kirk, sem er þingmaður fyrir Illinois var heiðursgesturinn og hélt hann ræðu, ásamt einhverjum nemendum. Hildur brilleðari í náminu og fékk hún m.a. Wall Street Journal verðlaun fyrir hæstu einkunn í viðskiptadeildinni, þannig að allir ættu að óska henni til hamingju.

Þegar ég kom heim horfði ég svo á England vinna Danmörk, sem var mjög gaman og svo horfði ég á Cubs vinna White Sox, sem var ekki síður skemmtilegt. Um kvöldið var ég eitthvað latur og ætlaði ekki að gera neitt. En svo hringdi Dan í mig og við ákváðum að skella okkur á “Pumping Company”, sem er bar í norðurhluta Chicago. Þar þurfti maður bara að borga $5 inn og svo fékk maður ókeypis bjór. Staðurinn var þó ekkert til að hrópa húrra fyrir og við gáfumst upp rétt eftir klukkan 2. Við fórum þá á lítinn “diner”, þar sem ég fékk mér French Toast og svo tókum við strætó heim.