Lífið í Stokkhólmi, Oasis tónleikar og fleira

Lífið í Stokkhólmi er gott. Við Margrét erum búin að gera margt skemmtilegt, en ég hef einhvern veginn ekki haft kraft í að skrifa blogg eða email til vina heima.

Vinnan gengur fínt og opnunin í Vallingby hefur heppnast vel. Ég er smám saman að læra á það sem virkar og það sem virkar ekki í sænska viðskiptavini. Þótt að Svíar séu líkir Íslendingum, þá getur maður ekki notað alveg sömu aðferðir og við notuðum heima. En þetta kemur smám saman. Við erum meðal annars að fara í samstarf með stærstu líkamsræktarkeðjunni í Svíþjóð, sem ætti að stimpla okkur inn meðal fólks sem hugsar um heilsuna.

* * *

Við fórum á Oasis tónleika í síðustu vik í Globen íþróttahöllinni. Við keyptum miðana mjög seint og fengum því sæti á ekkert spes stað. Ég sá Oasis fyrir 8 árum í Chicago á mjög góðum tónleikum í Chicago Theatre, sem er um 3.000 manna leikhús sem hentaði frábærlega sem tónleikastaður. Ég var þar á fremsta bekk og þrátt fyrir að Noel hefði sungið nánast öll lögin, þá voru það frábærir tónleikar. Eini gallinn var alltof hröð útgáfa af Wonderwall.

Tónleikarnir í Globen voru ágætir. Ég sagði það eftir tónleikana að Noel væri eiginlega tragísk persóna. Hann samdi efni á tvær stórkostlegar plötur þegar hann var 27 og 28 ára en hefur aldrei náð slíkum hæðum aftur. Meira að segja B-hliðar á smáskífum (Talk Tonight, Masterplan) á þeim tíma voru stórkostleg lög, mun betri en það sem hann hefur samið síðustu ár.

Núna er hann í hljómsveit með bróður sínum, sem virðist engan áhuga hafa á þessu. Þessi sviðsframkoma Liams var sniðug fyrir 15 árum, en varla lengur í dag. Hann var alltaf að fara af sviðinu, virtist ekki leggja mikið á sig og stóð einsog álfur og starði á áhorferndur þess á milli. Auk þess sem hann virtist vera mjög ölvaður eða á öðrum vímugjöfum og ekkert skildist af því sem hann sagði. Það vantaði rosalega mikið aukinn kraft frá honum til að gera lögin betri.

Að því sögðu, þá tóku þeir Wonderwall, Don’t look back in anger, Masterplan, Morning Glory og Champagne Supernova. Og það er nóg fyrir mig. Þetta eru lög sem ég algjörlega dýrkaði sem unglingur og geri enn í dag. Oasis áttu ásamt Blur, Radiohead, Weezer, Sude, Pulp og einhverjum öðrum sveitum þær plötur sem að höfðu mest áhrif á mig á unglingsárunum. Ætli þeir verði því ekki alltaf í miklum metum hjá mér. Wonderwall er sennilega það lag sem ég hef hlustað oftast á, og Don’t Look back in anger er eitthvað besta gítarlag í heimi. Það að sjá þessi lög flutt af Oasis á sviði í annað skiptið á ævinni gerir kvöldið þess virði.

Þeir tóku líka nokkur lög af nýju plötunum og þar fannst mér I’m Outta Time vera hápunkturinn.

* * *

Ég hef svo borðað ofboðslega góðan mat, unnið mikið, séð tvær myndir í bíó (nýjustu Lukas Moodyson myndina Mammut – sem er góð og Benjamin Button, sem er la la) og skoðað óheyrilegt magn af íbúðum. Við höfum bara leiguíbúðina fram til loka apríl, þannig að við höfum flakkað mikið um Vasastan og Södermalm í leit að íbúð. Það er ekki auðvelt verk. Jú, og við djömmuðum með gestum frá Íslandi í kringum Stureplan, sem var mjög skemmtilegt.

Ég elska þessa borg.

2 thoughts on “Lífið í Stokkhólmi, Oasis tónleikar og fleira”

Comments are closed.