Liverpool er besta lið í heimi!

Liverpool eru enskir meistarar. Loksins loksins loksins. Er það ekki ágætis tilefni til að blogga aftur?

Ég hef áður sagt frá því á kop.is og kannski á þessari síðu líka að mínar fyrstu fótboltaminningar tengdar Liverpool eru allar slæmar.

Ég var sjö ára þegar að Heysel völlurinn hrundi og 39 stuðningsmenn Juventus dóu. Ég held að ég hafi haldið meira með Juventus af því að Michal Platini var uppáhalds leikmaðurinn minn árið 1985.

Fjórum árum síðar á ég mjög skýra minningu frá því að horfa á Hillsborough slysið í beinni útsendingu og mánuði síðar þegar að Michael Thomas skorar fyrir Arsenal á síðustu mínútu á Anfield og tryggir Arsenal enska titilinn á kostnað Liverpool. Ég man ennþá að ég henti mér yfir sófaborðið í stofunni heima og öskraði NEIIII, 11 ára gamall. Einsog alltaf var ég einn að horfa á leikinn, þar sem pabbi fylgdist ekki með fótbolta og ég man að mamma kom fram og spurði mig hvað í ósköpunum væri að gerast. Ég man bara að ég var miður mín. Ég veit ekki af hverju ég varð Liverpool aðdáandi – ég bara man ekki eftir öðru.

Minningin um Arsenal leikinn er svo skýr í hausnum á mér að ég hélt nokkrum árum seinna að þarna hefði Liverpool tapað sínu síðasta tækifæri á að vinna deildina. En Liverpool vann deildina árið eftir – ég man bara nákvæmlega ekkert eftir því. Ég man að í herberginu heima voru myndir af Peter Beardsley og John Barnes, en einhvern veginn er þessi síðasti titill Liverpool svona ótrúlega óeftirminnilegar fyrir mig.



Næstu ár fylltist herbergið mitt af plakötum af Gullit, Riikjard og van Basten og AC Milan var mitt lið, þar sem ég horfði meira á ítalska boltann á Stöð 2. Liverpool var áfram mitt lið en Gullit og van Basten voru einfaldlega miklu flottari fyrir 14 ára strák heldur en Dean Saunders, Mark Walters og Don Hutschinson. En eftir að Gullit var seldur til Sampdoria hvarf áhuginn minn á ítölsku deildinni og Liverpool hefur verið númer 1,2 og 3.

Liverpool hafa svo dóminerað áhuga mínum á fótbolta að önnur lið eru dæmd fyrst og fremst út frá Liverpool líka. Ég hélt einu sinni mikið með Barcelona, en eftir dramað í kringum Suárez og seinna Coutinho þá get ég ekki lengur stutt það lið. Ég held ekki með Real Madrid útaf Owen og McMannaman og þess vegna hef ég síðustu ár haft tilfinningar til Atletico Madrid, en þær hurfu þegar að liðið spilaði við Liverpool núna í ár.

Ég hef skipt um lið í merkilega mörgum íþróttum og deildum. Ég hataði Chicago Bulls þegar að Jordan var að spila fyrir þá. Á hverju ári hélt ég með nýju liði sem var svo slátrað af Bulls í úrslitum. Það var ó-þol-andi. Svo flutti ég til Chicago og byrjaði að halda með Bulls akkúrat þegar þeir byrjuðu að vera ömurlegir. Ég hélt með AC Milan á Ítalíu þangað til að þeir seldu Gullit og byrjaði þá að halda með Sampdoria. Ég hélt með Réð Sox áður en ég byrjaði að fíla Cubs og Stuttgart áður en ég byrjaði að fíla Dortmund.

En einu liði hef ég alltaf verið 100% trúr og það er Liverpool.



Árið 2004 stofnuðum við Kristján Atli KOP.is. Síðan var fyrir mig fyrst og fremst staður til að létta á pirringi mínum um Liverpool undir stjórn Gerard Houllier, sem ég lét fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég man að einu sinni í háskóla lamdi ég sjónvarpið þegar ég sá að Emile Heskey var enn og aftur í byrjunarliðinu, svo mikill var pirringurinn. Öll árin sem ég skrifaði á KOP.is buðu uppá góða og slæma kafla. Ég sá Liverpool vinna í Istanbúl og nokkur tímabil voru frábær (sérstaklega Suárez tímabilið) en það var líka svo mikil neikvæðni og tuð tengd liðinu að ég gafst á endanum upp.

