Menem

Carlos Menem er ansi magnaður stjórnmálamaður. Allt í einu þegar maður hélt að hann gæti ekki hætt að koma mann á óvart, þá toppar hann sjálfan sig.

Menem hefur nefnilega dregið sig útúr seinni hluta forsetakosninganna í Argentínu. Hann var efsti maðurinn í fyrri hlutanum með um 24% atkvæða en sá fram á gríðarlegt tap fyrir hinum frambjóðendanum, Nestor Kirchner. Málið er einfaldlega að Menem nýtur stuðnings um fjórðungs Argentínubúa. Hins vegar þá myndi restin af íbúunum heldur vilja hafa Saddam Hussein sem forseta heldur en Menem.

Carlos Menem var þó alls ekki alslæmur forseti. Á fyrra kjörtímabili hans var hann uppáhald Alþjóðabankans, vegna þess að honum tókst að ná gríðarlega góðum árangri í stjórnun efnahagsmála. Hann hafði boðið sig fram sem vinstrisinnaður Perónisti, en breyttist á einum degi í gallharðan hægrimann og tók að einkavæða ríkisfyrirtæki. Honum tókst meira að segja að ná niður verðbólgunni með því að taka upp dollarann.

Það má segja að fall hans hafi komið til vegna valdagræðgi hans. Ólíkt Íslandi er nefnilega sett takmörk fyrir því hversu lengi menn geta verið forsetar í Argentínu. Menem var ekkert sáttur við að hætta eftir tvö kjörtímabil og því hóf hann miklar aðgerðir til að reyna að breyta stjórnarskránni. Hann reyndi að koma sínum mönnum að í hæstarétti og svo fór hann að eyða peningum í alls kyns vitleysu.

Á sama tíma var allt efnahagslífið að fara til fjandans, og þegar Menem gafst uppá að verða forseti áfram, þá var landið í rúst. Stuttu eftir að hann hætti hrundi efnahagskerfið, gengið var fellt um meira en helming og núna býr stór hluti þjóðarinnar undir fátæktarmörkum.

Það er því ágætt að Menem er hættur við, því ég hefði svo sem alveg getað trúað því að hann hefði getað logið því uppá Argentínubúa að hann væri sá eini, sem gæti bjargað landinu. Ég er hins vegar alls ekki viss um að perónistinn Nestor Kirchner sé rétti maðurinn til að bjarga þessu frábæra landi. Það er þó vonandi að hann geti bjargað einhverju.