Ljubljana

Ég eyddi helginni í Slóveníu í árshátíðarferð með vinnunni. Það var æði!

Þetta átti að heita borgarferð til Ljubljana, en ég náði að gera svo miklu meira. Þar sem ég hef ferðast svo mikið að undanförnu og þekki orðið hverja einustu flík í H&M, þá fann ég enga þörf hjá mér að versla. Gat því eytt tímanum í umtalsvert skemmtilegri hluti.

Ef þú vilt lesa ferðasöguna og skoða myndir af MÉR (þetta er jú bloggið MITT), smelltu þá á “Lesa áfram”


Komum til Ljubljana seint á miðvikudagskvöld. Strax á fimmtudeginum leigði ég ásamt þrem krökkum leigubíl allan daginn og við eyddum deginum við strönd Adríahafsins. Ég hef aldrei komið til Ítalíu né fyrrum Júgóslavíu lýðvelda, þannig að ég hafði aldrei séð Adríahafið áður. Við keyrðum til bæjarins Koper og þaðan til hins æðislega bæjar Piran. Miðað við mína reynslu af Piran og myndir, sem ég hef séð af Dubrovnik í Króatíu, þá gæti ég ímyndað mér að bæjirnir væru ekki ólíkir.

*Ég við strönd Adríahafsins*

*Miðbær Piran séð úr kirkjuturninum*

Í Piran tókum við deginum bara rólega. Veðrið var æðislegt allan tímann í ferðinni, um 20-25 gráður á daginn, glampandi sól og logn. Við keyrðum svo frá ströndinni að [Predjama kastala](http://www.burger.si/Predjama/Predjama.html), sem er miðalda kastali byggður inní berg, mjög tilkomumikið.

*Við Predjama kastala*

Næstu tveim dögum eyddi ég svo í Ljubljana. Árshátíðin var á föstudagskvöldið, en annars eyddi ég tímanum á labbi um miðbæinn. Ljubljana er lítil og sjarmerandi borg. Allavegana þegar veðrið er svona yndislegt, þá er hún gríðarlega lífleg, útikaffihúsin full og stemningin góð. Ég kleif uppá hæðina þar sem kastalinn er og skoðaði megnið af gamla miðbænum.

Ég djammaði furðu lítið í Slóveníu. Það að vera á föstu dregur alltaf úr mér mesta djammkraftinn. Held í raun að kærastan mín, sem var eftir á Íslandi og átti að vera að læra undir próf, hafi djammað meira. Fór þó á árshátíð og eftir hana á Global, sem er víst aðalstaðurinn í Ljubljana. Mér fannst hann fínn. Endaði á að týna mannskapnum og tók því einn leigubíl heim. Bílstjórinn var gríðarlega hress. Ég var ferlega ölvaður, en hafði þó rænu á því að hafna tilboði hans um að keyra mig á næsta hóruhús – þar sem hann lofaði mér hressum slóvenskum hórum, sem gætu stunið á ensku.

*Miðbær Ljubljana*

Seinasta daginn fór svo allur hópurinn í ferð að [Bled vatni](http://www.bled.si/), sem er sennilega þekktasta náttúruperla Slóveníu. Þetta er gríðarlega fallegt stöðuvatn, sem liggur við rætur Alpanna. Á því er eyja með kirkju og við ströndina gnæfir svo yfir glæsilegur kastali.

*Bátsferð á Bled vatni*

Við tókum öll bát yfir í eyjuna, þar sem við skoðuðum okkur um, keyrðum svo að kastalanum og skoðuðum hann. Svosem ekki merkileg ferðasaga sem fylgir þessum degi, en vatnið er gríðarlega fallegt og myndirnar, sem ég tók ná sennilega ekki að gera fegurð þess góð skil.

*Á eyjunni í Bled vatni með kastalann í bakgrunni*

Heimferðin gekk svo frekar illa. Ég nenni varla að væla um það hérna. En þetta hollenska leiguflugfélag má fyrir mér hoppa uppí rassgatið á sér. Það að seinka fluginu um 6 tíma einn daginn, fresta því svo yfir nóttina, seinka því aftur um 2 tíma morguninn eftir og gleyma svo að taka mat um borð – það er ekki merki um gott flugfélag. En við komumst þó heim, sem betur fer fyrir íslenska tollara, sem gátu haldið áfram að leggja mig í einelti.

8 thoughts on “Ljubljana”

 1. Ahh, Slóvenía er frábær, fyrir tveimur árum keyrði ég þar um og skoðaði landið, sérstaklega eru mér dropasteinshellar sem heita Postojnska Jama minnisstæðir, mæli með því að þú kíkir á þá næst þegar þú ert í Slóveníu.

 2. Ég fann engan “Lesa áfram” takka – bara “Lesa meira”. :laugh:

  En annars, flott hjá þér. Flottar myndir. 🙂

 3. Elmar, þessir hellar eru einmitt rétt hjá Predjama kastalanum. Við vorum of seinir að degi til þegar við ætluðum að skoða þá.

  Gummijoh: Ég held að ég gleymi þessum afmælisdegi alltaf 🙂

  Og ég er á leiðinni í klippingu í vikunni 🙂

 4. Ljubljana er spes borg að því leytinu til að hún hefur hæsta hlutfall af ungu fólki meðal höfuðborga Evrópu. Finnur varla lægri meðalaldur, þökk sé háskólanum sem telur víst fimmta hvern borgarbúa til nemenda sinna (ef minnið svíkur mig ekki).

 5. Þú finnur þó lægri meðalaldur í Galway á Írlandi sem ku vera “yngsta” borg í Evrópu ef ekki er einblínt á höfuðborgir. Það athyglisverða við þetta er að hvergi í Evrópu hef ég hitt kurteisara og almennilegra fólk en einmitt í þessum tveim borgum. Er þetta staðfesting á því að fólk verði skapstirðara með aldrinum? 🙂 Mæli annars með Galway, ekki nema rúman klukkutíma með rútu frá Dublin og miklu betri stemmning.

Comments are closed.