Öll árin eyddi ég óstjórnlega miklu púðri í að verja hina ýmsu leikmenn – Kuyt, Lucas, Henderson og fleiri – og umfram allt eyddi ég púðri í að verja núverandi eigendur Liverpool. Furðulega margir stuðningsmenn Liverpool hafa trúað því í gegnum árin að það eina sem gæti bjargað Liverpool væru sykurpabbar frá Mið-Austurlöndum. Ég var alltaf á móti slíkum eigendum því ég vissi að ef enski titillinn myndi vinnast með slíkri aðstoð þá væri það aldrei eins sætt einsog það er núna þegar að titillinn vinnst á því að eigendur Liverpool fjárfesta með skynsemi í réttum mannskap á öllum stöðum í klúbbnum og klúbburinn er sjálfbær.



Ég hætti að skrifa reglulega á KOP.is vorið 2015. Það var síðasta heila tímabilið hans Brendan Rodgers. Suárez var farinn og Liverpool liðið var hræðilega lélegt og endaði í sjötta sæti, 25 stigum á eftir Chelsea. Ég var orðinn þreyttur á að rífast um Henderson og Lucas og Mignolet. Í síðustu leikskýrslunni minni voru Emre Can, Dejan Lovren og Alberto Moreno í vörninni með Joe Allen á miðjunni og Jordon Ibe frammi. Þetta var hörmung. Svo um sumarið fór Sterling og árangurinn varð bara enn verri.

En svo næsta haust kom Jurgen Klopp og síðan þá hefur það verið yndislegt að vera Liverpool stuðningsmaður. Við unnum Meistardeildina í fyrra, en fyrir tímabilið í fyrra var ég samt farinn að telja sjálfum mér trú um að Manchester City yrðu aldrei sigraðir í ensku deildinni. Þeir voru einfaldlega með of gott lið, of góðan þjálfara og of ríka eigendur. En FSG og Klopp hlustuðu ekki á slíkt tuð, heldur bættu allt sem þeir gátu bætt og hérna erum við – Liverpool eru Englandsmeistarar.

Og það með lið sem er svona yndislegt. Hvernig er hægt að elska ekki Jurgen Klopp og þetta stórkostlega samansafn af leikmönnum sem eru hógværir, heiðarlegir og frábærir. Ég hef varla elskað Liverpool leikmann jafnmikið og Mo Salah, en í þessu liði elska ég nánast hvern einasta leikmann. Allison, Trent, Robbo, van Dijk, Gomez, Henderson, Gini, Ox, Milner, Keita, Fabinho, Salah, Firmino og Mane. Shaqiri, Matip, Lovren, Origi og Adrian. Þetta lið var fullkomið og þetta tímabil var fullkomið.

En svo breyttist þetta allt kvöldið sem við töpuðum fyrir Athletico Madrid og heimurinn breyttist útaf Corona. NBA deildinni var hætt og næstu daga beið maður stressaður yfir því sem myndi gerast með ensku deildinni. Fyrst var henni frestað og fljótlega fóru alls konar vitleysingar að krefjast þess að deildinni yrði aflýst. Að það væri á einhvern hátt fáránlegt að spila fótbolta þegar að faraldur væri að geysa í samfélaginu. En sem betur fer þá byrjaði deildin aftur og Liverpool kláraði deildina og stendur núna uppi sem meistari með 99 stig. Í fyrra fengu Liverpool 97 stig og núna 99 stig.

Á síðustu 13 mánuðum hef ég horft á Jordan Henderson lyfta bikarnum í Meistaradeildinni, Super Cup, Heimsmeistarakeppni félagsliða og núna loksins loksins Ensku Úrvalsdeildinni. Ég reyndi að segja krökkunum mínum í fyrradag hversu magnað þetta er en þau skilja auðvitað ekki neitt þótt þau séu auðvitað Liverpool aðdáendur líka. Þetta ár verður sennilega aldrei toppað, en ég vona að krakkarnir mínir muni upplifa eitthvað í líkingu við þetta ár aftur.

YNWA.